Hin sagan af Rósu Parks

Höfundur: Ritstjórn

Söguna af Rósu Parks þekkjum við flest og höfum líklega öll lesið um lúnu, svörtu saumakonuna sem vildi ekki gefa eftir sætið sitt svo hvítur karlmaður gæti ferðast þægilega á sitjanda sínum. En fleira bjó að baki en þreyta einnar manneskju eftir erfiðan vinnudag og meinta röð tilviljana, sem leiddu til vitundarvakningar og að lokum lagabreytinga í öllum Bandaríkjunum. Kraftaverkasagan af konunni sem þráaðist við er nefnilega aðeins flóknari en svo að um einstakt atvik sé að ræða og hún gefur að auki kolranga mynd af baráttu minnihlutahópa. Rosa var vissulega baráttukona sem beitti sér fyrir réttlæti en hún var ekki ein á ferð þann 1. desember árið 1955 í Montgomery, Alabama. Atvikið sem átti sér stað í vagninum þennan dag fyrir 60 árum var upphafið af vel skipulögðum mótmælum NAACP (Nacional Association for the Advancement of Colored People), samtökum sem berjast fyrir auknum réttindum Afró-ameríkana, en Parks hafði unnið fyrir þau samtök í áraraðir sem ritari í sjálfboðastarfi.,

rosaparksmedal

Rosa Parks tekur við heiðursorðu þingsins

Mótmæli í Montgomery Árið 1954 hafði Hæstiréttur aflétt aðskilnaðarstefnunni en í Montgomery var ekki að sjá merki þess og því var efnt til mótmæla með því að sniðganga almenningsvagna borgarinnar, betur þekkt sem The Montgomery Bus Boycott. Aðdragandi mótmælanna var langur en nokkrum mánuðum fyrr hafði táningur verið myrtur fyrir það eitt að ganga á götu og komust morðingjarnir upp með það, fyrir rétti einungis skipuðum hvítum körlum. Tveimur vikum fyrir mótmælin hafði annar maður verið drepinn í Alabama. Auk þess höfðu þegar nokkrar manneskjur verið teknar fastar fyrir sömu sök og Parks var gefin, að fá sér sæti í þeim hluta strætisvagns sem ætlaður var hvítum. Ein af þeim var hin fimmtán ára Claudette Colvin, þegar hún var beðin um að fara í aftari hluta vagnsins ásamt fjórum öðrum. Claudette neitaði:

“I done paid my dime, I ain´t got no reason to move”.claudette colvin

Lögreglan mætti á svæðið og dró Claudette, sem barðist um á hæl og hnakka, úr vagninum og inn í lögreglubíl. Hún var sökuð um að hafa brotið aðskilnaðarlög borgarinnar, vera með róstur á almannafæri og fyrir árás. Verjendur NAACP náðu að hreinsa hana af tveimur fyrri sökunum en ekki þeirri síðustu og allra fáránlegustu, og með því var svörtum íbúum bæjarins send skýr skilaboð um ástand mála í dómshúsinu um leið og komist var hjá áfrýjun. Þáverandi járnbrautarþjónn og seinna meir forseti samtakanna í Montgomery, Edgar Daniel Nixon, kom að máli við Claudette í leit að kæranda í prófmáli, en hún var þá nýorðin ólétt og öruggt var að kirkjuræknir íbúar myndu ekki flykkja sig á bakvið óléttan táning með kjaft.

Hentugur fulltrúi

Rosa Parks Riding the BusÞá kemur Rósa til sögunnar. Nixon og lögmaður NAACP, Fred Gray, voru sammála um að Rósa væri sú manneskja sem samfélagið myndi geta fylkt sér um. Hún var áreiðanleg og hugrökk, gerði sér vel grein fyrir mikilvægi málsins og skuldbindingunni sem það krafðist. Eins og fram hefur komið var Rósa meðvituð um stöðuna og hafði verið allt síðan henni var gert að ganga heim úr skólanum, á meðan hvítu börnin fengu far með skólabílnum. Og henni hafði áður verið kastað út úr vagninum, árið 1943, fyrir að hafa stigið inn í hann að framan en ekki að aftanverðu. Nokkru seinna ofbauð henni ofstækisfull framkoma rauðhnakkanna og hvíta pakksins við bróður hennar, þá nýkominn hei m eftir að hafa gegnt herþjónustu í Seinni-Heimstyrjöldinni. Rósa var sem sagt ekki eins og hver annar farþegi í vagninum, þarna í Montgomery tíu árum síðar, þótt hún hafi vissulega verið orðin þreytt. Langþreytt á óréttlæti og ofbeldi. Í útvarpi ári eftir atburðinn lýsir Rósa honum sem svo:

The driver said that if I refused to leave the seat, he would have to call the police. And I told him ´Just call the police´. The time had just come when I had been pushed as far as I could stand to be pushed.

