Frjálst, en skammarlegt?

Höfundur: Ritstjórn, Silja Bára Ómarsdóttir, Steinunn Rögnvaldsdóttir

prochoice 1

Fóstureyðingar – rétturinn til þess að binda enda á óæskilega þungun og sú ákvörðun að nýta sér þann rétt – eru mál sem sjaldan er rætt í samfélaginu og virðist vera einhvers konar tabú. Flestir eru sammála um að rétturinn til löglegra, öruggra fóstureyðinga er einn af hornsteinum jafnréttis kynjanna og varðar kynfrelsi kvenna og rétt þeirra til að taka sjálfstæðar ákvarðanir um líf sitt, heilsu og örlög. Hvers vegna er sú ákvörðun að nýta sér þann rétt þá umvafin þögn, leynd og jafnvel skömm?

Um það bil árlega birtast í blöðum tölur um það hversu margar fóstureyðingar hafi verið framkvæmdar á árinu og gjarnan með samanburði við nágrannalöndin. Undirtónninn er oftast neikvæður – í loftinu liggur að það sé slæmt að það séu framkvæmdar svona margar fóstureyðingar og að það þurfi að gera eitthvað til að sporna við því. Og vissulega er það aldrei beinlínis jákvætt, þótt segja mætti að umfjöllun fjölmiðla um fjölda fóstureyðinga byrji stundum bæði og endi á vitlausri hlið vandans.

Væri ekki nær að spyrja: Hvers vegna verða svona margar óæskilegar þunganir á ári hverju? Hvað getum við gert til að sporna við því? Vandinn, ef við kjósum þá á annað borð að líta á þetta sem „vanda“, er kannski ekki úrræðið heldur ástæðan.

Eftir stendur að þótt flestir séu sammála um að fóstureyðingar eigi að vera löglegar og þrátt fyrir að mun fleiri konur en mann grunar nýti sér það úrræði eru þær feimnismál og fæstar konur ræða það opinskátt að hafa farið í slíka aðgerð.

Fyrir tæpu ári ákváðu þær Silja Bára Ómarsdóttir alþjóðastjórnmálafræðingur og Steinunn Rögnvaldsdóttir kynjafræðingur að reyna að fara með umræðuna um fóstureyðingar út úr skúmaskotunum og inn á almennara orðræðusvæði. Þær kölluðu eftir frásögnum og reynslu kvenna, með það fyrir augum að úr yrði bók.

Þær Silja Bára og Steinunn gerðu góða grein fyrir verkefninu og forsendum þess í grein hér á Knúzinu, og segja þar m.a.:

Reynsla sem þúsundir kvenna á landinu deila er þannig í raun hulin öllum öðrum. Um hana er sjaldan rætt og sögum er ekki deilt nema í hálfum hljóðum. Samfélagið virðist einhvern veginn hafa ákveðið að þó að fóstureyðingar séu löglegar eigi helst ekki tala um þær 

Við viljum aflétta leyndarhjúpnum sem hvílir á þessum reynsluheimi kvenna og miðla þessari reynslu til þeirra sem standa frammi fyrir því að þurfa að velja hvort þær fara í fóstureyðingu. Við köllum því eftir frásögnum kvenna af fóstureyðingum. Markmið okkar er að setja þessa reynslu fram í opinbera rýmið, skapa svigrúm fyrir konur til að segja frá og hjálpa þannig öðrum konum að taka upplýstari ákvarðanir.

Knúzinu lék forvitni á að heyra hvernig verkefninu miðar og hvað rannsóknin hefur leitt í ljós og ræddi því við Silju Báru og Steinunni.

Hvernig gekk efnisöflun – fenguð þið mikil viðbrögð við kalli ykkar eftir reynslusögum kvenna í fyrra og fannst ykkur konurnar viljugar til að deila með ykkur reynslu sinni?

Viðbrögðin við kallinu eftir sögum voru yfirþyrmandi. Á örfáum dögum höfðu vel yfir 100 konur samband og lýstu yfir áhuga á að taka þátt. Það sem var hvað mest áberandi var hve þakklátar þær voru fyrir tækifærið til að segja frá þessari reynslu. Af þessum 120-30 konum skiluðu svo milli 50-60 konur skrifuðum frásögnum. Við sendum þeim stuttan spurningalista til að koma þeim af stað ef þær kusu, en sumar skrifuðu beint frá eigin brjósti. Nokkrar konur hikuðu við að skrifa sögur sínar sjálfar, en vildu taka þátt. Þær hittum við og tókum viðtöl, sem við síðan skrifuðum upp í frásagnarformi og bárum undir þær til staðfestingar. Við erum með nærri 80 sögur í bókinni. Fjöldi kvenna hætti við að skila inn, en langflestar þeirra sendu okkur tölvupóst eða hringdu til að segja okkur hve erfitt þetta hefði reynst þeim og að þær treystu sér eftir allt saman ekki til þess að skrifa þetta niður. Þessi viðbrögð staðfestu enn frekar fyrir okkur að það væri þörf á því að safna þessum sögum saman á einn stað.

prochoice 2Eru einhver tiltekin atriði sem reynslusögurnar eiga sameiginleg eða sem einkenna þær allar?

