„Hún er gáttuð …“

Höfundur: Halla Birgisdóttir

Gáttuð1

Þessi pistill fjallar um myndlistarverk eftir mig sjálfa sem ber titilinn Hún er gáttuð á þeim kröfum sem gerðar eru til hennar.

Þetta tiltekna myndlistarverk er til sýnis í Betra veður – Window Gallery sem er staðsett á Laugarvegi 41. Hægt er að kíkja í gluggann og sjá verkið þar til 28. apríl á hvaða tíma sólahrings sem manni hentar.

Þegar ég var beðin um að búa til myndlistarverk fyrir sýningarými sem er jafnframt gluggi á Laugarvegi, einni helstu verslunargötu okkar Íslendinga, vissi ég strax að mig langaði til að láta verkið fjalla um kvenímyndir og þær skrýtnu kröfur sem samfélag okkar setur á útlit og hegðun kvenna.

Í miðju rýminu stendur borð sem gæti verið snyrtiborð. Á borðinu er gamalt kassalaga túbusjónvarp og í sjónvarpinu er hreyfimynd af konu. Konan er með úfið hár, loðnar augabrúnir og með bauga undir augunum. Ef vel er að gáð má sjá á efri vör hennar örlítinn skeggvöxt og á hökunni er eitthvað sem gæti verið varta. Þetta er kona sem kemur til dyranna eins og hún er klædd.

Hreyfimyndin sýnir tvær hendur sitt hvoru megin við andlit konunnar sem að greiða á henni hárið í sífellu. Konan, stjörf á svip, blikkar augunum öðru hvoru en virðist annars frosin föst. Kannski vill hún hrista af sér greiðurnar og fara sína eigin leið en er einhvernvegin of hissa til þess að reyna það? Kannski finnst henni að ef að hún gerði það yrði hún á einhvern hátt minni kona heldur en hinar konurnar sem hugsa svo vel um útlit sitt? Hinar konurnar eru teikningar sem eiga allar sinn eigin ramma. Þær eru allar með mótað hár, plokkaðar augabrúnir og farðaðar. Þær eru ekki alveg eins en allar mjög svipaðar. Þær brosa en það nær ekki alveg til augnanna. Hún sem titilinn vísar til er hissa á kröfunum. Henni finnst hún vera kona. Hún er kona. Hún vill vera kona og er ánægð með hlutskipti sitt. Er hún þá ekki örrugglega kona? Á hún að skammast sín fyrir að fara út úr húsi án þess að hafa „sett á sig andlit“?

Ég og dóttir mín lágum í makindum fyrir nokkrum árum og skoðuðum fríblaðið Myndbönd mánaðarins. Hún hefur verið um það bil. 4 ára gömul þá. Í blaðinu er síða með tilvitnunum í fræga leikara og leikkonur og myndir af þeim fylgja með. Heyrist þá í dóttur minni …

Gáttuð5Þessi er ekki alvöru, hún er bara dót“ og bendir á mynd af einni leikkonunni, lítur svo yfir blaðsíðuna og bendir á nokkrar til viðbótar sem eru líka bara dótakonur. „Mamma, allar konurnar eru dótakonur en mennirnir eru alvöru.“ Þessi uppgötvun 4 ára barns á því hvernig konur „eiga“ að vera hafði mikil áhrif á mig og situr enn í mér. Ég hugsaði til hennar þegar að ég bjó til verkið. Mig langar að breyta þessu fyrir hana. Ég er ekki að segja að það eigi að vera bannað eða slæmt að farða sig eða að þá sé maður ekki alvöru kona. Ég er að vekja athygli á því að hitt er líka í lagi. Það er í lagi að eyða orku sinni í annað en að standast fegurðarímyndir samfélagsins. Hvernig er þetta eiginlega? Í kvikmyndum, sjónvarpsþáttum, auglýsingum og á rauða dreglinum? Tökum eftir þessu og hugsum okkur um.

Vonandi þróast heimurinn út í það í framtíðinni að konur megi líka vera alvöru. Eru þessar hugmyndir um fegurð og hvað það er sem vekur aðdáun kannski jafn úreltar og þetta eldgamla túbusjónvarp? Mig langar að auka fjölbreytileikann og benda á að það er hægt að vekja aðdáun með öðrum hætti. Þess vegna bjó ég til þessa myndlist.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.