Birtist fyrst á heimsíðu Amnesty International þ. 10. mars 2015.
Tveimur áratugum eftir að tímamótasáttmáli var samþykktur á alþjóðavísu um jafnrétti kvenna hefur hættuleg afturför átt sér stað í réttindamálum kvenna og stúlkna. Á 59. fundI Kvennanefndar Sameinuðu þjóðanna í New York var farið yfir Peking-aðgerðaáætlunina þar sem fyrir tuttugu árum voru settar fram skuldbindingar ríkja um fjölmörg atriði sem tengjast jafnrétti, réttindum kvenna og valdeflingu þeirra.[1] Útkoman var Pekingsáttmálinn.
Amnesty International kallar eftir því að markmið Pekingsáttmálans nái fram að ganga og að ríki heims standi við skuldbindingar sínar um að ná markmiðum jafnréttis, þróunar og friðar fyrir allar konur, alls staðar í þágu alls mannkyns.
„Fyrir tuttugu árum komu leiðtogar heims saman í Peking og gáfu loforð um að vernda og efla réttindi kvenna og stúlkna alls staðar. Sunnudaginn 8. mars var alþjóðlegum baráttudegi kvenna fagnað í skugga afturfarar í mörgum löndum varðandi réttindi kvenna og stúlkna,“ sagði Lucy Freeman, framkvæmdastjóri Amnesty-teymis sem fjallar um réttindi tengdu kynferði, kynhneigð og kynímynd. „Enda þótt ýmislegt hafi áunnist í réttindabaráttu kvenna frá því að Pekingsáttmálinn var samþykktur þá getur engin þjóð í veröldinni státað sig af því að hafa náð fullu jafnrétti kynjana og hætta steðjar að réttindum kvenna og stúlkna.“
Á sama tíma og fundur Kvennanefndar Sameinuðu þjóðanna átti sér stað í New York þar sem farið var yfir hvernig ríkjum heims hefur miðað áfram í að standa við skuldbindingar sínar gagnvart Peking-aðgerðaáætluninni, varaði Amnesty International við því að stríðsátök og efling ýmissa öfgahópa gerir konur víða berskjaldaðar fyrir margvíslegum mannréttindabrotum.
Enn í dag er konum víða meinaður jafn aðgangur að þátttöku á opinberum vettvangi og í stjórnmálalífi. Kynferðislegt ofbeldi, misnotkun og kynbundið ofbeldi snertir konur alls staðar: á heimilum, vinnustöðum og almenningsstöðum, bæði á stríðs- og friðartímum. Ofbeldisfullar öfgastefnur, öryggisleysi og uppflosnun færist í aukana þar sem konur og stúlkur á flótta sæta fjölmörgum mannréttindabrotum, þeirra á meðal nauðgunum, brottnámi og kynlífsþrælkun.
Á mörgum svæðum heims hafa konur og stúlkur ekki frelsi til að taka ákvarðanir um eigin líf og líkama og kyn- og frjósemisréttindi þeirra eru ekki tryggð. Sums staðar eru konur og stúlkur fangelsaðar fyrir það eitt að þær eru grunaðar um að hafa leitað fóstureyðingar.
Margar konur og stúlkur, sérstaklega þær sem búa við fátækt, sæta margþættri mismunun á grundvelli kyns, kynhneigðar eða kynímyndar, kynþáttar, stéttar, þjóðaruppruna eða fötlunar. Þær mæta hindrunum í aðgengi að vinnu, menntun, heilbrigðisþjónustu, fæði, húsnæði, vatni og sorphreinsun. Konur sem berjast fyrir réttindum kynsystra sinna eða annarra mæta gjarnan hótunum, árásum og þöggun og á stundum þurfa þær að gjalda fyrir baráttuna með eigin lífi.
Konur á átakasvæðum
Á átakasvæðum eins og í Afganistan, Suður-Súdan, Mið-Afríkulýðveldinu, Kongó, Norðaustur-Nígeríu og á svæðum sem stjórnað er af vígamönnum Íslamska ríkisins og öðrum herskáum hópum, stigmagnast ofbeldi gegn konum og stúlkum. Nauðganir eru útbreiddar, kynlífsþrælkun og þvinguð hjónabönd.
Þolendur slíks ofbeldis verða oft að þola ranglæti á meðan gerendur njóta refsileysis. Konur á flótta og vergangi eru í sérstakri hættu og konur sem búa á átakasvæðum eða svæðum sem eru að vinna sig úr átökum eru útilokaðar frá friðarviðræðum og umræðum um vopnahlé.
Kyn- og frjósemisréttindi kvenna og stúlkna í hættu
Konur og stúlkur sæta enn kynbundnu ofbeldi og öðrum mannréttindabrotum sem réttlætt eru í nafni menningar, trúar eða hefðar, samanber þvinguð hjónabönd, limlestingu á kynfærum kvenna og margvíslega heiðursglæpi gegn konum og stúlkum.
