Konur í karlaveldi – Út í vitann eftir Virginiu Woolf

Höfundur: Herdís Hreiðarsdóttir

Virginia Woolf

Virginia Woolf

Árið 1927 kom út í Bretlandi skáldsagan To the Lighthouse eftir Virginiu Woolf. Hún hefur jafnan verið talin til tímamótaverka tuttugustu aldarinnar og hefur verið þýdd yfir á fjölmörg tungumál í áranna rás. Fyrir síðustu jól kom hún í fyrsta sinn út á íslensku, undir heitinu Út í vitann. En hver var Virginia Woolf og hvernig kom hún femínískum skoðunum sínum á framfæri?

Virginia Woolf fæddist í Lundúnum árið 1882 inn í barnmarga fjölskyldu. Faðir hennar var Leslie Stephen sem hafði getið sér góðan orðstír innan bókmenntaheimsins. Móðir hennar, Julia Jackson, var hins vegar þekkt fyrir einstaka fegurð og manngæsku. Á hverju sumri tók fjölskyldan sig upp, yfirgaf stórborgarlífið í Lundúnum, og dvaldist sumarlangt í reisulegu húsi í strandbænum St. Ives. Ævi Virginiu var allt annað en hefðbundin því áföll og andleg veikindi settu mark sitt á líf hennar strax í æsku. Hún var einungis þrettán ára þegar móðir hennar dó og í kjölfarið fór þunglyndi að gera vart við sig hjá henni. Árið 1904 lést síðan faðir hennar, en eftir andlát hans fluttu hún og systkini hennar í Bloomsburyhverfið. Það var ekki síst flutningunum að þakka að hún náði bata og gat haldið áfram að rækta skáldagáfu sína. Í Bloomsbury varð til Bloomsbury-hópurinn svokallaði sem hittist í fyrstu vikulega heima hjá Virginiu og systkinum hennar. Árið 1911 giftist Virginia Leonard Woolf og saman keyptu þau litla prentsmiðju, Hogarth Press, en þau gáfu út ritverk hennar til viðbótar við verk annarra samtímaskálda. Virgina Woolf lést árið 1941 en sagan hermir að hún hafi tekið líf sitt með því að drekkja sér í á nærri heimili sínu.

Kápumynd fyrstu útgáfu To The Lighthouse. Myndin er sótt hingað.

Kápumynd fyrstu útgáfu To The Lighthouse. Myndin er sótt hingað.

Virginia var afkastamikill og fjölhæfur rithöfundur. Eftir hana liggur fjöldinn allur af skáldsögum, ritgerðum, smásögum, dagbókartextum og ritdómum. Frægasta skáldsaga hennar er gjarnan sögð vera verkið sem hér er til umfjöllunar: To the Lighthouse/Út í vitann  (1927/2014). En til viðbótar má nefna verk hennar The Voyage Out, sem kom út árið 1915, Mrs. Dalloway (1925), Orlando (1928), femínísku ritgerðina Sérherbergi (A Room of One’s Own) sem kom út á frummálinu árið 1929 en á íslensku árið 1983, The Waves (1931) og Between the Acts (1941). Virginia Woolf var einn af brautryðjendum módernismans í bókmenntum en einnig var staða kvenna í samfélaginu henni sérlega hugleikin. Hennar helsta baráttutæki fyrir bættri stöðu þeirra var penninn, og í verkum sínum dregur Virginia ósjaldan upp mynd af undirskipaðri stöðu konunnar á fyrri hluta tuttugustu aldarinnar og baráttu hennar við viktoríanskar staðalímyndir samfélagsins.

Skáldsagan Út í vitann skiptist í þrjá hluta: Gluggann, Tíminn líður og Vitann. Sögusviðið er eyjan Skye undan ströndum Skotlands þar sem Ramsay-fjölskyldan eyðir sumarfríinu sínu í reisulegu sumarhúsi ásamt gestum sínum. Í einni af dagbókum sínum heldur Woolf því fram, að foreldrar hennar séu fyrirmyndirnar að Ramsay-hjónunum. Í upphafi bókarinnar ræðir frú Ramsay við James, yngsta son sinn, um hugsanlega ferð út í vitann daginn eftir. Ferðin út í vitann var hins vegar ekki farin það sumarið. Aftur á móti er margoft vísað til vitans og geisla hans það sem eftir lifir bókarinnar, enda má segja að hann sé nokkurs konar leiðarljós eða tákn yfir það óhagganlega í sögunni. Í síðasta hluta bókarinnar fyllist sumarhúsið af lífi á nýjan leik þegar hr. Ramsay snýr til baka til eyjunnar, ásamt börnum sínum og gestum. Einn af sumargestunum, listmálarinn Lily Briscoe, reynir að klára málverkið sitt af frú Ramsay og syni hennar James sem hún hafði byrjað á að mála tíu árum áður. Leiðangur út í vitann er einnig á stefnuskránni.

