Má bjóða þér te?

Höfundur: Emmeline May

Myndina gerði Emma Delpech. Sótt hingað,

Myndina gerði Emma Delpech. Sótt hingað,

Þessa dagana er líf mitt venju fremur flókið og mér gefst of lítill tími til að sitja heima og ákveða um hvað ég ætti að blogga næst. En vitiði hvað er EKKI flókið?

Samþykki.

Það orð hefur verið mikið rætt undanfarið, nú þegar margir háskólar eru í óða önn að innleiða reglur um yfirlýst samþykki, svo ekki sé nú minnst á bíómyndina eftir bókinni þarna, þessari sem tókst að gera skort á samþykki sexí frekar en hrollvekjandi og sem malar nú gull fyrir framleiðendur sína.

Þið eru kannski ekki búin að frétta það, en hér í Bretlandi erum við komin með drög að einhverju sem svipar til „yfirlýsts samþykkis“. Það var þannig sem tókst að sakfella Ched Evans, þótt sökunautur hans væri látinn sleppa – og það mál snerist um þá spurningu hvort sakborningur hafði rökstudda ástæðu til að ætla að samþykki meints fórnarlambs lægi fyrir. Af dómsskjölunum má ráða að kviðdómendum hafi þótt líklegt að fórnarlambið hafi veitt samþykki fyrir samræðinu við sakborning númer eitt, en að það þýði ekki endilega að hún hafi með því að lýsa sig samþykka samræði við einhvern annan gaur sem átti skyndilega leið hjá (þ.e. Evans). Í Bretlandi liggur  vandinn yfirleitt ekki í meðferð mála fyrir dómi heldur í því hvernig staðið er að rannsókn málanna – og nýlega voru gefnar út nýjar leiðbeinandi reglur í því skyni að ráða bót á þessu.

Það er engu líkara en að bresti á með nýrri flóðbylgju gagnrýni og andmæla í hvert sinn sem einhver skrifar grein um samþykki, eða eitthvað er gert til að gera aðilann sem á frumkvæðið að kynlífinu ábyrgan fyrir því að viðfang greddunnar hverju sinni LANGI ALVEG að stunda kynlíf með honum eða henni og sé jafnvel beinlínis ÆST/UR í það..

Það mætti jafnvel halda að fullt af fólki bara hreinlega FATTI EKKI hvað orðið „samþykki“ merkir. Alræmdar athugasemdir á borð við „fæstir vilja nú þurfa að gefa formlegt leyfi í hvert sinn sem hann fer inn“, háskólastrákurinn sem datt (að sögn) í hug að gleðja kærustuna með óundirbúnu BDSM-fjöri í Stjána gráa-stíl, svo ekki sé minnst á þetta helvítis popplag, og svo gott sem hvert einasta komment við næstum hverja grein sem einhver vogar sér að segja að já þýði eiginlega bara „já“; það mætti sem sagt halda að fólk eigi almennt og yfirleitt í bölvuðu basli með að skilja að áður en maður stundar kynlíf með einhverjum, og það meira að segja í hvert einasta skipti sem það er gert, þarf að gæta þess að viðkomandi langi til að gera það með manni. Þetta á við um konur og karla og bara hvern sem er. Áður en maður setur allt í gang með einhverjum eða einhverri þarf að tékka á því fyrst að hann eða hún sé til í tuskið. Það er allt og sumt. Þetta er ekkert flóknara. Ég sver það.

Ef þú ert enn að klóra þér í kollinum skaltu prófa að ímynda þér að í stað þess að stinga upp á kynlífi sértu að bjóða upp á tebolla.

Ef þú segir: „Heyrðu, má bjóða þér tebolla?“ og ef svarið er „Guð minn góður, já, ég er algerlega sjúk í tebolla EINMITT NÚNA!“ geturðu verið viss um að þú hafir hitt í mark.

Athugasemdirnar við  þessa skopteiknimynd lýsa ágætlega því sem ég er að tala um. Myndin er sótt hingað.

Athugasemdirnar við þessa skopteiknimynd lýsa ágætlega því sem ég er að tala um. Myndin er sótt hingað.

