Til hamingju Stígamót með aldarfjórðunginn!

Höfundur: Ritstjórn

Árið 1990, nánar tiltekið þann 8. mars, á Alþjóðlegum baráttudegi kvenna, voru grasrótarsamtökin Stígamót stofnuð. Samtökin eru því orðin 25 ára og þá er ekki úr vegi að rifja upp tilurð samtakanna og fagna því sem hefur áorkast með tilkomu þeirra.

Árið 1989 ákváðu konur úr ýmsum kvennasamtökum að helga daginn baráttunni gegn kynferðisofbeldi á Íslandi. Sjaldan hefur myndast eins víðtæk samstaða um nokkurt málefni, en forsögu þessarar samstöðu má rekja til sjálfboðastarfs kvenna til nokkurra ára. Sjálfboðahóparnir voru Barnahópur Kvennaathvarfsins, Ráðgjafarhópur um nauðgunarmál, Kvennaráðgjöfin og Vinnuhópur gegn sifjaspellum. Þessir hópar kynntu starfsemi sína á fjölmennum baráttufundi sem haldinn var í Hlaðvarpanum þann 8. mars. Á þessum sama fundi var ákveðið að stofna til Stígamóta, samtaka gegn kynferðisofbeldi.

Á enga er hallað þó tekið sé fram að dr. Guðrún Jónsdóttir félagsráðgjafi hin eldri sé heilinn á bak við Stígamót. Hún hafði þekkinguna, eldmóðinn, hugmyndirnar og kraftinn til þess að hrífa með sér alla kvennahreyfinguna og skapa það einstaka úrræði sem Stígamót hafa orðið.

„Á enga er hallað þó tekið sé fram að dr. Guðrún Jónsdóttir félagsráðgjafi hin eldri sé heilinn á bak við Stígamót. Hún hafði þekkinguna, eldmóðinn, hugmyndirnar og kraftinn til þess að hrífa með sér alla kvennahreyfinguna og skapa það einstaka úrræði sem Stígamót hafa orðið.“ Mynd héðan.

Markmið Stígamóta eru tvíþætt. Annars vegar að fólk sem hefur verið beitt kynferðisofbeldi geti leitað til, fengið stuðning og deilt reynslu sinni með öðru fólki sem einnig hefur verið beitt slíku ofbeldi, en til kynferðisofbeldis teljast sifjaspell, nauðganir, kynferðisleg áreitni, klám, vændi og mansal. Hins vegar eru Stígamót baráttusamtök fyrir bættu samfélagi þar sem kynferðisofbeldi er ekki liðið. Því er lögð áhersla á að almenningi sé veitt fræðsla og upplýsingar með virkri fjölmiðlaumræðu, eins og landinn hefur líklega tekið eftir, en einnig með námskeiðum, þingmálsumsögnum, skólakynningum, auglýsingum og málstofum, svo eitthvað sé nefnt. Starfið er kostað af fjárframlögum ríkis og stærri sveitarfélaga, ýmissa félagasamtaka og af eigin fjáröflun, því mikilvægt er að öll sú þjónusta sem samtökin veita sé endurgjaldslaus.

Á heimasíðu samtakanna kemur fram að stóri draumurinn sé að uppræta kynferðisofbeldi, en jafnframt að svo hann rætist þurfi að vinna mikla samfélagsvinnu. Sem öflug grasrótarsamtök hafa Stígamót pólitísk áhrif og eru þau í óformlegu samstarfi við stjórnvöld, önnur samtök og ýmsar stofnanir, þau taka þátt í sérfræðinga- og samhæfingarhópi um mansal og eiga, ásamt Kvennaathvarfinu, einn fulltrúa í Jafnréttisráði. Til þess að ná eyrum ráðamanna er að bjóða áhrifafólki í eftirmiðdagskaffi. Slíkir fundir hafa náð miklum árángri og hafa bæði leitt til aukins skilnings og bætt samstarf. Á heimsíðunni kemur segir að allflestir félagsmála- og velferðarráðherrar, dómsmála- og innanríkisráðherrar undanfarinna ára hafa heimsótt Stígamót.  Það sama má segja um landlækni, umboðsmann barna, félagsmálastjóra og yfirmenn lögreglu.

