Höfundur: Laufey Ólafsdóttir
Þegar Madonna var rísandi stjarna á níunda áratug síðustu aldar komust fjölmiðlar á snoðir um nektarmyndir af henni úr fortíðinni. Blaðamaður nálgaðist Madonnu (sennilega í þeim tilgangi að slá hana útaf laginu og krækja í sjokkerandi frásögn) og spurði hana út í myndirnar. Svar Madonnu var einfalt og sló áframhaldandi umræðu út af borðinu: Hvað með það? (So what?)
Ég er nokkuð róleg að eðlisfari, en eitt af því sem hefur pirrað mig þó nokkuð í gegnum tíðina eru afskipti samfélagsins af því sem ég klæðist. Hér er lítil dæmisaga því til stuðnings:
Þegar ég var á milli tvítugs og þrítugs var ég stödd á skemmtistað. Þar var margt um manninn, mikið dansað og hitastigið á staðnum var samkvæmt því. Ég var klædd í gallabuxur og skyrtu og var því frekar heitt. Ég tók á það ráð að hneppa frá skyrtunni, en innanundir var ég í bikinibrjóstahaldara. Skyndilega vatt sér að mér stelpa sem óaðspurð bað mig vinsamlegast að hneppa að mér því ég væri að gera mig að fífli. Hún benti jafnvel á hóp af fólki sem hún var með og sagði að allir sem væru með henni væru að tala um þetta. Ég varð yfir mig hneyksluð, enda var ég meira klædd en margir þarna inni. Ég benti stelpunni á að mér væri nokkuð sama hvað henni eða öðrum þarna inni fyndist, mér væri heitt og ætlaði að hafa hneppt frá og bað hana bara vinsamlegast að horfa eitthvert annað. Því næst fór ég úr skyrtunni. Að minnsta kosti í huganum á mér. Ég hneppti allavega ekki upp.
Ég veit enn í dag ekki hvað það var sem pirraði þessa stelpu svona mikið við að það sæist í bringuna á mér. Ég hugsa hinsvegar oft til þessa augnabliks þegar ég heyri umræður um fatnað kvenna eða skorts á fatnaði, og þær jafnvel gagnrýndar og persónugerðar eftir þessu. Ég skil baráttuna gegn því að konur séu látnar halda að þær þurfi að sýna hold til að fá athygli, en ég skil ekki forsjárhyggjuna sem felst í því að banna konum að sýna hold ef það er þeirra val, hvort sem það er af praktískum ástæðum, til dæmis þegar þeim er heitt, eða bara eftir smekk.
Þetta atvik, og fjölmörg önnur úr minni fortíð, komu aftur upp í huga minn í vikunni, þegar kynslóð dóttur minnar hratt af stað byltingu sem snerist um að bera á sér brjóstin, bæði á almannafæri og á samfélagsmiðlum. Gjörningurinn var kannski ekki sérstaklega skipulagður, og að sjálfsögðu hefði verið ákjósanlegt að foreldrar og þeir sem sjá um fræðslu og menntun ungs fólks hefði getað rætt þessi mál við ungmenni landsins um tilganginn áður en herlegheitin skullu á. Byltingin gerir hinsvegar ekki alltaf boð á undan sér.
Ég ER femínisti. Fyrir mér stendur sá titill fyrir að hvetja aðrar konur í því sem þær eru að gera gott í sínu lífi og þeim líður vel með, en ekki dæma þær eða gera lítið úr þeim fyrir það sem fer í taugarnar á mér. Ég ætla því ekki að skamma konur sem ekki studdu þennan gjörning, heldur reifa hér hvers vegna ég er á öndverðri skoðun. Margar af þessum konum eru konur sem mér þykir vænt um, konur sem ég ber virðingu fyrir og konur sem ég er oft og tíðum að öðru leyti sammála.
Ég ætla ekki að ræða viðhorf karlmanna sérstaklega hér, en mér fannst virkilega flott öll þau hvatningarorð sem konur fengu frá karlmönnum sem skildu baráttuna með vísan í þá hræsni sem felst í ólíkum viðhorfum til líkama karla og líkama kvenna. Ég tek ofan fyrir öllum þeim karlmönnum sem styðja jafnréttisbaráttu í reynd með því að sýna konum virðingu bæði í orði og á borði.
Umræðan um misvísandi skilaboð til unglingsstúlkna:
Ég mæli engan veginn með að fólk undir lögaldri pósti myndum af sér nöktu eða hálfnöktu á netinu. Þarna er ég bæði að tala um stelpur og stráka. Hinsvegar eiga unglingsstúlkur sömu kröfu til þess að ganga um berar að ofan og unglingsstrákar, þá auðvitað við þær aðstæður sem slíkt er á annað borð viðeigandi.
Hitt er svo annað mál að börn eiga ekki að þurfa að taka þátt í baráttu. Við sem höfum aldur til berjumst fyrir þau. Því má halda til haga.
Umræðan um að vera tekin alvarlega:
Konur hafa barist fyrir því að vera teknar alvarlega og sú barátta heldur auðvitað áfram, hvort sem við erum í fötum eða ekki. Spurningin er kannski frekar sú, hvort við einblínum ekki of mikið á ytra útlit þegar við leggjum mat á hvern á að taka alvarlega. Kannski er kominn tími til að við getum verið alveg jafngáfaðar hvort sem við erum berar að ofan, í dragt, lopapeysu eða upphlut. Það skiptir einfaldlega ekki máli í hverju við erum eða erum ekki, heldur hvað við höfum fram að færa sem manneskjur. Eru þetta virkilega fréttir árið 2015?
