Dans konunnar

Höfundur: Kristín Jónsdóttir

La danse, eftir Henri Matisse. (1909). Myndin er sótt hingað.

La danse, eftir Henri Matisse. (1909). Myndin er sótt hingað.

dans
taktfastar líkamshreyfingar, oftast við tónlist; hefur fylgt mannkyninu frá örófi alda; mikilvægur í daglegu lífi frumstæðra þjóða og tengist oft helgisiðum þeirra, t.d. eru veiði- og stríðsdansar þáttur í guðsdýrkun. Með sumum þjóðum, einkum austurlenskum menningarþjóðum, urðu slíkir d smám saman sérstök listgrein, t.d. indverskir musterisdansar. d var mikilvægur þáttur í díonýsosardýrkun Forn-Grikkja. Veraldlegir d komu til sögunnar með sagnadönsum miðalda. Þeir voru keðju- og hringdansar og frá þeim spruttu á endurreisnartímanum allemande, menúett, sarabande o.fl. d sem voru undanfari balletts. Í byrjun 18. aldar komu fram kontradansar sem voru frjálslegri og leystu hring- og keðjudansana af hólmi. Síðar bættust við suðurþýskir og slavneskir snúningsdansar, m.a. polki og vals, þar sem dansarar snúast um sjálfa sig og rangsælis um salinn. Á 20. öld bættust við fjölmargir enskir, bandar. og suðuram. d, t.d. kvikkstepp, foxtrott og tangó. Fyrir áhrif frá djassi og annarri taktfastri tónlist hafa ennfr. komið fram fjölmörg nýrri dansafbrigði og tískudansar. (úr íslenskri orðabók af snara.is)

Einn af fegurri gjörningum eða götulistauppákomum sem ég hef orðið vitni að átti sér stað við Signubakka á heitum sumardegi fyrir rúmum áratug síðan. Þar mátti sjá konu dansa og syngja með veigamikla trommu hangandi framan á sér sem hún nýtti til að slá seiðandi afrískan takt. Þegar myndarlegur hringur hafði myndast um hana, skimaði hún yfir áhorfendaskarann, greip svo með sér konu að eigin vali úr hópnum og hvatti hana til að dansa og syngja með sér.

Á þriðja eða fjórða lagi áttaði ég mig á ákveðnu mynstri í vali konunnar á kynsystrum sínum. Hún valdi alveg greinilega ákveðna týpu: þessa þéttvöxnu (eins og hún) og feimnislegu (ekki eins og hún). Hún virtist hafa einhvers konar galdramátt, því eftir Eftir hik, falið kafrjótt andlit og annað látbragð sem sýndi að þessar konur óttuðust að koma inn í hringinn og láta alla horfa á sig, létu þær allar undan. Þær hrifust með þessari sterku og miklu konu sem öskraði og dillaði risastórum botni sínum um leið og hún barði stóra, og eflaust níðþunga, trommuna sem hún bar í böndum sem lágu í kross yfir breitt bakið.

Í fyrstu stóð ég sem dáleidd af trommuslætti og söng, en síðan bara gat ég ekki slitið mig frá því að verða vitni að því sem gerðist í hvert skipti sem hún fékk nýja konu í hringinn. Listakonan fyllti óframfærnari kynsystur sínar af jákvæðri orku; leysti úr læðingi eitthvað sem þær voru löngu búnar að grafa innra með sér undir eilífri óánægju með sjálfar sig, karlinn, krakkana, vinnuna, mömmu sína eða hvað það er sem við leyfum að draga okkur niður í depurð og gráma. Ég fylltist sjálf orku við það að horfa á þetta og taldi nokkuð víst að ég myndi heyra meira af þessari konu, hún hlyti að verða heimsfræg. Sá spádómur minn hefur ekki ræst. En ég hef aldrei gleymt henni og í vetur kveikti lestur á hugleiðingu á vef DV einhverjar tengingar við hana á ný.

