Irna Phillips – móðir sápuóperunnar

Höfundur: Sigríður Pétursdóttir

Leiðarljós, eða Guiding Light eins og þáttaröðin heitir á frummálinu, var vinsælt sjónvarpsefni á Íslandi árum saman. Þótt margir skammist sín fyrir að horfa á sápur, og sverji það jafnvel af sér, á Leiðarljós sér langa og merkilega sögu sem vert er að halda til haga. Upphaf þáttaraðarinnar má rekja allt til ársins 1937 og formlega lauk henni 18. september 2009, en þá fór síðasti þátturinn sem tekinn var upp í loftið. Þegar  hann var frumsýndur í Bandaríkjunum hafði Leiðarljós verið 72 ár á dagskrá og rúmlega 15.700 þættir farið í loftið, fyrst í útvarpi og síðan sjónvarpi.

Irna Phillips við vinnu sína árið 1972. Myndin er sótt hingað.

Sápuóperudrottningin Irna Phillips við vinnu sína árið 1972. Myndin er sótt hingað.

Höfundur Leiðarljóss, Irna Phillips, er reyndar er líka oftast titluð sem höfundur sápuóperuformsins. Hún var mikil kjarnakona, fæddist árið 1901 í Chicago, yngst tíu systkina. Faðir hennar rak litla matvöruverslun en lést þegar hún var átta ára. Irna sagði ekkjuna móður sína hafa verið sér fyrirmynd, sjálfstæð og ákveðin hafi hún ekki tekið annað í mál en að afkvæmin menntuðu sig. Irna lýsti sjálfri sér sem veiklulegu og frekar ófríðu barni. Hún var vinafá en lá í bókum. Nítján ára gömul varð hún ófrísk, barnsfaðir hennar yfirgaf hana og barnið fæddist andvana. Irna lærði leiklist í háskólanum í Illinois en heimildum ber ekki saman um hvort hún útskrifaðist með leiklist sem aðalfag eða kennslu og blaðamennsku. Sagan segir allavega að kennarar hafi hvatt hana til að leggja frekar kennslu fyrir sig en leiklist því hún hefði ekki rétta útlitið í leiklistina. Eftir að útskrifast með mastersgráðu kenndi Irna um tíma, bæði leiklist og fleiri fög, en útvarpsferill hennar hófst þegar hún var um þrítugt. Þá vann hún bæði við að leika smærri hlutverk og við handritaskrif.

Leikarar við upptökur á fyrstu þáttunum af Leiðarljósi, fyrir útvarp. Myndin er sótt hingað.

Leikarar við upptökur á fyrstu þáttunum af Leiðarljósi, fyrir útvarp. Myndin er sótt hingað.

Þáttaskil urðu þegar Irna Phillips skrifaði sitt fyrsta framhaldsleikrit fyrir útvarp, stutta þætti sem sendir voru út alla daga vikunnar nema sunnudaga og hétu Painted Dreams, Málaðir draumar. Þar voru konur í öllum hlutverkum og þær voru sannarlega ólíkar þeim kvenpersónum sem helst tíðkuðust á þessum vettvangi um 1930. Konurnar í Máluðum draumum voru sjálfstæðar, skoðanaglaðar og vel menntaðar. Phillips sagði karlaveldinu stríð á hendur en á þeim tíma voru nær eingöngu karlmenn í röðum gagnrýnenda og stjórnenda. Þeir voru allt annað en hrifnir og notuðu lýsingarorð eins og gróft, barnalegt og óraunsætt um útvarpsleikrit Irnu. Kostunaraðilar voru heldur ekki á því að þetta fyrirbæri myndi selja nokkurn hlut og þar sem Irna vissi að hún þyrfti á kostendum að halda skrifaði hún nokkra karlmenn inn í handritin og bætti við trúlofun og brúðkaupum. Þar með voru kostunaraðilarnir til í tuskið. Þar sem aðdáendur leikritanna voru að mestum hluta húsmæður voru það fyrst og fremst framleiðendur hreinlætisvara sem kostuðu þættina. Það er ástæða þess að þessi gerð útvarpsleikrita, og síðar sjónvarpsþátta sem sýndir voru að degi til, voru kallaðir „sápa“.

Eftir heilmikið vesen og málaferli, þar sem Phillips barðist fyrir höfundarétti, og eftir að hafa skrifað fleiri framhaldsleikrit með þessu formi fyrir útvarp, byrjaði Irna Phillips að skrifa Leiðarljós. Ekki grunaði hana þá að þættirnir yrðu á dagskrá í 72 ár. Fyrsti þáttur útvarpsleikritsins var sendur út 25. janúar 1937 en sjónvarpsþættirnir hófu göngu sína 30. júní 1952. Þó Leiðarljós væri komið í sjónvarp héldu útvarpsleikritin áfram til 1956, sömu leikararnir léku hlutverkin í báðum miðlum þessi fjögur ár. Frá árinu 1967 var Leiðarljós sent út í lit og þættirnir lengdust, en upphaflega var hver þáttur 15 mínútur.

Leiðarljós fjallaði í fyrstu um prestinn John Ruthledge og sóknarbörn hans í skálduðum úthverfabæ Chicago, Five Points. Nafnið drógu þættirnir af borðlampa á skrifstofu prestsins, en auðvitað var líka önnur merking á ferðinni. Höfundur vildi að bræðralag, umburðarlyndi, heiðarleiki og mannkærleikur yrði áhorfendum leiðarljós.

guiding light Alexandra

Alexandra Spaulding var lykilpersóna í Leiðarljósi og ekki alltaf vönd að meðulum sínum. Hún hefur verið leikin af mörgum leikkonum, hér Beverlee McKinsey. Myndin er sótt hingað.

