„Ég vil vera strákur“ – af draumum Enid Blyton um að vera manneskja

Höfundur: Ármann Jakobsson

Enid Blyton á forsíðu bókar Barböru Stoney. Myndin er sótt hingað.

Enid Blyton á forsíðu bókar Barböru Stoney. Myndin er sótt hingað.

Menntun á sér stað á ótrúlegustu stundum og stöðum, innan og utan skólastofu. Ekki get ég rakið með neinni nákvæmni hvernig menntun mín í femínisma hófst enda lærir fólk stundum best þegar það veit ekki að það lærir en á hinn bóginn man ég að einn sá barnabókahöfundur sem vakti mig til umhugsunar um femínisma var Enid Blyton og einkum einn bókaflokkur hennar, Fimmbækurnar, en í þeirri röð eru alls 21 bók sem komu upphaflega út á ensku árin 1942–1963 en á íslensku 1957–1971 og 1985–1989. Eins og allir muna sem hafa lesið þær fjalla bækurnar um fjögur börn sem heita Júlli, Jonni, Georgína og Anna en sá fimmti er hundurinn Tommi.

Af þessum persónum er eftirminnilegust Georgína, sem kallar sig Georg því að hún hafnar hefðbundnum kvenhlutverkum, klippir sig stutt og klæðist strákslega til að fá að klifra í trjám og taka þátt í mannraunum: „Ég vil ekki vera stelpa. Ég vil ekki vinna stelpuverk. Ég vil glíma við verkefni stráka. Ég get klifrað öllum strákum betur og líka synt. Og báti get ég siglt á við hvern sjómannsstrák hér á ströndinni“ (Fimm á Fagurey, 16). Þessi uppreisn hennar er ekki alltaf virt af strákunum, frændum og félögum hennar. Nefna má sem dæmi hvernig Jonni talar í Fimm á hættuslóðum (58-9): „Getið þið Georg ekki athugað hvað er til af rúmfötum í þesssum skápum og búið um rúmin fyrir nóttina. … Eruð þið bráðum búnar, stelpur?“ Og Júlli bætir við: „Anna, viltu ekki smyrja nokkrar brauðsneiðar“. Stúlkurnar eiga að þjóna strákunum og jafnvel er rekið á eftir þeim. Þannig er uppreisn Georgs reglulega barin niður og hún þvinguð til að vinna „kvenmannsverk“. Anna er á hinn bóginn ævinlega reiðubúin að búa til mat og þvo upp fyrir bræður sína.

Bókarkápa einnar Fimm-bókanna, frá árinu 1956. Myndin er sótt hingað.

Bókarkápa frá árinu 1956. Georgína )í rauðri peysu) er áberandi kynlaus á kápunni. Myndin er sótt hingað.

Að vera manneskja?

Á sínum tíma (í kringum 1980) fannst mér þetta tal frekar afturhaldssamt og tók því sem gefnu að hér kæmu fram skoðanir höfundar sem væri íhaldssöm í málefnum kynjanna. Löngu seinna las ég að Enid Blyton hefði grundvallað Georg á sjálfri sér og haft alla samúð með henni (Barbara Stoney, Enid Blyton, 152-3). En hvað er þá verið að segja með þessari persónusköpun? Á sínum tíma fannst mér einkum afturhaldssamt að stelpan gæti ekki siglt bát og klifrað í trjám (sem hvorugt var raunar á mínu færi) án þess að kalla sig strákanafni og segjast vera strákur. En núna löngu síðar skil ég þetta öðruvísi. Georg vill vera strákur af því hún vill vera manneskja og í hennar hug er kvenhlutverkið óþolandi rammi sem hún þrífst ekki í. Enid Blyton er því ef til vill róttækari en ég hélt. Hún býður ekki upp á þá einstaklingslausn að tiltekin stelpa hverfi úr kynhlutverki sínu athugasemdalaust heldur dregur þvert á móti fram hversu óþolandi kvenhlutverk þess tíma var og hvernig það rammar konur inni á þann hátt sem strákar eru ekki takmarkaðir.

Og líklega er það einmitt vegna þess að Georg kemst ekki upp með þetta, heldur halda Jonni og Júlli stöðugt áfram að reyna að fá hana til að þjóna sér og hegða sér „stelpulega“, að lesandinn þarf að taka afstöðu: fellir hann sig við að henni sé bannað að vera „strákastelpa“? Svar mitt var á sínum tíma ekki og þess vegna fannst mér Fimmbækurnar leiðinlegri en aðrir bókaflokkar eftir Enid Blyton, Dularfullubækurnar og Ævintýrabækurnar. En þetta voru samt bækurnar sem vöktu umhugsun um málið.

Vitaskuld voru þær gamaldags strax þegar ég las þær. Haustið 1978 höfðu verið sýndir í sjónvarpinu framhaldsþættir byggðir á þeim en þar er uppreisnin sem felst í að heita Georg óskiljanleg því að engum virðist detta í hug að Anna og Georg eigi að þjóna drengjunum eða að þær fái ekki að vera með í ævintýrunum. En upprunalega gerðin, þ.e. bækurnar, er sú sem vekur til umhugsunar og þess vegna er ef til vill ágætt að börn lesi hana. Raunar er líka annars konar uppreisn í Fimmbókunum eins og fleiri verkum Enid Blyton: uppreisn barna gegn fullorðnum. Sagan gerist alltaf í fantasíuheimi þar sem börn fara sínu fram, hafa betur í viðureign við fullorðna og þurfa alls ekki á þeim að halda við að leysa málin. Ævintýri fimmenninganna einkennast af því að þau eru ekki hrædd við neitt (nema Anna litla er hrædd við allt!). Fyrirgangur er megineinkenni þeirra, þau reka reglulega upp fagnaðaróp eða skellihlæja, tala í kór af æsingi, ryðjast út úr bílum eða húsum í einu og endurtaka sömu orðin hvað eftir annað. Fullorðnir trúa fimmmenningunum fyrir öllum leyndarmálum sem þörf er á, ekkert er þeim ofviða og þetta kemur fram í sjónvarpsþáttunum sem lýkur iðulega á því að börnin eru skellihlæjandi eftir að hafa troðið sér í gegnum öll þau hin óteljandi leynigöng sem virðast finnast á Englandi og handsamað smyglara, njósnara, ræningja og sígauna. Þar eru Georg og hundurinn iðulega fremst í flokki og því ekki nema von að hún sé enn í dag ein helsta fyrirmynd stúlkna sem vilja helst vera strákastelpur. Georg stendur því uppi sem sigurvegari þrátt fyrir allar tilraunir til að kveða hana í kútinn.     Einhverjir muna kannski eftir vinsælum sjónvarpsþáttum eftir Fimmbókunum, sem voru m.a. sýndir í Ríkissjónvarpinu. Hér er þátturinn „Famous Five on a secret trail“

2 athugasemdir við “„Ég vil vera strákur“ – af draumum Enid Blyton um að vera manneskja

  1. Bakvísun: Enid Blyton | Koffortið

  2. Bakvísun: Enid Blyton | Söguskjóður og sagnaskjattar

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.