Femínismi er svarið við öllu!

Höfundur: Drífa Snædal

Drífa Snædal

Drífa Snædal

Erindi flutt á baráttufundinum „Femínismi gegn fasisma“ í Iðnó sunnudaginn 8. mars á alþjóðlegum baráttudegi kvenna

Þegar þeirri spurningu er velt upp hvort femínismi sé svarið við fasisma þá freistast ég til að segja: Já feminismi er svarið við öllu!

Að setja upp femínistagleraugun hjálpar okkur að skilgreina völd í samfélaginu, hverjir hafa völdin, hvernig er þeim beitt og hvaða afleiðingar hefur ríkjandi valdaskipulag. Ekki síst hefur femínisminn fjallað um valdaleysi, hvaða hópar hafa EKKI völd, af hverju og hvaða samfélagslegu áhrif það hefur þegar ákveðnir hópar hafa EKKI völd. Þessi nálgun og það sem ég hef lært í femínisma hjálpar í daglega lífinu, á vinnustað og í öllum samskiptum þ.á m. við samningaborðið. Ég hef til dæmis setið fundi þar sem ég hef leitað í smiðju Berit Ås, þess merkilega femínista og brautryðjanda, sem var forseti Norska þingsins og skilgreindi drottnunaraðferðirnar sem beitt er til þess að viðhalda og beita völdum. Það snýst ekki alltaf um karla og konur heldur valdbeitingu fyrst og fremst. Á sumum fundum er allur pakkinn tekinn og öllum aðferðunum er beitt samtímis:

Gera fólk ósýnilegt – grípa til dæmis frammí eða segja „eins og nefnt var hérna áðan“ í stað þess að nafngreina manneskjuna sem átti hugmyndina.

Að gera fólk hlægilegt – gera lítið úr tillögum og hugmyndum með misgáfulegum bröndurum.

Að leyna upplýsingum – það er oft sterkasta vopnið til að halda einhverjum niðri, að styrkja eigin valdastöðu með því að stýra flæði upplýsinga.

Tvöföld refsing – að gagnrýna niðurstöðuna og hugmyndirnar hverjar sem þær eru. Telja öðrum trú um að viðkomandi geri aldrei neitt rétt.

Að framkalla skömm og sektarkennd.

Þegar þú ert í aðstæðum þar sem drottnunaraðferðunum er beitt getur þú hugsað fallega til hennar Berit og notað skilgreiningar hennar til þess að rýna í stöðuna, skynja hvaða valdatafl er í gangi og hugsanlega bregðast við því. Það er valdeflandi í sjálfu sér að geta komið orðum að þeirri vanmáttartilfinningu sem þú finnur og því leikriti sem er í gangi hverju sinni.

Vanmáttur og valdaleysi eru nefnilega ömurlegar tilfinningar og beinlínis hættulegar, og það þarf ekki alltaf mikið til. Svo ég leiti í eigin reynslubrunn þá man ég eftir að hafa upplifað valdleysi þegar ég hóf nám í Svíþjóð fyrir rúmum fjórum árum síðan. Ég átti mína barnaskólasænsku sem þurfti að duga mér fyrstu metrana í háskólanáminu en gerði það að sjálfsögðu engan veginn. Ég var í hópastarfi með 25 ára metnaðarfullum Svíum sem litu á mig sem einhverja misheppnaða kerlingu sem hefði sennilega verið rekin úr starfi því annars væri hún alveg örugglega ekki sest á skólabekk aftur. Ég fór frá því að vera með rödd í íslensku samfélagi, vera í ábyrgðastöðu og geta komið mínu á framfæri í það að vera svipt tungumáli og stöðu og vera orðin marklaus. Ég brást við eins og klisjan sem við erum sennilega flest, með reiði og heift. Eftir að hafa lokað á eftir mér útidyrahurðinni heima hjá mér grét ég af vanmætti og reiði. Og þó ég sé ekkert sérstaklega stolt af því þá gat ég ekki hamið reiði mína í einu hópastarfinu, en því miður hafði ég ekki einu sinni tungumálið í að rífast almenninlega – algerlega vonlaus staða. Sem betur fer varði þetta ástand ekki lengi og ég kom mér upp þolinmæði og auðmýkt gagnvart eigin vanmætti. Í dag get ég hlegið að þessu og deilt með öðrum enda ekki mjög alvarlegt dæmi um valdaleysi en gott dæmi um þá reiði sem það elur af sér. Þú ert komin út í horn, þú upplifir þig ekki sem hluta af hópnum og þú hefur ekki þau verkfæri sem þú þarft til að koma þínu á framfæri.

