Af meintu barnleysi konu

Höfundur: Karlotta Leosdóttir

krossaumað leg

Við búum í London og njótum lífsins í stórborginni. Skreppum í helgarferð til útlanda þegar okkur dettur í hug. Förum á söfn og í leikhús, út að borða og á pöbbinn þegar okkur sýnist. Lífið er ljúft. Sambýlismaður minn er nýbúinn að fá stöðuhækkun og minn eiginn rekstur gengur mjög vel. Einu vangavelturnar snúast um það hvort við eigum að fara til Úsbekistan eða Taílands í næsta frí. Við erum bæði ánægð með það líf sem við lifum og hvorugt okkar er spennt fyrir því að fara út í barneignir, þó einstaka vinir séu farnir að spyrja hvort við ætlum ekki að fara að „gera eitthvað í þessu“ og eignast börn eins og allir aðrir. Við flissum bara yfir þessari fáránlegu hugmynd. Þá sjaldan ég hugleiði þessa hluti að einhverju ráði hugsa ég um það hvað allt yrði erfitt ef ég ætti barn. Gæti ég unnið eins og ég vil? Hvar ætti að geyma barnið í 25 fermetra stúdíóíbúð í London…í skókassa eða skúffu, kannski? Langar mig að eyða mörgum mánuðum í kúkableyjur og organdi ungbarn og svo ævinni í að finnast ég bera ábyrgð á öðrum einstaklingi? Ég sé þetta sem hálfgerða skyldu sem ég muni einhvern tíma þurfa að takast á við og ég finn fremur fyrir kvíða en gleði þegar ég hugsa um þessa hluti. Ég sé satt að segja ekkert jákvætt við þetta dæmi og svo er líka svo margt annað sem ég á eftir að gera fyrst.

Einn góðan veðurdag greinist ég svo með leghálskrabbamein. Meinið er komið á það stig að ég þarf að fara í lyfja- og geislameðferð og læknirinn tjáir okkur að ég muni ekki geta gengið með barn eftir þessa meðferð þar sem geislameðferðin skemmir legið. Mér líður eins og ég hafi verið slegin með blautri tusku í andlitið. Við sitjum þarna bæði með vot augu og forðumst að líta hvort á annað. Við reynum að halda ró okkar en erum bæði í miklu uppnámi yfir öllum þessum furðulegu og óvæntu upplýsingum. Mér er boðið að fá tíma hjá frjósemissérfræðingi svo hann geti betur útskýrt fyrir mér mína möguleika til þess að eignast börn seinna meir og ég þigg það. Sá læknir segir mér að hægt sé að búa til fósturvísa sem settir séu í frysti og látnir bíða þess að ég ákveði hvort ég vilji láta aðra konu ganga með barn fyrir mig. Þetta ferli myndi seinka meðferðinni um nokkrar vikur. Ég fer heim og hugsa málið í nokkra daga. Niðurstaðan er sú að mér finnst það óþægileg tilhugsun að vita af einhverjum fósturvísum í frysti úti í bæ sem bíða eftir að komast í leg annarrar konu. Mér finnst staðgöngumæðrun afar súrrealísk aðferð til barneigna og satt að segja er ég ekki sátt við þá aðferð af siðferðilegum ástæðum. Auk þess vil ég komast strax í meðferðina og það eina sem skiptir raunverulega máli er að lifa þetta ferli af. Svarið er því einfaldlega nei. Eftir þessa ákvörðun finn ég fyrir einhverjum alveg ósegjanlegum létti og það merkilega er að tilfinningin um að „geta ekki“ breytist í tilfinningu um að „þurfa ekki“.

En grillað leg

er víst ekki nægileg afsökun fyrir því að eignast ekki börn. Kona á að þrá það heitar en nokkuð annað í lífinu að eignast börn, því allar konur eiga víst að vera uppfullar af móðurtilfinningum. Ef barnið getur ekki orðið til á hefðbundinn hátt fær kona bara einhvern til að ganga með barn fyrir sig eða ættleiðir barn annarrar konu. Kona verður að eignast barn!

