Hinn eiginlegi þagnarmúr kynferðisofbeldis

Höfundur: Anna Bentína Hermansen

Þegar leitarorðið „kynferðisofbeldi“ er slegið inn á google.com birtast myndir af niðurbrotnum þolendum...

Þegar leitarorðið „kynferðisofbeldi“ er slegið inn á google.com birtast myndir af niðurbrotnum þolendum…

Þeir eru ófáir, brotaþolar kynferðisofbeldis sem hafa stigið fram á undanförnum árum hérlendis og rofið þögn sína. Greinar á vefmiðlum, blaðagreinar og bækur hafa verið ritaðar um þá hugrökku einstaklinga sem treysta sér til að deila þeirri erfiðu reynslu sem þeir urðu fyrir.
Lengi vel var samfélagið félagslega skilyrt í þéttum vef goðsagna sem umkringdu kynferðisofbeldi og lokuðu það inni í djúpri þögn sem óbærilegt var fyrir brotaþola að rjúfa. Þeir glannalegu uppreisnarseggir sem létu slíkar samfélagsreglur ekki á sig fá og sögðu frá reynslu sinni, fengu iðulega á baukinn af varðhundum mýtanna sem umkringdu kynferðisofbeldið.

Sem betur fer hefur samfélagið vaknað af ákveðnum dvala. Við vitum og viðurkennum í dag að kynferðisofbeldi er til og það er allt of algengt. Samkvæmt skýrslu frá Innanríkisráðuneytinu hafa viðhorf almennings til ólíkra brotaflokka breyst á undanförnum árum. Árið 2013 taldi þjóðin kynferðisbrot mesta vandamálið hér á landi í fyrsta sinn.

Við dáumst að þeim einstaklingum sem stíga fram og hrósum þeim fyrir hugrekkið. Við leggjum okkur fram við að meðtaka reynslu þeirra og fordæmum ofbeldisverknaðinn, skerum jafnvel upp herör gegn kynferðisofbeldi. Skipuleggjum jafnvel fræðslu, förum í druslugöngu og allt mögulegt, þangað til að það er ekki lengur svo sjálfsagt að standa með brotaþolanum. Okkur finnst nefnilega sjálfsagt að standa með brotaþolanum, svo lengi sem hann fer ekki yfir ákveðin mörk. Því það eru ákveðin óyfirstíganleg mörk sem samfélagið setur á viðurkenningu kynferðisofbeldis. Mörk sem má ekki fara yfir, mörk sem eru óljós en flestum sýnileg, því þau eru ennþá römmuð inn í þagnarmúr sem má helst ekki undir nokkrum kringumstæðum brjóta.

Ofbeldisgerendur mega ekki bera nöfn

Í dag standa fleiri með brotaþola án ásakana um lygar, því það eru flestir búnir að horfast í augu við að rannsóknir sýna ótvírætt að í kynferðisbrotamálum er ekki meira um kærur að ósekju en í öðrum brotaflokkum. Það eru hins vegar fæstir sem kæra kynferðisofbeldi og við erum orðin það umburðarlynd að flest okkar geta tekið við reynslu brotaþolans án þess að upplifa að frásögn hans hafi framið skemmdarverk á okkar heimsýn. En vei þeim sem persónugerir ofbeldisgerandann og vogar sér að nafngreina hann. Því ef að nafn fylgir verknaðinum þá umbreytist umburðarlyndið gagnvart brotaþolanum í tortryggni. Efinn um ásetning brotaþolans fer undir smásjána og ofbeldisgerandinn hverfur.

Þeir brotaþolar kynferðisofbeldis sem persónugera ofbeldisgeranda sinn mega búast við meiðyrðamáli, ásökunum um lygar eða jafnvel geðveiki. Sumir hafa jafnvel safnað undirskriftum til að styðja við bakið á hinum „meinta“ ofbeldisgeranda sem nefndur var á nafn.

