Hættum að hugsa í tvíhyggju!

Höfundur: Ugla Stefanía Kristjönudóttir Jónsdóttir

woke up like this

Kæru skólar landsins,

Ég vil gjarnan tala við ykkur um ákveðna þemadaga sem ég verð oft vör við í skólum nú til dags. Þemadagarnir sem um ræða eru oft á þá leið að „í dag munu strákar verða stelpur og stelpur verða strákar“ eða „stelpur klæðast strákafötum og strákar stelpufötum.“

Nú veit ég ekki fyrir víst hverjar eru pælingar hvers og eins skóla fyrir sig, en ég ætla að gera ráð fyrir að þemadögunum sé ætlað að vekja athygli á fjölbreytileika fólks (eins og t.d. að transfólk sé til) og/eða það sé í lagi fyrir stráka að klæða sig í „stelpuföt“ og stelpur í „strákaföt“.

Það er margvíslegt athugavert við þessa nálgun. Í fyrsta lagi er hún bundin við viðvarandi kynjakerfi í okkar samfélagi sem gerir ráð fyrir því að við séum öll karlar og konur. Þetta kerfi úthlutar einnig körlum og konum ákveðna eiginleika, væntingar og jafnvel fatastíl. Ég vil taka það fram að það er ekkert „stelpu-“ eða „stráka-“ við ákveðin föt, þetta eru einfaldlega reglur bundnar við samfélagsleg gildi hverju sinni, gildi sem eru breytileg.

Þessi nálgun útilokar því að einstaklingar geti upplifað kyn sitt fyrir utan þetta kerfi, þ.e. ekki endilega sem stelpu eða strák. Krakkar sem eru t.d. non-binary eða genderqueer eru ekki aðeins útilokuð heldur líka jaðarsett. Það ætti því öllum að vera frjálst að klæðast þeim fötum sem þau kjósa að hverju sinni, alla daga, frjálst án afskipta frá síþreytandi kynjahöftum.

Í öðru lagi þá kemur þessi nálgun sér ekki vel fyrir unga trans-krakka sem eru nýbyrjuð í sínu ferli og byrjuð að lifa sem þau sjálf, því að skv. þessum reglum ætti t.d. trans strákur að klæða sig í „stelpuföt“ – sem ég þarf varla að taka fram að er fáranlegt. Ég átta mig fyllilega á því að trans-krakkar yrðu eflaust ekki neydd til þess að gera það, en það myndi vissulega undirstrika það að þau séu trans, ef þau eru einu krakkarnir sem taka ekki þátt.

Í þriðja lagi eru líka fullt af intersex-börnum sem passa ekki inn í þessa flokka út frá kyneinkennum, en þeirra kynvitund getur einnig verið margvísleg.

Það eru sífellt fleiri og fleiri börn að koma fram sem trans, hvort sem um ræðir non-binary eður ei. Einnig er það að verða algengara að krakkar kjósi að tjá sig með fatastíl og fara því oft á mis við kynjanorm, hvort sem þau eru trans eður ei. Það ætti því ekki að vera sértækur atburður ef strákur klæðist stelpufötum eða öfugt. Það er líka vert að nefna að þegar að transfólk á í hlut eru það heldur ekki „strákar sem verða stelpur“ eða „stelpur sem verða strákar“ eða „einstaklingur sem fæddist stelpa“ og þar fram eftir götunum. Slík orðanotkun ýtir undir þá mýtu að fólk einfaldlega „skipti“ bara og er illa lýsandi og gerir lítið úr upplifun viðkomandi. Ætíð á að tala um viðkomandi samkvæmt þeirra upplifun og kynvitund, ekki eftir hvaða kyn þau fengu úthlutað við fæðingu.

Það væri því mikið uppbyggilegra ef skólar settu sér stefnu um að öll börn megi klæðast þeim fötum sem þau kjósa og að haldnir séu frekar þemadagar þar sem er sérstaklega talað um þessi mál, en ekki búnir til svona pínlegir þemadagar sem eru í raun tímaskekkja.

Hættum að hugsa í tvíhyggju, við vitum öll að það er ekkert svo einfalt að vera annað hvort eða. Hvers vegna ætti eitthvað annað að gilda um kyn?

Þessi pistill birtist fyrst sem Facebook-færsla á vegg höfundar og er birt á Knúzinu með góðfúslegu leyfi.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.