Þrjár helstu sögupersónur bókarinnar eru herra og frú Ramsay og listmálarinn Lily Briscoe. Hr. Ramsay er kröfuharður og skapstyggur heimspekingur sem þarfnast stöðugrar uppörvunar frá konu sinni. Frú Ramsay er íðilfögur, átta barna móðir, og rekur heimilið af miklum myndarskap. Staða hennar sem hinnar fögru ofurhúsmóður fellur einkar vel að staðalímynd konunnar á fyrri hluta tuttugustu aldarinnar. Aftur á móti var ekki tekið út með sældinni að sinna duttlungum eiginmannsins. Í eftirfarandi dæmi úr bókinni situr frú Ramsay með yngsta son sinn James í kjöltunni þegar hr. Ramsay nálgast þau:

Frú Ramsay hafði komið sér þægilega fyrir með krosslagða handleggina utan um son sinn og bjó sig undir það sem koma skyldi, sneri sér í hálfhring og virtist standa á fætur með nokkrum erfiðismunum og á þeirri stundu gaus upp frá henni orkustrókur, þráðbeint upp í loftið, … og inn í þessa yndislegu grósku, þennan gosbrunn og uppsprettu af lífi, steypti hið banvæna andleysi karlmannsins sér niður eins og látúnsgoggur, hrátt og án þess að gefa nokkuð af sér. Hann vildi fá meðaumkun. Hann sagðist vera misheppnaður. (bls. 59-60)

Rosemary Harris sem frú Ramsay í sjónvarpsmynd eftir bókinni frá 1983.

Rosemary Harris sem frú Ramsay í sjónvarpsmynd eftir bókinni frá 1983.

Þetta dæmi lýsir vel andrúmsloftinu á milli þeirra hjóna, hennar hlutverk var að hughreysta mann sinn og gefa, á meðan honum er líkt við látúnsgogg, hið banvæna andleysi karlmannsins, sem aldrei gefur heldur tekur og tekur út í hið óendanlega. Konur þess tíma áttu heldur ekkert erindi í æðri menntastofnanir en Virginia Woolf fékk ekki tækifæri til að fara í háskóla á meðan bræður hennar gengu æðri menntaveginn, hver á fætur öðrum. Þá finnst hr. Ramsay að sljóleikanum í hugum kvenna sé ekki viðbjargandi: „Þær gátu ekki haldið neinu algjörlega stöðugu í huga sínum … en var þá líka ekki svo að hann kunni býsna vel við þennan sljóleika kvenna? Hann var hluti af einstökum persónutöfrum þeirra“ (bls. 256). Með þessum orðum dregur Virginia upp mynd fyrirmyndarkonunnar á skorinorðan hátt: hún var fögur og töfrandi – en sljó.

Lily Briscoe er kynnt til sögunnar í upphafi bókarinnar sem einn af sumargestum Ramsay-hjónanna. Hún er ógift og gerir frú Ramsay allt hvað hún getur til að koma henni í hnapphelduna meðan á dvöl hennar í eyjunni stendur. Lily berst fyrir tilveru sinni sem ógift listakona í karllægum heimi lista. Hún efast stöðugt um hæfileika sína enda hvíslar Charles Tansley ósjaldan í eyra hennar: „Konur geta ekki málað, konur geta ekki skrifað …“ (bls. 77). Ýmsir fræðimenn, sem hafa kynnt sér verk Virginiu, halda því fram að erfiðleikar Lilyar Briscoe við að mála myndina sína endurspegli erfiðleika Virginiu sjálfrar við að skrifa bókina. Lily nær hins vegar að klára myndina sína að lokum og þar með má segja að persóna hennar verði að tákngervingi fyrir áfangasigur listakonunnar í karlaveldi samtímans. Þannig kom Virginia Woolf femínískum hugsjónum sínum á framfæri í rituðu máli.[1]

[1] Frekari upplýsingar um ævi og störf Virginiu Woolf er m.a. að finna í bók Hermione Lee frá árinu 1997: Virginia Woolf: A Biography. Alfred A. Knopf, New York.

Blaðsíðutölin í þessum pistli vísa til íslensku útgáfunnar: Virginia Woolf. 2014. Út í vitann. Herdís Hreiðarsdóttir þýddi. Ugla, Reykjavík.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.