Á hvern hallar? – viðbrögð við pistli Sögu Garðarsdóttur

Höfundur: Þórhildur Þorleifsdóttir

Ég var að lesa pistil Sögu Garðarsdóttur á vefritinu Knúz þar sem hún bregst við orðum Ara Matthíassonar í einhverju viðtali. Viðtalið reyndar hvorki heyrði ég né sá, og ætla því ekki að hafa skoðun á, en Saga bregst snaggaralega við og varpar fram athyglisverðri spurningu. Af hverju þykja það tíðindi, sem hugsanlega þarf að bregðast við, ef  konur eru áberandi og e.t.v. í forgrunni eitt ár, bæði sem listrænir stjórnendur og umfjöllunarefni? Af hverju þykja það ekki tíðindi að á nánast hverju ári í gjörvallri sögu atvinnuleikhúss á Íslandi hafa karlar verið í forgrunni? þorhildurþorleifs

Saga talar um 40/60 hlutföllin, sem eru þau hlutföll sem þykja ásættanleg í nefndum og ráðum á vegum hins opinbera. Þau lög eru iðulega brotin og sífellt þarf að gera athugasemdir vegna þess að jafnvel ráðherrar fara á snið við þau lög. Það kom oft í minn hlut sem formanns Jafnréttisráðs að skrifa ýmsum stofnunum og ráðuneytum og benda á þessi lögbrot og fara fram á leiðréttingu. En nóg um það. Miklu nær væri að tala um 30/70 hlutföllin. Rannsóknir sýna að um leið og hlutur kvenna hvar sem er fer yfir 30% verða karlar órólegir og finnst að sér vegið. Nærtækt er að benda á að í minni leikhússtjóratíð í Borgarleikhúsinu 1996-2000 gerðist það eitt ár af fjórum að helmingi leikverkanna var leikstýrt af konum – hlutfallið var sem sagt 50/50. Það er skemmst frá því að segja að það varð allt vitlaust. Fjölmiðlar tóku eftir þessu og lýstu miklum áhyggjum af þessu „misrétti“. Ég mátti hlusta á mektarmann úr leiklistarlífinu lýsa því yfir í ríkisútvarpinu að „þó auðvitað ætti að ástunda jafnrétti í leikhúsunum mætti það ekki ganga út í öfgar eins og hjá Þórhildi Þorleifsdóttur í Borgarleikhúsinu. Þar þýddi ekki fyrir karlmenn að sækja um eða vonast eftir vinnu því hún réði einungis konur til starfa…“ Ég hringdi í viðkomandi og spurði hverju það sætti að  hann væri með slíkar fullyrðingar og fékk svarið: „Það segja þetta allir“! Það er nefnilega það.

Glámskyggnin Nú hugsa eflaust margir sem svo að þetta sé nú gjörbreytt og það séu allt aðrir tímar, en það er glámskyggni. Umræðan nú – og tölulegar staðreyndir – bera vitni um það. Um leið og ég fór af vaktinni breytist ástandið og fór í „eðlilegt“ horf. Enginn fjölmiðill hringdi og spurði um „karlaleikárið“, frekar en þeir höfðu gert áður og gera ekki enn. Ég gæti rakið fleiri dæmi af sama toga, en læt liggja milli hluta og ætla að halda mig við leikhúsið. Ég hlustaði á umfjöllun um þetta í Víðsjá þar sem Ari Matthíasson (sem reyndar bar af sér einhver ummæli í umræddu viðtali), Kristín Eysteinsdóttir og Helga Rakel Rafnsdóttir voru til svara og þar var margt sagt af viti – en umræðan er samt hálf þunnildisleg, vegna þess að einungis er beitt aðferðinni sem ég hef kallað hausatalningar og prósentur. Þessi aðferð segir aldrei nema hálfa söguna. Málið er miklu flóknara en þetta. Það þarf líka að ræða hvers konar verkefni konur fá og kvenmyndirnar sem birtast á sviði, í sjónvarpi og á hvíta tjaldinu. Kristín lýsti því í þættinum að þegar hún var að byrja að leikstýra hefði hana skort fyrirmyndir og þær konur sem þó hefðu verið að leikstýra hefðu aðallega leikstýrt barnaleikritum. Þetta kann að þykja oflátungslegt og gera lítið úr barnaefni.  En þetta er bara staðreynd. Barnaefni þykir ekki það fínasta.

