Við tókum valdið

Höfundur: Hulda Hólmkelsdóttir

HuldaHólmkelsÉg var svolítið ringluð þegar ég byrjaði að hugsa um þetta litla erindi mitt. Ég tók sjálf þátt með því að birta mynd af mér en mér fannst hugsanirnar mínar samt sem áður vera svolítið út um allt í kringum þessa byltingu, ég átti einhverra hluta vegna mjög erfitt með að staðsetja þær. Þannig að ég ætla bara að byrja á byrjuninni og reyna að svara stóru spurningunni.

Er geirvartan frelsuð? Nei, að sjálfsögðu er hún ekki frelsuð ennþá. Hún verður ekki frelsuð fyrr en það að konur birti myndir af sér berbrjósta teljist vera normið og enginn kippir sér upp við það. En breytingar byrja heima og við erum byrjaðar. Tepruskapur fer nefnilega yfir samfélög í bylgjum eins og svo margt annað og á meðan við verðum gegnsýrð af klámi sem er alls staðar virðumst við verða viðkvæmari og viðkvæmari sem samfélag í heild fyrir okkar eigin líkömum. Eða viðkvæmari er kannski ekki alveg rétta orðið. Biluð finnst mér réttara orð. Vegna þess að það er algjör bilun að það sé búið að kyngera kvenmannsbrjóst svo harkalega að allir og amma þeirra missi sig yfir því að fólk birti af sér brjóstamyndir.

Í fyrsta lagi: BRJÓST ERU EKKI KYNFÆRI. Brjóst geta verið kynæsandi og allt það. En við getum ekki látið samfélagið stjórnast af því hvað einhverjum hluta mannkyns finnst kynæsandi. Mér finnst bök til dæmis mjög kynæsandi. Ég hef sagt alveg gífurlega heimskulega hluti og misst mig í umræðu um bakið á hinum og þessum sem ég er skotin í hverju sinni. En ég ætlast samt ekki til þess að karlmenn hylji bök sín til að ég geti fúnkerað í daglegu samfélagi. Ég hreyti ekki fúkyrðum í karlmenn sem birta myndir af bakinu á sér á internetinu. Ég downloada ekki myndum af bökum ókunnugra manna og fróa mér yfir þeim. Ég sturlast ekki í úr örvun í hvert skipti sem ég sé bak. Það á allt sér stað og stund. Bak er jafn mikið kynfæri og brjóst.

Fyrir mér snýst þetta nefnilega aðallega um það að normalísera brjóst. Vinkona mín sem er búsett í Kaupmannahöfn sagði til dæmis frá því á twitter að hún hefði sýnt dönskum vini sínum þetta uppþot allt saman og fengið svarið „já ókei. Brjóst eru orðin boring núna”. Það er heila málið. Ef við náum því takmarki þá sigrum við svo margt annað. Þá er ekki lengur hægt að nota slíkar myndir gegn fólki. Þær teldust ekki lengur vera klám og þar með væri rúmlega helmingur stafræns kynferðisfobeldis búinn að missa marks.

Viðbrögðin? Jú, ég fékk óviðeigandi skilaboð frá einhverjum strákasna úti í bæ eftir að ég tók þátt í þessu. Ég hló bara og klagaði hann til mömmu sinnar. Ég heyrði líka komment eins og „já ok en brjóst eru awesome. Þetta átak er fáránlegt og býður bara upp á þetta”. Svo ekki sé minnst á krúttið hann Hlyn sem vill að við breytum viðhorfi til brjósta áður en við spömmum hann með þeim og missir þar alveg af markmiðinu. Já eða manninn sem kallaði vinkonu mína skítuga úthverfalufsu fyrir að fara úr að ofan inni á skemmtistað til að mynda sig með karlmanni sem var einnig ber að ofan inn á sama skemmtistað. Hún var skítug, karlinn hafði hann ekkert út á að setja.

Hættið að tala niður til ungra kvenna!

