Kona varð drottning í ríki Dana

Höfundur: Halla Sverrisdóttir

 

Margrét Danadrottning við einn hátíðaviðburðanna í tilefni að afmælinu. Fyrir aftan hana má sjá Friðrik krónprins. Myndin er héðan.

Margrét Danadrottning við einn hátíðaviðburðanna í tilefni að afmælinu. Fyrir aftan hana má sjá Friðrik krónprins. Myndin er héðan.

Um daginn varð drottning nokkur 75 ára gömul og hélt upp á það með galaklæddu margmenni og viðhöfn, svo sem ætla mátti. Þannig láta drottningar, og raunar kóngar líka, ef út í það er farið. Á þessu tvennu – drottningu og kóngi – er nefnilega ekki ýkja mikill munur, nema ef vera skyldi líffræðilegur.

Líffræðilegi munurinn hefur hins vegar verið nokkur frágangssök í gegnum aldirnar og iðulega sett strik í reikninginn þegar kemur að því að ákvarða hver skuli hirða kórónuna að síðasta handhafa gengnum. Það hefur nefnilega allar götur fram á miðja síðustu öldina verið viðtekin venja í flestum löndum sem hafa haft einhvers konar arfgengan einvald að sá skyldi vera karlkyns.

Játvarður 6.

Játvarður 6.

Á þessu eru auðvitað undantekningar og eins og mannanna er von og vísa eru þær ekki alltaf rökréttar eða kerfisbundnar. Þannig vildi það til dæmis til í Englandi á 16. öld að þegar Hinrik áttundi, sem hafði lagt á sig óvenju mikið erfiði við að afla ríkinu karlkyns ríkisarfa (hann fór eins og margir muna í gegnum sex eiginkonur og lét hálshöggva tvær þeirra) lést, lágu eftir hann tvær dætur og einn sonur. Sonurinn, Játvarður, var yngstur barnanna og óttalegur afturúrkreistingur, enda tórði hann ekki nema fram á sextánda árið. Flókin pólitísk flétta og harðvítug átök milli kaþólikka og þeirra sem aðhylltust mótmælendatrú í Englandi á þessum tíma urðu hins vegar til þess að eftir Játvarð hinn skammlífa urðu heilar þrjár konur drottningar í Englandi, hver á fætur annarri – hin kornunga lafði Jane Grey, náfrænka og samtrúarsinni Játvarðs (sem var reyndar ekki drottning nema í níu daga), því næst María elsta systir hans og loks Elísabet næstelsta systirin, sem sat eins og flestir vita áratugum saman á veldisstóli og lést í hárri elli. Barnlaus.

Við eðlilegar kringumstæður þótti þó almennt rökréttast að í hásætið settist karlmaður. Og svo var enn þegar kom fram á síðustu öldina víðast í Evrópu og þar með talið í Danmörku.

margrétarskálVíkur þá sögunni til Margrétar II. Danadrottningar, þeirrar sem varð 75 ára nýverið. Í tilefni að afmælinu birtist pistill í Kjarnanum um „Margrétarskálina“, sem er dönsk hönnunarklassík sem kom á markað árið 1953 og var þá kennd við Margréti prinsessu, sem einmitt um það leyti var að breytast í Margréti krónprinsessu. Í pistlinum í Kjarnanum segir:

Árið 1953 var dönskum lögum breytt þannig að konur og karlar ættu sama rétt til krúnunnar, aldur í beinan legg skyldi ráða. Þetta var gert í ljósi þess að elsta barn dönsku konungshjónanna, Friðriks IX og Ingiríðar drottningar var stúlka, Margrét Þórhildur. Konungshjónin eignuðust þrjár dætur en ekki son og þar að auki var þessi lagabreyting í takt við breytta tíma.

Margrétarskálin er mikil gæðaskál, en það er villa í greininni og sú villa byggir á býsna algengum misskilningi: árið 1953 var vissulega gerð breyting á dönskum lögum um erfðaröð krúnunnar, en breytingin var ekki það róttæk að hún hefði í för með sér að „konur og karlar ættu sama rétt til krúnunnar“ heldur að kona í beinni erfðaröð GÆTI erft krúnuna – ef hún ætti enga bræður, yngri eða eldri – eða, eins og segir í lögunum:

 Ved en konges død overgår tronen til hans søn eller datter, således at søn går forud for datter, og i tilfælde af, at der er flere børn af samme køn, den ældre går forud for den yngre.

