Soldið hysterísk týpa

Höfundur: Kristín Vilhjálmsdóttir:

„Mikið óskaplega ertu heppin að fá ekki túrverki, þú bara veist ekki hvað það er mikil blessun,“ sagði mamma við mig kornunga. Og jú, vissulega þakkaði ég fyrir að fá ekki túrverki eins og sumar vinkonur mínar og fyrir að vera ekki með óreglulegar blæðingar og bara almennt fyrir að ganga eins og klukka og ekkert vesen. Ég fann reyndar fyrir óbærilegum sársauka við egglos, en það var varla neitt til að hafa áhyggjur af fyrst að það var bara einu sinni í mánuði.

Síðan varð ég 25 ára og þá byrjuðu ósköpin. Á skrifstofunni hvítnaði ég upp og beygði mig fram á meðan mestu hryðjurnar gengu yfir og fékk skammir fyrir að tala um tíðaverki, það væri svo ódömulegt. Skilaboðin eru skýr: dömur þjást í hljóði, tíðaverkir eru tabú og skulu þaggaðir með öllum tiltækum ráðum.

Nærumhverfið var fullt af misgóðum ráðum. „Þetta hverfur við barneignir.“ Svo að ég eignaðist börn, ekki bara eitt heldur tvö í einu, ældi mig í gegnum erfiða meðgöngu og fékk ómælt óvelkomið hrós fyrir dugnaðinn að grennast svona mikið. Ég missti hátt í 20 kíló á meðgöngu og á meðan brjóstagjöf stóð. Fólk hætti að heilsa mér af því að það þekkti mig ekki lengur í sjón. En túrverkirnir og eggjaverkirnir hurfu ekki, þeir urðu bara verri með hverjum mánuðinum sem leið og engin verkjalyf virtust virka á þá.

endometriosis_adenomyosis_Jill_Claeys

Undanfarið hafa fjölmargar greinar birst um legslímuflakk, enda marsmánuður tileinkaður þessum króníska sjúkdómi, sem hefur vissulega miklu meiri samfélagsleg áhrif en fólk almennt gerir sér grein fyrir. Víða sé ég um það rætt að eina örugga leiðin til að greina legslímuflakk sé kviðarholsspeglun. Jæja, ég fór í svona kviðarholsspeglun árið 2006. Þegar ég vaknaði eftir aðgerðina sagði kvensjúkdómalæknirinn minn að ég væri jafnfögur að innan sem að utan og að hann sæi engin merki um legslímuflakk. Samt brenndi hann eitthvað í burtu og ég var verkjalaus í fimm ár, þó að egglosverkirnir héldu áfram. Semsagt engin skýring á þessum verkjum – ég hlaut bara að hafa verið að ímynda mér þetta. Svo átti ég líka ekki í neinum vandkvæðum með að verða þunguð, þannig að ég gat varla verið með endómetríósu. Þið verðið að fyrirgefa mér að ég hef þróað með mér djúpstætt vantraust á læknum.

Ég var orðin 41 árs þegar ég fékk loksins greiningu á endómetríósu og sjaldgæfri gerð af PCOS. Heilt sumar lá ég meira og minna ælandi og með niðurgang og með króníska verki í kviðarholi, áður en manninum mínum tókst að reka mig til læknis. Ég ráðfærði mig við kynsystur mínar og að lokum fann ég kvensjúkdómalækni sem sagði mér að ég væri að lýsa legslímuflakki, eða endómetríósu, og lét mig hafa viðeigandi meðferð.

Það liðu 15 ár frá fyrstu einkennum til endanlegrar greiningar. Þekkingar- og/eða áhugaleysi virðist algengt meðal læknastéttarinnar, sem og almenn tregða til að hlusta á umkvörtunarefni kvenna. „Já, ertu soldið hysterísk týpa?“ spurði háls-, nef- og eyrnasérfræðingur mig, þegar ég fór með son minn í skoðun til hans, og vildi meina að engra aðgerða væri þörf við krónískri eyrnabólgu barnsins. Hálfu ári seinna var drengurinn kominn með rör í eyrun, hjá yngri og kurteisari lækni. Dónaskapurinn og fyrirlitningin sem vissar kynslóðir karlkyns lækna láta yfir okkur ganga er alveg ótrúleg. Ég sé ekki eftir að hafa ekki farið að ráðum karluglunnar á Læknavaktinni, sem sendi mig heim til að tæma ímyndað stíflaðan ristil, þegar ég fékk gallsteinana hérna um árið. Læknar eru misjafnir eins og annað fólk og sumt fólk er hreinlega fífl.

Sem endókona hef ég fullt af spurningum sem ég hef engar sérstakar væntingar um að fá svör við, miðað við hvernig þetta hefur gengið hingað til. Höfðu undirliggjandi sjúkdómarnir þessi áhrif á meðgöngurnar tvær? Hvað gerist svo? Hvernig verður þetta eftir tíðahvörf? Það er þó ekkert sem tekur frá mér léttinn að fá loksins greiningu sem ég get sætt mig við og að vita að ég er ekki ein um þessar þjáningar.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.