Scarlet og „skömmin“

Höfundur: Sigríður Pétursdóttir

Scarlet 1

Scarlet er eldhress og skemmtileg ung kona á öðru ári í háskólanámi. Hún elskar djammið og nýtur þess að stunda kynlíf með kærustum sem koma og fara. Þar til hún hittir Daníel. Hann er sá fyrsti sem Scarlet verður ástfangin af og lífið er gott.  Dag nokkurn breytist allt. Hún vaknar timbruð og man lítið eftir undangenginni nótt á djamminu. Þegar Scarlet opnar Facebook blasir við henni myndband, þar sem hún sjálf er í aðalhlutverki í vægast sagt afhjúpandi aðstæðum. Myndbandið fer eins og eldur í sinu um netið án þess að Scarlet fái rönd við reist og líf hennar verður aldrei samt.

Scarlet kynntist ég í heimsókn í Southwark Playhouse. Leikritið þróaðist úr tuttugu mínútna einleik í leikrit í fullri lengd og er frumraun höfundarins Sam H. Freeman. Og þvílík frumraun. Scarlet er núna leikin af fjórum leikkonum, þær túlka misjafnar hliðar hennar og leika auk þess alla aðra sem koma við sögu – kærasta, kvalara og vinkonur.  Þegar ég heyrði fyrst af þessu formi hugsaði ég með mér að það væri nú eiginlega uppskrift að óskapnaði, en viti menn: Í meðförum leikstjórans Joe Hufton og leikkvennahópsins gengur það fullkomlega upp. Allir kannast við það hvernig raddirnar í höfðinu geta tekist á og þess vegna skynjar maður Scarlet og breyskleika hennar enn betur þegar upp er staðið. Það er hún sem túlkar atburðarásina og maður sér allar aðrar persónur sem hlut eiga að málinu frá hennar sjónarhorni.

Scarlet er einstaklega fyndið leikrit á köflum, sem er þakklátt þar sem umfjöllunarefnið er harmleikur af völdum þeirra sem misnota fólk í gegnum samfélagsmiðla.

Tilfinningar manns sem áhorfanda fara í rússibanareið. Maður finnur til með Scarlet, hlær að henni og með henni, fyllist óhugnaði yfir sumum atriðum og langar stundum til að líta undan. Saga hennar er áhrifamikil og spennandi, hún tekur sífellt á sig nýjar myndir og oftar en einu sinni verður framvindan þvert á það sem maður býst við. Erfitt er að fjalla um það í smáatriðum án þess að koma upp um söguþráðinn.

scarletLeikkonurnar fjórar sýna afburða sterkan leik og hafa fengið verðskuldað lof frá gagnrýnendum,  British Theatre.com, The Stage og The Public Review. Þessar leikkonur heita Lucy Kilpatrick, Jade Ogugua, Asha Reid og Heida Reed, en þá síðastnefndu þekkjum við betur sem Heiðu Rún Sigurðardóttur, sem vakti athygli fyrir túlkun sína á Elizabeth í sjónvarpsþáttunum Poldark sem sýndir voru á sunnudagskvöldum á BBC1 og verða á dagskrá RÚV næsta vetur. Hér ræðir Heiða við The Telegraph, meðal annars um Scarlet, um eigin reynslu af samfélagsmiðlum og nekt.

Hrelliklám og afleiðingar þess snerta fjölda fólks víða um heim. Hér í Bretlandi eru mál á borð við þetta í fréttum nánast daglega. Þar er sagt frá þeim sem fremja sjálfsmorð, en í flestum tilfellum eru það ungar stúlkur sem sjá enga aðra leið út þegar skömmin hefur litað lífið og þær þess fullvissar að eiga aldrei nokkra von um að lifa eðlilegu lífi.

Eftir leiksýninguna voru umræður þar sem leikkonurnar, auk fleiri aðstandenda sýningarinnar og manni frá samtökunum The White Ribbon Campaign, sátu fyrir svörum. Hvíti borðinn eru samtök karlmanna sem berjast fyrir því að kynbræður þeirra láti af ofbeldi gegn konum. Umræðurnar voru fjörugar, bárust um víðan völl og stóðu yfir í klukkustund.

Mikið var rætt um hvað það væri í mannlegu eðli, uppeldi eða samfélagsgerð sem gerði það að verkum að fólk leyfði sér að koma svona fram við aðra, þá einkum ungir menn sem oft á tíðum dreifa myndum eða myndböndum til að upphefja sig á kostnað annarra eða þykjast karlar í krapinu. Orð hafa mátt og rædd voru orðasambönd eins og „Man up“ og „Don’t be a pussy“.

Mest var þó rætt hve mikilvægt væri að skila drusluskömminni til föðurhúsanna og útrýma þeim hugsunarhætti að ef konur eigi marga bólfélaga sé það eitthvað öðruvísi en þegar um karlmenn er að ræða.

Ennfremur kom til umræðu hvort hrelliklám væri eitthvað nýtt sem ætti rætur í nútímatækni og meðal áhorfenda voru eldri konur sem sögðu sögur af því hvernig myndum af þeim var ljósritað og dreift. Fyrir tíma þeirrar tækni var hægt að rústa mannorði kvenna með slúðri og gera þannig að engu möguleika þeirra á að trúlofast. Nútímatækni hefur hins vegar gefið fleiri möguleika.

Niðurstaða umræðnanna var ekki síst sú að misnotkun sem þessi tengist alltaf þörf geranda fyrir að hafa völdin í sínum höndum. Hún hefur lítið að gera með kynlíf. Flestir voru sammála um að skortur á samkennd væri ef til vill helsta meinið. Þeir sem hafa samkennd með öðrum hafa ekki sömu þörf fyrir að vera í valdastöðu.

Aðstandendur Scarlet sögðu líka frá því hvernig verkið var unnið, að Sam hefði notað sögur úr vinahóp hans og að leikkonurnar hefðu í tvo mánuði verið samrýmdar í vöku og svefni í leit að Scarlet. Þær hefðu hlegið saman og grátið og ættu engin leyndarmál lengur. Sennilega hefur þessi mikla þróunarvinna og samstilling verið grunnurinn að því hvað verkið er sterkt.

Scarlet er leikrit sem gaman væri að sjá á fjölum víða um heim, enda er þetta ákaflega vel heppnað leikverk sem tekur fyrir sérlega brýnt viðfangsefni.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.