Þegar fréttist af handtöku Rósu var hringt og boð látin berast út til fjölda fólks, m.a. til Marteins Lúthers King og fleiri presta, til þess að vara þá við að hann myndi fara með málið fyrir Hæstarétt og biðja svarta kirkjusöfnuðinn í Montgomery um stuðning við málstaðinn. Það var ekki erfitt og var sammælst um að King skyldi leiða baráttuna því hann var nýfluttur í bæinn og hafði enn ekki eignast neina óvini á svæðinu. Nixon hringdi einnig í Jo Ann Robinson sem leiddi Women´s Political Council, samtök sem beittu sér fyrir vitundarvakningu svartra kvenna. Hún hafði samband við liðskonur sínar og fjölritaði jafnframt 52.000 flugrit sem svo var dreift í kirkjur, skóla, bari og á heimili helgina eftir. Rósa var handtekin á síðdegi fimmtudags. Á mánudeginum er hún dregin fyrir rétt og mættu 500 manns fyrir utan dómshúsið henni til stuðnings. Sama dag hófust jafnframt mótmælin, og ekki sást svört sála í almenningsvögnunum. Um kvöldið komu saman 4000 manns við og í kirkju Kings til þess að ákveða framhaldið, fjöldafundi tvisvar í viku til andagiftar og fjáröflunar og lagt á ráðin um skipulagt skutl fyrir 20.000 ferðir á dag.

Engin tilviljun

martinluther

Martin Luther á fjöldafundi

Það sem Rósa Parks gerði var ekki tilviljunarkennt einstakt atvik í sögunni, hún valdi að leika hlutverkið sem krafðist ekki einungis hugrekkis hennar (og þreytu ef því er að skipta), heldur einnig fjölda fólks, stuðning þess og skipulagningu. Atvikið markar upphafið á réttindabaráttu Afró-ameríkana sem stóð allt til loka 7. áratugarins og stendur eiginlega enn ef út í það er farið. Því er ekki úr garði að reyna að henda reiður á samhengi atburða í sögunni. Hlutir gerast ekki af sjálfu sér.

Fleiri konur settu mark sitt á réttindabaráttu svartra í Bandaríkjunum, eins og þessar hérna, sem hafa, af einhverjum dularfullum ástæðum, horfið í  ginnungagap sögunnar.

http://mic.com/articles/110702/9-influential-women-in-black-history-you-won-t-hear-about-in-school?utm_source=huffpost&utm_medium=social

Heimildir:

http://www.socialstudies.com/c/@10ybJGBs6We9k/Pages/article.html?article%40rosaparks

http://www.theguardian.com/books/2008/oct/04/9

http://mlk-kpp01.stanford.edu/index.php/encyclopedia/encyclopedia/enc_womens_political_council/

Myndir eru fengnar héðan:

http://www.amistadresource.org/civil_rights_era/montgomery_bus_boycott.html

http://www.ideastream.org/news/npr/171822919

Katrín Harðardóttir þýddi efni og tók saman.

3 athugasemdir við “Hin sagan af Rósu Parks

  1. Ég vil þakka Katrínu Harðardóttur og knuz.is kærlega fyrir þessa samantekt. Ég var meðvitaður um það nú þegar að mótmælaseta Rosu Parks hefði verið klókt pólitískt útspil og þaulskipulagt fyrirfram en ég held að fæstir geri sér grein fyrir því.

    Til að skilja nútímann er mikilvægt að þekkja söguna. Mannréttindabarátta þeldökkra í Bandaríkjunum er með stórkostlegri tímabilum 20. aldarinnar. Hugrekki, sjálfsagi og prinsippfesta þessara kvenna og karla ætti að vera módel allra þeirra í dag sem berjast fyrir auknum réttindum.

  2. Bakvísun: Knúzannállinn 2015 | Knúz - femínískt vefrit

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.