Hvað þarf kona eiginlega að gera?

Höfundur: Hildigunnur Rúnarsdóttir

ethel stark

Ethel Stark, stofnandi og stjórnandi Montreal Women´s Symphony Orchestra, sem starfaði frá 1940 til 1965. Myndin er sótt hingað.

 

Mánudaginn 20. apríl síðastliðinn var haldið málþing á vegum Háskólans á Bifröst undir yfirskriftinni Konur í klassískri tónlist.

Í kynningu viðburðarins á Facebook segir:

Í gegnum tónlistarsöguna hafa konur ekki fengið viðurkenningu eða tækifæri á við karlmenn og litið hefur verið á heim sígildrar tónlistar sem heim karlmanna.

Nú á tímum, jafnvel þó konur séu oft í meirihluta í hópi flytjenda sígildrar og samtímatónlistar, er langt í frá að þær séu jafnfætis körlum í hópi stjórnenda hvað þá tónskálda sem valin eru til flutnings. 

Markaðsetning á konum innan tónlistarheimsins virðist einnig oftar hafa kynferðislegar vísanir og meira lagt uppúr útliti en hjá körlum.

Hvers vegna ættu konur ekki að standa fullkomlega jafnfætis karlmönnum innan tónlistarheimsins? Hvað getum við gert til þess að breyta til hins betra?

Frummælendur voru Arna Kristín Einarsdóttir framkvæmdastjóri Sinfóníuhljómsveitar Íslands, Signý Leifsdóttir framkvæmdastjóri Íslenskrar tónverkamiðstöðvar og Hallfríður Ólafsdóttir flautuleikari, hljómsveitarstjóri og frumkvöðull. Fundarstjóri var Sigrún Lilja Einarsdóttir lektor við Háskólann á Bifröst.

Að sumu leyti er eins og ákveðnir hlutar tónlistarheimsins hafi ekki þróast í takt við annað í listum og samfélagi eða í samfélaginu sjálfu. Í hópi tónlistarflytjenda ríkir ágætis hlutfall kvenna og karla en það er langt frá því tilfellið þegar kemur að tónskáldum og hljómsveitarstjórum.

Hildegard von Bingen, smámynd úr miðaldahandriti. Myndin er sótt hingað.

Hildegard von Bingen, smámynd úr miðaldahandriti. Myndin er sótt hingað.

Í tónlistarsögunni fer mjög lítið fyrir tónskáldum annars kyns en karlkyns og alls ekkert fyrir kvenkyns hljómsveitarstjórum. Konum var markvisst haldið frá námi og störfum, en örfá nöfn eru þekkt. Þannig var Hildegard von Bingen, abbadís í Benediktínaklaustri, óheft af hefðbundnum kröfum um annast um börn og buru, sumir fræðimenn vilja meina að Anna Magdalena Bach, seinni kona Jóhanns Sebastians hafi verið mjög hjálpleg bónda sínum með sitt gríðarlega tónlistarframlag og það sama má segja um Fanny Mendelssohn, systur hins þekkta tónskálds Felixar, en það þykir ljóst að hún hafi samið ýmislegt sem bróðir hennar er skrifaður fyrir. Clara Schumann náði töluverðri frægð, þó fremur sem píanóleikari en tónskáld. Engin þessara þó þekktustu kventónskálda sögunnar fram að tuttugustu öld naut formlegs tónsmíðanáms.

Arna Kristín Einarsdóttir sagði á málþinginu sögu af Jóni Leifs, okkar þekktasta klassíska tónskáldi á alþjóðavísu. Kona Jóns, Annie Leifs (fædd Riethof), sem var afburða píanóleikari, fluttist með honum til Íslands og ól þar upp tvö börn þeirra hjóna og annaðist heimilið. Þau hjónin héldu saman nokkra tónleika en Jóni þótti hennar framlag ekki merkilegra en svo að hann fleygði öllu því sem skrifað var um hana, en hélt vandlega utan um allt það sem fjallaði um hann sjálfan. Kannski var það bara hans eigið egó sem ekkert mátti skyggja á en feðraveldið vokir samt þarna yfir eins og skuggi. Og þegar nafn Annie Riethof er slegið inn í leitarvélina Google koma eingöngu upp færslur um eiginmann hennar, verk hans og störf eða vísanir í kvikmyndina Tár úr steini, sem fjallar um ævi Jóns Leifs..

Þessi litla saga, frá fyrri hluta síðustu aldar hér uppi á Íslandi, er síðan auðvitað dæmigerð fyrir kvennasöguna í hinum klassíska tónlistarheimi (já og reyndar mannkynssöguna í heild líka).

Blásarar í Vínarfílharmóníunni. Myndin er frá 2012 og er sótt hingað.

Blásarar í Vínarfílharmóníunni. Myndin er frá 2012 og er sótt hingað.

Það er ekki langt síðan konum var leyft að komst að sem hljóðfæraleikarar. Enn eru til dæmi um hljómsveitir sem vilja helst ekki ráða aðra en karla – Vínarfílharmónían hætti nýlega að halda svokallaðar „blind auditions“, eða prufuspil bak við tjald, því (ógn og skelfing!) stundum varð það fyrirkomulag til þess að ráðnar voru konur, því þær spiluðu betur en karlarnir. Þetta er sem betur fer ekki reyndin víða og þetta hefur breyst mjög hratt. Nú eru kynjahlutföll nokkuð jöfn í flestum hljómsveitum í hinum vestræna heimi.

