Hrelliklám: innlegg í femíníska nýyrðasmíð

Höfundur: Brynhildur Heiðar- og Ómarsdóttir

mynd m. hrelliklámsgrein

Myndskreyting: Þórey Mjallhvít H. Ómarsdóttir

Nú liggur fyrir á Alþingi fyrsta frumvarpið til laga sem tekur á samfélagsmeini sem hefur farið ört vaxandi undanfarin ár, samfélagsmeini sem hefur verið kallað „hefndarklám“. Áður en við samþykkjum löggjöf sem tekur á þessari nýjustu birtingarmynd kynferðislegrar áreitni, ættum við að skerpa á skilgreiningum á fyrirbærinu og hugtakanotkun.

Orð skipta máli og orðið „hefndarklám“ er ljótt hugtak, sem gerir að engu þá kynferðislegu áreitni, oft kerfisbundnu, sem því er ætlað að lýsa.

Hvaðan kemur hugtakið „hefndarklám“?

„Hefndarklám“ er bein þýðing á hugtakinu „revenge porn“ sem fyrst var notað í Bandaríkjunum undir lok fyrsta áratugar þessarar aldar. Hugtakið var og er notað til að lýsa efni, oft myndefni, þar sem einstaklingur er sýndur nakinn og/eða á kynferðislegan máta, og dreift er án samþykkis þess einstaklings.

„Hefndarklám“ á sér ekki langa sögu, enda er birting þess háð gífurlegum tæknibreytingum síðustu ára, auknum vinsældum snjallsíma með góðum myndavélum og aukinni notkun á samfélagsmiðlum. Það var til dæmis ekki fyrr en í kringum árið 2008 að klámsíður eins og XTube fóru að fá kvartanir yfir að efni á síðum þeirra væri birt án samþykkis þeirra sem á myndskeiðunum birtust, og fyrsta vefsíðan helguð því að birta ljósmyndir án samþykkis þeirra sem eru á myndunum, IsAnyoneUp.com, leit ekki dagsins ljós fyrr en árið 2010.

Það gæti svo sem vel verið að fyrstu ljósmyndirnar og myndskeiðin af nöktum konum (og körlum) sem rötuðu á netið voru birtar af bitrum fyrrverandi mökum í hefndarskyni. En síðustu árin hefur afbrigðum þessara myndbirtinga fjölgað gífurlega og hefur fyrir löngu sýnt sig að hugtakið „hefndarklám“ er hvorki tæmandi né lýsandi, og jafnvel villandi.

Villandi hugtak, breytum því!

Góðar og gildar ástæður eru fyrir því að hætta að nota hugtakið „hefndarklám“ og taka í staðinn upp nýtt og betra hugtak.

Í fyrsta lagi er myndefnið sem um ræðir stundum komið í dreifingu af einstaklingum sem vilja hefna sína á fyrrverandi mökum sínum, en oft ekki. Ljósmyndum er stolið, þær eru teknar af einstaklingum í óþökk þeirra og/eða án þess að þeir viti af því, þeim er dreift af grunnhyggni eða grandaleysi, þær eru birtar til að stríða og deilt því að sumir karlmenn fá kynferðislega örvun einmitt af því að þær eru birtar án samþykkis. Ljósmyndir eru notaðar sem gjaldmiðill á spjallsíðum, þeim er beitt í skipulagðri glæpastarfsemi fjárkúgara, þær eru teknar til að kúga þolendur mansals og viðhalda þrælkun þeirra, nauðgarar kvikmynda nauðganir og heimilisofbeldismenn deila ljósmyndum af þolendum sínum.Og svo framvegis, og svo framvegis, og svo framvegis.Eitt er ljóst og það er að með því að kalla allar þessar myndbirtingar „hefndarklám“ drögum við athyglina að aðeins einni birtingarmynd þessara myndbirtinga og þar með frá hinum birtingarmyndunum.

Hugtakið „hefndarklám“ er ekki aðeins of þröngt heldur gefur einnig í skyn að þolendur verðskuldi myndbirtinguna. Með því að kalla þetta „hefndarklám“ erum við óbeint að taka undir það sjónarmið að fyrrverandi makar þessa einstaklinga hafi einhvers að hefna, og þá er stutt í það sjónarmið að einstaklingurinn á myndinni hafi jafnvel átt myndbirtinguna skilið.