Það kemur mér á óvart hversu mörgum þykir það sjálfsagt að láta aðra manneskju ganga með barn fyrir sig. Ég verð að segja að mér finnst það mjög skrítið. Mér finnst það hreinlega hræðileg tilhugsun að nýta sér neyð annarra til eigin hagsmuna. Ég get ekki séð hvernig það getur verið betra en að kaupa vændi, sem er nokkuð sem ég er alls ekki hlynnt. Mér finnst heldur ekki siðferðilega rétt að setja pressu á ættingja eða vini til þess að fá lánað leg, eins og á við um staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni.

Myndin sótt hingað.

Myndin sótt hingað.

Svo eru það ættleiðingarnar … Það er svo sannarlega til nóg af foreldralausum börnum í heiminum sem eiga skilið að fá ást og umhyggju og ég dáist virkilega að fólki sem ættleiðir annarra manna börn. Ef mig langaði í raun og veru í barn er það sú leið sem ég myndi velja. Eina vandamálið er það að ég hef bara alls ekki neina löngun til þess að ala upp barn. Ég er líklega bara svona skrítin! Þegar fólk setur lítil börn í fangið á mér vil ég helst skila þeim strax aftur í hendur foreldranna. Mér finnst ekkert gaman að halda á litlum börnum og mig langar mest til að hlaupa burt þegar ég heyri lítil börn gráta. En það virðast allir vilja eiga vinkonu sem ættleiðir barn og ég hef komist að því að konur sem vilja ekki ættleiða eru satt að segja álitnar frekar sjálfselskar og harðbrjósta. Ég hef fengið að þola þrýsting frá konum sem segja við mig með þjósti: „Ég myndi sko ættleiða ef ég væri þú. Það er svo mikið til af börnum sem eiga erfitt í heiminum“. Þessar sömu konur ákváðu samt að eiga börnin sín sjálfar frekar en að ganga í gegnum hið langa og stranga ferli sem ættleiðingar eru. Af hverju höfðu þær ekki þolinæði og góðmennsku í það að bíða eftir að geta ættleitt eitthvert foreldralaust kríli í stað þess að fjölga sér á hefðbundinn hátt? Svo eru það rökin „Þið getið ekkert verið bara tvö. Þá er enginn tilgangur í lífinu nema borða, vinna og sofa eins og samband milli tveggja einstaklinga geti ekki gengið upp nema það sé fullkomnað í getnaði. Ég held að þetta hljóti að segja meira um gallana í sambandi viðkomandi en um mínar aðstæður. Tveir einstaklingar geta svo sannarlega átt mjög sterka tengingu án þess að hafa þörf fyrir að fjölga sér. Það veit ég vel af eigin reynslu.