Engar fyrirmyndir?

brynjaben

Brynja Benediktsdóttir, leikstjóri

Hitt er aftur skrítnara að hún sagðist ekki hafa neinar fyrirmyndir. Á þessum tíma voru starfandi leikstýrur eins og María Kristjánsdóttir, sem reyndar hafði um árabil verið leikhússtjóri Útvarpsleikhússins, fyrir utan að leikstýra mörgum mjög athyglisverðum sýningum þar sem kvað oft við nýjan tón, Kristín Jóhannesardóttir, sem hafði að vísu legið óbætt hjá garði árum saman, en ég kallaði til starfa í leikhúsinu strax á mínu fyrsta ári í Borgarleikhúsinu og hafði, þegar hér var komið sögu, stýrt mörgum afbragðssýningum og undirrituð, sem hafði leikstýrt tugum leik- og óperusýninga, auk þess að vera fyrirrennari Kristínar í því starfi sem hún gegnir núna. Engin okkar þriggja hefur, að því er ég best veit, stýrt barnaleikriti í leikhúsum höfuðborgarinnar. Þá eru ótaldar þær sem m.a. stýrðu barnaleikritum og fleiri. Voru þetta ekki fyrirmyndir?

Í þessu sambandi er vert að minna á að það að eiga sér fyrirmynd þýðir ekki það sama og að ætla sér að verða eins og fyrirmyndin heldur er átt við að fyrirmyndin hafi troðið slóð sem öðrum er þá léttara að feta.  Það er í þeirri merkingu sem oft er talað um að Vigdís Finnbogadóttir sé mikilvæg fyrirmynd stúlkna. Það er ekki vegna þess að þær ætli allar að verða forseti, heldur vegna þess að fordæmi Vigdísar er þeim sönnun þess að ekkert er ómögulegt. Því gerir Kristín sig svo alvarlega seka um að taka þátt í þeim ljóta – en því miður algenga leik á öllum sviðum –  að þurrka út sögu kvenna?

BríetHéðinsdóttir

Bríet Héðinsdóttir, leikstjóri

MaríKristjánsleikstjóri

María Kristjánsdóttir leikstjóri

Ég átti mínar fyrirmyndir og var því að vissu leyti sporgöngukona – líkt og Kristín. Ég læt nægja að nefna til sögu Brynju Benediktsdóttur og Bríeti Héðinsdóttur. Það er mjög merkilegt að þær voru tvær af þremur fyrstu fastráðnu leikstjórum  við Þjóðleikhúsið. Sveinn Einarsson hafði greinilega ekki áhyggjur af kynjahalla og enginn annar ef ég man rétt. Engar athugasemdir voru gerðar og fjölmiðlar ruku ekki upp til handa og fóta. Var skýringin sú að þar var karlmaður að verki? Ég var jafn ólík þessum tveimur konum og þær voru ólíkar innbyrðis. En þær voru fyrirmyndir. Það virtist alveg sjálfsagt að verða leikstjóri.

Ekki við sama borð

Morgunblaðið, 25. janúar 1981. Klippan er sótt hingað.

Morgunblaðið segir frá sýningunni á Ótemjunni, í leikstjórn Þórhildar, 25. janúar 1981. Klippan er sótt hingað.

