Af dillibossum og femínískum gleðispillum

 Höfundur: Arndís Bergsdóttir

Ég er ekki húmorslaus femínisti. En ég er femínískur gleðispillir[1]. Þessi pistill er gleðispillir! Það er eins gott að segja það strax. Slíkir gleðispillar neita að taka þátt í gleðinni sem umvefur ákveðna viðburði eða atvik en nota hvert tækifæri til að benda á kynjamisrétti. Þar sem kynjakerfið er allsstaðar er ekki nema eðlilegt að samræðutækifærin séu víða. Þau láta okkur ekki í friði heldur öskra á okkur, þar sem þau liggja hjúpuð gleði og stuði. En af hverju? Má aldrei vera gaman?

Jú, auðvitað má vera gaman. Það er oft gaman. Hinsvegar stöndum við stundum frammi fyrir svo gullnum samræðutækifærum að við hreinlega verðum að spilla gleðinni.

Karlakrabbameinið

Núna er mars. Mánuðurinn sem árlega er helgaður árvekni um „karlakrabbamein”. Mottumarsmyndbandið er komið í loftið – og femínískir gleðispillar taka við sér. Ekki það að karlar séu ekki alltaf í kastljósinu á einn eða annan hátt. Jú, jú kynjakerfið hugsar um sinn eigin rass að venju. En sjaldan gefst eins gott tækifæri til að eiga í samtali við kynjakerfið og kynjaímyndir. Bæði fyrir konur og karla, enda gagnast kynjajafnrétti ekki síður þeim þótt margir geri sér það ekki ljóst.

Myndbandið í ár hvetur karla til að hugsa um eigin rass. Það tekur á vandræðaganginum sem karlar virðast upplifa í kring um rassinn á sér, sérstaklega við að ota honum framan í lækni til innvortis skoðunar. Þekktir leikarar twerka og dilla á sér bossanum á ýmsum stöðum og við ýmis tækifæri en lag með Amabadama hljómar undir. Þetta er ekkert mál! Þú getur horft í augun á lækninum. Þú þarft ekki að fela þig á bak við tímarit á biðstofunni. Hossa, hossa….bossa!

Myndbandið er fullt af gleði, hresst, skapandi og fyndið. Við fyrstu sýn virðist meir að segja í því femínískur undirtónn. Karlar skipta um hlutverk við konur. Þeir twerka og dilla bossanum, rassinn er í aðalhlutverki. Myndir og myndbönd þar sem karlar fara í hlutverk kvenna hafa verið nokkuð sýnileg undanfarið. Þau þykja fyndin. Samt hlær enginn þegar konur gera það sama, nema kannski í hneykslan ef afturendinn samræmist ekki þeim útlitskröfum sem gerðar eru til afturenda kvenna og eru í dag að mestu fengnar úr klámiðnaðinum. Það má hinsvegar velta því fyrir sér hve mörgum finnist bossadillandi karlar fyndndir af því það er svo „gott hjá þeim” að varpa ljósi á staðlaðar kynímyndir kvenna eða af því þeir eru einfaldlega að hegða sér eins og konur.

En er það ekki bara gott mál? Að karlar sýni fram á ójafna stöðu karla og kvenna?

Jú, auðvitað! Mitt femíníska hjarta hoppar af gleði, en samtímis hríslast um mig óþægileg tilfinning. Hér er ekki ætlunin að gagnrýna þetta tiltekna myndband, hugmyndina eða gerð þess. Það er hinsvegar eðlilegt að það veki upp ýmiskonar hugrenningatengsl og spurningar. Sér í lagi þar sem tilfinningarnar eru býsna ósamstæðar. Kynjamisrétti birtist okkur nefnilega alla jafna á nokkuð óreiðukenndan hátt enda ekki að furða þar sem lífið sjálft er alls ekki klippt og skorið. Það er einmitt misræmið sem er full ástæða til að vekja máls á.

Af hverju er það fyndið, krúttlegt og sniðugt þegar karlar hrista á sér bossana í myndbandi á meðan konur í samskonar hlutverkum myndu vekja allt aðrar tilfinningar?

Hvað ef þetta væru konur?