Ef þú segir: „Heyrðu, má bjóða þér tebolla?“ og svarið er humm eða tjaaa, eða „Ég veit ekki alveg …“ getur þú annað hvort látið ketilinn eiga sig eða lagað teið, svona ef ske kynni, en ef þú velur það síðarnefnda verður þér að vera alveg ljóst að kannski verður það aldrei drukkið, og ef tebollinn er látinn óhreyfður á borðinu – og nú kemur mikilvægasta atriðið – máttu ekki neyða neinn til að drekka úr honum. Þú mátt ekki verða súr yfir því að hafa haft fyrir uppáhellingunni að óþörfu, þú verður bara að sætta þig við að teið fari til spillis. Þótt þú hafir skellt í ketilinn áttu enga kröfu á neinn um að þiggja sopann. Það er bara enginn í stuði fyrir te núna, er það á hreinu?

Svarið gæti líka verið „Já, takk, það er fallega boðið,“ en svo, þegar teið kemur á borðið, hefur viðkomandi ekki lengur lyst á því. Það getur auðvitað verið frekar pirrandi, svona þegar maður er búinn að hella upp á, en það er samt enginn skyldugur til að drekka teið. Áðan var stemmari fyrir tei, en ekki núna. Sumir skipta um skoðun á jafn skömmum tíma og það tekur að sjóða vatn, laga te og teygja sig eftir mjólk. Og það er allt í lagi þótt fólk skipti um skoðun og þú átt engan rétt á að teið verði drukkið, þótt þú hafir haft þessi ósköp fyrir að laga það.

Ef fólk er meðvitundarlaust er alveg óhætt að sleppa öllu stússi með te. Rænulaust fólk vill ekki te og getur ekki svarað spurningunni „langar þig í te?“ vegna þess að það er jú rænulaust. Allt í lagi, kannski var viðkomandi við fulla meðvitund þegar spurningin var borin upp en missti svo rænuna á meðan þú varst að sjóða vatnið og sækja bollana. Þá er það eitt til ráða að leggja frá þér góðgerðirnar, ganga úr skugga um að sá eða sú sem liggur þarna rænulaus sé ekki í neinni hættu og – þarna kemur aftur þetta mikilvægasta – ekki neyða hann eða hana til að drekka teið. Það var kannski sagt já áðan en meðvitundarlaust fólk vill ekki te.

Hafi gesturinn þegið teið og verið byrjaður að drekka það, en svo misst rænuna áður en hann lauk úr bollanum, skaltu ekki taka til við að hella afganginum niður í kokið á honum. Meðvitundarlaust fólk vill ekki te, eins og fram hefur komið. Þér er óhætt að hafa mig fyrir því. Hafi einhver þegið boð um tebolla heima hjá þér á laugardaginn var er ekki þar með sagt að hann eða hana langi í te hjá þér við öll hugsanleg tækifæri upp frá því. Þaðan af síður langar hann eða hana til að þú mætir óforvarandis heim til þeirra, hellir upp á te og skipir þeim að drekka það vegna þess að „ÞÉR FANNST ÞETTA GOTT Í SÍÐUSTU VIKU“ og vill enn síður ranka við sér við að þú ert að sulla tei í kokið á honum eða henni og gala „ÞIG LANGAÐI SKO ALVEG Í TE Í GÆRKVÖLDI, ELSKAN!“

Finnst þér þetta bjánaleg samlíking? Já, auðvitað veistu þetta allt – og auðvitað myndir þú ekki neyða tebolla upp á neinn, bara vegna þess að hann eða hún þáði hjá þér bolla í vikunni sem leið. AUÐVITAÐ myndir þú aldrei hella tei ofan í rænulausa manneskja sem hugsanlega sagðist vilja te fimm mínútum fyrr, þá við fulla meðvitund. En ef þér finnst ljóst hvað það væri fáránlegt að neyða einhvern sem ekki langar í te til að drekka það, og ert fær um að skilja hvenær einhvern langar ekkert í te, hversu erfitt getur þá verið að bera kennsl á sömu kringumstæður þegar þú býður upp á kynlíf?

Því það er sama hvort þú býður einhverjum tebolla eða uppáferð – samþykki er aðalatriðið.

Og að því sögðu ætla ég að laga mér tebolla.

tebolli

Emmeline May bloggar undir nafninu Rockstardinosaurpirateprincess  og er einnig að finna á Facebook og Twitter. Þessi pistill birtist fyrst hér  og er birtur á Knúzinu með góðfúslegu leyfi. Halla Sverrisdóttir þýddi.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.