Til stelpna með pínulítil brjóst

Höfundur: Katla Ísaksdóttir

*VV* Greininni fylgir myndband sem inniheldur ofbeldisfullt atriði.

brjóstapúði

Kæru stelpur – gott fólk! (Ekki gleyma samt: Stelpur eru líka fólk)

Í ljósi yfirstandandi brjóstabyltingar vil ég deila með ykkur reynslu minni af því að vera stelpa með „pínulítil“ brjóst.

Ástæða þess að mér finnst þetta vera knýjandi málefni er að ég las nýlega frétt um unglingsstelpu sem fór grátandi úr strætó vegna eineltis í tengslum við smæð brjósta hennar, en þessi atburður átti sér stað í byrjun brjóstabyltingarinnar.

Þessi frásögn snart mig mjög því ég gat sett mig í spor stelpunnar sem um ræðir. Mér þótti það svo sorgleg tilhugsun að einhverjar stelpur hefðu upplifað skömm fyrir brjóst sín vegna brjóstabyltingarinnar, en eitt meginhlutverka byltingarinnar er einmitt að afnema líkamsskömm og skapa þannig betri heim fyrir okkur öll, sama af hvaða kyni við erum. Markmið mitt með þessari grein er að leggja mitt af mörkum til að útrýma útlitsdýrkun og stöðluðum hugmyndum um eðlilegt útlit brjósta.

Sem unglingsstelpa bjó ég við mjög svo staðlaða mynd af því hvernig „eðlileg“ brjóst ættu að líta út. Staðalmynd brjósta var alls staðar. Í öllu myndefni og, að því að mér fannst, í öllum brjóstum sem ég sá í kringum mig. Ástæða þess var vafalaust sú að allar (eða langflestar) stelpurnar í bekknum notuðust við samskonar brjóstahaldara, einhvers konar púðabrjóstahaldara sem gerðu það að verkum að öll brjóstin litu út fyrir að vera eins. Ég notaði ekki svoleiðis brjóstahaldara, aðallega vegna þess að meira að segja minnstu stærðirnar voru of stórar á mig. Á þessum árum eyddi ég miklum tíma í verslunarmiðstöðvum og fatabúðum og átti ófáar martraðarkenndar stundir sveitt inni í búningsklefum, miður mín yfir vaxtarlagi mínu.

Ég stóð þó ávallt í þeirri trú að þetta væri bara tímabundið ástand. Fyrr en varði myndu brjóstin springa út og ég myndi verða eins og hinar stelpurnar. Það kom því alveg gjörsamlega aftan að mér þegar blæðingarnar hófust þegar ég var 13 ára gömul. Ég hafði í sakleysi mínu trúað því að fyrst myndu brjóstin vaxa og svo kæmu blæðingarnar. Þetta var mjög erfið reynsla fyrir mig því ég var gjörsamlega óundirbúin.

Tíminn leið og þegar ég var að nálgast 15 ára aldurinn tók ég ákvörðun um að fara í enskuskóla á Möltu. Þar ætlaði ég að striplast á sólarströnd í þrjár vikur og skemmta mér vel. Ég skoðaði auglýsingabæklingana fyrir þessar ferðir og sá þar myndir af fjölmörgum „eðlilegum“ brjóstum, fullkomlega innpökkuðum í félagslega samþykkt bíkíní. Ég skoðaði öll brjóstin mjög vel og sá að þau voru öll öðruvísi en mín. Stelpurnar á myndunum voru með fullorðinslega líkama og ég taldi víst að minn líkami hlyti að springa út á allra næstu vikum og þegar ég færi loksins í ferðina væri ég orðin „eins og þær“. Í næstu ferð minni í verslunarmiðstöðina fjárfesti ég því í bíkíníi sem mér leist vel á. Það var ekki með púðum, en það var með spöngum og það var aðeins of stórt á mig. Ég hét sjálfri mér því að ég skyldi svo sannarlega vaxa í þetta bíkíní áður en að ferðinni kæmi. Það hlyti einfaldlega að gerast. Hver hafði nokkurn tímann heyrt talað um 15 ára stelpu með svona pínu-pínulítil brjóst?

En allt kom fyrir ekki. Þegar kom að ferðinni höfðu brjóstin ekki vaxið hætishót. Ég fór í ferðina með nýja bíkíníið. Þótt það væri aðeins of stórt kom það kannski ekki að sök, hugsaði ég með mér, og klæddist þessum gjörsamlega óþörfu spöngum út allt fríið. Og viti menn: Strax á fyrsta degi leit ungur strákur mig hýru auga. Við kysstumst á ströndinni (minn fyrsta koss) og gáfum hvoru öðru sogbletti um kvöldið. Daginn eftir lágum við á annarri strönd. Hann lá með höfuðið á öxl minni í þó nokkra stund í einskonar kúrstellingu. Það var ekki fyrr en eftir dágóða stund að hann lýsti því yfir hversu gott útsýni hann hefði af öxlinni á mér, en þaðan blöstu geirvörtur mínar við honum óhuldar vegna of stóra bíkíníhaldarans. Tilfinningin sem þetta vakti með mér var hræðileg skömm. Þarna hafði ég, alveg óafvitað,verið að flagga litlu geirvörtunum mínum og pínulitlu brjóstunum mínum fyrir honum. Mér leið ömurlega með það.