Þá er til að taka að þó það hafi lengi verið sjálfsagt og eðlilegt að konur leikstýrðu er langt frá því að þær hafi setið við sama borð og karlkynskollegar þeirra. Í því sambandi er fróðlegt að rifja upp ýmsar staðreyndir, m.a. þá að konum voru yfirleitt ekki falin þau verkefni sem þóttu veigamest (talandi um stóran hlut kvenna í barnaleiksýningum). Ég held ég fari rétt með þegar ég segi að ég sé eina konan á Íslandi sem hefur sett upp verk eftir Shakespeare í atvinnuleikhúsi. Þá var ég byrjandi og auðvitað var um að ræða gamanleik – en þeir eru ekki heldur hátt skrifaðir, þó þeir séu heldur hærra skrifaðir en barnaleikritin. Síðan hef ég ekki – og að því ég best veit engin kona önnur – fengið að snerta á Shakespeare. Eins og það sé nú ekki löngu komin tími á „kvenlegt“ sjónarhorn á karlinn. Að kona tali nú ekki um að konur fái að leika mörg hlutverk í verkum hans sem sem karlmenn einir sitja að. Væri ekki forvitnilegt að sjá kvenkyns Hamlet, að kona tali nú ekki um í konu hlutverki  ofbeldisseggins Ríkharðs III og fleiri konunga? Merking orða  getur nefnilega gjörbreyst eftir því hvers kyns munnurinn sem mælir þau er.

Minnumst þess að á tímum Shakespears voru kvenhlutverkin leikin af körlum! Það er leitun að þeim kollega mínum af karlkyni sem hefur ekki fengið að spreyta sig á Shakespeare.  Og það mjög snemma á ferlinum, sem er auðvitað umdeilanlegt, vegna þess að það þarf þroska og vit til að kljást almennilega við  hann. Ég held ég sé líka eina konan sem hefur sett upp verk eftir Chekov . Eina sýningu fyrir þrjátíu árum og síðan ekki söguna meir. Svona mætti lengi telja. Konum er ekki hleypt upp að háaltarinu. Það er háðulegt til þess að vita að kirkjan er komin langt á undan leikhúsinu í þessum efnum, þ.e.a.s. sú lúterska. Og það er einungis vegna baráttu guðfræðinga af kvenkyni. Þeim er nú hleypt inn í það alla helgasta.

Hvað veldur þessari þröngsýni? Og af hverju er konum  haldið að miklu leyti til frá klassíkinni og öðrum stórverkum? Ég spyr um Shakespeare, grísku klassíkina, Chekov, Ibsen, Strindberg, Miller, Brecht, O´Neill, Tennessee Williams og fleiri og fleiri. Það má finna undantekningar, en festumst ekki í þeim Það nægir ekki að spyrja karlmennina – konur verða að spyrja sig sjálfar og vinna að breytingum. Eins og þær hafa þurft að gera á öllum sviðum. Það breytir enginn þeirra högum fyrir þær og hefur aldrei gert. Margar, t.d. á verðlaunahátíðum, hafa lagt lóð á vogarskálarnar með því að gera ástandið að umræðuefni. Þetta heyrðum við nú síðast á Eddunni, því ekki er ástandið betra í kvikmyndaheiminum. Reyndar mátti heyra sama tón á Óskarsverðlaunahátíðinni. En ég held að konur verði að tala saman og finna styrk í samstöðu og fjölda. Þetta hafa íslenskir kvenrithöfundar gert og það hefur m.a. borið árangur með tilurð Fjöruverðlaunanna, íslenskum tónlistarkonum var loks nóg boðið og stofnuðu eigin samtök, KÍTÓN, og vert er að nefna WIFT. Kannski er kominn tími til að stofna Bandalag íslenskra listakvenna.

Það væri líka full ástæða til að ræða kvenmyndir, eins og þær birtast á sviði og á hvíta tjaldinu. Aftur er hægt að benda á undantekningar, en miklu oftar gefur að líta ótrúlega fordómafulla og íhaldssama sýn á konur. Fáir gera athugasemdir og þar eru konur líka sekar. Þær taka margar fullan þátt í þessari ímyndasmíð.  Þeim er þó vissulega vorkunn – þær mega ekki vera „leiðinlegar“ og með röfl. Þá fá þær ekki hlutverk. Eða eins og ung leikkona sagði einu sinni í mín eyru, að viðstöddum svona tug annarra kvenna, þegar þessi mál bar á góma: „Ef …… (og hún nefndi nöfn þriggja vinsælla ungra karlleikstjóra) líkar ekki við mig fæ ég ekkert að gera!“

