Höfundur: Áslaug Einarsdóttir
Ég prófaði um daginn að slá inn nokkra frasa í google á borð við female stand up comedians og funny women og rak upp stór augu þegar síðurnar komu upp, ein af annarri. Jú, þarna voru auðvitað frægir grínarar á borð við Ellen Degeneres og Söruh Silverman á sínum stað en inn á milli leyndust líka furðu víða alls konar blogg og grínsíður sem hétu misgáfulegum nöfnum á borð við 10 ástæður fyrir því að það ætti að vera ólöglegt fyrir konur að segja brandara! eða Fyndnasta kona heims drap kettling úr leiðindum.
Nú mætti velta fyrir sér hvort að mýtan um húmor sem einkavígi karla sé raunverulega með lífsmarki í samfélaginu eða hvort að allir viti að slíkar feðraveldiskreddur séu aðeins deyjandi myglublettur í þeim fúla forapytti sem bloggheimar geta stundum verið. Það sem er óumdeilanlegt er þó að konur eru ótrúlega sjaldséðar á uppistandssviðinu, hverjar svo sem ástæðurnar kunna að vera fyrir því.
Það var einmitt undrun á þessu stelpuleysi í uppistandi sem að fékk vinkonu mína, Þórdísi Nadiu Semichat, til þess að stofna Facebook-hóp í vor, þar sem hún auglýsti eftir stelpum sem hefðu áhuga á að vera með uppistand. Fjölmargar stelpur lýstu yfir áhuga og nú, nokkrum mánuðum síðar eru komnar fram ellefu stelpur sem nýlega héldu tvö uppistandskvöld þar sem þær troðfylltu Næsta bar og allt ætlaði um koll að keyra.
Ég verð að játa að ég hafði ákveðnar fyrirframgefnar hugmyndir um þessar stelpur þegar ég hitti þær fyrst. Ég sá fyrir mér að þær væru allar sem ein þessi nett brjálaða, athyglissjúka týpa eða að vera með þeim í partýum væri dálítið eins og að vera umkringd af ellefu útgáfum af Helgu Brögu lite. Ég hafði stórkostlega rangt fyrir mér, því þær eru eins ólíkar og hugsast getur. Í hópnum má m.a finna magadansmeyjar, mannfræðinema, anarkista, húsmóður í Vogunum, lesbíu, fallna sjónvarpsstjörnu, eina ólétta og loks aðra sem er ekki með lyktarskyn. Í rauninni er ekki nokkur skapaður hlutur sem þessar stelpur eiga allar sameiginlegt nema óseðjandi þráin eftir aðdáunaraugum, tárvotum af hlátri.
Eftir fyrstu kynnin mín af þeim greip ég upptökuvélina mína og hef verið að fylgja stelpunum eftir við hvert fótmál í þeim tilgangi að gera heimildamynd um þær. Sú eftirför hefur reynst frekar æsileg á köflum þar sem þær eru að verða eftirsóttari með hverju kvöldinu sem líður. Síðan þær komu fyrst fram í desember hafa þær verið á fullu að taka við beiðnum um að koma fram á árshátíðum og kvöldskemmtunum. Þær skipuleggja ferðalög um landið á milli þess sem þær troða í sig humri og freyðivíni á börum bæjarins í ölvuðum „dekadans“. Án gríns. Ég á það á filmu.
Fjölmiðlar landsins hafa heldur ekki haldið vatni yfir stelpunum og eru þær búnar að mæta í viðtöl í allar helstu sjónvarps- og útvarpsstöðvar, dagblöð og netmiðla. Annað eins fjölmiðlafár hefur líklega ekki litið dagsins ljós síðan hundurinn Lúkas var talinn af. Það er það samt dálítið undarleg staðreynd. Væri ekki töluvert eðlilegra að búa í samfélagi þar sem stelpur fá ekki gífurlega athygli fyrir að gera eitthvað flippað, bara af því að þær eru stelpur? Ætti ekki að vera jafn sjálfsagt að stelpur séu að troða upp eins og strákar?
Ég játa að ég hef skemmt mér dásamlega vel við að fylgjast með þeim mæta spyrlunum í fjölmiðlaviðtölunum. Þá fyrst hafa kynjaklisjurnar fengið að fljúga. Ein vinsælasta spurning til þeirra er án efa „eruð þið svo ekki bara alveg rosalega stressaðar áður en þið farið upp á svið? Er þetta ekki alveg agalegt, ha?“ Ég man allavega ekki eftir því að hafa séð viðtöl við karlkyns uppistandara þar sem þeir eru spurðir hvort þeir þurfi ekki að skæla aðeins áður en þeir fara upp á svið.
Þær eru líka oft spurðar að því hvort að grínið þeirra sé kvenmiðað og hvort að strákunum í salnum finnist það jafn fyndið. Reyndar er spurningin um kynjaðan húmor mjög áhugaverð. Nokkuð margir áhorfendur hafa sagt mér að þeim finnist þær kjaftforari, óvægnari og meira sjálfsafhjúpandi en aðrir karlkyns uppistandarar. Af hverju ætli þessi viðbrögð stafi? Eru þær í alvörunni dónalegri en aðrir strákar í uppistandi eða eru áhorfendur bara óvanari og óundirbúnari að hlusta á stelpur grína um píkurnar sínar en að heyra enn einn typpabrandarann. Það eru þó alls ekki eingöngu píkusögur sem eru sagðar á sviðinu. Grínið þeirra spannar ólíklegustu hluti á borð við matarklám, einkennisbúning íslenskra lesbía, barneignir, rauðhært fólk, átraskanir og karlmenn sem drekka breezera. Að ógleymdri Helgu Möller.
Ég er iðulega spurð af vinum sem forvitnast um framvindu myndarinnar hvort það sé ekki örugglega heilmikið drama innan hópsins, sem ég gæti þá afhjúpað á stóra tjaldinu. Hvort það sé nokkuð mögulegt að ellefu stelpur geti unnið saman í hóp án þess að upp komi smá vesen. Er það ekki dálítið eins og að spyrja karlalið Breiðabliks í fótbolta hvort að samstarfið sé ekki yfirgengilega taugatrekkjandi? „Ég meina strákar, er ekki stundum alveg ofboðslega erfitt að taka tillit til tilfinninga hvors annars?“ Botninn sló samt úr í ósmekklegheitum þegar miðaldra karlkyns formaður ónefnds stéttarfélags kynnti þær inn á svið á stórri árshátíð um daginn: „Jæja, dömur og herrar, hingað til okkar eru komnar stelpur í uppistandi, eða eins og ég kýs að kalla þær, tíkur í standi.“
Allt í lagi, ég væri að ljúga ef ég segði að það ríkti lognmolla þegar þær eru nálægar. Ég gæti jafnvel lofað smá hasar á skjánum, kynlífi og slagsmálum í það minnsta. Ég er nefnilega í þeysireið að fylgjast með drepfyndnum stelpum, sem þú, kæri lesandi, ættir ekki að láta fram hjá þér fara, í bíó eða á næsta uppistandskvöldi.
—
Greinin birtist fyrst hér 9.2. 2010 og er birt á Knúzinu með góðfúslegu leyfi.