Á heimasíðu Stígamóta segir:

Nokkrar kenningar eru til um orsakir kynferðisofbeldis. Þær má flokka í þrjá aðalflokka. Fyrst er að nefna sálfræðilegar kenningar þar sem gert er ráð fyrir að skýringa sé að leita hjá einstaklingnum, bæði þeim sem beittur er ofbeldinu og þeim sem fremur það. Í öðru lagi eru fjölskyldukerfiskenningar. Í þeim kenningum er skýringa leitað í samskiptum fjölskyldunnar, allir fjölskyldumeðlimir eru ábyrgir fyrir ofbeldinu. Loks er að geta kynjafræðilegra kenninga um kynferðisofbeldi. Í þeim kenningum er skýringanna fyrst og fremst leitað í samfélagsgerðinni, þ.e. í valda- og stöðumismun milli karla annars vegar og kvenna og barna hins vegar.

Frá upphafi vega hefur [starfið á Stígamótum] byggst á hugmyndum kynjafræðinnar um kynferðisofbeldi. Þær kenningar falla best að reynslu þeirra sem beitt hafa verið kynferðisofbeldi og skýra jafnframt þá staðreynd að það eru, samkvæmt okkar tölum, fyrst og fremst karlar sem beita konur og börn kynferðisofbeldi. Samkvæmt þessum hugmyndum er kynferðisofbeldi skýrasta birtingarmynd kynjamisréttis. Hjá Stígamótum er litið svo á að þeir sem beita ofbeldinu noti það sem stjórntæki til þess að ná valdi yfir fórnarlambi sínu. Sú kynferðislega fullnægja sem ofbeldismenn kunna að njóta er nokkurs konar hliðarbúgrein, markmiðið er ávallt að lítillækka, ráða yfir og hafa taumhald og vald yfir þeirri manneskju sem beitt er ofbeldinu. Áhrif og afleiðingar kynferðisofbeldis eru ekki aðeins tengdar þeim sem því eru beitt. Vitundin um þetta form ofbeldis hefur áhrif á upplifun allra kvenna á því hvað það er að vera kona og tilvist þess takmarkar einnig frelsi kvenna.

Undanfarin þrjú ár hafa Stígamót tekið þátt í alþjóðlegri söfnun á tölfræðiupplýsingum um ofbeldi gegn konum. Alþjóðasamtökin The Global Network of Women´s Shelters hafa staðið fyrir söfnuninni og 121 samtök í 44 löndum hafa talið fjölda kvenna og barna einn dag á ári. Árið 2012, á einum degi ársins, leituðu 106.108 konur og börn hjálpar hjá Kvennaathvörfum þessara landa. Af þeim var 8.148 konum og 4.385 börnum neitað um hjálp vegna plássleysis. Frekari upplýsingar má finna hér:

stigamótEins og kom fram í viðtali við Guðrúnu Jónsdóttur, hina yngri, í Fréttablaðinu á föstudaginn hafa 7.038 einstaklingar leitað til Stígamóta frá stofnun samtakanna. Hún segir helstu áskoranirnar í dag vera kynferðisbrotamál sem ekki komast í gegnum réttarkerfið, gríðarlegra fordóma gæti gagnvart fólki sem hefur verið beitt kynferðislegu ofbeldi og að því verði ekki breytt nema að inn í víðari umræðu sé tekið að á bak við þessa rúmlega sjö þúsund einstaklinga eru ofbeldismenn sem ganga lausir.

Knúzið er sammála Guðrúnu um þá hvatningu sem felst í því að rifja upp þann fjölda sem hefur sótt þjónustu til Stígamóta og fengið hjálp í gegnum tíðina. Samtökin eru sannarlega mikils virði og þökkum við starfsfólki þeirra fyrir að standa vaktina með ósk um velfarnað í verki.

Fyrr áhugasöm mælum við með þessari grein: Saga Stígamóta

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.