Upphafið

Og þá erum við komin að undirrót fasismans. Á þessum tveimur árum mínum í Svíþjóð fylgdist ég með uppgangi fasismans þar í návígi. Fyrir nokkrum árum kom fram á sjónarsviðið flokkurinn Svíþjóðardemókratar sem á rætur sínar að rekja til lítilla hópa nasista. Þetta eru götustrákar í jakkafötum sem enginn tók almenninlega mark á fyrr en þeir voru komnir inn á þing og orðnir afl í samfélaginu. Hvernig stendur á því að hin umburðalynda sósíaldemókratíska Svíþjóð kýs flokk sem hefur greinilegar fasískar tilhneygingar og af hverju er þetta að gerast í hverju landinu á fætur öðru í kringum okkur? Reiði þessara manna og heift fær útrás gagnvart fjölmenningarsamfélaginu, svipað og nasisminn í Þýskalandi fékk útrás gagnvart gyðingum, Rómafólki, hommum og öðrum minnihlutahópum.

Frá mótmælagöngu á vegum PEGIDA í Dresden. Myndin er sótt hingað.

Frá mótmælagöngu á vegum PEGIDA í Dresden. Myndin er sótt hingað.

Nú ber að hafa í huga að það er ekkert samhengi á milli fjölda útlendinga og uppgangs útlendingahaturs. Svíþjóð var síðasta skandinavíska landið til að kjósa á þing flokk með fasískar tengingar en hefur hins vegar tekið á móti flestum flóttamönnum síðustu áratugi. Ef skoðuð eru kosningaúrslit eftir svæðum í Svíþjóð kemur í ljós að það eru ekki bæirnir með flesta útlendinga þar sem Svíþjóðardemókratarnir eru sterkastir. Það er því ekki fjölgun útlendinga í kringum fólk sem veldur því að það kýs fasisma, það er eitthvað annað. Í Dresden í Þýskalandi eru til þessa mjög fáir aðfluttir útlendingar en þar eru  PEGIDA- samtökin hvað sterkust. Þau hljóta að teljast ein mesta ógn við lýðræði og umburðalyndi  í Evrópu í dag enda orðin að alþjóðlegri hreyfingu. Í morgun höfðu tæplega þrjú þúsund manns lækað PEGIDA samtök Íslands á facebook en PEGIDA stendur fyrir „Patriotic Europeans Against the Islamization of the Occident“. Það er því barnaskapur að halda að fasismi berist ekki til Íslands – hann er þegar kominn.

Uppgangurinn

En lítum aftur á Svíþjóðardemókratana – götustrákana í jakkafötunum. Er það tilviljun að uppgangur þeirra helst í hendur við gríðarlega aukna misskiptingu í Sænsku samfélagi síðustu ár? Er það tilviljun að uppgangur þeirra helst í hendur við stóraukið atvinnuleysi? Ég vil meina að þarna sé beint samhengi á milli. Til að byrja með voru kjósendur flokksins aðallega ungir karlar, úr dreifðum byggðum, með lágar tekjur.

Merki Svíþjóðardemókratanna. Myndin er skjáskot héðan.

Merki Svíþjóðardemókratanna. Myndin er skjáskot héðan.