Konur voru sterkar og fyrirferðarmiklar í þáttunum og fjölskyldulíf og góð gildi í brennidepli. Trúlega myndi Irna Phillis snúa sér marga hringi í gröfinni ef hún sæi eitthvað af sápuóperum nútímans en þó verður það að segjast að fram að endarlokum Leiðarljóss voru konurnar áfram atkvæðameiri en flestir karlanna. Þær stýrðu stórfyrirtækjum, voru afbragðs lögreglumenn og jafnvel fjöldamorðingjar. Reyndar voru vondu konurnar í Leiðarljósi svo rosalegar að flestir vondir kallar í kvikmyndum og sjónvarpi, blikkna í samanburði.

Það er ýmislegt sem einkennir sápuóperuformið öðru fremur og margt af því eignað Irnu Phillips. Til dæmis það sem á ensku er kallað „cliffhanger“, sem sagt það að láta hvern þátt enda á svo spennandi andartaki að maður hreinlega verði að sjá þann næsta til að komast að því hvað gerðist eða er um það bil að gerast. Oft eru aðalpersónur í klípu eða eða eru um það bil að komast að einhverju sem þær fá áfall yfir. Þannig er stuðlað að því að áhorfendur ánetjist þáttaröðinni. Einnig eru alltaf nokkrar sögur í gangi samhliða og ekki komið inn á þær allar í hverjum þætti. Oft klippt milli tveggja til þriggja frásagna hverju sinni. Reva og Josh og þeirra stormasama samband í forgrunni á mánudegi en Vanessa og vinna hennar sem forstjóri Spaulding á þriðjudegi, svo maður taki nú dæmi úr Leiðarljósi. Slíkar fléttur eru þekktar t.d. í bókmenntum en að setja allt þetta saman á þann hátt sem við þekkjum enn þann dag í dag í sápuóperum er eignað Irnu Phillips.

Margir þekktir leikarar eiga sér fortíð í sápuóperum. Kevin Bacon hóf ferilinn í Leiðarljósi 1980-1981.

Margir þekktir leikarar eiga sér fortíð í sápuóperum. Kevin Bacon hóf ferilinn í Leiðarljósi 1980-1981. Hér má sjá brot frá 1980, fyrir aðdáendur Kevins kemur hann inn í kringum 2:03.

Þær persónur sem kynslóðir á besta aldri í dag þekkja úr Leiðarljósi eru frá bænum Springfield, fjölskyldur Spauldinga, Lewisa og svo auðvitað Cooper fjölskyldan. Eins og í öllum sápuóperum fyrr og síðar er mikil valdabarátta á ferðinni, stéttamunur spilar líka inn í og ástir og örlög persónanna verða aðdáendum svo hugleikin að í hvert skipti sem einhver er skrifaður út úr handriti er viðkomandi syrgður af þúsundum aðdáenda eins og um ættingja væri að ræða.  Persónur í sápuóperum deyja gjarnan á vofeiflegan hátt, bílslys eru vinsæl og ennfremur húsbrunar og morð. Það er líka mjög algengt að fólk verði blint og fái svo sjónina aftur fyrir kraftaverk, nú eða missi minnið. Dásvefn er sömuleiðis algengur eftir slys. Manneskjur hverfa eins og jörðin hafi gleypt þær, svo birtast þær aftur mörgum árum síðar eftir ævintýri á eyðieyjum eða í fjarlægum borgum. Fólkið í sápunum virðist hafa svipaðan smekk þegar kemur að makavali, allavega giftist það gjarnan innan sömu fjölskyldunnar og sumar kvennanna hafa verið giftar föður og fleiri en einum sona hans. Ekki má svo gleyma leyndarmálunum sem ætíð drífa söguþráðinn áfram enda eiga sápuóperupersónur afar erfitt með að varðveita leyndarmál. Rangfeðranir eru daglegt brauð og nýir fjölskyldumeðlimir sem enginn vissi af koma fram í dagsljósið hver á fætur öðrum. Systkini sem ekki vita að um æðar þeirra rennur sama blóð verða ástfangin. Að ekki sé nú talað um framhjáhöld, þau eru eitt algengasta þemað, nú eða lygi þar sem afbrýðisemi rekur persónur áfram til að setja á svið ótrúlegustu leikþætti svo makinn trúi því að betri helmingur sé svikull og fláráður þó viðkomandi sé sárasaklaus. Ekki bregst heldur að eiginkonur og eiginmenn ganga inn í herbergi á nákvæmlega réttu augnabliki til að verða vitni að svikum.

Eftir ótal hrakfarir, hjónabönd við aðra og tilraunir til klónunar náðu Josh og Reva saman á fallegum júlídegi 1989. Myndin er sótt hingað.

Eftir ótal hrakfarir, hjónabönd við aðra og tilraunir til klónunar náðu Josh og Reva saman á fallegum júlídegi 1989. Myndin er sótt hingað.

Þó gjarnan sé brosað að sápuóperum er það staðreynd sem ekki er oft haldið á lofti að þær hafa oft rutt brautina fyrir umræðu um viðkvæm málefni. Leiðarljós fjallaði til dæmis snemma opinskátt um krabbamein og heimilisofbeldi, var fyrst til að sýna nauðgun í hjónabandi og svo má líka nefna málefni eins og fæðingarþunglyndi og áfengissýki. Það verður heldur ekki tekið af þessari þáttaröð að hún hefur haldið mörgum kynslóðum föngnum og enn er fólk á lífi sem fylgdist með þáttunum í útvarpi og síðan í sjónvarpi með börnum og barnabörnum.

Irna Phillips samdi fjölda annarra framhaldsþátta og sagt er að hún hafi skrifað að minnsta kosti tvær milljónir orða á ári. Hún giftist aldrei en ættleiddi tvö börn.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.