Hagfræðingarnir Cecilia Rouse og Claudia Goldin unnu saman viðamikla rannsókn árið 1997 á útkomu úr prufuspilum bak við skerm hjá nokkrum stærstu sinfóníuhljómsveitum Bandaríkjanna. Þær komust að því að þegar dómnefndir sáu ekki hver var að spila var útkoman sú að ráðið var nokkurn veginn jafnt hlutfall kvenna og karla. Þær sýndu með óvenju afdráttarlausum hætti að þegar breytan „kyn“ er fjarlægð, jafnast hlutfallið af sjálfu sér. Gæti verið að konur og karlar séu hreinlega bara jafngóð? Kæmi á óvart – eða kannski ekki.

Það er hins vegar ekki eins auðvelt að rétta hallann af þegar kemur að stjórnendum. Það er ekki nokkur leið að prófa stjórnanda bak við tjald og fordómarnir eru mjög miklir þegar kemur að kvenkyns stjórnendum. Afsakanirnar eru óteljandi – fyrir stuttu síðan lét rússneskur karlkyns hljómsveitarstjóri út úr sér að það væri mikið betra fyrir hljómsveit að hafa karl uppi á palli heldur en konu því kvenkyns stjórnendur gætu jú átt til að geisla svo miklum kyntöfrum að hljóðfæraleikararnir gætu ekki einbeitt sér að tónlistinni. Reyndar er þessi stjórnandi sjálfur afskaplega fagur og jafnvel kynæsandi fyrir þann um það bil helming hljómsveitarinnar sem laðast að hans kyni þannig að þetta heldur ekki alveg vatni hjá honum.

Hallfríður Ólafsdóttir stjórnar verkinu Eldur eftir Jórunni Viðar. Upptakan er frá tónleikum í Eldborg 2. mars.

Það eru hins vegar örar breytingar í gangi. Fjöldi tilkynninga frá umboðsskrifstofum um kvenkyns stjórnendur hefur aukist gríðarlega bara núna á síðustu vikum og er það vel.

Þá komum við að tónskáldunum.

Þar hafa hlutirnir mjatlast lengur, enda auðveldara að sinna köllun sinni heima en að fá tækifæri til að sveifla sprota. Þróunin er samt engan veginn eins hröð. Hér á Íslandi eru hlutföllin betri en víða annars staðar, að minnsta kosti miðað við hversu vel konum gengur að fá verk sín flutt og hve mikið er pantað frá þeim, en talsvert starf er þó óunnið enn. Í Tónskáldafélagi Íslands eru nú 71 félagi, þar af eru 13 konur, eða um 18%. Á skrá hjá Íslenskri tónverkamiðstöð eru um 350 höfundar, þar af 38 konur, eða tæp 11%. Síðan í ágúst 2013 hafa 39 tónskáld skilað inn verkum, þar af eru 10 konur, eða 25,6%.

Hér stjórnar Hildigunnur Rúnarsdóttir Sinfóníuhljómsveit áhugamanna í flutningi á verkum hennar Vals og Sveitadans, á tónleikum í Eldborg þann 8. mars sl. Myndbandið er að finna hér og tónlistarflutningurinn hefst þegar um það bil 2 mínútur eru liðnar af upptökunni.

Ef litið er til 20 söluhæstu tónskálda Tónverkamiðstöðvar árið 2014 eru 4 þeirra konur, eða 20%. Anna Þorvaldsdóttir er söluhæst lifandi tónskálda, karla sem kvenna, og þriðja söluhæsta tónskáld ef öll eru talin, lífs eða liðin. Verk hennar eru gefin út af Deutsche Gramophone og hafa hlotið norrænu tónskáldaverðlaunin og þau eru leikin reglulega út um allan heim. Þetta gerir það enn sérkennilegra að í stórri grein The Guardian um íslenska nútímatónlistarsenu var Björk (eins frábær og hún nú er) eina konan sem var nefnd (og það aðeins í framhjáhlaupi).

Hvað þarf kona eiginlega að gera til að tekið sé eftir?

Þeim konum sem hefur gengið einna best í alþjóðlegu samhengi er konum sem skrifa tónlist sem ekki er hægt að greina kyn þeirra af. Það að „skrifa ekki eins og stelpa“ þykir hrós. Ef eitthvað er til sem heitir dæmigerð kvennatónlist á hún sannarlega ekki upp á pallborðið á nútímatónlistarhátíðum. Of lagræn. Ekki nægilega avant-garde. Of tilfinningaleg og þar af leiðandi ekki nægilega „intellectual“.

Þessu hugarfari þarf að breyta. Það þarf að hvetja konur til að líta á sjálfar sig sem jafnoka karla, án þess að þurfa að breyta stíl eða hugarfari. Það þarf að koma körlum – já reyndar öllum – í skilning um að fjölbreytileikinn er fyrir öllu. Það er bara líka svo endalaust miklu, miklu skemmtilegra.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.