Konur eiga að ráða

Höfundur: Sóley Tómasdóttir

Landspítalinn hefur gefið út ný tilmæli um heimsóknir og viðveru á meðgöngu- og sængurlegudeild og fæðingarvakt. Tilmælin eru sett fram í nafni hagsmuna fæðandi kvenna, nýbura og fjölskyldna þeirra. Þeim er ætlað að vernda viðkvæmt ferli tengslamyndunar og gæta sem best að heilsu móður og barns fyrstu klukkustundirnar eftir fæðingu.

Hinar nýju reglur ganga fyrst og fremst út á að takmarka fjölda viðstaddra í fæðingu og heimsóknir aðstandenda eftir að barnið er fætt. Þannig segir í tilmælunum:

fæðing1Ljósmæður og læknar fæðingarvaktar mælast til þess að eingöngu einn einstaklingur sé viðstaddur fæðingu móðurinni til stuðnings til að trufla ekki það viðkvæma ferli sem fæðingin er. Heimsóknir á fæðingarvakt til fæðandi kvenna og fyrstu tímana eftir fæðingu eru ekki æskilegar. Fæðingin og tíminn fyrst eftir fæðingu er mikilvægur fyrir tengslamyndun foreldra og nýbura. Grunnurinn að brjóstagjöf er lagður á fyrstu tímunum eftir fæðingu og mikilvægt að móðir og barn fái frið og tíma til að leggja þann mikilvæga grunn.

Þessi tilmæli eru í algerri andstöðu við yfirlýst markmið spítalans um að skapa þægilegt og rólegt umhverfi þar sem konan getur sjálf verið við stjórnvölinn í fæðingunni, enda ljóst að fyrir margar konur skiptir máli að hafa með sér fleiri en einn aðstandanda. Þess utan getur fjölskylduform verið með ýmsum hætti þar sem verðandi foreldrar eru fleiri en tveir að ekki sé talað um fæðandi konur sem hafa með sér túlka eða aðstoðarfólk vegna fötlunar.

Tilmæli og reglur spítalans gegnum tíðina eru raunar umhugsunarverð. Þar hafa stefnur og straumar breyst mjög, án þess að sýnt hafi verið fram á að hagsmunir fæðandi kvenna, þarfir eða vilji hafi breyst mikið. Heimildir til heimsókna og fjölda viðstaddra hafa rokkað umtalsvert gegnum tíðina, afstaða til vatnsfæðinga hefur verið mjög misjöfn og aðstaðan sjálf hefur tekið breytingum þar sem ýmist hefur verið boðið upp á klínískar fæðingarstofur eða svokallað Hreiður.

Sé spítalanum alvara með að standa vörð um eðlilegar fæðingar, að virða óskir skjólstæðinga sinna og koma til móts við þær eftir bestu getu, væri þá ekki nær að tilmælin hljómuðu eitthvað á þessa leið:

Ljósmæður og læknar fæðingarvaktar mælast til þess að vilji  móður um fjölda viðstaddra sé virtur eins og kostur gefst til að trufla ekki það viðkvæma ferli sem fæðing er. Sama gildir um heimsóknir eftir fæðingu. Grunnurinn að brjóstagjöf er lagður á fyrstu tímunum eftir fæðingu og mikilvægt að hann sé lagður við aðstæður sem henta móður og barni sem best og að þau fái stuðning frá þeim sem móðirin kýs.

Brýnt er að koma til móts við ólíkar þarfir, hugmyndir og vilja fæðandi kvenna og að mæðravernd og foreldrafræðsla hjálpi konum til að taka sjálfar ákvarðanir um hvernig þær vilji haga sínum fæðingum.

fæðing2Fæðingin og tíminn fyrst eftir fæðingu er mikilvægur fyrir tengslamyndun fjölskyldna og mikilvægt að sú tengslamyndun fari fram í samræmi við aðstæður hverju sinni. Fæðandi konur hafa ólíkar þarfir og vilja,  þær eru í mjög mismunandi aðstæðum og fjölskylduform verður æ fjölbreyttara. Brýnt er að taka tillit til alls þessa.

Heilbrigðisstarfsfólk og aðstandendur eru hvattir til að virða vilja fæðandi kvenna og nýbakaðra mæðra.

Ég ber mikla virðingu fyrir þeirri fagþekkingu sem er til staðar á Landspítalanum. Þar er fólk sem veitir ómetanlega þjónustu við fæðandi konur, hefur sérþekkingu á vandamálum sem upp koma í fæðingum og lausnum á þeim. Þar hefur ótal mannslífum verið bjargað og þar er alla jafna veitt framúrskarandi þjónusta. Sú gagnrýni sem hér kemur fram lýtur ekki að þeirri sérfræðiþekkingu. Hér er eingöngu farið fram á að sjálfræði kvenna sé virt, ásamt þeirri sérfræðiþekkingu sem þær hafa á eigin getu, þörfum og vilja.