Hafa ýmsir einnig gert athugasemdir við síðara hluta hugtaksins, orðið „klám“. Með aukinni tækni og aðgengi að stafrænum myndavélum og snjallsímum er orðið eðlilegt að elskendur taki ljósmyndir hvor/hver af öðrum. Þessar ljósmyndir eru ekki klám í eðli sínu. Þær eru hins vegar gerðar að klámi þegar þeim er komið í dreifingu án samþykkis einstaklingsins eða einstaklinganna sem er á myndinni.

Femínistar vestanhafs, sérstaklega femínískir lögfræðingar, hafa því síðustu árin forðast að nota hugtakið „revenge porn“ og kjósa fremur að beita hugtakinu „nonconsensual pornography“ eða „klám án samþykkis“. Þetta hugtak er lýsandi, það leggur áherslu á mikilvægi samþykkis, útilokar ekki stóran hluta þolenda og gefur til kynna að efnið sjálft sé ekki klám fyrr en það er gert að klámi af gerandanum sem birtir það án samþykkis.

Hugtakinu „nonconsensual pornography“ hefur ekki tekist að koma í stað „hefndarkláms“ í almennri orðræðu, enda er það óþjált í munni og ekki eins grípandi og æsifréttahugtakið „revenge porn“. Íslenska þýðingin á þessu hugtaki, „klám án samþykkis“, er að sama skapi einstaklega óþjál og erfið þeim sem vilja skrifa fallegan texta á mannamáli.

Annað sem mælir gegn því að við tökum upp hugtakið „klám án samþykkis“ er að hugtakið er fræðilegt og að sama skapi tilfinningalaust. Það felst ógnun í því að birta eða hóta að birta myndefni sem sýnir einstakling nakinn og/eða á kynferðislegan máta. Þessi ógnun veldur þolendum mikilli vanlíðan og jafnvel skaða. Þessari ógnun er kerfisbundið beitt gegn konum til að þagga niður í þeim og útiloka þær frá lýðræðisvettvangi 21. aldarinnar — veraldarvefnum.

Tæknilega hugtakið „klám án samþykkis“ hylur þessa ógn, hylur þessa þöggun, hylur þessa kúgun.

Hrelliklám, nýyrði yfir hrollvekjandi kynferðisbrot

Ég legg til að við sammælumst um að nota orðið hrelliklám til að lýsa birtingu myndefnis þar sem einstaklingur er sýndur nakinn og/eða á kynferðislegan máta og sem dreift er án samþykkis þess einstaklings.

Hugtakið „hrelliklám“ fellur vel inn í þróun íslenskrar tungu, en hugtakið „eltihrellir“ hefur öðlast fastan sess í tungumálinu sem þýðing á enska orðinu „stalker“, einstaklingur sem eltir annan mann, ofsækir og ógnar.

Hugtakið nær því ágætlega yfir fylgifiska hrellikláms, þá staðreynd að með þessum myndbirtingum fylgja oft beinar ofsóknir í símtölum, tölvupóstum og skilaboðum á netinu. Hegðun þeirra sem birta hrelliklám er náskyld hegðun eltihrella, og eltihrellar birta stundum eða hóta að birta hrelliklám.

Það sem þó mestu máli skiptir, hugtakið „hrelliklám“ leggur ekki áherslu á sjálft myndefnið, heldur á birtingu myndefnisins og ógnina sem fylgir henni, að myndbirtingar sem slíkar feli í sér ofsóknir og aðför að frelsi einstaklingsins.

Hrelliklám er enn ein birtingarmynd kynferðislegrar áreitni og hugtakið skellir skuldinni þar sem hún á heima, á hrellana sem birta ljósmyndir og annað efni af öðrum án samþykkis, til þess eins að niðurlægja, að valda vanlíðan og skaða.  

Þessi grein er skrifuð og birt í tengslum við umsögn Kvenréttindafélags Íslands um áðurnefnt frumvarp, en umsögnina í heild sinni má lesa hér, á vefsíðu Kvenréttindafélagsins.  

3 athugasemdir við “Hrelliklám: innlegg í femíníska nýyrðasmíð

  1. Bakvísun: Knúzannállinn 2015 | Knúz - femínískt vefrit

  2. Bakvísun: Hrelliklám á Clear Lines Festival | Knúz - femínískt vefrit

  3. Bakvísun: Hrelliklám á Clear Lines Festival | Knúz - femínískt vefrit

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.