Svört sól, bjart myrkur

Höfundur: Sigríður Guðmarsdóttir

sólmyrkvi

Prédikun á boðunardegi Maríu 22. mars 2015 í Brunneyjarkirkju á Helgalandi, Noregi

Svört sól.

Sólmyrkvi á himni.

Föstudaginn 20. mars gerðust undur og stórmerki á norðuhveli jarðar. Máninn gekk milli jarðar og sólu og myrkvaði sólina. Sólmyrkvinn varð sýnilegastur við Norður Atlantshaf og á Norðurpólnum. Í Noregi og á Íslandi sást deildarmyrkvi en almyrkvi á Svalbarða og nyrst á Færeyjum. Fólkið sem býr við ysta haf hafði safnast saman til að horfa upp í himininn þennan föstudagsmorgun. Margir höfðu fjárfest í sérstökum sólmyrkvagleraugum, aðrir notuðu rafsuðuhjálpa eða geisladiska og gamlar diskettur. Sjálf hafði ég límt gamlar filmur úr fjölskyldualbúminu inn í sólgleraugun mín með límbandi til að vernda augun. Og svo biðum við í Grænlandi, á Íslandi og Svalbarða, í Færeyjum Englandi og Noregi eftir sólinni að myrkvast.

Sólmyrkvinn átti að hefjast rétt fyrir klukkan ellefu árdegis í Brunneyjarsundi þar sem ég bý í Norður Noregi. Ég varð fyrir miklum vonbrigðum þegar byrjaði að snjóa um hálfellefu leytið. Svo varð allt hvítt og hvergi sást til sólarinnar sem hafði ætlað að beina sjónum mínum að þennan morgun. Ég átti að fara með hraðbátnum út til eynnar Vega og settist grautfúl niður í bátinn yfir því að hafa misst af þessum merkisatburði sem allir aðrir sjáendur við ysta haf fengju að upplifa þennan morgun. En skyndilega rofaði til. Það stafaði geislum af sólu inn í hraðbátinn,  það hlýnaði og ég setti upp sólvarnargleraugun mín með límbandsklístrinu og fjölskyldufilmunni.

Og svo sá ég myrkvann.

sólgleraugu Sigríðar

Það er skrýtið að segja þessi orð, það hljómar eins og þversögn að segja að maður sjái það sem er myrkt.

En ég sá myrkvann.

Ég sá hvernig sólkringlan sortnaði og eldurinn dansaði í kringum kringluna.

Og ég sá þann agnarsmáa hluta sólarinnar sem máninn skyggði ekki á.

Hann leit út eins og tungl,

Bjart, glitrandi tungl,

Mitt í myrkrinu.

Þessi sýn er eitt það fegursta sem ég hef séð um mína lífsfædda ævi. Mér varð hugsað til kirkjuföðurins Gregoríusar frá Nyssa sem kallaði Guð «hið bjarta myrkur» og fannst ég skilja hvað hann átti við.

II.

Svört sól.

Föstudagurinn 20. mars var bjartur og hamingjuríkur dagur við norður heimskautið. Samfélagsmiðlar flóðu af myndum af sólinni og sjálfsmyndum af fólki með undarleg gleraugu og rafsuðuhjálma sem horfðu til himins. Það voru svo margir glaðir á þessari stundu, upprifnir, auðmjúkir. Mörgum leið eins og þau hefðu upplifað eitthvað einstakt í lífi sínu.

En hvers vegna vorum við svona glöð?

Hvers vegna ætti einhver að vera glaður þegar sól tér sortna?

Er það ekki einmitt það sem við óttumst mest af öllu, að ljósið deyi og að sólin láti aftur auga sitt?

Það er eitthvað við þessa svörtu sól, sem kemur til okkar sem einstæður atburður í lífi okkar, sem er mikilvægt að hugsa aðeins meira um.

Næst þegar við höfum slíkan sólmyrkva á himni, er árið 2026, þegar börnin sem skírð voru í dag eru að nálgast fermingaraldur.

Kannski var það það sem mörg okkar horfðumst í augu við, að það væri ekki víst að við yrðum með árið 2026? Að nútíðin er það einasta sem við höfum í hendi og að við ættum að nýta hverja sekúndu lífs okkar á þann hátt sem veitir okkur lífsfyllingu?

Sólmyrkvi eru fréttir og skemmtun, en á bak við slík stórmerki má líka finna annan og dýpri undirtón.  Sólmyrkvi getur sagt okkur eitthvað um tilvist okkar, okkar eigið líf.

Þýsk ameríski guðfræðingurinn Paul Tillich talaði oft um kæros og krónos í skrifum sínum. Krónos að dómi Tillichs er okkar venjulegi tími frá vöggu til grafar, þar sem við vöxum upp úr barndómi, verðum unglingar og síðan fullorðnar manneskjur. Krónos er tími klukkunnar, sem tifar frá mínútu til mínútu og mælir æfi okkar alla.

Kæros, segir Tillich, er tíminn sem brýst inn í krónostíðina.

Kæros er tíminn þar sem Guð mætir okkar lífi.

Kæros er tíminn þar sem hið eilífa hittir tímann fyrir.

Þegar maður upplifir þessi litlu brot tímans, þar sem allt stendur kyrrt og opinberast í fegurð sinni og upphafningu, þá verður maður auðmjúkur, glaður og upprifinn, vegna þess að maður sér eitthvað sem er einstakt. Eitthvað sem maður sér kannski aldrei aftur á lífstíð sinni

III.