Ég missi ekki af neinu

Ég fæ reglulega að heyra að það sé svo sorglegt að ég geti ekki eignast börn og ég hef líka verið spurð hvort ég sé ekki bara að þykjast vera sátt við aðstæðurnar. Svo er það fólkið sem segir mér að hafa ekki áhyggjur því það finni á sér að við munum eignast barn þrátt fyrir allt, með einum og öðrum hætti. Þetta er sjálfsagt allt voðalega vel meint. En vandamálið er það að ef ég sýni jákvæðan áhuga á börnum er fólk strax búið að ákveða að mig dauðlangi í barn og ef ég sýni börnum lítinn áhuga ákveður fólk að ég eigi erfitt með að umgangast börn af því að ég sé svo svekkt yfir því að geta ekki eignast börn sjálf. Hálfókunnugt fólk hikar ekki við að spyrja mig af hverju ég eigi ekki börn og þegar ég segist ekki geta eignast börn setur það yfirleitt upp meðaumkunarsvipinn, en ef ég segist ekki vilja eignast börn fæ ég hneykslunarsvipinn. Mínir nánustu skilja mína afstöðu og eru fyrst og fremst glaðir yfir því að ég skuli hafa komist yfir hættulegan sjúkdóm. Ég samgleðst vinum mínum innilega þegar þeir eignast börn af því að ég veit að þeir eru að fá það sem þeir óska sér. Á sama hátt óska ég mér þess einfaldlega að fólk geti samglaðst mér yfir því að lifa því lífi sem ég vil. Ég get ekki séð að það fólk sem á börn sé almennt hamingjusamara en ég sjálf. Það lifir bara hreinlega öðruvísi lífi en ég. Það er svo margt sem mig langar að gera sem ég hef enn ekki afrekað, en sem er mun ofar á listanum yfir það sem ég vil gera í lífinu en barneignir. Ég hugsa ekki um það dags daglega að ég sé að missa af einhverju af því að ég sé barnlaus. Minn veruleiki er bara svona og ég get ekki ímyndað mér hann öðruvísi. Ég myndi gjarnan vilja búa erlendis hluta af árinu og ferðast meira en ég geri núna. Ég vil njóta líðandi stundar og ég vil ekki vera bundin yfir einhverri rútínu. Ég er líka svo heppin að eiga maka sem hugsar líkt og ég í þessu samhengi. Okkur vex það hreinlega í augum að bera ábyrgð á einhverjum öðrum en okkur sjálfum. Sumir tala um eftirsjá og hvort ég muni ekki sjá eftir því að hafa ekki eignast börn þegar ég er orðin gömul og enginn sinnir mér. En munu hinir þá ekki alveg eins sjá eftir því að hafa ekki gert allt sem ég hef gert? Sumum finnst ég vera að missa af ótrúlegri reynslu en mér finnst svo margir missa af alls konar ótrúlegri reynslu sem ég hef upplifað og vildi ekki hafa misst af. Ég hef búið í ýmsum löndum, ferðast um heiminn og ég vil geta skroppið út að fá mér bjór eða vínglas þegar mér dettur það í hug. Ég get ekki hugsað mér lífið öðruvísi. Ein magnaðasta reynsla sem ég hef upplifað er að mæta fíl úti á götu þegar ég ferðaðist um Indland… Margir ganga í gegnum lífið án þess að upplifa það nokkurn tíma að mæta fíl úti á götu, klífa fjöll í Tadsjíkistan eða sigla um Anchor flóa. En þetta eru hlutir sem ég hefði ekki viljað missa af og ég veit að ég á enn eftir að upplifa ótal margt af þessu tagi.

Þrýstingur kvenna

Eitt þykir mér nokkuð merkilegt í þessu máli og það er að ég finn oftast fyrir þessum þrýstingi frá konum. Fáir karlmenn hafa nokkurn tíma sýnt mér jafn mikla afskiptasemi í tengslum við barneignir eða barnleysi eins og konur gera. Margar konur virðast líta á það sem órjúfanlegan hluta af kvenleikanum að eignast afkvæmi. Á sama hátt spyr enginn manninn minn álits á hans hlið á þessu máli. Þar sem hann er karlmaður þykir víst eðlilegt að hann sé ekki mikið að velta þessum hlutum fyrir sér. Hann hefur samt gert það og er alls ekki spenntur fyrir því að eignast börn. Mér finnst líka merkilegt að hugsa til þess að áður en ég veiktist og fólk var farið að hafa áhyggjur af þessu „barnleysi“ okkar var því nokkrum sinnum stungið að mér að karlmenn vissu ekkert hvað þeir vildu í þessum málum og að best væri að plata bara karlinn og verða ólétt þegar mig færi að langa til að eignast barn. Hvers konar ráðleggingar eru það eiginlega?

Hin rómaða leikkona Helen Mirren segist aldrei hafa langað að eignast börn. Það þykir róttæk afstaða. Myndin er sótt hingað.

Hin rómaða leikkona Helen Mirren segist aldrei hafa langað að eignast börn. Það þykir róttæk afstaða. Myndin er sótt hingað.

