„Þetta snýst nefnilega um val“

Höfundur: Adda Þóreyjardóttir Smáradóttir

 

Adda Þóreyjardóttir Smáradóttir

Þann 24 mars 2014 kom ég heim af ræðukeppni í skólanum, settist niður við tölvuna og sá að Feminstafélag Verzlunarskóla Íslands hafði efnt til „FreeThe Nipple“dags. Í skólanum undanfarna daga hafði verið umræða um ritskoðun eftir að í útgefnu efni nemendafélagsins hafði verið ritskoðuð úr virkilega listræn og falleg mynd þar sem sást í brjóst konu, en samskonar mynd af karlmanni hafði ekki verið ritskoðuð.

Ég fór að hugsa um af hverju brjóst væru svona mikið tiltökumál og af hverju það væri skömm að ég væri berbrjósta, og hvers vegna ég mætti ekki vera berbrjósta  þegar mig langaði til. Af hverju ég hefði ekki valið, eins og strákarnir, og gæti rifið mig úr bolnum án þess að vera litin hornauga.

Eftir umræðu á Twitter póstaði vinur minn mynd af geirvörtunni sinni með hashtaginu #FreeTheNipple, sem endaði með því að ég póstaði mynd af minni geirvörtu. Mér fannst það ekkert mál og mjög sjálfsagt enda tóku vinir mínir vel í það. Þá tók ég upp á því að pósta brjóstamynd af mér, það var erfiðara og ég tók smá tíma í að hugsa þetta. Ég talaði við vini mína og passaði mig að fara yfir mögulega kosti og galla þess að að gera þetta. Ég póstaði myndinni af mér berbrjósta og fékk frábær viðbrögð.

Ég tók hana hinsvegar niður þegar pabbi minn gerði mér grein fyrir að þetta gæti haft áhrif á skiptinámið  sem ég áætlaði að fara í, en ég hafði stefnt á að fara til Suður-Ameríku þar sem löndin eru langflest strangkaþólsk. Það kom svo á daginn að þetta kann að hafa haft þau áhrif að ég er ekki á leiðinni í skiptinám til Mið- eða Suður-Ameríku á vegum AFS. Í dag fékk ég tilkynningu frá starfsmanni hér á landi að ég fengi ekki að fara til Costa Rica sökum ofnæmis, en starfsmaðurinn sagði mér líka að eitthvað meira væri þar að baki, og neita þau að senda umsóknina mína til annarra landa á þessu svæði.

Daginn eftir var ég uppfull af stressi yfir því að vera fara í skólann og þurfa hitta krakkana og mögulega taka einhverjum afleiðingum.  Ég upplifði þó enga eftirsjá eftir að hafa póstað myndinni, enda ekkert sem ég hafði gert rangt. Þegar leið á daginn fékk ég einhver neikvæð komment á Twitter. Ég kippti mér ekkert upp við það en svo virðist sem að allir í kringum mig hafi gert það.

Vinir mínir svöruðu fyrir mig og stóðu með mér. Eitt leiddi af öðru í umræðunni á netinu og fljótlega voru fjölmargar stelpur búnar að pósta myndum af sér berbjósta með hashtaginu #FreeTheNipple. Ég var virkilega þakklát fyrir samstöðuna og fylltist miklu stolti. Ég upplifði enga pressu á neinn til að pósta myndum af sér og virtust allir, af þeim sem ég þekki, hafa gert það vitandi hvað þeir voru að fara út í. Sumir eyddu myndunum af sér eftir smástund en aðrir ekki.

Það sem mér fannst magnað var samstaðan. Konur alls staðar að á Íslandi úr mismunandi skólum, vinahópum, hópum í samfélaginu, stelpur sem höfðu sett myndir af sér og líka þær sem ekki vildu gera það stóðu saman og mynduðu tengsl og höfðu allar sameiginlegan tilgang, að taka valdið á eigin líkama. Að eignast aftur 100% rétt á að ákveða hvað þær gerðu við sinn líkama. Þetta snýst nefnilega um val, þú átt að geta valið hvað þú gerir við þinn líkama.

Ef við lítum aðeins á söguna komumst við fljótlega að því að fyrir aðeins 100 árum eða svo var það ekki samfélagslega samþykkt í hinum vestræna heimi að konur eða karlar væru ber að ofan. Síðan breyttust sjónarmiðin og karlar máttu það, en ekki konur.  Sagan og menningin breyta sjónarmiðum okkar, samfélagið breytir okkur. Það breytist þó ekki að í líffærafræði eru brjóst ekki skilgreind sem kynfæri. Samfélagið hefur ákveðið þetta. Feðraveldið hefur ákveðið þetta.

Geirvartan er það sem við konurnar eigum sameiginlegt með körlunum, þeir eru ekki með mjólkurkirtla og brjóstin þeirra stækka ekki á kynþroskatímabilinu, en samt virðist það vera geirvartan sem fólk er hræddast við af þessu öllu. Það er í lagi að vera í push-up brjóstarhaldara og það er í lagi að vera með sideboob en um leið og geirvartan fer á stjá höfum við gengið of langt, þá eigum við að skammast okkar. Með þeirri klámvæðingu sem hefur aukist síðastliðna áratugi hefur samfélagið farið að líta öðruvísi á brjóst. Brjóst eru orðin kynferðisleg.

Brjóst hafa eins og aðrir hlutar líkamans mismunandi hlutverk eftir því í hvaða aðstæðum við erum. Það að við höfum vald til að njóta líkama okkar og notfæra okkur töfra líkamans í öllum þessum mismunandi aðstæðum er að stórum hluta það aðgerðin snýst um. Að þú hafir valið um hvað þú gerir og hvernig þú gerir hlutina. Það að segja fokkaðu þér við þessi samfélagslegu viðmið sem banna mér að fara berbjósta í sund. Að gengisfella hefndarklám og segja nei við því að kyngera líkama annarra. Að kenna nýjum kynslóðum að þú ræður hvað þú gerir og fræða hina.  Að hætta að skammast sín fyrir líkamann og þær ákvarðanir sem við tökum um hann og koma skömminni yfir á þá sem vilja misnota sér stöðu okkur, líkama og aðstæður.

Enn er langt í land, en við sem styðjum þetta og viljum breyta einhverju verðum að hjálpast að. Að minna reglulega á þetta og gefast ekki upp. Feðraveldið á sér ennþá stað, konur eru ennþá kúgaðar og klámvæðingin heldur áfram en þetta mun breytast, það gerist ekki á einni nóttu og mun eflaust taka langan tíma en ég vona, af öllu mínu hjarta að það verði litið eins á framtíðarbörnin mín þegar þau liggja saman ber að ofan og sóla sig á Austurvelli. Að skömminni hafi verið eytt að eilífu.

Við erum að reyna að breyta samfélaginu okkar og vonandi mun það takast, en ef við reynum ekki getum við gleymt því að breyta nokkru. Lifi byltingin, lifi berbrystingar, áfram stelpur!

Ræða flutt á opnum fundi VG og UVG þann 30. mars á Kex hostel og birt með leyfi höfundar.

Lesið einnig erindi Silju Snædal Pálsdóttur, Af hverju ég? og erindi Huldu Hólmkelsdóttur Við tókum valdið, sem flutt voru við sama tækifæri.

 

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.