Það er ekkert eitt sem allar konurnar eiga sameiginlegt, en margar deila svipuðum einkennum eða upplifunum. Eitt af því sem einkennir hugmyndir um fóstureyðingar í almennri umræðu er að konur sjái alltaf eftir þeim. Það var kannski hvað mest áberandi, að eftirsjáin var minni en mætti ætla. Margar konur sjá auðvitað eftir því að hafa verið í þessum aðstæðum, en alls ekki eftir því að hafa nýtt sér þetta úrræði. Þvert á móti, þá eru þær þakklátar fyrir að hafa aðgang að þessari þjónustu og geta tekið ákvarðanir um eigin framtíð. Þær konur sem lýsa eftirsjá eiga það svo oft sameiginlegt að hafa upplifað einhvers konar þvingun, eða þvingandi aðstæður, þ.e. að þær hafi ekki sjálfar haft stjórn á aðstæðum og ákvarðanatökunni sem leiddi til þess að þær fóru í fóstureyðinguna.

Koma reynslusögurnar sem þið fenguð frá konum úr öllum samfélagshópum og virðist ykkur sem fóstureyðingar séu úrræði sem tengist á einhvern hátt frekar einum samfélagshópi en öðrum?

Konurnar voru á mismunandi stöðum í lífinu hvað varðar aldur, fjölskyldustöðu, atvinnu og tekjur og fleira. Hópurinn sem rætt er við er langt frá því að vera einsleitur og ástæður þeirra fyrir að fara í fóstureyðingu voru af ýmsum toga. Kannski hefur fólk einhverjar staðalímynda-hugmyndir um konur sem fara í fóstureyðingar en þær eiga bara ekki við rök að styðjast og það kemur skýrt fram í bókinni. Þetta er fjölbreyttur og stór hópur (á hverju ári fá tæplega þúsund konur fóstureyðingu).

Hversu mikla áherslu leggja konurnar sem þið rædduð við á upplifun af skömm og virðast þær hafa haft mikla þörf fyrir eða fundist þær verða að leyna því að þær hefðu farið í aðgerðina? Var einhver kvennanna tilbúin til að koma fram í bókinni undir nafni?

Skömm var áberandi í reynslu kvennanna. Margar höfðu ekki rætt þessa reynslu við neinn annan en heilbrigðisstarfsfólk, sumar við nánustu ættingja en engan annan. Margar fundu ekki fyrir skömm yfir því að hafa farið í fóstureyðingu en fannst þær þá ekki nógu góðar á einhvern máta, og skömmuðust sín jafnvel fyrir að skammast sín ekki! Og sumar deildu ekki reynslunni með öðrum af því að þær vildu ekki láta dæma sig og gerðu sér grein fyrir að þær ættu það á hættu, þrátt fyrir að vera sjálfar alveg sáttar við val sitt. Ein kona bað um að fá að koma fram undir nafni, allar aðrar óskuðu eftir nafnleynd.

prochoice 3Hvernig virðist upplifun kvennanna almennt vera af LSH, viðmóti heilbrigðisstarfsfólks og þjónustunni í kringum aðgerðina?

Reynsla kvennanna af viðmóti heilbrigðisstarfsfólks er mjög misjöfn. Almennt tala konur um að þær hafi mætt stuðningi, skilningi og virðingu. Frá þessu eru nokkrar áberandi og alvarlegar undantekningar sem er sagt nánar frá í bókinni, en það hafa sem sé ekki allar konur þá reynslu að vel hafi verið komið fram við þær. Í einhverjum tilvikum hafa konur einnig nefnt að ráðgjöf hafi ekki komið til móts við þeirra þarfir eða stuðning og ráðgjöf hafi ekki verið til staðar eftir fóstureyðingu, þegar að konurnar hefðu þurft á slíku að halda.

Er það upplifun kvennanna að úrræðið sé ævinlega í boði og opið öllum konum, sama hverjar kringumstæðurnar eru, eða er „leyfi“ læknis hreint formsatriði? Upplifði einhver kvennanna að það væri einhvern tíma vafi á því að úrræðið stæði henni til boða og þá á hvaða forsendum?

Það þarf að sækja um leyfi til að fara í fóstureyðingu, og það leyfi er háð samþykki heilbrigðisstarfsfólks. Margar konur eru meðvitaðar um að þær séu að sækja um að fara í fóstureyðingu, þær hafi ekki óskorað vald yfir þessari ákvörðun. Sumar konurnar tala um að upplifa það þannig að þær þurfi að sannfæra félagsráðgjafa og lækni um að þær séu nógu góðar til að fá þetta. Ein talaði m.a.s. um að „rúlla upp“ viðtalinu, yfirkomin af feginleika yfir því að fá að nýta sér þetta úrræði. Þetta var nokkuð algengt – undirliggjandi, ekki uppi á yfirborðinu endilega – í frásögnum kvennanna og staðfesti fyrir okkur að þótt fóstureyðingar séu framkvæmdar hér á landi eins og þær séu frjálsar, þá er það ekki upplifun (allra) kvenna að þær séu það.

 Knúzið þakkar kærlega fyrir spjallið og mun að sjálfsögðu fylgjast vel með þegar bókin kemur út!

2 athugasemdir við “Frjálst, en skammarlegt?

  1. Bakvísun: Knúzannállinn 2015 | Knúz - femínískt vefrit

  2. Bakvísun: Frjálsar fóstureyðingar í augsýn? | Knúz - femínískt vefrit

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.