beyonce_feminist_photo_19stud4-19stud7Þessi hugleiðing er enn ein pælingin um það hvort Beyoncé geti talist femínisti eða ekki. Höfundurinn, söngkonan Lára Rúnarsdóttir, viðurkennir að skilaboð Beyoncé séu mótsagnakennd. Hún hvetji stúlkur til að vera sjálfstæðar og kynna sér femínisma og að hún sé sinn eigin umboðsmaður, framkvæmdastjóri og höfundur. En eggjandi myndir af henni og myndböndin við tónlist hennar séu nokkuð nákvæmlega sniðin að feðraveldiskröfum og þar af leiðandi ófemínískar: Hið fagra fljóð sem dillar sér og gleður auga (karlsins). Lára spyr sig hvort ekki sé óréttlátt að krefjast af Beyoncé að vera femínísk í list sinni, þar sem hún sé „fyrst og fremst tónlistarkona, ekki femínískur aktívisti“. Þetta getur svo sem alveg staðist skoðun, en það sem bögglast eilíflega fyrir mér er þetta með það hvenær eggjandi stellingar og bossadill verður „of mikið“ til að geta talist kvenvænlegt. Ég hélt að Lára ætlaði að ræða einmitt það í grein sinni, því síðasti kaflinn ber titillinn „Hvar skal draga mörkin?“. En svo virðist hún láta duga að komast að þeirri niðurstöðu að kannski sé nóg að femínisminn „sé valdeflandi fyrir manneskjuna sem finnur sig í honum“ líkt og Beyoncé þrífist í einhvers konar tómarúmi með femínismann sinn og það eina sem skipti máli sé tónlistarsköpunin. Kannski misskil ég, en ég varð fyrir vonbrigðum með niðurlagið og mér finnst engan veginn nóg að ein manneskja „finni sig í femínisma“ og geti þar með kallað sig femínista og að gagnrýni á það sé þar með bara einhvers konar frekja eða tilætlunarsemi. Femínismi er eitt, ákvörðunarvald einstaklingsins er annað, líkt og bent er á í umfjöllun um Dúkkuheimilið á Knúzinu þann 23. janúar 2015, eða, eins og mætti segja um Beyoncé og ýmsar konur sem náð hafa langt í gegnum söguna: Femínismi er eitt, frægð og frami einstaklings er annað.

Femínismi er hugmyndafræði, pólitík, og varðar ekki einstaklinga hvern fyrir sig heldur frekar mengi af fólki, hvers konar hópa sem eru undirskipaðir í kynjakerfinu, feðraveldinu. Langtímamarkmið flestra femínista er að brjóta niður þetta ógurlega feðraveldi, eða hvaða nafni sem fólk kýs að kalla það. Beyoncé tilheyrir undirskipuðum hópi sem kona en jafnvel enn frekar vegna litarháttar síns. Hún hlýtur að vera mögnuð fyrirmynd og velgengni hennar hvatning fyrir þeldökkar konur í Ameríku og víðar. Styrkur hennar er margslunginn, hún syngur vel, hún dansar vel og þar að auki virðist hún hafa fjári gott viðskiptavit. Við getum endalaust deilt um hvort það séu mannkostir að hafa viðskiptavit allt eins og við getum endalaust deilt um það hvort rassaköst Beyoncé séu andfemínísk eða ekki. Beyoncé fær fólk til að skiptast upp í fylkingar, til eru yfirlýstir femínistar sem „halda með henni“ en aðrir sem líta á hana sem falskan „light“-femínista, eins og Annie Lennox orðaði það og vísað var til í áðurnefndri hugleiðingu Láru í DV.

