Ég get ekki sagt …

anitasarkFIAnita Sarkeesian hélt áhrifamikla ræðu á ráðstefnunni All About Women sem hófst í Sydney 8. mars. Hér er ræðan í lauslegri þýðingu. Myndbandið er neðst í færslunni.

Ég get ekki sagt

þessum þúsundum karla að éta skít, sem hafa gert kvenhatur sitt að leik. Leik þar sem kynbundið níð og hótanir um morð og nauðgun eru vopn í viðleitni þeirra til að fella óvininn mikla, sem í þessu tilfelli er ég. Líf mitt er ekki leikur. Ég hef þolað áreitni og hótanir á hverjum degi, linnulaus tí þrjú ár, vegna þess eins að ég vogaði mér að gagnrýna hið augljósa kynjamisrétti sem ríkir í tölvuleikjaiðnaðinum.

Ekkert í þessari upplifun minni er leikur.

Ég get ekki sagt

að ég sé reið. Þegar fólk, sem veit hvað ég þarf að þola alla daga, hittir mig í eigin persónu segist það oft ekki skilja af hverju ég er ekki reiðari. Því ég er bara ég. Yfirleitt er ég frekar aðlaðandi og vingjarnleg við aðra. En svar mitt er þetta: Ég er reið. Ég er brjáluð.

Ég er reið út af því að við búum í samfélagi þar sem netáreiti er umborið, viðurkennt og réttlætt, þar sem vefþjónustur og yfirvöld axla enga ábyrgð á netníðinu sem konur þurfa að þola alla daga.

Ég er reið vegna þess að mér er ætlað að samþykkja netáreitið af því ég er kona með skoðanir.

Ég get ekki sagt neitt fyndið.

Flestir vinir mínir segja mig snögga upp á lagið og frekar kaldhæðna, og það kom stundum fram í myndböndunum mínum, en ég er næstum alveg hætt að grínast á YouTube. Þótt grín geri okkur mannlegri og mér þyki gaman að beita því er ég hætt því vegna þess að áhorfendur túlka oft spaug og kaldhæðni sem heimsku, einkum ef viðkomandi áhorfendur eru karlar og grínið kemur frá konu. Ótrúlega oft eru brandarar teknir sem sönnun fyrir því að ég viti ekki um hvað ég er að tala eða að ég sé ekki alvöru tölvuleikjaspilari, jafnvel þegar grínið er byggt á mikilli þekkingu á efninu. Fyrir vikið forðast ég núorðið að spauga í myndböndunum mínum.

Mér þykir sjaldan þægilegt að tala óundirbúin á opinberum vettvangi. Ég vel viðtölin sem ég veiti af kostgæfni. Ég hafna flestum boðum um þátttöku í hlaðvörpum eða vefþáttum. Ég vanda orðalag mitt í öllum Twitter-færslum til að það sé skýrt og verði ekki rangtúlkað.

Á undanförnum mörgum árum hefur árvekni mín magnast. Líf mitt, orð og gerðir eru undir smásjánni. Á hverjum degi sé ég þúsundir karla grandskoða, umsnúa og bjaga ummæli mín, því þeir eru staðráðnir í að brjóta mig niður og þagga niður í mér.

Ég get ekki sagt

að ég sé mannleg. Ég fæ ekki að tjá opinberlega depurð mína eða reiði, ekki þreytu, kvíða og þunglyndi mitt. Ég get ekki sagt að stundum hafi áreitnin mikil áhrif á mig, eða þá að áreitnin sé orðin svo eðlileg að stundum finni ég ekki fyrir neinu. Ég fæ morðhótanir á samfélagsmiðlunum og rútínan er að taka skjáskot, senda það til FBI, blokka viðkomandi og halda áfram. Ég fæ ekki að tjá ótta minn eða hversu þreytandi það er að vera stöðugt á verði í daglegu lífi mínu og á netinu, má ekki segja neinum að ég sæki ekki ákveðna viðburði því mér finnist ég ekki örugg eða að ég setjist oftast afsíðis á kaffihúsum og veitingastöðum til að sem fæstir beri kennsl á mig.

Ég sýni ekki hvað mér finnst neyðarlegt að þurfa að biðja fólk sem ber kennsl á mig í matvörubúðinni að segja ekki hvar það hitti mig.

Við blekkjum okkur stundum með því að halda að tjáning tilfinninga tákni að eltihrellarnir hafi sigrað. Þessi blekking er aðallega til komin vegna þess að í okkar samfélagi fá konur ekki að tjá tilfinningar án þess að vera sagðar móðursjúkar, óútreiknanlegar, tíkarlegar, of hrifnæmar eða ofurviðkvæmar.

Ef við tjáum óöryggi, efa, reiði eða sorg er fylgst með því og því er gjarnan beitt gegn okkur. En með því að neita okkur um svigrúm til að hafa tilfinningar og miðla þeim festum við í sessi það viðhorf að við eigum allar að þjást einar. Að við ættum bara að harka af okkur og koma okkur upp þykkari skráp, þótt við ættum ekki að þurfa þess.

Ég get ekki sagt

að ég vilji eiginlega ekki segja neitt af þessu, einkum vegna þess að ég óttast enn að ef ég tjái tilfinningar mínar opinberlega, sýni það óöryggi mitt.

Sannleikurinn er sá að konur sem þrauka og halda að einhverju marki sínu mannlega eðli eru ekki að sýna veikleika, heldur hugrekki.

Við svörum áreitninni á marga vegu en sýnum með því hvað við eigum mikið eftir af okkar mannlega eðli, þrátt fyrir alla þessa grimmd og óréttlæti.

Þakka ykkur fyrir.

Gísli Ásgeirsson þýddi.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.