Frá því að Stígamót opnuðu fyrir 25 árum síðan hafa rúmlega 7000 einstaklingar leitað þangað. Ofbeldismenn þeirra eru yfir 9000. Sumir eru eflaust tvítaldir og margir brotaþolar hafa reynslu af því að verða ítrekað fyrir kynferðisofbeldi með ólíkum gerendum. Hins vegar eru sjö þúsund einstaklingar frekar há tala og á bak við hvern og einn er að minnsta kosti einn ofbeldisgerandi.

Sá gerandi er ekki eitthvað óskilgreint afl, heldur einstaklingur af holdi og blóði. Ofbeldisgerandinn er ekki geimvera sem holdgerist í líkama manneskju eða er fljúgandi kynfæri sem ræðst á brotaþola sem bjóða upp á árás. Ofbeldisgerandi er venjuleg manneskja sem tekur jafnvel strætó eða ekur um á BMW, fer í sund eftir vinnu og borðar fisk á föstudögum, kannski styrkir hann mannúðarstörf eða safnar peningum. Ofbeldisgerendur eru alls konar og allavega en þeir eiga það allir sameiginlegt að vera manneskjur með nafn og oftar en ekki kunnugur brotaþolanum; vinur, vinnufélagi eða maki.

Hann er einstaklingurinn sem fremur brot á kynfrelsi manneskju og gerir hana að brotaþola. Enginn ber ábyrgð á ofbeldi nema sá sem fremur það.

Hvar er ofbeldisgerandinn í umræðunni?

Þegar leitarorðið „kynferðisbrotamenni“ er slegið inn á google birtast hins vegar myndir af rólum eða vegasalti.

…þegar leitarorðið „kynferðisbrotamenn“ er slegið inn á google birtast hins vegar myndir af rólum eða vegasalti.

Hugmyndin sem samfélagið hefur um ofbeldisgerendur er reyfarakennd og hefur litla tengingu við raunveruleikann. Kvikmyndir sem innihalda senur af kynferðisofbeldi, sýna ókunnugan einstakling ráðast á óvarða manneskju í húsasundi um miðja nótt. Brotaþolinn verður afar illa leikinn eftir árásina og það stórsér á honum líkamlega. Reynsla brotaþola er hinsvegar sú að fæstir berjast á móti í þessum aðstæðum. Upplifun brotaþolans á kynferðisofbeldinu verða oft þau að hann hafi ekki brugðist rétt við og að það geri ofbeldið réttlætanlegt eða að hann hafi borið ábyrgð á því. Réttarkerfið styður við þessar upplifanir með kröfu um sannanir og að ásetningur gerandans sé fyrir hendi. Það þýðir að ofbeldisgerandinn verður að viðurkenna það fyrir dómi að hann hafi ætlað sér að beita ofbeldi. Flestir eru sýknaðir á þeim forsendum að hinn brotlegi hafi ekki haft ásetning um nauðgun eða ekki gert sér grein fyrir að hann hafi beitt brotaþola kynferðisofbeldi. Slík áhersla setur ábyrgð á brotaþola um að viðbrögð hans séu þannig að hinum brotlega sé ljóst að um ósamþykkt athæfi sé að ræða. Þá skiptir litlu máli hverjar aðstæður eru, hvort nei-ið sé tekið frá brotaþola eða hvort já-ið sé þvingað fram. Yfirleitt skortir sannanir gegn því og allur vafi er ávallt sakborningi í vil.

Þetta væru haldlítil rök í líkamlegu ofbeldi. Ef ég myndi ráðast á manneskju og lemja hana þá dygði lítið að segja: „Ég ætlaði ekki að meiða hana,“ eða: „Ég vissi ekki að hún vildi þetta ekki“.