6 athugasemdir við “Konur eiga að ráða

 1. Hefur þér ekki dottið í hug að þessi tilmæli séu til komin af slæmri reynslu af núverandi ástandi. Hefur þér dottið í hug að fæðing sé stund sem móðir og faðir(já þeir verða víst foreldrar líka) ættu að eiga með sínu nýfædda barni? Auðvitað eru aðstæður misjafnar og oft kemur það fyrir að verðandi foreldrar eru ekki saman en ég er meira að tala um algengar aðstæður í stað þess að tína til hvert einasta jaðartilfelli sem til finnst, líkt og þú gerir.

  Ég hef lent í því að vera viðstaddur fæðingu þar sem tengdamóðir mín og mágkona bókstaflega ýttu mér út í horn og tóku öll völd. Þær skipuðu meiri að segja starfsfólki fyrir – og þetta er ekkert einsdæmi. Þar sem ég var að verða foreldri í fyrsta sinn átti einfaldlega ekki von á þessu og vissi eiginlega ekki hvað ég átti að gera, enda ekki ólíklegt að maður hafi panikkað smá þegar hlutirnir fóru að gerast. En það sem verra var(og ég áttaði mig ekki á fyrr en síðar) er að ég varð í kjölfarið mjög bitur og reiður út í þær fyrir að hálfpartinn ræna mig(og okkur) þessari einstöku stund sem við hefðum annars getað átt þrjú.

  Það sem ég er kannski að reyna að segja er einfaldlega það að þegar kemur að því að fjölga mannkyninu þá koma þar við sögu þarfir annarra en bara móðurinnar. Mín skoðun er sú að fæðing er einkatími foreldra og barns og að ömmur, systur, vinkonur eða aðrir eiga ekkert erindi inn á fæðingarstofu nema samband foreldra sé óeðlilegt eða einfaldlega ekki til staðar. Ég veit að slíkt getur verið ótrúlega erfitt að meðtaka en feður hafa líka ákveðnar væntingar til þessa stundar sem er mjög auðvelt að eyðileggja – að eilífu.

  • Þarfir móður í fæðingu koma á undan óskum feðra sem eru viðstaddir fæðingu, en að þarfir móður séu virtar í fæðingu skiptir miklu máli uppá fæðingarferlið sjálft.

 2. Vitum við hvernig þessi tilmæli eru túlkuð og útfærð? Ef þetta eru sveigjanleg tilmæli sem auðsótt er fyrir fæðandi konur að sniðganga ef þær óska sjálfar sérstaklega eftir því þá finnst mér þetta bara hið besta mál og ég myndi halda að þau væru þarna einmitt til að gefa konunni færi á að ráða sjálfri en ekki einhverjum ættingjum hennar og vinum sem láta hana kannski ekki í friði og þrýsta á um að fá að vera á staðnum þó að móðirin hafi ekki óskað eftir því. Það getur verið erfitt að segja nei við fólk sem langar að fá að heimsækja nýfædda barnabarnið sitt/frændann/o.s.frv. eða sem langar að fá að sjá barnabarnið fæðast, vill fá að gefa ráð og allt það og kona sem er í miðri fæðingu eða nýbúin að fæða er kannski ekki endilega á besta staðnum til að fara að beita hörðu við ágenga ættingja. Stundum getur það einfaldað málið að það sé hægt að vísa fólki frá með þeim orðum að spítalinn leyfi ekki heimsóknir.

 3. Ég er algjörlega sammála því sem kemur fram í þessari grein og sem ófrísk kona sem á von á mínu þriðja barni á komandi vikum þá finnst mér persónulega þessi tilmæli gera lítið úr mér og mínum hæfileika til að taka sjálfstæða ákvörðun um það hvernig umhverfi hentar mér og mínu barni best. Það er fáránlegt að afsaka þetta með því að segja að það þurfi kannski ekki að fara eftir þessu og það er ekki hægt að túlka þetta þannig að verið sé að gefa konunni færi á því að ráða meiru sjálf. Ef kona getur ekki komið fram sínum óskum og væntingum í orðum til ættingja og vina þá er það vandamál sem leysist ekki með því að ríkisstofnun gefi út „plat“ tilmæli til að að villa fyrir þessum ættingjum og vinum, gefum okkur óléttu konunum aðeins meira kredit en þetta! Ég þarf amk engan til að blekkja mína vini og ættingja fyrir mig. Væri ekki með sömu rökum hægt að segja að best sé að hafa ekki neinn aðstandanda viðstaddann? Ef fæðing snýst bara um tengslamyndun eftir að barnið kemur í heiminn, best að enginn sé þar til að trufla þetta ferli? Ef rannsóknir sýna fram á að eitthvað sé betra en annað þá er hægt að hafa það hluta af fræðslu til verðandi foreldra ekki þröngva því uppá þá. Þetta er stórt skref afturábak í þjónustu spítalans við fæðandi konur ekkert annað en það!

 4. “Konur eiga að ráða” nema þegar kemur að staðgöngumæðrun, vændi o.s.frv., o.s.frv.
  Skemmilegt hvað mikil tvöfeldni kemur fram í skrifum ýmissa hér.
  En auðvitað eiga konur að ráða yfir sér og líkama sínum, án beinnar íhlutunar velmeinandi forráðahyggjandi fólks sem skilur ekki aðstæður viðkomandi eða deilir ekki gildismati fullkomnlega með konunni, þrátt fyrir eigin staðföstu trú um að höndla sannleikann fyrir alla aðra.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.