Það liggur beinast við að benda á þá einföldu staðreynd að hlutgerving karla og kvenna er engan vegin sú sama vegna þeirrar einföldu staðreyndar að jafnrétti er ekki náð og enn eru konur undirskipaðar körlum í samfélögum hins vestræna heims. Einn þeirra þátta sem viðheldur undirskipan kvenna í kynjakerfinu birtist meðal annars í klámvæddri hlutgervingu þeirra, þ.e. að konur, sem hópur, eru á táknrænan hátt sneyddar sjálfstæðum vilja og gerendahæfni. Þær eru smættaðar í „hlut” sem aðrir geta notað á kynferðislegan hátt og ímynd þeirra er ímynd hinnar kynferðislega „frjálsu” og aðgengilegu konu. Sömu sögu er ekki að segja um karla.

Í aðra röndina er það í senn aðlaðandi og fyndið að sjá alla karlarassana twerka og taka dansspor úr Single Ladies myndbandi Beyoncé. Bæði twerk og Beyonce hafa jú verið kennd við femínisma og valdeflingu kvenna. Skilaboðin eru að konur búi yfir algeru kynfrelsi og ráði yfir sínum eigin líkama.

shakirariahnna

Hér þreifa Rihanna og Shakira þjóhnappa. Myndin tengist annars ekki leitarstöð Krabbameinsfélagsins

Og það er satt. En samt ekki.

Slík skilaboð eru til þess fallin að styrkja þá hugmynd að jafnrétti sé náð en draga á sama tíma fjöður yfir þá staðreynd að valdatengsl kynjanna eru ennþá hagstæð fyrir karllægt kynjakerfi. Þetta frelsi er því frelsi aðeins að því marki að það styðji við karla – eða öllu heldur ímyndir karla.

Það má vissulega færa rök fyrir því að kynímyndir karla séu ekki síður mótaðar en kvenna, hinsvegar miða þær að því að sýna fram á yfirskipan þeirra en ekki undirskipan. Því til stuðnings má benda á að sjaldan – nei, ég leyfi mér að fullyrða aldrei – hef ég rekist á auglýsingar eða myndbönd sem hvetja til árvekni gagnvart málefnum kvenna þar sem konur sýna fram á hlutgervingu karla með því að bregða sér í hlutverk þeirra. Að auki hefur klámvædd hlutgerving – og hlutgerving yfir höfuð – allt önnur áhrif á karla en konur sem innlima hana í eigin vitund. Sú krafa er gerð að þær samræmist viðteknum ímyndum. Í því felst meðal annars að konur líti út á ákveðinn hátt og að þær hegði sér á ákveðna vegu. Það sem þykir eðlilegt þegar karlar eiga í hlut þykir jafnvel óviðeigandi þegar konur eru annars vegar.

Bleikvæðing og brjóstaskortur

Gaman væri að sjá árveknismyndband um brjóstakrabbamein þar sem allskonar konur gætu dillað brjóstunum og það væri álitið fyndið og krúttlegt en ekki einkennilegt, óviðeigandi og jafnvel óþægilegt. Nei, konur skulu beina athyglinni að „sínum krabbameinum” á prúðan og stilltan hátt; með bleikum nælum, bleiku glossi og bleikum leigubílum.

Ég vildi að ég gæti lagt femíníska gleðispillinn til hliðar og bara skemmt mér yfir dillibossamyndbandi Mottumars. En á meðan karlar og konur sitja ekki við sama borð, á meðan konur hafa ekki frelsi til að láta kjánalega með eigin líkama, eigin raunverulegu líkama, án þess að vera undir vökulu auga kerfislægra kynímynda þá er skemmtunin yfirborðskennd. Jafnrétti er ekki náð og misrétti er hvorki krúttlegt né fyndið. Það er verkefni sem þarf að takast á við. Á meðan lifir femíníski gleðispillirinn.

Ég vildi ég gæti hugsað um eigin rass!

[1]Femínískur gleðispillir (e. feminist killjoy) er hugtak úr smiðju Sara Ahmed. Sjá nánar t.d. http://www.feministkilljoys.com

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.