Kannski er samanburðurinn skrítinn en samt skiljanlegur. Ég væri kannski mikil áhugamanneskja um bardagaíþróttir og deildi þeim áhuga með þessari manneskju. Ég væri kannski búin að slást við þennan einstakling oftar en einu sinni, við værum oft að dangla í hvort annað góðlátlega. Í einu tilviki fer ég yfir strikið og meiði viðkomandi, geng miklu lengra en hinn aðilinn samþykkti. Ég hafði hins vegar engan ásetning um að meiða hann. Mundi ég sleppa við ákæru ef ég yrði kærð? Það efast ég stórlega um en þetta er staðreyndin í kynferðisbrotamálum. Kannski væru meiri líkur á sönnunargögnum, sýnilegir áverkar eða eitthvað slíkt. Það þarf hins vegar ekki að vera, ég gæti borið því við að áverkarnir væru eftir harkalega tæklingu. Það gæti alveg dugað, því dæmi eru um að kynferðisbrotamál hafa verið felld niður á þeim forsendum að um langvarandi og harkalegt kynlíf hafi verið að ræða.

Sýnum ofbeldisgerendum þá mannlegu reisn að gera þá ábyrga fyrir gjörðum sínum

Það er óþægilegt að horfast í augu við kynferðisofbeldi og að hver sem er geti orðið fyrir því, jafnvel af þeim sem við þekkjum. Með því að gera ofbeldisgerendur að ósýnilegum, óskilgreindum skrímslum, viðhöldum við afneitun okkar og tökum ábyrgðina frá ofbeldisgerandanum.

Ég er ekki að mælast til þess að stofna ofbeldisgerendasíðu eða að láta nafnalista gerenda ganga á milli fólks. Ég hef litla trú á refsingum, bannfæringum eða að fólki sé úthýst úr samfélaginu. Ofbeldisgerendur þurfa að aðlagast samfélaginu á forsendum samfélagsins þar sem ofbeldið er fordæmt en ekki manneskjan sem beitir því.

Meðferð með ofbeldisgerendum grundvallast á því að þeir taki ábyrgð á gjörðum sínum án réttlætingar. Markmiðið er að þeir horfist í augu við að ofbeldisverknaðurinn hafi verið rangur og alfarið á þeirra ábyrgð. Þeir þurfa að horfast í augu við að slík framkoma líðist ekki undir nokkrum kringumstæðum. Betrun þeirra byggist á þessari viðurkenningu og að þeir iðrist þess sem þeir gerðu.

Þegar litið er á ofbeldisgerendur sem óskilgreint afl og þeir gerðir ósýnilegir í umræðunni um kynferðisofbeldi, er afar ólíklegt að þeir fái þá hjálp sem er þeim nauðsynleg.

Ef við höldum áfram að leggja megináherslu á hegðun brotaþolans réttum við ofbeldisgerandanum réttlætingar fyrir hegðun sinni á silfurfati, slíkar réttlætingar hjálpa honum að viðhalda hegðun sinni.

Ofbeldi þrífst í þögn, réttlætingum og að lítið sé gert úr því. Afneitun og skrímslavæðing er alveg jafn alvarleg. Ofbeldisgerendum ber sem manneskjum sú virðing og reisn að taka ábyrgð á gjörðum sínum því flestir eru fullfærir um það. Ef þeir eru skrímsli sem við úthýsum úr samfélaginu þurfa þeir aldrei að horfast í augu við sjálfan sig og eigin gjörðir.

Sú frumstæða hugsun sem samfélagið hefur um ofbeldisgerendur minnir á þjóðtrú að mörgu leyti og ýtir undir mýtur. Við þurfum sem samfélag að vakna af dvalanum því kynferðisofbeldi varðar samfélagið allt og er gróft brot á mannréttindum. Þau viðhorf og sú félagslega skilyrðing sem hingað til hafa tíðkast viðhalda hinni eiginlegu þöggun kynferðisofbeldis.

 

2 athugasemdir við “Hinn eiginlegi þagnarmúr kynferðisofbeldis

  1. Bakvísun: Knúzannállinn 2015 | Knúz - femínískt vefrit

  2. Bakvísun: Hvað svo? Málþing um femíníska byltingarárið 2015. | Knúz - femínískt vefrit

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.