En öll þessi viðbrögð eru fyrirsjáanleg. Það er nákvæmlega ekkert skrítið við að kerfið sem barist er á móti bregðist illa við. Það er viðbúið og það er hægt að tækla vegna þess að við vitum hvernig það kerfi virkar. Það versta, að mínu mati er þegar við erum komin á þann staði í umræðunni að við getum farið í leikinn „hver sagði þetta; yfirlýstur femínisti eða yfirlýstur kvenhatari”. Þegar við erum komin á þann stað í umræðunni verðum við að gjöra svo vel og hysja upp um okkur buxurnar. Fólk verður að hætta að tala niður til ungra kvenna. Það hjálpar engum og hefur aldrei gert og mun aldrei gera. Að segja að þetta sé ekkert valdeflandi fyrir neinn nema ofbeldismenn og að gefa í skyn að þær sem tóku þátt hafi engan sjálfstæðan vilja eða hugsun og hafi bara tekið þátt í þessu vegna múgæsings? Er ekki í lagi heima hjá ykkur? Er þetta ekki nákvæmlega sú orðræða sem við viljum stoppa„ Er þetta ekki nákvæmlega sú orðræða sem í mörg ár hefur þótt ýta undir nauðgunarmenningu? Að segja „svona áhættuhegðun býður upp á að þetta verði notað gegn ykkur” er nákvæmlega eins og að segja „að fara svona klædd út á lífið býður upp á að þér verði nauðgað”. Það er enginn munur, það er alltaf verið að setja skömmina á vitlausan stað.  Ekki skamma okkur sem tökum þátt. Skammið mannvitsbrekkurnar sem stofnuðu síðuna ratethenipple.com. Við erum ekki heimskar og við skiljum nákvæmlega hvað við erum að gera. Við erum að taka til okkar völdin yfir eigin líkama og hananú. Hættið að reyna að gera það að ljótum hlut.  Það eiga allir að ráða yfir eigin líkama.

Eiga aðrir að ráða aðferðinni?

Það er svo hægt að rífast endalaust um aðferðafræðina. Þau rök sem ég hef heyrt hvað mest er að það hafi verið óþarfi að vera að spamma alla samfélagsmiðla með brjóstum. Að það hefði verið eðlilegra og þægilegra fyrir alla ef að allar stelpur hefðu tekið sig til og mætt bara berbrjósta í sund (sem var gert) eða mætt bara brjóstahaldaralausar í skólann (sem var einnig gert) í stað þess að vera alveg berar að ofan. Það þótti of langt gengið. En ókei gefum okkur það að einhver stór hópur kvenna hefði tekið sig til í skjóli nætur og skipulagt þennan dag og jafn stór hópur kvenna og settu inn myndir af sér hefðu einungis mætt berbrjósta í skólann eða vinnuna eða labbað niður laugaveginn. Það hefði alltaf einhver tekið af þeim mynd og sett á netið. Alltaf. Við búum nefnilega við þann raunveruleika að það gæti alltaf verið einhver í kringum þig sem smellir af mynd. Ógnin við slíkar myndbirtingar er stöðug og allt um kring. Þá er mikilvægt að kenna ekki ungum stelpum að skammast sín fyrir líkama sinn. Ég hef sagt það áður og ég segi það enn að sterkasta vopnið gegn stafrænu kynferðisofbeldi er að hætta allri þessari skömm sem við kennum stúlkum. Hættum að kenna stúlkum að líkaminn sé eitthvað brjálæðislega heilagur, þá er ekki jafn auðvelt að gera lítið úr okkur fyrir hann. Þetta er nefnilega bara líkami og við erum öll með einn svoleiðis. Að kenna stelpum að maður eigi bara að sýna „hinum eina rétta” líkama sinn er ekki einungis brjálæðislega heterónormatívt heldur einnig stórhættulegt. Það færir ákveðin völd yfir í hendur annarra.

Nú er ég ekki svo agalega gömul en það tók mig samt þó nokkurn tíma að ákveða hvort ég ætti að taka þátt og birta mynd af mér. Ég tók þeirri ákvörðun mjög alvarlega, ég hef nefnilega séð hvað stafrænt kynferðisofbeldi getur gert manneskju og það er ekki fallegt. Svo fór ég aðeins að hugsa. Ég fór að hugsa til vinkonu minnar sem sá völdin tekin af sér þegar hún var 16 ára eftir að nektarmyndum sem hún hafði tekið af sér 13 ára var dreift útum allt. Hún hét Tinna Ingólfsdóttir og var því miður bráðkvödd í maí síðastliðnum, þá 21 árs gömul. Ég fór svolítið að hugsa um hver viðbrögð hennar hefðu verið. Hún hefði eflaust fussað smá svona í byrjun og haldið að þetta væri bara heimska í einhverjum nokkrum menntaskólastelpum. Svona eins og ég gerði í smástund, ég viðurkenni það alveg. En ég held að um leið og hún hefði séð allan þennan kraft og alla þessa samstöðu þá hefði hún skipt um skoðun. Hún hefði mögulega ekki tekið þátt sjálf með því að birta mynd vegna þess að hún var svo viðbjóðslega brennd af netníð og einelti, en ég leyfi mér ekki að efast um það í eina sekúndu að hún hefði stutt þetta. Tinna steig fram með sína sögu stuttu áður en hún lést og mér finnst hennar orð eiga vel við hér í dag:

Það var brotið á mér og minni friðhelgi með því að opinbera þessar myndir, burtséð frá því hvort ég sendi þær í fyrsta lagi. Það er það sem ég vil minna á. Þeir sem hafa lent í því að nektarmyndir af þeim eru opinberaðar á netinu án þeirra samþykkis eru þolendur.