Friðrik, Ingiríður og dæturnar í grænlenskum þjóðbúningum. Myndin er héðan.

Friðrik, Ingiríður og dæturnar í grænlenskum þjóðbúningum. Myndin er héðan.

Aðalástæðan fyrir „tronfølgelovændringen“ 1953 var að líkindum sú að Friðrik 9., sem var vinsæll og virtur konungur, og sérlega vel giftur hinni sænsku prinsessu Ingiríði drottingu, átti enga syni, heldur þrjár dætur sem þóttu hver annarri kvenvænlegri. Samkvæmt gildandi lögum gátu þær hins vegar ekki erft krúnuna og útlit var fyrir að Danir sætu uppi með prinsinn Knút, bróður Friðriks, og hans afkvæmi. Knútur var óvinsæll meðal þegnanna, enda á allra vitorði að hann var bæði lítið fyrir mann að sjá og óttalega heimskur og aðhafðist fátt annað en að skjóta hálftamda fasana í dönskum lystigörðum og fara á fyllerí og kvennafar, ekki alltaf á sérlega lekkerum slóðum. Sem dæmi um dapra ímynd Knúts í augum Dana má nefna að enn í dag er talað um að taka eitthvað „én gang til for prins Knud“ þegar átt er við að ítreka eitthvað, helst með einfaldara orðalagi, til að jafnvel þeir sem ekki stíga í vitið fái skilið það. Margir hafa einnig gerst svo elskulegir að benda á að börn Knúts, þau Elísabet, og þó einkum Ingólfur, séu lifandi sönnun þess að það hafi verið sérlega skynsamleg ákvörðun að firra þá feðgana Knút og Ingólf hásætinu. Fyrir það skal ekki þrætt hér, en ljóst er að persónulegir skavankar Knúts prins réðu miklu um breytinguna og juku mjög fylgi meðal dönsku þjóðarinnar með tillögunni. Margir telja að Ingiríður drottning hafi beitt sér mjög fyrir breytingunni, en talsmenn hallarinnar hafa aldrei fengist til að viðurkenna það – þótt vitað sé að það voru ævinlega litlir kærleikar á milli Ingiríðar og Knúts og að Knúti varð sannarlega ekkert betur við mágkonu sína eftir 1953.

Elísabet og Ingólfur Knútsbörn. Til er sérstök Facebooksíða þeim til heiðurs, hugsanlega þó ætluð til gamans.

Elísabet og Ingólfur Knútsbörn. Til er sérstök Facebooksíða þeim til heiðurs, hugsanlega þó ætluð til gamans.

Þannig má vel halda því fram að stjórnarskrárbreytingin árið 1953 hafi verið gerð af genetískum og pólitískum ástæðum og til að tryggja vinsælli og betur lukkuðum legg ættartrésins hásætið, fremur en af einlægum vilja til að jafna hlut kynjanna. Og Margrét Þórhildur dóttir Friðriks varð Margrét II., Danadrottning (Margrét I. var uppi seint á fjórtándu öld og hafði einmitt orðið drottning af pólitískum ástæðum og skorti á augljósum karlkyns kandídötum, en það er önnur saga).

Umræðan um erfðaröðina brann lítið á Dönum framan af veldistíma Margrétar II., enda eignaðist hún tvo syni og einboðið að annar þeirra gengi að krúnunni vísri. Undir lok 20. aldar byrjuðu spurningar þó að vakna á ný og einkum eftir að Friðrik núverandi krónprins gifti sig árið 2004 og það rann upp fyrir þegnunum að hann myndi nú líklega eignast börn og að það yrði frekar pínlegt ef fyrsta barnið yrði stelpa og númer tvö strákur en stelpan samt sem áður neðar en strákurinn í erfðaröðinni. Svona af því að það var komið fram á 21. öldina. Í apríl árið 2005 var gert heyrinkunnugt að Mary krónprinsessa væri ólétt og í stefnuræðu sinni nokkrum vikum síðar lýsti Anders Fogh-Rasmussen forsætisráðherra þeirri ætlun sinni að breyta erfðalögunum án stjórnarskrárbreytingar og þjóðaratkvæðagreiðslu sem því myndi fylgja. Í ræðunni sagði Fogh-Rasmussen m.a.:

For nylig kunne hoffet give den glædelige meddelelse, at tronfølgerparret venter barn til oktober …

Men ikke så snart var nyheden om fødslen ude, før debatten startede om en ændring af grundloven. Angiveligt for at få ændret tronfølgeloven, så der bliver fuld ligestilling mellem kvinder og mænd.

