Klisjulaus kvenleiki

Höfundar: Herdís Schopka og Kristín Vilhjálmsdóttir

hystory1

Borgarleikhúsið sýnir nú nýtt íslenskt leikrit, Hystory, eftir Kristínu Eiríksdóttur. Knúzið brá undir sig betri fætinum og skellti sér í leikhúsið, enda ekki á hverjum degi sem nýtt íslenskt leikverk eftir konu er sett á svið í öðru höfuðleikhúsa þjóðarinnar.

Hystory er saga úr samtímanum og fjallar um þrjár konur um fertugt sem voru bestu vinkonur í barnaskóla. Sem unglingar hættu þær skyndilega að tala saman. Og síðan líður tíminn, þær mætast af og til og kasta vandræðalegar kveðju hver á aðra. En þetta eitthvað sem gerðist er alltaf á milli þeirra, allt þar til Dagný tekur af skarið, leitar æskuvinkonurnar uppi á Facebook og býður þeim til sín í kaffi – eða hugsanlega eitthvað aðeins sterkara.

hystory3Konurnar virðast við fyrstu sýn vera með sitt nokkuð á hreinu, a.m.k. tvær þeirra. Sú þriðja, Begga, sem Arndís Hrönn Egilsdóttir leikur, er augsýnilega ekki í jafnvægi og reynist eiga við drykkjuvandamál að stríða. Eftir því sem sögunni vindur fram fellur þó gríman sem Dagný (Elma Lísa Gunnarsdóttir) og Lilja (Birgitta Birgisdóttir) hafa smíðað sér af mikilli alúð og kostgæfni og í ljós koma brotnar konur sem eiga í miklum persónulegum erfiðleikum. Þær reyna í lengstu lög að halda andliti fyrir hvor annarri en að lokum gefast þær upp, kasta látalætunum og gangast við því sem engin þeirra vildi ræða þó málið hafi legið þungt á þeim öllum – hræðilegum atburði frá unglingsárunum sem hefur litað allt þeirra líf.

Það er ekki aðeins að kona hafi skrifað Hystory heldur eru allar persónurnar konur. Veröld leikritsins er kvenleg en þó ekki í hefðbundnum, klisjukenndum skilningi þess orðs. Þessar konur hafa gengið gegnum mikið og líf þeirra er enginn dans á rósum. Persónusköpunin er nokkuð vel heppnuð en leið eilítið fyrir tilþrifalítinn leik. Úr því rættist þó eftir því sem leið á verkið og áttu sérstaklega Birgitta Birgisdóttir og Arndís Hrönn Egilsdóttir mjög góða spretti á sviðinu. Flutningur Birgittu á laginu Feelings verður að teljast með eftirminnilegri senum á leikhúsárinu.

hystory2Leikmyndin var skemmtilega útfærð og var auðvelt að ímynda sér að maður væri fluga á vegg í venjulegri íbúð í Vesturbænum (þó tröppurnar aftast á sviðinu hafi frekar kveikt hugsanatengsl við ofvaxin einbýlishús í Seljahverfinu hjá þessum rýnum). Hins vegar varð sviðið fljótlega mjög draslaralegt og leikmunir lágu eins og hráviði úti um allt. Vel má vera að þetta eigi að vera tákn fyrir stigvaxandi upplausnina hjá konunum á sviðinu en þetta drasl varð líka til þess að það varð erfiðara að einbeita sér að sjálfu leikritinu. Öskur, læti, ærandi tónlist og strobe-ljós urðu svo til þess að undirstrika óreiðuna enn frekar en fóru þó langt framúr sér og tóku einfaldlega athyglina frá sögunni sem verið er að segja. Texti Kristínar er grimmur og vægðarlaus, segir erfiða sögu á einfaldan og nokkuð látlausan hátt, en þó hefði mátt skyggnast betur inn í bakgrunn vinkvennanna sem barna, því að þær áttu allar sameiginlegt að eiga nokkuð ótraust bakland, sem var þó aðeins fullskýrt í tilfelli Beggu.

Eineltissenan undir lok leikritsins er sterk og áhrifamikil og kann að koma óþægilega við kaunin á fullorðnum þolendum eineltis í barnaskóla, svo raunveruleg var hún. Kristín kann vel að koma til skila ofbeldinu í samfélaginu, ofbeldinu sem felst okkar á milli í dagsins önn og beitt er í hugsunarleysi þess sem er ekki öðru vanur, ofbeldinu sem þeir beita sem sjálfir eru beittir ofbeldi og afleiðingum þess þegar á líður.

Gagnrýnendur Knúzzins voru ekki á einu máli um hvort verkið væri beinlínis femínískt. Annarri þeirra fannst að þar sem verkið fjallaði um reynsluheim kvenna í karllægum heimi, þar sem feðraveldið brýtur niður og laskar konurnar, eða „mæðurnar“ í verkinu, gæti það ekki verið annað en femínískt; hinni fannst hún ekki skynja jafn sterkt þessa femínísku vídd.

Ljóst er að verkið er ekki yfirlýst femínískt eða með femínískar áherslur sínar á yfirborðinu; í raun má segja að femínismi verksins geti vel verið nokkra daga að seytla inn í vitund áhorfandans. Eða geri það alls ekki.

Hvort sem reynist niðurstaðan er sýningin áhugaverð og uppspretta frjórra hugrenninga og þá er sannarlega til mikils af stað farið.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.