Erfitt eða jafnvel ómögulegt væri að skilgreina rassaköst konunnar sem ég hitti á Parísarströndinni sem andfemínísk. Þar fór þeldökk kona sem var ekki eingöngu með stóran rass, heldur öll töluvert mikil um sig og hún var ekki klædd í ögrandi níðþröngan galla, heldur í hefðbundinn afrískan, efnismikinn og litríkan batíkkjól [i]. Hún var ekki með neina tilburði sem virkuðu kynferðislegir á mann, ég er sannfærð um að það hefði orðið samróma álit, hefði ég spurt fólkið sem horfði með mér. Dans hennar og tónlist gekk út á að vekja gleði og hafði á einhvern hátt valdeflandi áhrif, ég held að það hafi ekki farið framhjá neinum sem horfði á. Og þótt tilburðir hennar hafi ekki virkað kynferðislegir á mann, er orkan í þessum villta dansi undir afrískum takti, órjúfanlega tengd frumorkunni í okkur öllum, eldinum innra með okkur, sem ég tel víst að margir tengi nokkuð auðveldlega við kynorkuna [ii].

Photograph (6)

Valentine de Saint-Point

Strax við upphaf tuttugustu aldar stigu avant garde listakonur fram í tilraun til að „endurskilgreina eða endurheimta kvenlíkamann, sem, síðan öld upplýsingarinnar leið undir lok, hafði nánast eingöngu verið framsettur á karllægan hátt til upphafningar fegurðarinnar án þess að innihaldið skipti nokkru máli“ [iii]. Þann 20. desember 1913 sýndi hin fjölhæfa bókmennta-, lista- og flugkona Valentine de Saint-Point gjörninginn Métachorie í leikhúsi í París. Métachorie er dansgjörningur, sem var síðar sýndur í Métropolitain óperunni í New York og hefur stundum verið kallaður fyrsti gjörningurinn (e. performance). Þörf hennar og fleiri kvenna til að tjá sig á þennan hátt á þessum tíma sprettur upp í samfélagsástandi sem í raun er ekki svo ólíkt því sem við gætum upplifað að ríkti í dag, sem einkennist af „stríðum, valdníðslu og grimmd“ (bls. 7). Ef marka má staðhæfingar Adrien Sine, sem sankaði að sér ógrynni ljósmynda og frásagna af þessum tilraunum listakvenna með líkama sinn, marka þessir performansar ekki eingöngu þau tímamót að konur taki málin í sínar hendur og skapi sitt eigið rými innan listanna, sem fram að þessu voru algerlega undir yfirráðum karla og –ismanna þeirra, heldur höfðu þær, með því að blanda saman mörgum listgreinum (myndlist, dans, leikhús, ljósmyndun …) áhrif á alla listsköpun þaðan í frá (bls. 7).

Mikil og sterk erótík er til staðar í þessum verkum avant-garde kvennanna. Hreyfingarnar eru oft eggjandi, þær eru stundum fáklæddar, jafnvel naktar [iv] og Loïe Fuller er í þannig kjól að þegar hún hreyfir sig á ákveðinn hátt tekur vængjaður kjóllinn á sig form sem minnir sannarlega á píku (bls. 149-161). Reyndar er það áhugavert að jafnvel á myndum þar sem þær eru nánast alveg huldar, skín alltaf einhver ögrun í gegn, hvort sem það er vegna stöðu líkamans eða vegna þess að áhorfandinn veit hvað dylst undir klæðinu.

Eitt af stærstu verkum frumkvöðulsins Valentine de Saint-Point er einmitt „Manifeste futuriste de la luxure“, eða „Fútúrísk stefnuyfirlýsing lostans“. Avant garde listakonurnar voru algerlega meðvitaðar um það að hluti af því að endurheimta sjálfar sig og líkama sína, losa sig undan þessari „karllægu upphafningu kvenlegrar fegurðar“, væri að verða sjálfstæðar kynverur, með þarfir og langanir sem þær mættu tjá en sem fram að þessu voru algert tabú.

