Heimur gagnkynhneigðra karla?

Höfundur: Sigríður Finnbogadóttir

Súffragettur stöðva hér bíl Winstons Churchill með reiðhjólunum sínum, árið 1912. Myndin er sótt hingað.

Súffragettur stöðva hér bíl Winstons Churchill með reiðhjólunum sínum, árið 1912. Myndin er sótt hingað.

Bicycling has done more to emancipate women than anything else in the world. I stand and rejoice every time I see a woman ride on a wheel. It gives women a feeling of freedom and self-reliance.

– Susan B. Anthony, súffragetta, 1896

 

Íþróttaheimurinn hefur lengi vel verið heimur gagnkynhneigðra karlmanna. Ef við skoðum sögu íþrótta frá árinu 900 fyrir Krist til dagsins í dag sjáum við að karlar hafa verið ráðandi í sögu þeirra. Íþróttir hafa verið hluti af samfélagi mannsins í aldanna rás þó birtingarmynd þeirra hafi tekið töluverðum stakkaskiptum. Sumir telja að íþróttir í þeirri mynd sem við þekkjum í dag, þar sem leikmenn keppa á bróðurlegan hátt, hafi komið með iðnvæðingunni. Á seinni hluta 19. aldar og í byrjun 20. aldar varð til sú hugmyndafræði að íþróttir marki persónuleika okkar. Þessari hugmyndafræði var þó nánast eingöngu beitt á karlmenn. Skólar tóku upp á því að aðskilja drengi frá áhrifum fjölskyldna og lögðu upp með að þróa karlrembuhátt og karlmannleg gildi hjá drengjunum. Takmarkið var að snúa drengjum frá kvenlegum gildum sem voru talin neikvæð og gera þá að ákveðnum, metnaðarfullum og framkvæmdaglöðum mönnum sem myndu verða leiðtogar framtíðarinnar.

Hægt er að líkja íþróttum við trúkerfi þegar kemur að mótun kyngervis þar sem persónuleg og félagsleg gildi og viðmið hvers samfélags sameinast í leiknum. Félagsleg staða kynjanna hefur þótt koma sterkt í ljós í orðræðu leiksins til dæmis með orðatiltækjum líkt og „þú kastar eins og kelling“ þar sem karlmenn eru lækkaðir á svið hins „óæðra kyns“, konunnar. Rannsóknir á tengslum karlmennsku og íþrótta benda til að ungir drengir læri félagslega viðurkenndar hugmyndir um karlmennsku og þá útrás sem þeir mega fá fyrir karlmennsku sína innan íþróttanna. Þeir verða að vera harðir af sér og vinna saman sama hvað það kostar. Kraftur, ofbeldi, samkeppni, yfirráð, árásargirni, styrkur, hugrekki og vilji til að taka áhættu eru dæmi um þau persónueinkenni sem hafa verið mest metin í heimi íþrótta.

Kvennalið í fótbolta í Preston í Bandaríkjunum, stofnað 1917. Liðinu var bannað að keppa í fótbolta árið 1921. Myndin er sótt hingað.

Kvennalið í fótbolta í Preston í Bandaríkjunum, stofnað 1917. Liðinu var bannað að keppa í fótbolta árið 1921. Myndin er sótt hingað.

Ein stærsta breytingin sem hefur orðið í sögu íþróttanna er aukin þátttaka stúlkna og kvenna. Á árum áður var konum meinað að iðka íþróttir og þeim stúlkum sem létu sér detta í hug að leika íþróttir var refsað og gert grín að. Um miðja 19.öld var farið að hvetja konur til að stunda líkamlega hreyfingu sér til heilsubótar, en þó var þessari hreyfingu vandlega stýrt af karlmönnum og lögð áhersla á þokkafullar kvenlegar hreyfingar. Fram að þessum tíma hafði sú skoðun verið viðvarandi að það gæti verið skaðlegt fyrir konur að stunda líkamlegt erfiði. Keppnisíþróttir þóttu fullkomlega óviðeigandi fyrir kvenfólk. Konur fengu ekki almennan þátttökurétt á Ólympíuleikunum fyrr en árið 1920, enda var fram að þeim tíma bannað að konur tækju þátt í íþróttum sem kraftur og styrkur var mikilvægur í, þar með talið voru flestar greinar frjálsra íþrótta. Að hlaupa, hoppa og henda þungum hlutum þótti ekki við hæfi fyrir konur. Smá saman fór þó að þykja viðeigandi fyrir konur að taka þátt í íþróttum þar sem kvenleiki og samhæfing voru mikilvæg, svo sem fimleikar, listdans á skautum og sund.

