Í dag 29. mars birti Knúz.is grein eftir Hildi Guðbjörnsdóttur sem heitir „Ekki þín drusluganga“. Greinin hefur þegar hlotið mikla útbreiðslu og vakið eftirtekt annarra fjölmiðla. Grein Hildar fjallar um hina svokölluðu „brjóstabyltingu“ á fimmtudaginn og þar er að finna gagnrýni á aðra grein sem birt var í Kvennablaðinu 28. mars. Um miðjan dag í dag birti síðan Kvennablaðið grein Hildar í heild sinni. Þetta er gert án samþykkis Knúzzins og í óþökk og án samráðs við höfund greinarinnar. Með greininni fylgir engin texti eða umfjöllun frá Kvennablaðinu sjálfu, heildartextinn er tekinn hrár upp af Knuz.is.
Fagleg vinnubrögð og vönduð ritstjórn eru það umhverfi sem gefur hverjum miðli og höfundi trúverðugleika. Ritstjórn Knúzzins leggur sig fram um að ástunda slík vinnubrögð og hefur uppskorið tryggan lesendahóp sem gerir ritstjórnarlegar kröfur. Við erum þakklát fyrir þann stuðning og aðhald. Knúzið mun hér eftir sem hingað til ástunda fagleg vinnubrögð í því að vísa beint á tengla á viðkomandi vefritum þegar vitnað er í efni á þeirra miðlum og kalla eftir leyfi höfunda til birtingar og þýðingar. Því geta lesendur okkar treyst.
Öll skrif og ritstjórn hjá Knúzinu eru unnin í sjálfboðastarfi fólks úr ýmsum áttum. Það á það sameiginlegt að hafa brennandi áhuga á kvenfrelsi og vill nota greiningaraðferðir femínisma til að rýna í ýmis samfélagsmál. Ritstjórn Knúzzins hvetur áhugasama lesendur um kvenfrelsi til að lesa grein Hildar á þeim vettvangi sem hún kaus sér sjálf að birta skrif sín á: https://knuz.wordpress.com/…/20…/03/29/ekki-thin-drusluganga.
Ritstjórn Knúzzins vill þakka lesendum fyrir dyggan lestur miðilsins.
Þetta kemur lítið á óvart. Kvennablaðið birti bréf til Birgittar Jónsdóttir sem var bara sent á hana sjálfa og inn á lokaðann spjallhóp hjá pírötum. Spurning hvort miðill sem þurfi að ræna sér efni frá öðrum miðlum og lokuðum spjallhópum hafi raunverulegan rekstrargrundvöll. Einnig er spurning hversu hátt hlutfall efnis á vefmiðlinum er fengið með þessum hætti. Nú eru komin tvö dæmi á örfáum dögum!