Berum saman! Þá væri líka hægt að rita langt mál um leikkonur, svo langt að það þarf sérstaka grein. En stutta útgáfan er svona: Hvað hefur mörgum leikkonum verið sagt upp störfum, ekki bara ungum, heldur þroskuðum leikkonum sem missir er að? Já, já, ég veit að karlleikurum hefur líka verið sagt upp – en berið saman fjöldann. Hvað margar leikkonur hafa getað gengið inn til leikhússtjóra og út með leikstjórnarverkefni – af því þær langar að leikstýra eða vantar pening? Hvað margar hafa getað lagt fram ósk um að leika eitthvað tiltekið hlutverk? Hvað mörgum verkum eftir leikritahöfunda af kvenkyni hefur verið hafnað, jafnvel á lokastigi vinnslu? Hvað margar konur hafa getað lagt fyrir leikhússtjóra hugmynd sem rúmast á einni blaðsíðu – kannski bara hugmynd – og fengið samþykkt og jafnvel keypt? Þessar spurningar og svör litu allt öðru vísi út ef karlmaður ætti í hlut.

Þá er eitt ótalið. Íslenskt samfélag er illa haldið af nýjungagirni. Reynsla – sem oftar en ekki þýðir líka kunnátta – er lítils metin og fólk yfir fimmtugt á erfitt með á fá vinnu. Sérstaklega á þetta við um konur og þær fjúka líka fyrst þegar harðnar á dalnum. Þetta er þjóðarsjúkdómur og ógæfa. Íslenskt leikhús er illa haldið af þessum sjúkdómi og ber – eins og víða í samfélaginu – skaða af. Þetta stendur í vegi fyrir eðlilegri og nauðsynlegri þróun og framför. Kannski er sannleikskorn í orðum ágæts leikhúsgárunga sem hafði stundum á orði: „Í leikhúsinu er alltaf árið núll“.

 

Þórhildur Þorleifsdóttir, leikstjóri

4 athugasemdir við “Á hvern hallar? – viðbrögð við pistli Sögu Garðarsdóttur

 1. Mér finnst Þórhildur kannski helst til harðorð gagnvart nöfnu minni Kristínu Eysteinsdóttur þótt ábendingin sé vissulega réttmæt. Kristín var í beinni útsendingu og fólk lendir í því að segja ekki alveg nákvæmlega það sem það hefði viljað sagt hafa við þær aðstæður. Þessi gleymska hennar afhjúpar hvað við erum öll föst í þessu með að gleyma konunum. Ég get alveg ímyndað mér sjálfa mig gera sömu mistökin.
  Mér hefur heyrst fólk vera almennt nokkuð ánægt með störf Kristínar í leikhúsinu og einhver hvíslaði því að mér að í bígerð væri rannsókn á einmitt þessu með kvenhlutverkin, kanna framsetningu kvenna í verkum.
  Öðru er ég fyllilega sammála og hlakka til að sjá konu leika Hamlet!

 2. Held að það sé rétt að þeir sem lesi þessa grein byrji á því að hlusta á viðtalið sem vísað er í greininni því að í raun snýr Þórhildur algjörlega út úr orðum Kristínar. Kristín bendir á að fyrirmyndir hafi verið fáar (ekki engar) og að mikilvægt sé að konur fái að takast á við ólík verk.

  Bein tilvitnun úr viðtali við KE:
  Þegar ég var að byrja sem leikstjóri þá voru mjög fáar fyrirmyndir og flestar mínar fyrirmyndir sem leikstjóra, konur, voru kannski aðallega að leikstýra barnaleikritum, það var svona lenskan, þær voru settar í það, auðvitað skiptir máli að búa til vandað barnaleikhús, ég er alls ekki að segja að það skipti ekki máli en þær fengu kannski sjaldnar að takast á við þessi stóru dramatísku verk, klassíkina eða þetta sem karlarnir hafa kannski svolítið átt…
  og núna eru mjög margir kvenleikstjórar að spretta upp og það er auðvitað mikilvægt að leikhússtjórar séu meðvitaðir um þetta og gefi konum tækifæri til að takast á við ólík verk.

 3. Bakvísun: Annáll 2015 | Knúz - femínískt vefrit

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.