Höfundur: Brynhildur Björnsdóttir
Dóttir mín, sex ára, á sitt eigið orð yfir geirvörtur. Hún kallar þær týrbjöllur. Þannig skilgreinir hún sinn eigin líkama með sínum eigin orðum. Það er vissulega oft hváð og hún leiðrétt þegar hún talar um týrbjöllurnar á sér (þó það gerist nú ekkert oft) en hún hefur ákveðið að skilgreina sinn líkama svona og það er hið besta mál. Týrbjalla er fallegt orð.
Í gær ákvað fjöldi íslenskra kvenna að endurskilgreina líkama sinn á táknmáli samfélagsmiðlanna. Á því máli er nekt kvenna í besta falli spennandi og hættulegt tabú, í versta falli getur hún eyðilagt mannorð og sálarlíf þeirrar sem af einhverjum ástæðum verður fyrir því að nektarmyndir af henni fara í dreifingu, fyrst á samfélagsmiðlum og svo á vefsíðum þar sem markmiðið virðist vera að niðurlægja viðkomandi vegna nektar hennar. En hvað er niðurlægjandi og hver ákveður hvað er niðurlægjandi? Hver býr til skömm og hvernig er henni viðhaldið?
Mikið hefur verið rætt um mögulegar afleiðingar þess gjörnings sem fram fór í gær, þegar þúsundir íslenskra kvenna sýndu á sér brjóstin af fúsum og frjálsum vilja og settu myndir af þeim á netið. Þúsundir kvenna sem vildu breyta því hvernig líkami þeirra er hlutgerfður án þeirra samþykkis, þúsundir kvenna sem eru orðnar þreyttar á því að þurfa alltaf að vera að passa sig, þúsundir kvenna sem lifa í ótta við ofbeldi á hverjum einasta degi, þúsundir kvenna sem vilja skilgreina líkama sinn sjálfar. Og það tókst. Þær settu myndirnar af sér á netið og viðbrögðin voru jákvæð. Og blendin. Margir, þar á meðal ég, dáðust að kraftinum og framtakinu en óttuðust afleiðingarnar. Hefndarklám eða hrelliklám hefur drepið fólk. Skömmin sem fylgir því að vita af og vera stöðugt minntur á nektarmyndir sem einhverntíma rötuðu á netið og eru spyrtar saman við líf fólks það sem eftir er, hvort sem er í raunheimum eða þeim stafrænu, tekur mannslíf. Skömmin. Skömm er samfélagslegt fyrirbæri.
Ef við erum sammála um að það sé ekkert skammarlegt við kvenlíkamann og líka um að það sé ekki bara hægt heldur líka algerlega nauðsynlegt að taka skýra afstöðu þegar fólk tekur „áhættu“ eða“rangar“ ákvarðanir (eins og að þiggja far hjá ókunnugum, drekka áfengi eða klæðast pilsum svo dæmi séu tekin um það sem konum hefur verið gert að taka ábyrgð á ef þær eru beittar ofbeldi ) þá erum við líka sammála um að þó margar stelpur hafi sett myndir af sér á netið á brjóstunum einum fata gefi það engum, hvorki samfélaginu né ofbeldismönnum, rétt á að beita þær ofbeldi, hvort sem það er í formi eltihrellingar eða skammar.
Raunverulegar mögulegar neikvæðar afleiðingar af þessum gjörningi eru tvennskonar: að einhverjir ógeðseinstaklingar frói sér yfir myndunum, skrifi við þær ljótar og meiðandi athugasemdir og reyni að hafa samband við konurnar á myndunum sem eru nafngreindar og persónugreinanlegar. Við því er lítið hægt að gera og skömmin öll þeirra sem slíkt stunda. Hvað varðar skömmina í samfélaginu hér á Íslandi, skömmina sem fylgir því að myndirnar séu spyrtar við nafn viðkomandi um aldur og ævi og geti skotið upp kollinum í því samhengi hvenær sem er, þá er ekkert við þá skömm að gera nema að ákveða að það að hafa tekið af sér nektarmyndir og sett þær í umferð sé ekki skammarlegt. Munum að mjög margar þeirra nektarmynda sem fara í dreifingu og enda sem hrelliklám hefja ferðina sem samþykktar, þ.e. þetta eru myndir sem einhver tekur af sjálfri sér og sendir einhverjum sem hún treystir. Í þessu tilfelli var sá aðili samfélagið allt. Við verðum að leggja okkur öll fram um að vera það samfélag að við séum þess trausts verð. Skömm er samfélagslegt fyrirbæri.
Ég er sannfærð um að sú frelsun geirvörtunnar sem átt hefur sér stað, mun skila sér í auknu umburðarlyndi og þverrandi tepruskap gagnvart brjóstum á almannafæri hérlendis og er það vel. Ég er hinsvegar því miður ekki jafn sannfærð um að myndirnar sem hafa gengið um netið ljósum logum af íslenskum konum með brjóstin ber verði ekki mögulega notaðar í öðrum tilgangi en þeim var ætlað. Og mögulega verða nöfn þessara kvenna spyrt saman við þessar myndir á vafasömum og jafnvel ógeðfelldum vefsíðum næstu ár eða áratugi. Það er hinsvegar okkar sem samfélags að ákveða hver við viljum að beri skömmina af því: þær sem eru á myndunum eða þeir sem taka myndirnar úr því samhengi sem þær eru birtar í og dreifa í þeim tilgangi að hlutgera eða niðurlægja. Miðað við kraftinn í þessu átaki og orkuna sem streymir frá þessum (mestmegnis) ungu konum eru þetta framtíðarstjórnendur þessa þjóðfélags, þingmennirnir okkar, ráðherrarnir, forstjórarnir, forsetarnir…
Skömm er samfélagslegt fyrirbæri. Og það er okkar sem samfélags að skilgreina hvað er skammarlegt og hvað ekki. Ef einhverjar þessara mynda stinga upp kollinum þegar þessar konur láta til sín taka í framtíðinni berum við öll ábyrgð á að bregðast við á réttan hátt: með stolti.
Bakvísun: Bræði, brjóst, bylting: Úr dagbók geðilla femínistans | Knúz - femínískt vefrit
Bakvísun: Áfram berbrystingar! | Knúz - femínískt vefrit
Bakvísun: Ekki þín drusluganga | Knúz - femínískt vefrit
Bakvísun: Knúzannállinn 2015 | Knúz - femínískt vefrit