Nú eru liðin hundrað ár síðan Valentine de Saint-Point og stallsystur hennar rifu sig undan yfirráðum feðraveldisins yfir kynhvöt kvenna. Í dag efast enginn um það hér á Vesturlöndum í það minnsta að konur séu sjálfstæðar manneskjur og að jafnrétti eigi að ríkja (það er skrifað í lögin!). Kynhvöt er ekki lengur tabú heldur í tísku og helst eiga allir að vera að springa úr henni. Hömluleysið er orðið þess valdandi að iðulega getur verið erfitt að átta sig á því hvar línan milli kláms og erótíkur liggur.

Hvernig geta listakonur tekið og nýtt sinn eigin performans algerlega á eigin forsendum og verið öruggar um að eiga hann áfram? Allir listamenn eru á vissan hátt beygðir undir markaðslögmálin og persónulega þykir mér ósanngjarnt að skamma listamenn fyrir það. Söngkonur eins og fyrrnefnd Beyoncé eru óneitanlega háðar markaðslögmálinu, en hvað með það? Þær hrista rassa sína mjög hressilega og lögin þeirra auðvelda öðrum að hrista sig með. Sumar þeirra eru þeldökkar og hafa náð lengra en tölfræðin hefði spáð fyrir um. Það sem gerir þær svo umdeilanlegar í samanburði við t.d. Björk, nafnlausu afrísku konuna og Valentine, er að það sem þær framkvæma „á eigin forsendum og að eigin vali“ virðist ekki vera neitt annað en nákvæmlega það sem konur eru eilíflega látnar gera fyrir karla inni í feðraveldinu: Dansa fáklæddar og syngja áheyrileg og söluvænleg lög. Það er einmitt þetta „aðgerðaleysi“ í öllum þessum hreyfingum þeirra, nánast hver einasta líkamsstaða gæti verið ljósmynd úr klámmynd. Þess vegna eru mörkin þarna svona óljós. Þess vegna er ég, þroskaði femminn, einhvern veginn ekki alveg sátt við að þessar konur kenni sig við femínsimann. Það skortir að mínu viti pólitík og skýra gagnrýni. Þær „finna sig kannski í femínismanum“ en eingöngu á eigin forsendum, í eigin tómarúmi. Og það er eitthvað svekkjandi við það.nicki

En hér er ég um leið að gerast sek um að festa mig í sjónarhorni forréttindafemmans, hins hvíta millistéttarfemínisma. Svartir femínistar gagnrýna hástöfum blindu okkar og vanskilning á stöðu þeirra. Þær halda því fram, og mér þykir það nokkuð trúlegt, að svartir kroppar ögri meira en hvítir. Okkur þyki svartir rassar klámfegnari en hvítir sem er í raun hræðsla við kynferði svartra kvenna. Þær hvítu tóku kynhvötina úr höndum karla, en er hvíti heimurinn tilbúinn til að veita svörtum konum sömu réttindi? Hér til hægri er mynd af rassi Nicki Minaj sem setti internetið á hvolf þegar hún birtist fyrst og hér má sjá myndir úr glanstímaritum sem engum þótti tiltökumál að birtist (það gaggaði örugglega einhver femmi einhvers staðar, en hver nennir að hlusta á þær?). Hér má lesa góða greiningu á viðbrögðunum. Nicki Minaj truflar mig sannarlega. Ég veit ekki alveg hvernig á að taka henni. Mér er tjáð af mér vitrara fólki sem hefur fylgst með ferli þeirra beggja, að hún sé rokna femínisti og hafi alltaf verið það, meðan Beyoncé til dæmis virðist frekar vera að uppgötva það einmitt nú og sé til dæmis enn að gerast „sek“ um að skrifa texta sem falla svo gersamlega að reglum feðraveldisins að erfitt sé að veita henni femmaorðuna góðu alveg strax. Beyoncé hefur og alltaf farið að öllum „reglum“ feðraveldisins, berað sig hæfilega mikið, dansað eins og „á að dansa“. Hún ku þó vera að koma til og því má að sjálfsögðu fagna. Nicki Minaj hefur hins vegar alltaf farið sínar eigin leiðir sem rappari sem hefur náð að klífa á toppinn í rappheiminum, ku harðari af sér og betri textahöfundur en allir karlrappararnir [v].

