Af hverju ég?

Höfundur: Silja Snædal Pálsdóttir

SiljasnædalÉg heiti Silja Snædal Pálsdóttir og  er á mínu fyrsta ári í Menntaskólanum við Hamrahlíð. Í liðinni viku byrjaði umræða um brjóst og geirvörtur á Twitter í síðustu viku.  Engan óraði fyrir að þetta yrði ekki aðeins umræða heldur bylting.

Þetta byrjaði allt á einni hugrakkri stelpu, Öddu Þóreyjardóttur og Smáradóttur sem var það kjörkuð að setja mynd af fallegu brjóstunum sínum á alnetið. Margar fylgdu hennar fordæmi og fljótlega fylltist Twitter af gullfallegum brjóstum í öllum stærðum og gerðum.

Á miðvikudaginn í síðustu viku fylgdist ég vel með umræðunni og hugsaði með mér þegar ég sá fyrstu brjóstamyndina: “er þetta nú sniðugt?Þetta mun alltaf vera til á netinu”. Ætli flestir hafi ekki hugsað eitthvað svipað fyrst um sinn.

Ég hugsaði mig svo betur um og spurningin kom upp í hugann minn: “Hefði ég hugsað það sama ef strákur hefði sett mynd af sér berum að ofan?” Ég held nefnilega ekki.

Þennan dag hugsaði ég mikið út í það hvort ég ætti að setja mynd af brjóstunum mínum á Twitter. Eins og ég geri alltaf þegar ég þarf að taka stóra ákvörðun bjó ég til lista yfir kosti og galla:

Kostir: Ég er að styðja stelpur sem hafa lent í hrelliklámi

Ég er að hjálpa til við að útrýma mýtunni um fullkomin

brjóst, sem hefur orðið til vegna klámvæðingarinnar

Ég er að eigna mér minn eiginn líkama. Ég er loksins að

taka völdin frá helvítis feðraveldinu og ráða því sjálf hvenær, hvort

og hvernig ég sýni líkamann minn

Það getur enginn notað brjóstin mín gegn mér. Það getur enginn tekið mynd

af þeim og kúgað mig með mínum eigin líkama

Ég mun loksins geta sýnt öllum hvað ég er með falleg brjóst

Gallar: Myndin verður að eilífu á netinu og getur lent hjá hverjum sem er

Það er augljóst að kostirnir eru mun fleiri en gallarnir og því ákvað ég að setja inn mynd af brjóstunum mínum. Daginn eftir var FreeTheNipple dagur í MH sem við í stjórn Feministafélags MH eða Emblu eins og það er gjarnan kallað, stóðum fyrir. Dagurinn var líka haldinn hátíðlegur í fleiri skólum. Ég tók þá ákvörðun að mæta berbrjósta í skólann. Flestir tóku því fagnandi, nemendur þá sérstaklega og fékk ég margar skemmtilegar kveðjur. Kennararnir mínir voru líka duglegir að spyrja spurninga um þetta og þegar ég útskýrði hvers vegna ég væri að þessu, fannst þeim þetta vera flott og studdu mig í þessu.

Í einum tíma var mér var bannað að vera berbrjósta.

Íslenskukennarinn, kona á miðjum aldri, vildi eiga við mig orð áður en ég fengi að fara í tímann. Samtalið fór fram á skólaganginum fyrir utan stofuna og var svohljóðandi:

Kennarinn: Þú ferð ekki svona inn í tíma til mín, viltu vinsamlegast hylja þig.

Ég: Hvers vegna?

Kennarinn: Ég vil ekki að þú sért berbrjósta í tíma hjá mér. Viltu fara í bol.

Ég: Ég ætla ekki að hylja mig, og hvers vegna ætti ég að gera það?

Kennarinn: Ég vil ekki einu sinni ræða það, annaðhvort ferðu í bol og kemur inn í tímann eða þú kemur ekki inn það er enginn millivegur.

Ég: Þá kem ég ekki í tíma til þín.

Ég fór svo til skólastjórans sem hlustaði á mína hlið, var áhugasamur um byltinguna og líkti mér við Helga Hóseasson, sem ég tók að sjálfsögðu sem hrósi. Við vorum sammála um það að ég myndi ekki fá fjarvist fyrir þennan tíma og að ég myndi senda kennaranum bréf til að lýsa yfir óánægju minni. Ég fór svo með vinkonu minni að borðinu mínu og sá að ég hafði fengið skilaboð. Þau voru frá vini mínum sem er með mér í þessum íslenskutíma og í þeim stóð að kennarinn hafi farið út en kæmi fljótlega aftur og að þeir væru nokkrir strákar sem höfðu farið úr að ofan. Ég flýtti mér í kennslustofuna og knúsaði þessa frábæru vini mína. Við stóðum svo öll þarna, ber að ofan þegar kennarinn kemur inn. Hún spyr okkur hvað þetta eigi að þýða og við svörum að við viljum frelsi og jafnrétti. Kennarinn sagði að hún léti ekki bjóða sér þetta og labbaði út úr tímanum.

Þegar mér var sagt að hylja mig af kennara, sem á að vita betur en ég, á að vera fullorðinn og á að vera fyrirmynd, skammaðist ég mín. Skömmin varði ekki lengi en ég hugsaði með mér hvort það væri eitthvað að líkamanum mínum, á hann bara að vera fyrir mig, með því að sýna hann er ég að gera eitthvað af mér?

Af hverju þarf ég að fela brjóstin mín? Af hverju truflar það aðra að ég sé ber að ofan ef mér finnst það vera þægilegt? Ef einhver fær kynferðislega örvun vegna brjóstanna minna af hverju þarf ég að laga það? Af hverju lendir sökin á mér?

Flestar stelpur hafa fundið fyrir létti og frelsistilfinningunni þegar þær deildu brjóstunum sínum með heiminum. Þetta er tilfinning sem þú vilt ekki missa. Stelpur byrjuðu því að opna sig og tala opinskátt um geðræn vandamál ásamt fleiri erfiðleikum sem þær hafa glímt við.

Byltingin er því að dreifast á önnur svið sem fólk hefur verið hrætt við að hætta sér inn á. Ég vona að það haldi þannig áfram og að við getum talað opinskátt um það sem hefur áður verið feimnismál. Ég vona líka innilega að framtíðarkynslóðir tali um brjóstabyltinguna miklu árið 2015 og hversu fáránlegt það er að stelpur hafi ekki getað verið berar að ofan í sundi, á sumrin eða bara þegar þær vildu.

En svo að þessi von verði að veruleika verðum við að standa saman og þora, geta og vilja.

Ræða flutt á opnum fundi VG og UVG þann 30. mars á Kex hostel og birt með leyfi höfundar.

Frá ritstjórn:  „Óheimilt er að afrita eða endurbirta greinar í heild sinni án leyfis höfundar eða ritstjórnar knuz.is. Leyfilegt er þó að birta hluta úr greinum, enda sé vísað til upprunalegra greina þar sem lesendum gefst kostur á að lesa þær í heild sinni,“

2 athugasemdir við “Af hverju ég?

  1. Bakvísun: Við tókum valdið | Knúz - femínískt vefrit

  2. Bakvísun: „Þetta snýst nefnilega um val“ | Knúz - femínískt vefrit

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.