Der er i den forbindelse tre punkter, som jeg gerne vil slå fast.

For det første: Jeg ønsker, at der skal være fuld ligestilling mellem kvinder og mænd – også når det gælder adgangen til at blive regent i Danmark. Og jeg er overbevist om, at det synspunkt deles af et meget stort flertal i såvel befolkningen som Folketinget.

Derfor er det min opfattelse, at vi skal ændre tronfølgeloven, således at det altid er den førstefødte – uanset køn – som bliver Danmarks regent.[1]

(Hér  er svo hægt að lesa vel valdar tilvitnanir í umræður á danska þinginu um breytingarnar á erfðalögunum.)

Þetta reyndist hins vegar ekki alveg einfalt mál, því í fyrstu hafði Fogh-Rasmussen í hyggju að breyta erfðalögunum án stjórnarskrárbreytingar, líklega vegna þess að hann óttaðist að vinstrisinnaðri flokkarnir myndu nýta sér tækifæri til þjóðaratkvæðagreiðslu um slíka breytingu til að láta einnig kjósa um margs konar önnur mannréttindamál. Sem hefði getað orðið vesen. Og ekki varð af breytingunni þann veturinn, né þann næsta.

Nýleg mynd af Kristjáni krónprinsi Dana. Myndin er héðan.

Nýleg mynd af Kristjáni krónprinsi Dana. Myndin er héðan.

Ríkisarfabarnið reyndist hafa utanáliggjandi kynfæri, sem forðaði dönsku þjóðinni frá bráðum vandræðagangi, en málið var auðvitað orðið aðkallandi þrátt fyrir það og eftir talsverðan þvæling milli þings og þjóðar var loks kosið um stjórnarskrárbreytingu árið 2009, þar sem segir m.a.:

„Ved en konges eller en regerende dronnings død overgår tronen til den pågældendes søn eller datter, således at den ældre går forud for den yngre.“

Sem sagt: „Að ríkjandi konungi eða drottningu látnum skal krúnan ganga til sonar eða dóttur viðkomandi, með því að elsta barn skal hafa forgang á yngra.“

Svo mörg voru þau orð og breytingin var samþykkt með 84,7 prósentum greiddra atkvæða.

Um skipan mála við hirðir annars staðar í Evrópu mætti lengi rausa en verður látið ógert hér. Að minnsta kosti að sinni.

——————————————————

[1]

„Nú nýverið bárust þau gleðitíðindi úr höllinni að krónprinsinn og krónprinsessan ættu von á barni í október …

Um leið og þetta spurðist út hófu menn á ný að rökræða um hugsanlegar breytingar á stjórnarskránni. Að því er ætla má til að breyta lögum um erfðaröð, í því skyni að fullt jafnrétti ríki milli karla og kvenna.

Að því tilefni vil ég gjarnan taka þrennt fram.

Í fyrsta lagi: Ég óska þess einlæglega að fullt jafnrétti sé með kynjunum – einnig þegar um aðgengi að danska hásætinu er að ræða. Og ég er sannfærður um að þeirri skoðun deilir yfirgnæfandi meirihluti landsmanna, sem og þingmanna, með mér.

Ég tel því ljóst að breyta þurfi lögum um erfðaröð krúnunnar, í því skyni að það sé ævinlega frumburðurinn – óháð kyni – sem verður ríkisarfi og þjóðhöfðingi í Danmörku.“

(lauslega þýtt úr dönsku)

Helstu heimildir:

Um stjórnarskrárbreytinguna árið 2009:

http://da.wikipedia.org/wiki/Folkeafstemningen_om_tronf%C3%B8lgeloven

Lög um breytingar á erfðaröð 2009:

https://www.retsinformation.dk/Forms/R0710.aspx?id=123644

Lög um breytingar á erfðaröð 1953:

https://www.retsinformation.dk/Forms/R0710.aspx?id=45903

Ræða Fogh-Rasmussem um breytingar á erfðalögunum, júní 2005:

http://stm.dk/_p_7494.html

Um ástæðurnar að baki stjórnarskrárbreytingunni 1953:

http://politiken.dk/debat/kroniken/ECE933942/dronning-ingrid-og-det-moderne-monarki/

Um enska konunga og drottningar í lengd og bráð:

http://www.royal.gov.uk/HistoryoftheMonarchy/HistoryoftheMonarchy.aspx

 

 

 

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.