Athyglisvert er svo að skoða hvernig hvítar poppstjörnur [vi] hafa verið með tilburði til að sölsa undir sig kúltúr og dansi blökkukvennanna en það yrði of langt mál að rekja hér. Ég mæli með þessari grein sem fræðir okkur um uppruna tverksins (e. twerk) og leiðir í ljós að í afrískri menningu er nákvæmlega ekkert kynferðislegt við tverkið, heldur er það dans sem tjáir gleði og fögnuð. Konur og karlar hafa tverkað öldum saman í brúðkaupsveislum og við önnur sambærileg tækifæri.

Kannski er í hæsta máta óréttmætt að bera svona saman hvítar og svartar listakonur? Kannski hefði ég þurft að rannsaka betur óljósari dæmi um kyn- og tjáningarfrelsi kvenna á tuttugustu öld, eins og til dæmis Josephine Baker, sem ætti sannarlega almennilega umfjöllun skylda, þeldökk stúlka sem braust úr sárri fátækt til mikils alþjóðlegs frama, en sem enn er umdeild, því ekki eru allir á einu um það hvernig hennar velgengni þjónaði málstað svartra. Hver veit nema ég skrifi einhvern tímann framhald, nú eða þá að einhver grípi keflið?

En niðurstaða mín eftir þessar pælingar er að þótt (nú eða vegna þess hve) erfitt sé að leita að mörkunum milli kláms og þess sem ég ætla í stuttu máli að nefna hér „ásættanlega erótík“ án þess að fara nánar út í skilgreiningar, og þótt erfitt sé að átta sig á því í hverju femínismi Beyoncé og fleiri poppstjarna gæti legið, er nokkuð áreiðanlega of mikil einföldun að afgreiða þær sem óvirkar strengjabrúður feðraveldisins.

—————————-

[i] Hörundsliturinn skiptir sannarlega ekki höfuðmáli og viljandi var ekki minnst á hann í fyrri hlutanum. Mér þykir þó vert að taka hann hér fram þótt ekki væri nema af virðingu fyrir honum. Ef hvergi kemur fram konan sé þeldökk, er öllu líklegra en að fólk telji hana hvíta og það finnst mér óréttlátt gagnvart henni sjálfri.

[ii] Með þessu vil ég alls ekki gera lítið úr asexual fólki, hóp sem upplifir sig kynlausan. Innra með þeim býr alveg áreiðanlega þessi frumorka þótt kynþörfin sé ekki til staðar. Ég veit hins vegar ekki nógu mikið um þennan hóp til að treysta mér til að tjá mig um hann hér. Mig langar hins vegar alveg til að velta fram spurningunni: Erum við kannski að misskilja allt, með því að tengja frumorkuna kynorkunni? Stór spurning, ekkert svar.

[iii] Adrien Sina: Feminine Futures – Valentine de Saint Point – Performance, Danse, Guerre, Politique et Érotisme, Les presses du réel 2011. Það sem ég hef innan gæsalappa er þýðing mín en einnig stytting og samklipping úr texta Adriens Sina sem finna má á bls. 7-10 í þessu veglega riti. Bókin er tvímála á frönsku og ensku og sneisafull af myndum af performönsunum og manifestóum Valentine de Saint Point og fleiri listakvenna á 20. öldinni. Hér á eftir verður aðeins tekið fram blaðsíðutal í sviga inni í textanum þegar vitnað er beint í þetta rit og blaðsíðutöl í neðanmálsgreinum vísa einnig í þetta rit nema annað sé tekið fram.

[iv] Hedwig Hagemann – ljósmyndir og hreyfimyndir frá 1925, sjá bls. 348.

[v] Vert er að taka fram að Nicki Minaj hefur aldrei sagst vera femínisti eða notað femínisma til að koma sér á framfæri.

[vi] Til dæmis Miley Cyrus, Katy Perry eða Iggy Azalea.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.