Vansæl húsmóðir með samviskubit

Margar þekktar konur hafa í seinni tíð komið fram opinberlega og sagt að þær finni ekki hjá sér þörf til þess að eignast börn. Má þar m.a. nefna Helen Mirren og Jennifer Aniston. Það vekur almennt mikla furðu hjá fólki og þessar konur eru jafnan álitnar nokkuð skrítnar og sjálfselskar fyrir vikið. Fólk virðist ennþá telja að það sé í eðli kvenna að vilja eignast börn en mér finnst þjóðfélagsleg pressa vera frekar stór hluti af þessu. Ég þekki margar konur sem hafa miklar efasemdir um barneignir, rétt eins og ég þekki marga karlmenn sem þrá að eignast börn og öfugt. Ég held að þetta sé oft meira einstaklingsbundið en kynbundið. Ég þekki líka dæmi um hressar og skemmtilegar konur sem fóru út í barneignir vegna aldurs eða áhuga maka á barneignum en upplifðu mjög mikið þunglyndi og erfiðleika í kjölfarið. Þessar sömu hafa hvatt mig eindregið til þess að njóta vel barnlausrar tilveru minnar. Ég er ekki að segja að þær séu ekki hamingjusamar í dag eða að þeim þyki ekki vænt um börnin sín. En mér fannst skrítið að horfa upp á hressar og klárar konur í góðri stöðu breytast í óhamingjusamar húsmæður með samviskubit. Það er greinilega einhver þjóðfélagsleg pressa til staðar sem hefur áhrif á konur í sambandi við barneignir. Það er endalaust fjallað um það að konur þurfi að fara að huga að barneignum um leið og þær eru komnar yfir þrítugt og maður heyrir jafnvel af því að kvensjúkdómalæknar fitji upp á þessu umræðuefni við konur af fyrra bragði og hvetji þær til að fara að mæla líkamshita og fylgjast með egglosi eftir vissan aldur. Þjóðfélagið leggur endalaust sitt af mörkum til þess að styrkja þá ímynd að kvenleikinn fullkomnist í því að verða móðir. Páfinn hefur jafnvel tjáð sig um það að fólk sem ekki eignast börn sé sjálfselskt…væntanlega á hann þar aðallega við konur, nema hann hafi ætlað að gagnrýna sjálfan sig í leiðinni.  Ég hef líka horft upp á fólk reyna að líma saman brotin sambönd með barneignum sem er afar sorglegt og skyggir oft mikið á hamingjuna sem ætti að fylgja fæðingu nýs barns. Það er ekki alltaf lausnin að búa til nýjan einstakling.

Margir hafa talsvert ákveðnar skoðanir á barnleysi annarra. Myndin er sótt hingað.

Margir hafa talsvert ákveðnar skoðanir á barnleysi annarra. Myndin er sótt hingað.

Líf með laskað leg

Ég hugsa að ég hefði alveg getað orðið góð mamma. Ég er líka alveg viss um að mér þætti vænt um barnið mitt og að ég væri góð við það. En þurfa nokkuð allir að eignast börn? Það eru aðrir hlutir sem heilla mig miklu meira í lífinu. Fyrir mér er þetta eiginlega eins og ég hafi komið að tveimur dyrum og valið að ganga gegnum einar dyr en ekki hinar og svo held ég bara áfram þá leið sem ég valdi. Það er engin ástæða til að sjá eftir að hafa ekki farið inn um hinar dyrnar eða spá í það hvað hefði gerst ef ég hefði valið annað. Það er bara þannig. Ég hef aldrei séð eftir neinu sem ég hef gert um ævina. Ég geri nefnilega alltaf það sem ég vil helst gera og þess vegna er ég sátt og hamingjusöm, sama hvað hver kann að halda um það. Ég fagna því að vera á lífi og að vera eins heilbrigð og ég er miðað við allt sem líkami minn hefur þurft að ganga í gegnum. Ég er þakklát fyrir að hafa fengið krabbamein í líffæri sem ég get lifað án. Maður getur jú lifað góðu lífi án þess að vera með starfhæft leg. Satt að segja held ég að mér hefði þótt erfiðara að missa brjóst heldur en að tapa frjóseminni. Það er nokkuð sem kann að hljóma yfirborðslega í annarra eyrum en svona er ég bara og við erum víst jafn ólík og við erum mörg. Það er engin ástæða til þess að vera með samviskubit yfir því að vera hamingjusamur eins og maður er.

Ein athugasemd við “Af meintu barnleysi konu

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.