Þátttaka kvenna hefur aukist jafnt og þétt frá því á 20. öld í takt við árangur jafnréttisbaráttu kvennahreyfingarinnar. Fyrir 1970 voru fá tækifæri fyrir stúlkur til að iðka íþróttir þar sem fæst íþróttafélög buðu þeim upp á slíkt. Kvennahreyfingin á stóran þátt í þessari aukningu. Hreyfingin lagði áherslu á að konur fengju jöfn tækifæri til að vaxa sem manneskjur með því að þróa líkamlega og vitsmunalega þætti. Kvennahreyfingin átti einnig þátt í því skapa konum meira rými með því að endurskilgreina atvinnu- og heimilishlutverk kvenna. Hreyfingin barðist jafnframt fyrir því að konur réðu sjálfar yfir sínum líkama og að lífi þeirra væri ekki stjórnað af karlmönnum sem tækju allar ákvarðanirnar.  Í Bandaríkjunum voru sett lög árið 1972, s.k. „Title IX“, sem kváðu á um að öllum skólum sem fengju fjármagn frá ríkinu væri bannað að viðhafa kynjamismunum í útdeilingu þess fjármagns varðandi til að mynda kennsluskrá, kennslu, ráðgjöf, akademískan stuðning sem og möguleika til menntunar eða íþróttaiðkunar. Annar stór áhrifavaldur á þátttöku kvenna í íþróttum er aukin þekking á jákvæðum áhrifum hreyfingar á líkama og sál. Rannsóknir sýna að forvarnargildi íþrótta er mikið og þær stuðla að bættri heilsu og betri námsárangri. Það er því samfélaginu mikilvægt að sem flestir taki þátt.

Kathrine Switzer hleypur í Boston maraþoninu árið 1967. Konur máttu á þessum tíma ekki hlaupa í Boston maraþoninu, en hún skráði sig samt í hlaupið og kláraði það. Myndin er sótt hingað.

Kathrine Switzer hleypur í Boston-maraþoninu árið 1967. Konur máttu á þessum tíma ekki hlaupa í Boston-maraþoninu, en hún skráði sig samt í hlaupið og kláraði það. Myndin er sótt hingað.

Að sjá íþróttakonur og afrek þeirra í fjölmiðlum hvetur ungar stúlkur til þátttöku, enda er ungum stelpum mikilvægt að eiga sér fyrirmyndir. Íþróttafréttir eru vinsælar þó margir telji þær kannski ekki skipta miklu máli fyrir samfélagið. Rannsóknir hafa sýnt að konur fá mun minni umfjöllun í fjölmiðlum en karlar. Fjölmiðlavakt GMMP sem framkvæmd var á Íslandi árið 2010 sýndi að hlutfall frétta um konur er einungis 24%. Hlutfallið er enn verra ef við horfum eingöngu til íþróttafréttanna, á vefmiðlunum á Íslandi eru til dæmis lítil 11% umfjallana um konur. Ekki nóg með að konur fá minni umfjöllum heldur er einnig vert að skoða hvernig umfjöllun þær fá. Íþróttakonur birtast okkur oft sem kyntákn, fáklæddar, kvenlegar, fallegar, grannvaxnar og viðkvæmar. Það er ljóst að fjölmiðlar hafa mikil áhrif í samfélaginu og sem dæmi um þetta má nefna kenninguna um dagskráráhrif. Samkvæmt kenningunni hafa fjölmiðlar ekki áhrif á hvað við hugsum heldur á það um hvað við hugsum, sumsé að þeir segja okkur um hvaða málefni er mikilvægt að hugsa. Ef við setjum þetta í samhengi við íþróttafréttirnar þá eru fjölmiðlar að segja okkur að íþróttir kvenna skipti engu eða litlu máli og að karlaíþróttir séu merkilegri.

Skortur á fyrirmyndum og umfjöllun í fjölmiðlum er þó aðeins toppurinn á ísjakanum þegar kemur að jafnréttisbaráttu kvenna í íþróttum. Önnur vandamál sem má nefna er að lítill hluti þjálfara og stjórnenda innan íþróttahreyfingarinnar er kvenkyns, konur hafa ekki aðgengi að fjármagni til jafns við karla, enginn kvenkyns íþróttafréttamaður er starfandi á Íslandi og konur geta síður orðið atvinnumenn og haft lifibrauð af því að spila íþróttir á meðan karlkyns atvinnumenn í íþróttum eru stórstjörnur með svimandi há laun. Með nýjum hugmyndum og þekkingu breytast hlutirnir. Hvernig væri að ungar stelpur í íþróttum fengju þau skilaboð að þeirra íþróttaiðkun sé jafn mikilvæg, jafn skemmtileg og jafn áhugaverð og íþróttir strákanna?

Höfundur stundar nám í íþróttafræði og starfar sem íshokkíþjálfari.

Heimildir:

Woods, R.B. Social Issues In Sport. (2011). Leeds: Human Kinetics.

Sleap, M. (1998). Social issues in sport. London: Macmillan Press LTD.

Strang, V. (2009). What anthropologists do. Oxford: Berg.

Messner, M. A. (1989). Masculinities and athletic careers. [rafræn útgáfa]. Gender

and Society.

Coackley, J. & Pike, E. (2007). Sports in society: Issues and controversies. Boston: McGraw-Hill Education.

Kolbeinn Tumi Daðason (2013). Íþróttafréttamennska á Íslandi. Íþróttaumfjöllun um karla og konur á íslenskum vefmiðlum. Meistaraprófsritgerð, Háskóli Íslands.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.