„Hún skrifaði það ekki“ – af þöggun skáldkvenna

Höfundur: Magnea J. Matthíasdóttir

„Föstudaginn 27. mars verður frumsýnt leikrit um þrjár konur. Þöggun er saga þriggja skáldkvenna, Ólafar frá Hlöðum, Skáld-Rósu og Guðnýjar frá Klömbrum. Verk um konur úr Eyjafirðinum, sem sáu um heimilið, búsýsluna og gerðu það sem ekki mátti, þær skrifuðu!

Ljóðskáldið Guðný Jónsdóttir var fyrst íslenskra kvenna til að fá birt eftir sig veraldlegt ljóð. Sagt er að hún hafi dáið úr sorg eftir að eiginmaður hennar yfirgaf hana og tók börnin frá henni. Hann var yfirgengilega afbrýðisamur vegna skáldagáfu Guðnýjar. Ljóð hennar höfðu gengið manna á milli og varðveist þannig en ekkert af ljóðunum er til í eiginhandarriti. Margt mun hafa glatast af skáldskap skáldkvennana þriggja og sumt viljandi eyðilagt,  því er þetta saga um þöggun.“

(úr fréttatilkynningu frá Leikfélagi Hörgdæla)

Í tilefni þess rifjar Knúzið upp þessa grein:

Tólf árum eftir dauða Guðnýjar Jónsdóttur rann ritstjórum Norðurfara, Gísla Brynjólfssyni og Jóni Þórðarsyni (síðar Thoroddsen), blóðið til skyldunnar að skrifa um hana eftirmæli:

FLESTUM mönnum á íslandi mun vera kunnug hin hriggilega saga þessarar merkiskonu og skálds. Hennar hefur áður verið minnst í þriðja ári Fjölnis, og er þar prentað eitt af kvæðum hennar, sem bæði eru mörg og falleg, en því miður lítt kunn öðrum enn nákomnustu vandamönnum hennar. Það er grátlegt til þess að hugsa að svo margt ágætt skuli farast og glatast á Islandi, og mestan hlut af því engir vilja verða til að láta prenta það og verja það svo eyðileggingu og eilífri gleymsku — það er grátlegt að hugsa til þess að svo margt ágætt, sem þar fæðist í myrkri, skuli deyja eins í dimmu, ókunnug töllum [sic] þegar frá líður, þar sem menn þó sjá að í öðrum löndum er svo margt prentað, sem ekki er berandi saman við sumt af því, sem á Islandi deyr útaf af hjúkrunarleysi. Vjer viljum gera það, sem oss er unnt, til þess að verja það litla, sem vjer náum til, frá gjörsamlegri eyðileggingu, og látum vjer því prenta hjer kvæði, sem Guðnýu heitinni er eignað. Það er ljóðabrjef, sem hún á að hafa kveðið á banasænginni, og viljum vjer ei tala fleira um hvernig á því stendur, en geta aðeins hins að ei er með öllu víst að kvæðið sje eptir hana; og hafa sumir eignað það Bjarna heitnum Thórarensen, og það verður heldur ekki varið að það í öllu ber mikinn keim af skáldskap hans. En hver sem nú hefur kveðið kvæðið, þá er það þó víst að það er ort undir nafni Guðnýar heitinnar og að það er fallegt kvæði. Það er prentað hjer með leifi sjera Jóns á Grenjaðarstað föður hinnar dánu skáldkonu.

(Norðurfari, 01.01.1848. Bls. 17-19. Leturbreytingar mínar.)

Leikfélag Hörgdæla frumsýnir leikverkið Þöggun þann 27. mars n.k., en þar er Guðný frá Klömbrum meðal persóna. Sjá nánar hér.

Leikfélag Hörgdæla frumsýnir leikverkið Þöggun þann 27. mars n.k., en þar er Guðný frá Klömbrum meðal persóna. Sjá nánar hér.

Best að hafa varann á – allir vissu að kvenfólk kunni ekki að yrkja og kvæðið var svo gott að það hlaut að vera eftir karlmann.