Við þurfum nefnilega ekki bara að kenna fólki að senda ekki af sér nektarmyndir, við þurfum líka að kenna fólki að ef það fær slíkar myndir í hendurnar þá ber það ábyrgð á því að þær séu ekki misnotaðar.

Fallegast fannst mér nefnilega þegar ég sá þolanda stafræns kynferðisofbeldis taka þátt með yfirlýsingu um að hún væri að taka aftur til sín völdin yfir eigin líkama. Kynferðisofbeldi snýst nefnilega um völd, hvort sem það er í netheimum eða í raunheimum. Við höfum núna valdið, við tókum það í okkar eigin hendur. Við búum einnig yfir skynsemi til að vita hvort við samþykkjum myndbirtingar eða ekki. Ekki reyna að taka það af okkur eða leyfa okkur að efast um það.

Ræða flutt á opnum fundi VG og UVG þann 30. mars á Kex hostel og birt með leyfi höfundar.

Lesið einnig erindi Silju Snædal Pálsdóttur, Af hverju ég? sem flutt var við sama tækifæri.

Frá ritstjórn:  „Óheimilt er að afrita eða endurbirta greinar í heild sinni án leyfis höfundar eða ritstjórnar knuz.is. Leyfilegt er þó að birta hluta úr greinum, enda sé vísað til upprunalegra greina þar sem lesendum gefst kostur á að lesa þær í heild sinni,“

4 athugasemdir við “Við tókum valdið

 1. Ég er nú svo græn að ég hef ekki rekist á einustu orðræðu þar sem talað er niður til ungra kvenna sem betur fer og finnst þetta sjónarmið algerlega fullbefemt hið fínasta mál.
  Hinsvegar er agalegt að rugla saman efasemdum um að slík barátta beri árangur, hugmyndum um að hún sé barátta við vindmyllur eða áhyggjur kvenna sem þegar hafa upplifað tíma þar sem brjóstin voru beruð þó ég og fleiri gerum okkur grein fyrir að það tilheyrði tíma þar sem ekkert var internetið.
  Fólk verður að þola samræðuna án þess að líta svo á að talað sé niður til hugmynda þó allir séu ekki sammála.
  Áfram Stelpur!
  Áfram brjóst!
  Áfram allt sem fallegt er og gefur von bæði konum og körlum.

  • Ég hef því miður séð fjölmörg dæmi síðustu daga um að talað sé niður til ungu kvennanna og þær sakaðar um barnaskap, athyglissýki eða ósiðlegt athæfi, jafnvel að þær stuðli að barnaklámi. Það kalla ég ekki samræðu heldur virðingarleysi. Til allrar hamingju er þó tónninn í umræðunni almennt styðjandi og ég hef séð ýmsa sem upphaflega efuðust um tilgang átaksins velta upp þörfum spurningum á málefnalegum nótum en flestir virðast þó hafa komist að sömu niðurstöðu – að átak ungu kvennanna sé í reynd mikilvægt og magnað viðbragð við veruleika sem þeirra kynslóð þarf að takast á við alla daga. Mér finnst t.d. hinn þrusufíni pistill Sigríðar Guðmarsdóttur sem birtist hér á Knúzinu um daginn afskaplega gott dæmi um það hvernig hægt er að útlista eigin mótsagnakenndu hugsanir um brjóstamálið með virðingu og húmor gagnvart sjálfum sér og öðrum.
   https://knuz.wordpress.com/2015/03/27/braedi-brjost-bylting-ur-dagbok-gedilla-feministans/

 2. það má bæta við að ég hef séð fólk tala niður til hvors annars vegna andstæðra sjónarmiða og það er ekki gott fyrir neinn málstað. Málstaður verður ekki verri þó fólk ræði hann og fari í saumana á honum.

 3. Bakvísun: „Þetta snýst nefnilega um val“ | Knúz - femínískt vefrit

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.