Umræðan um að myndirnar lifi eftir atburðinn:
Algerlega nauðsynlegt að brýna þetta fyrir ungum stelpum, en einungis vegna þess að það er ekki fyrir hvern sem er að þagga niður í alls konar nöldri og böggi sem fylgir því að ögra samfélagslegum viðmiðum. Um leið vil ég samt benda fólki á að þessi punktur er í eðli sínu ein af ástæðunum fyrir að þessi bylting fór í gang. Það að til sé mynd af þér nakinni sem fjöldi manns hefur séð dregur á engan hátt úr trúverðugleika þínum sem persónu. Myndin ógildir ekki háskólagráðurnar þínar eða gerir þig að hryðjuverkamanni. Hún sýnir bara að þú ert nakin undir fötunum.
Fjölmargar konur í skemmtanabransanum hafa sést berbrjósta í ýmsum miðlum og milljónir manns barið þær augum í alls kyns tilgangi. Myndunum hefur verið dreift og deilt og viti menn, jörðin heldur áfram að snúast. Lífið heldur áfram. Margar þessara kvenna eru harðir femínistar, vinna góðgerðarstarf, eru mæður, ömmur, venjulegar konur. Það að þær hafi sést naktar gerir þær ekki að slæmum fyrirmyndum eða vondum manneskjum, það sýnir bara að þær eru mannlegar.
Umræðan um „göfugan málstað”:
Karlar mega ganga um berir að ofan, og dreifa myndum af sér þannig, án þess að við kippum okkur upp við það. Af hverju súpum við hveljur þegar konur gera það sama? Umræðan um hvort brjóst séu kynfæri eða kynferðislega örvandi er ekki einu sinni svara verð því að það skiptir í raun ekki nokkru máli. Staðan er þannig að sumir mega vera berir að ofan, aðrir ekki og það er ekki jafnrétti.
Ég næ því sjónarmiði að nekt sé ekki endilega eftirsóknarvert jafnréttismarkmið sem slík og hljómar að sjálfsögðu minna göfugt en kosningaréttur og launajafnrétti. Það sem hér er hinsvegar ekki tekið með í reikninginn er heildarmyndin af sjálfsmynd kvenna, sem svo sannarlega skiptir máli og á fullt erindi við jafnréttisbaráttuna í heild. Stelpurnar okkar hanga með vinum sínum, stunda íþróttir og lifa lífinu. Þegar strákarnir fara úr að ofan í sólinni á Austurvelli, á fótboltavellinum eða í sundi þá eiga stelpurnar ekki að þurfa að svitna af hræðslu við að valda usla eða vera óviðeigandi við að gera það sama. Þarna snýst jafnrétti um að ein líkamsgerð sé ekki ákveðin dónalegri en önnur. Þarna snýst málið fyrir konu um að geta gert það sama og karlmenn gera blygðunarlaust, án þess að vera sökuð um að vera athyglissjúk eða ódönnuð.
Þetta er ekki barátta um að fá að vera nakin, heldur um að við séum ekki sérstaklega dæmdar fyrir að vera jafnnaktar og aðrir við sömu aðstæður.
Þetta snýst ekki um að við eigum alltaf að vera naktar alls staðar hvort sem okkur líkar betur eða verr, heldur að við lærum að umgangast líkama okkar og annarra af gagnkvæmri virðingu. Hvað er ógöfugt við þann málstað?
Viðhorf eru bara viðhorf, ekki náttúrulögmál.
Þótt víðtekin viðhorf séu á einn veg núna, þarf það ekki að þýða að þau eigi alltaf að vera eins. Þessi bylting snerist einmitt um að breyta viðhorfum, því það gerist nefnilega ekki af sjálfu sér. Við vitum líka að þetta gerist ekki á einum degi og baráttan er ekki búin, heldur rétt að byrja og hún þarf mikinn meðbyr.
#FreeTheNipple gerði mig stolta af ÖLLUM stelpum á Íslandi.
Ég er stolt af dóttur minni og þeim hugrökku ungu konum sem beruðu brjóst sín stoltar með skilaboðum til samfélagsins, tilbúnar að taka hugsanlegum afleiðingum og skítkasti.
Ég er stolt af þeim stelpum sem ekki beruðu brjóst sín en hvöttu vinkonur sínar áfram með jákvæðum athugasemdum og skilaboðum, skrifuðu pistla málinu til stuðnings og tóku þátt á þann hátt sem þeim leið vel með.
Ég er stolt af þeim stelpum sem birtu myndir af sér, en ákváðu, eða eiga eftir að ákveða að taka myndirnar niður. Ég vona að þær standi þó sáttar við upphaflegu ákvörðunina og láti ekki segja sér að þær hafi gert eitthvað rangt. Ef þessar myndir svo dúkka upp seinna vona ég að þær svari fyrir það á svipaðan hátt og Madonna gerði á sínum tíma: „So what?”
Ég er líka stolt af þeim stelpum sem ekki tóku þátt og höfðu engan áhuga á að taka þátt. Það er gott að standa með sjálfum sér og láta ekki aðra segja sér hvað á og á ekki að gera. Þið eruð ekki teprur eða skræfur, heldur standið fast á ykkar skoðunum. Ekkert að því.
Sama hvað þið gerðuð, vona ég að þið hafið borið virðingu fyrir ákvörðunarrétti annarra kvenna því um það snýst baráttan í heild sinni.
…og ef þið sjáið undirritaða með niðurhneppta skyrtu í framtíðinni, plís ekki segja henni að hylja sig. Það gæti endað illa!