Ýmsar ríkisstjórnir kappkosta þess nú að útvatna ýmsar alþjóðlegar skuldbindingar sem áður voru samþykktar eins og aðgengi kvenna að getnaðarvörnum og öruggum fóstureyðingum undir því yfirskyni að um „menningararf” sé að ræða eða „verndarstefnu gagnvart fjölskyldunni”.
Um heim allan eiga konur sífellt erfiðara um vik að taka ákvarðanir sem lúta að líkama þeirra og geta þeirra til áhrifa á lög og reglugerðir sem varðar líf þeirra er afar takmörkuð.
Tími til aðgerða!
Kvennanefnd Sameinuðu þjóðanna verður ekki aðeins að horfa til þess hvað hefur áunnist í framkvæmd og innleiðingu Pekingsáttmálans heldur einnig að horfa fram á veginn og finna leiðir til að ná raunverulegu kynjajafnrétti og tryggja valdeflingu kvenna og stúlkna.
Amnesty International skorar á ríki heims að standa við loforð sín um að vernda réttindi kvenna og stúlkna.
Amnesty International skorar á ríki heims að:
- Vernda réttindi kvenna og stúlkna sem búa á átakasvæðum, meðal annars með því að auka þátttöku þeirra í allri ákvarðanatöku á opinberum vettvangi og í stjórnmálalífi.
- Binda endi á margvíslegar skaðvænlegar venjur og tilraunir til að réttlæta þær undir merkjum trúar, menningar eða hefðar.
- Hrinda aðgerðum í framkvæmd sem koma í veg fyrir og vernda konur og stúlkur gegn kynbundnu ofbeldi og draga gerendur til ábyrgðar.
- Verja réttindi kvenna og stúlkna til að taka ákvarðanir um eigin líkama, líf og heilsu og afnema lög sem takmarkar þessar ákvarðanir.
- Tryggja valdeflingu kvenna og gera þeim kleift að taka þátt í ákvarðanatöku og forystuhlutverkum og skora neikvæðar staðalmyndir kynjana á hólm.
- Vernda og styðja við starf kvenna sem vinna sem mannréttindafrömuðir.
Herferð Amnesty International, Minn líkami, Mín réttindi beinir sjónum sínum að kyn- og frjósemisréttindum okkar og sem hluta af þeirri herferð hafa samtökin gefið út stefnuyfirlýsingu sem krefur ríkisstjórnir heims um að efna loforð sín um að virða, vernda og uppfylla kyn- og frjósemisréttindi allra, alls staðar.
Í stefnuyfirlýsingunni eru sett fram lágmarks viðmið sem ríki verða fylgja til að tryggja kyn- og frjósemisréttindi fyrir alla.
Stefnuyfirlýsingin skorar á ríki heims að:
- Nema úr gildi hegningarlög í tengslum við kyn- og frjósemisréttindi, þ.e. að afglæpavæða kyn- og frjósemisréttindi.
- Leysa allar konur úr fangelsi sem hlotið hafa dóm fyrir að leita sér fóstureyðinga eða vegna fósturmissis, og einnig þær konur sem hafa aðstoðað kynsystur sínar við að leita sér fóstureyðinga.
- Tryggja aðgengi að þjónustu sem verndar kyn- og frjósemisheilbrigði.
- Tryggja aðgengi að hlutlausri kynfræðslu jafnt innan sem utan skólastofnana.
- Koma í veg fyrir og bregðast við öllum tegundum kynbundins ofbeldis sérstaklega gegn konum og stúlkum.
- Tryggja að allir geti á áhrifaríkan og merkingabæran hátt haft áhrif á lög og reglugerðir sem varða líkama og líf þeirra.
- Tryggja að allir hafi aðgengi að réttvísinni þegar brotið er á kyn – og frjósemisréttindum þeirra.
Ríkisvaldið og aðrir ráðandi aðilar verða að binda enda á tilraunir til að stjórna vali kvenna og stúlkna varðandi eigið líf og líkama. Rétturinn
til að taka upplýstar ákvarðanir um kyn- og frjósemisheilbrigði okkar eru mannréttindi.
Amnesty International skorar á alla að taka undir stefnuyfirlýsinguna og krefjast þess að kyn- og frjósemisréttindi allra, alls staðar séu vernduð og virt.
[1] Pekingsáttmálinn var undirritaður þann 15. september árið 1995 af 189 ríkjum. Hann byggir á áætlun í 12 liðum sem miðar að því að bæta réttindi kvenna og stúlkna um heim allan. Í tilefni af 20 ára afmæli sáttmálans mun Kvennanefnd Sameinuðu þjóðanna í New York fara yfir ávinning og áskoranir Pekingsáttmálans dagana 9. til 20. mars. Einnig verður farið yfir tækifæri til að ná fram kynjajafnrétti og valdefling kvenna verður rædd.
Myndir eru allar fengnar af heimasíðu unwomen.org að undanskildri efstu myndinni sem kom frá amnesty.is.