Í dag er boðunardagur Maríu, dagurinn þar sem við minnumst einstæðs atburðar. Það er dagurinn þar sem engillinn vitjaði Maríu samkvæmt Lúkasarguðspjalli. Þetta er dagurinn þar sem María vildi fæða Guð í heiminn, dagurinn þar sem kristið fólk hugleiðir Krist sem varð fóstur. Fóstrið er háð móður sinni um allt og þiggur líf sitt af blóði og næringu hennar.

Þessi hulin há sem boðunardagur Maríu segir okkur frá birtir guðsmynd sem er smá og í nánd við líkamann, guði sem liggur þétt við og hlustar eftir hjarta móður sinnar. Það er óvenjuleg guðsmynd, því að við erum vön því að ímynda okkur Guð sem er voldugur andi og býr í himninum. En það er vegna þess sem María tók við, nærði og óf í líkama sínum sem við höldum hátíð í kirkjunni á boðunardegi Maríu, hátíð á miðri lönguföstu.

Það er stórmerkileg tilviljun að þegar við höldum upp á boðunardag Maríu skuli sólin, máninn og jörðin rétt hafa lokið við að leika slíkt sjónarspil á himninum. Í kristinni táknfræði er tunglið tákn Maríu. Máninn í grískri og latneskri málfræði og öllum rómönskum nútímamálum er nefnilega kvenkynsorð og sólin er karlkynsorð á sömu málum. Það er þess vegna sem sólin táknar Krist og María mánann í vestrænni hefð. Og það kann að koma okkur spánskt fyrir sjónir, sem tölum norrænt tungumál og erum vön því að sólin sé kvenkyns og máninn karlkyns. Það má segja að þessi norræni viðsnúningur á kynjum himintunglanna sé okkar eigin kynjausli  í hefðinni.

boðun MaríuSólarkristur.

Mánamaría

Svört sól.

Við getum valið að líta svo á að reikistjörnur og tungl hafi prédikað fyrir okkur í fagra sóldansinum þennan föstudagsmorgun.

Það sem var svo undursamlega fallegt við sólmyrkvann var að hann gaf okkur möguleika á að sjá sólina.

Það var reynsla sem flest okkar upplifðum í fyrsta sinn.

Það tók svarta sól til þess að við gætum séð sólina.

Og við sjáum Guð vegna Maríu,

ákvörðunar Maríu,

gestrisni Maríu,

hugrekkis Maríu,

umhyggju Maríu.

Orðið hefði ekki getað orðið hold, ef manneskja hefði ekki tekið á móti því og nært það með hjartablóði sínu.

Hið eilífa kom inn í tímann.

Kæros mætti krónos.

Tunglið gekk milli sólar og jarðar.

Og það er ekki síst þess vegna sem við megum aldrei gleyma líkama okkar og hversu óendanlega mikilvægur hann er.

Við sjáum Guð með augum okkar, með líkama okkar og sjóntaugum.

Við sjáum Guð með okkar innri augum.

Boðunardagur Maríu, Mánadagurinn minnir okkur á fyrstu vöggu Guðs, staðinn þar sem við höfum öll verið ofin í móðurlífi. Mánadagurinn hjálpar okkur að sjá það sem er dýrmætt við alla líkama í sínum kynferðislega fjölbreytileika.

Og Guð heimsækir þessa líkama af ólíkum kynjum og hneigðum,

Stóra og smáa,

Fríska og veikburða,

Þykka og mjóa,

Unga og gamla

Af öllum litum húðarinnar og ekki alla með sömu hæfnina eða litningafjölda,

Í hjólastól og með Downs.

Svarta sólin minnir okkur líka á að sálarskuggar okkar eru ekki án þýðingar eða tilgangs. Öll list þarf ljós og skugga. Myrkrið gefur dýpt og mótvægi við ljósið og kristin trú sem tæki ekki slíka skugga og reynslu af þeim alvarlega væri yfirborðskenndur hressileiki en ekki trú.

Og þess vegna þökkum við hina svörtu sólu

Fyrir mánann sem sýnir okkur sólina

Og eldgeisla sólarinnar

Fyrir Maríu sem fæddi Jesú Krist

Fyrir líkamann sem ber uppi andann

Fyrir líkams dýpt og sálarskugga

Fyrir kæros sem brýst inn í hversdagskrónosinn okkar

Eins og sólmyrkvi.

Vegna þess að leyndardómur Guðs er hulin há sem eitt sinn var kölluð hið bjarta myrkur.

Sólin skín að nýju á hraðbátnum á leið til Vega. Ég ríf límbandið af gleraugunum og plokka filmurnar út. Ég vona að sólin hafi ekki skaðað augun í mér. Flestir í bátnum eru á leiðinni til jarðarfarar á Vega, en ég læt það samt eftir mér að stíga dálítinn sóldans í tilefni dagsins. Og ég þakka Guði fyrir sóldansinn sem ég hef upplifað með fólki frá Grænlandi og Íslandi og Færeyjum og ótal fleiri stöðum. Ég þakka fyrir viðburðinn sem hefur hreyft svo við mér.

Því að Guð er máttur.

Og sól og máni og jörð eru fögur í hreyfingum sínum

Og eilífðin heimsótti tímann í Jesú Kristi sem María fæddi í heiminn.

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.

Greinar og predikanir Sigríðar Guðmarsdóttur má lesa hér.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.