Ég velti því upp hvort flokkurinn hafi beinlínis notið þess að í samfélaginu var hópur karla sem upplifði valdaleysi. Karlar eru aldir upp við að gera tilkall til valda og það er ekkert hættulegra en karlar sem hafa ekki þá stöðu í samfélaginu sem þeir telja sig eiga rétt á. Konur eru ekki með sama hætti aldar upp til að gera tilkall til valda. Í vaxandi misskiptingu verður til sífellt stærri hópur sem er úti í horni, upplifir sig ekki sem hluta af samfélaginu og hefur ekki þau verkfæri sem þarf til að koma sínu á framfæri. Það elur aftur af sér vantrú á samfélagslegar stofnanir og leit að einföldum og skýrum lausnum. Að kjósa stráka sem þú samsamar þig við er valdeflandi í sjálfu sér. Og fylgið minnkar ekki þrátt fyrir öll þau hneykslismál sem hafa komið upp í kringum Svíþjóðardemókratana: Ofbeldi, fíkniefni, spilafíkn, fjárdráttur – ekkert sem kjörnir fulltrúar flokksins hafa gert sig seka um hefur dregið úr fylginu, þvert á móti þá vex þeim stöðugt ásmegin. Þeir eru breiskir og fulltrúar hinna valdalausu. Þeir eru svarið við hinum hefðbundnu flokkum sem hafa ekki lausnirnar sem leitað er að. Þeir eru í senn, útrás fyrir reiði og vanmátt og valdeflandi um leið.

Hvert er svarið?

Þegar hrunið varð hér á landi var ég handviss um að upp risi fasískur flokkur. Jarðvegurinn var svo sannanlega til staðar; aukin misskipting, valdaleysi og vantrú á „helvítis fjórflokkinn“ eins og það birtist okkur. Ég er þess fullviss að Besti flokkurinn hafi bjargað okkur að einhverju leiti frá fasismanum – tímabundið. Þarna var flokkur sem fólk gat samsamað sig við. Fólk sem hafði svo sannarlega ekki alltaf haft völd eða áhrif og var jafnvel hægt að skilgreina sem „underdogs“ í hinu pólitíska landslagi. Að kjósa Jón Gnarr var valdeflandi í sjálfu sér og ber að þakka að þetta varð niðurstaðan en ekki einhver önnur, að friðarboðskapurinn varð ofaná en ekki hatursboðskapurinn. Hvað gerist næst er meira áhyggjuefni.

Hver eru viðbrögð við uppgangi fasisma? Besta svarið við því er jafnrétti. Þá er ég ekki bara að tala um jafnrétti á milli kynjanna heldur jafnrétti yfir höfuð. Jafnt aðgengi að stofnunum samfélagsins, hvort sem það eru valdastofnanir eða bara heilsugæsla og menntun. Öflugt velferðarkerfi er besta forvörnin – og já, fjárhagslegt jafnrétti líka.

Það hefur varla farið fram hjá neinum að kjarasamningar eru lausir á hinum almenna vinnumarkaði. Ég tel að við séum komin að ákveðnum skurðarpunkti í samfélaginu þar sem við þurfum að ákveða hvort við höldum launum undir hungurmörkum eða hvort við ætlum að nýta kjarasamninga til að jafna kjörin í samfélaginu. Afleiðingar þess að halda lægstu launum niðri eru skelfilegar fyrir það fólk sem ætlað er að lifa á launum undir framfærslu. En þær eru líka skelfilegar samfélagslega. Að lifa undir framfærslumörkum kemur niður á heilsu fólks, líðan, möguleikum barna, býr til jaðarsetningu ákveðinna hópa, ýtir einstaklingum og hópum út í horn þannig að rof verður í samfélaginu. Ef þú upplifir að þú sért ekki talinn með, sért minna virði en aðrir og sért sviptur völdum til þátttöku, þá erum við komin á mjög hættulegar brautir. Því segi ég; menntun, heilbrigðisþjónusta, mannsæmandi líf og öll þau tæki sem við höfum til að jafna aðstöðu fólks er svarið við uppgangi fasisma.

Þegar spurt er hvort femínismi sé svarið við fasisma liggur þetta í augum uppi fyrir mér. Femínismi veitir okkur ekki aðeins verkfærin til að greina völd, hvernig þau birtast og hvaða afleiðingar misskipting þeirra hefur heldur veitir okkur líka svarið við þeim ógnum sem við stöndum frammi fyrir: Jafnrétti er svarið – alltaf!

 

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.