Þetta fyrsta samband varði í þrjá daga og restina af ferðinni var ég á skjön. Skrýtin stelpa með pínulítil brjóst. Sem betur fer var önnur stelpa með jafn lítil brjóst í ferðinni og það lét mér líða aðeins betur.

lítil brjóstÞarna fór ég smám saman að sætta mig við að líklega myndu brjóstin ekkert stækka. Ég uppgötvaði líka að ég hefði val um að nota aðeins of stóra brjóstahaldara með púðum, en að ég hefði engan áhuga á að þykjast vera með stærri brjóst en ég var með í raun. Tilhugsunin um að lenda kannski á séns með einhverjum strák og fara svo úr púðabrjóstahaldaranum og koma upp um hvað ég var með pínu-pínulítil brjóst var bara eitthvað svo fáránleg að ég gat ekki hugsað mér það.

Árin þar á eftir gerði ég þó nokkuð af því að flagga geirvörtunum mínum út um allt. Öryggisleysið dvínaði með árunum og í mínum uppreisnarkennda anda klæddist ég bara því sem var fyrir hendi, sem fól oft í sér að það sást niður í hálsmálið á mér. Eftir því sem mér var bent á þetta oftar fór ég þó að finna fyrir meiri skömm. Ég hundskaðist því til að fara að klæða mig á samfélagslega viðurkenndan máta. Ég passaði upp á að ekki væri möguleiki að sæist í brjóstin og auðvitað mátti heldur ekki sjást í geirvörturnar í gegnum bolina. Þannig að ég fór að leggja meira á mig til að finna brjóstahaldara, toppa eða nærboli við mitt hæfi, sem pössuðu á mig án þess að ýkja brjóstavöxtinn. Verst var samt hvað þessi klæðnaður var stundum þvingandi, sérstaklega sumir brjóstahaldarar sem mér fannst vera of reyrðir utan um brjóstkassann og hafa áhrif á öndun. Mestu máli skipti þó að útlit mitt var nú orðið samþykkt og ég vakti ekki lengur ónot hjá öðrum sem voru í návist minni. Um svipað leyti fór ég líka að taka til mín athugasemdir um meinta athyglissýki mína og ég fór að haga mér (aðeins) betur og láta (aðeins) minna fyrir mér fara.

19 ára gömul fór ég í skoðun hjá leitarstöð krabbameinsfélagsins vegna þykkildis sem ég fann í öðru brjóstinu. Mér fannst betra að hafa varann á og pantaði strax tíma. Viðbrögðin sem mættu mér hjá Krabbameinsfélaginu komu mér í opna skjöldu. Starfsfólkið var hálfvandræðalegt við mig og eftir að hafa gengið úr skugga um að allt væri í lagi reyndu þau að útskýra fyrir mér á föðurlegan (eða feðraveldislegan) hátt að brjóstin mín væru nú ekki orðin fullvaxta og að svona kæmi stundum fyrir. Ég hef aldrei upplifað jafnmikla skömm og þarna, enda vissi ég vel að brjóst mín væru orðin fullvaxta, enda var ég orðin fullorðin, 19 ára gömul kona og löngu búin að venjast stærð brjóstanna minna. Þetta var ekki beinlínis viðhorf sem hvatti mig til frekari læknisheimsókna eða skoðana.

25 ára gömul lék ég í stuttmynd eftir Áslaugu Einarsdóttur um hrylling brjóstastækkana. Þessi mynd var sýnd á vídeóverkahátíðinni Hreindýralandi á sínum tíma og fékk þar verðlaun. Síðan hefur hún þó farið huldu höfði og hefur eigin „skömm“ haft mikið um það að segja. Ég fer nú ekki að dreifa brjóstunum mínum svona óhindrað út um allt, eins gott að haga sér vel! En ég held að nú sé kominn staður og stund til að dreifa þessari mynd til þeirra sem hafa áhuga. Ég vil þó vara viðkvæma við myndefninu sem þar kemur fram. Þar á ég vitanlega ekki við líkama minn heldur ofbeldisfullt atriði.

Myndin má sjá á þessari slóð: https://vimeo.com/17310380

Lóla from Áa Einarsdóttir on Vimeo.

Síðast en ekki síst segi ég: Áfram stelpur! Áfram allir almennilegir strákar sem leggja sig fram um að skilja hvað brjóstabyltingin felur í sér! Áfram við öll, af öllum kynjum og öllum stærðum og gerðum! Sýnum virðingu og kærleika í verki fyrir sjálfum okkur og öðrum!

Í tilefni af öllu stuðinu – hér er lag og myndband með BIKINI KILL.

Auglýsingar

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

w

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.