Guðný Jónsdóttir frá Klömbrum átti svo sannarlega skilið að fá eftirmæli á prenti, þótt kvenfólk væri almennt ekki heiðrað með slíku á þessum tíma. Hún varð fyrst kvenna til að fá birt eftir sig veraldlegt ljóð á prenti, reyndar ári eftir að hún dó. Þar kemur nafn hennar fyrir í fyrsta erindinu (af 11) og því erfiðara að draga í efa að hún hafi ort það:

Endurminníngjin er so glögg
um allt, sem að í Klömbrum skjeði;
firir það augna fellur dögg,
og felur stundum alla gleði —
þú gjetur nærri, gjæzkan mín!
Guðní hugsar um óhöpp sín.

(Fjölnir, Frjetta-bálkurinn (01.01.1837). Bls. 31.)

Helga Kress skrifaði grein um Guðnýju, „Gegnum orðahjúpinn. Líf og ljóð Guðnýjar Jónsdóttur frá Klömbrum“ árið 2008 og þar kemur ýmislegt fram um dapurlega ævi skáldsins. Eiginmaðurinn rak hana frá sér eftir 9 ára hjónaband, að því er virðist einkum fyrir þær sakir að hún var skáld en ekki hann, skrifaði betri stólræður en hann og átti auðveldara með að koma fyrir sig orði. Reyndar virðist kristilegi kærleikurinn hafa vafist eitthvað fyrir klerki, því hann neyddi konu sína til að koma yngsta barninu, dótturinni Sigríði, í fóstur tíu mánaða gamalli til að Guðný gæti unnið í heyskapnum. Einkasonurinn fékk að vera heima fram að skilnaðnum en þá var honum líka komið í fóstur. Tvö elstu börnin voru bæði dáin, svo að það má segja að Guðný hafi misst fjögur börn. Hún orti um þau öll, þetta kvæði á heimleiðinni yfir heiðina eftir að hafa farið með dótturina á fósturheimilið:

Myrkt er af kvíða.
Meybarnið fríða
menn frá mér taka.
Faðmur er snauður,
alheimur auður,
oft mænt til baka.
Samt má ei gleyma,
að sonurinn heima
semur mér yndi.
Augað hægt grætur,
til alls liggja bætur,
ef hver það fyndi.

Guðný Jónsdóttir var ekki nema rúmlega þrítug þegar hún dó en var orðin þekkt fyrir skáldskap, að minnsta kosti á Norðurlandi. Kvæði hennar gengu handskrifuð á milli manna – og þá aðallega kvenna – í meira en heila öld. Þegar loksins kom að því að safna þeim saman og gefa út tókst ekki að hafa upp á nema 28 kvæðum, en þau voru birt íGuðnýjarkveri 1951, í útgáfu Helgu Kristjánsdóttur. „Ekkert af ljóðum hennar er til í eiginhandarriti. Að mati Helgu Kristjánsdóttur mun margt hafa glatast af skáldskap hennar „og sumt viljandi eyðilagt“,“ segir í grein Helgu Kress.

Mér datt í hug sagan af Guðnýju um daginn, þegar einhver var að tjá sig um það á Facebook að konur hlytu að vera síður hagmæltar en karlar vegna þess að miklu færri kvæði væru til eftir konur. Þótt maður nenni ekki að eltast við allt bull sem dettur upp úr fólki á þeim vettvangi er kannski rétt að benda á að skýringarnar geta verið fleiri en skortur á skáldskapargáfu. Kannski hafa „skáldkarlarnir“ líka haft greiðari aðgang að prentmiðlum en „skáldkonurnar“, sem fengu ekki einu sinni að eiga kvæðin sem þær ortu í banalegunni.

—–

Í þessum pistli var að mestu stuðst við grein Helgu Kress, „Gegnum orðahjúpinn. Líf og ljóð Guðnýjar Jónsdóttur frá Klömbrum“, 2008. Þeir sem hafa áhuga á að vita meira geta fundið hana hér:https://notendur.hi.is/~helga/Gegnum%20or%C3%B0ahj%C3%BApinn.37-57.pdf.

Pistillinn birtist upprunalega á vefritinu Knúz þann 26.11. 2012.

Ein athugasemd við “„Hún skrifaði það ekki“ – af þöggun skáldkvenna

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.