Játningar verðandi táningsmóður

Höfundur: Halldóra Björt Ewen

 

Kannski kvíði ég því að dóttir mín verði táningur.

Kannski kvíði ég því að dóttir mín stundi kynlíf.

Kannski kvíði ég því að dóttir mín spyrji mig ekki leyfis.

Kannski kvíði ég því að dóttir mín verði fullorðin og þurfi ekki mitt leyfi.

Kannski.

Ég held að ég sé ekki ein um að kvíða kannski framtíð dóttur minnar. Það eru án efa margir foreldrar sem eru ögn uggandi yfir framtíðinni og nútíðinni og eru hrædd um að geta ekki passað upp á litlu afkvæmin. Þessi tilfinning litar skoðun mína á nánast öllu sem ætlað er að höfða til dóttur minnar. Ég reyni að fylgjast með því sem gerist í lífi hennar utan veggja heimilisins og þeim sem reyna að fanga athygli hennar og hylli.

Skjáskot úr vinsælu tónlistarmyndbandi

Skjáskot úr vinsælu tónlistarmyndbandi

Margt sem ég sé verður tilefni til umræðu um mikilvæg mál eins og til dæmis líf og dauða, heilbrigði  og sjúkleika, vináttu og traust en oft beinist talið að hugmyndum um stráka og stelpur og hvernig þeim hugmyndum er dælt yfir verðandi táninginn. Lesendur Knúzzins þurfa ekki að nota ímyndunaraflið til að gera sér í hugarlund á hvaða nótum þær samræður eru og hvernig mér, móðurinni, líður eins og ég sé stödd í óvinnandi stöðugri baráttu við klám og ofbeldi sem mér virðist alls staðar vera dembt yfir barnið. Sumt af því sem ég sé er þó ekki endilega ætlað að höfða til svona ungra krakka en þau sjá það samt í heimi sem var öðruvísi þegar ég var 12 ára. Þá var t.d. einn þáttur á viku á einu sjónvarpsstöðinni sem sýndi nokkur tónlistarmyndbönd í hvert skipti, þá var ekki til internet og þá voru klámmyndir hafðar bakvið á vídeóleigum og um þær þurfti sérstaklega að biðja. Klámblöð voru þó nokkuð aðgengileg í bókabúðum.

Þegar kemur að klámfengnum tónlistarmyndböndum og kjánalegum myndböndum á YouTube finn ég fyrst og fremst fyrir vanmætti. Mér finnst ég, prívat og persónulega,  mega mín lítils gagnvart hinum alþjóðlega klámvædda heimi, en vona að með stöðugri baráttu femínista um allan heim verði lát á þessu efni.

Ég verð hins vegar óbærilega leið og reið þegar ég sé efni sem framleitt er í fyrirmyndarríkinu Íslandi. Okkur er nefnilega stöðugt sagt að hér ríki mesta jafnréttið í heiminum, að hér sé allt svo frábært, konur óvanalega sterkar og geti meira að segja orðið forseti og forsætisráðherra. Já einmitt, einu sinni! Það nýjasta sem rak á fjörur mínar var síðan stelpa.is og raunar systursíða hennar, strakur.is (ef ég ætti 12 ára son myndi ég deila með ykkur persónulegum áhyggjum mínum af því sem þar kemur fram). Útgáfufélagið segist m.a. miðla „skemmtilegri fræðslu“. Sigríður Dögg Arnardóttir vakti nú nýverið athygli á grein á stelpusíðunni þar sem reifaðar eru þær „hættur sem geta leynst í mátunarklefum í fatabúðum“. Kannski á sú grein fyrst og fremst að vera fyndin, þótt hún sé ekki undir fyndna efninu, og þá verð ég bara að viðurkenna að skopskyn mitt er ekki nógu fint fölende.

Skjáskot af forsíðu vefsvæðisins stelpa.is. Auglýsingin segir hugsanlega sitt um áherslurnar.

Skjáskot af forsíðu vefsvæðisins stelpa.is. Auglýsingin segir sitt um áherslurnar.

Þegar stelpusíðan er skoðuð kemur í ljós að á henni er ótrúlega ófrumlegt efni, allt um snyrtingu, mataræði, kynlíf og líkamsrækt, svo eitthvað sé nefnt. Stelpur fá ráð við að vera „gordjöss“ án þess að þvo sér um hárið þegar þær eru búnar í ræktinni, því allar viljum við jú vera gordjöss, alltaf og alls staðar. Stóri brandarinn er svo að innan um allt bullið sem kennir stelpum að vera svona eða ekki svona er greinin: Hættu að bera þig saman við aðrar!

Skjáskot af síðunni stelpa.is.

Skjáskot af síðunni stelpa.is.

Á síðunni gefst lesendum hennar kostur á að senda inn „trúnóbréf“ og fá ráð við hinu og þessu. Ef mark er takandi á þeim bréfum má sjá að lesendur eru (eða eru látnir virðast vera) allt niður í 12 ára gamlar stelpur (og þá er komin tenging við persónulegar áhyggjur mínar). Nafn síðunnar er svo augljóslega til þess gert að ná til stelpna, ungra stelpna og það vita þau/þær/þeir sem standa á bak við herlegheitin. Og þá spyr ég mig af hverju í ósköpunum þarf að kenna 12 ára stelpum að raka af sér píkuhárin? Af hverju mega þær ekki bara vera ánægðar með aukinn þroska sinn? Af hverju þarf að kenna 12 ára stelpum að allar vilji líta gordjöss út eftir æfingu? Af hverju þurfa stelpur og konur alltaf að vera gordjöss og hver er gordjöss-stuðullinn? Af hverju þarf að segja 12 ára stelpum að ÖLLUM konum hafi þótt hræðilegt að byrja á túr, alveg eins og þeim? Af hverju mega stelpur ekki bara vera ánægðar með að vera heilbrigðar? Af hverju virðast aðstandendur þessarar síðu ekki hafa heyrt neitt af því sem gerst hefur í baráttunni við úldnar hugmyndir um kynin undan farna áratugi? Af hverju?

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.