Tálmörkun tilvísunarhlutverka

Höfundur: Katrín Harðardóttir

Af og til skýtur upp kollinum umræða um það hvernig kyn birtist í tungumálinu og hvernig beri að vísa í og titla einstaklinga. Oft skapast litrík skoðanaskipti um annaðhvort nauðsyn eða óþarfa þess að tryggja sýnileika kvenna í töluðu sem og rituðu máli. Oftar en ekki virðist bera á hreinu skilningsleysi hvað varðar þennan sýnileika og hlutverk ómarkaða kynsins, bæði vegna þess að ekki ríkir sátt um notkunina og einnig eru heimildir á reiki. Lengi vel hélt ég mig vera í herferð gegn þessu hlutleysi ómarkaða kynsins en var aldrei fyllilega sátt við það, ég vil jú stundum vera bara maður. Engu að síður koma stundum upp aðstæður þar sem ekki er nægilega ljóst að mannkynið skiptist í tvö líffræðileg kyn, það hallar á nákvæmnina, sem svo kallar eftir spurningum um samband merkingar og heita og tilvísunarhlutverk orða í málnotkun.

María Márquez

María Márquez

Sú sem á heiðurinn af þessum pælingum sem settar eru hérna fram er fræðikona að nafni María Márquez, prófessor við heimspeki- og samskiptadeild Háskólans í Sevilla, og má lesa um þær í bók hennar Genéro gramátical y discurso sexista (Editorial Síntesis 2013). Marquéz segir skilin á milli málnotkunar og málfræði ekki vera raunveruleg heldur að aðeins sé um aðferðafræði að ræða, að tvenndarhugsunin eigi við í tungumálinu en ekki í raunveruleikanum. Því halda þau rök ekki að pólitískir þættir sem einkenna notkun tungumálsins hafi ekki áhrif á málkerfið í heild sinni. Vegna þessa er eingöngu gert ráð fyrir tengingu á milli málfræðilegs kyns og félagslegs kyns þegar um er að ræða tilvísun í lífi gæddar verur, og þá sérstaklega persónulega tilvísun. Því mikilvægi nákvæmninnar er hvað mest þegar um persónuleg nafnorð er að ræða þar sem manneskjurnar eru þær einu sem eru færar um að nefna og vera nefndar, kynna sig og vera kynntar.

 Svo unnt sé að nota kynhlutlausa tilvísun þarf að uppfylla eftirtaldar kröfur:

          a) Að tilgangur með samskiptum málnotenda feli í sér ótilgreinda tilvísun, það er annað hvort almenna, í bæði kyn, eða dæmigerða, í annað hvort kynið.

        b) Þegar um almenna túlkun eða notkun ómarkaðs karlkyns er að ræða skiptir hagnýtt, félagsmenningarlegt og hugrænt samhengi meginmáli. Fyrir ótilgreinda tilvísun, þ. e. þegar tilgreining kynferðis er óviðkomandi samskiptum, þarf að huga að því að í samhengi komi annað hvort fram bæði kynin eða eitt af þeim, á viðkomandi sviði tilvísunnar.

Hér er ekki ætlunin að amast við þeirri staðreynd að tungumál hafi þróað með sér málvísindaleg fyrirbæri sem skilji kvendýr frá karldýrum eða því að málnotendur hafi séð sig tilneydda til þess að undirstrika líffræðilegan mismun með málfræðilegu kyni. Miklu fremur er vakið máls á tveimur atriðum: Í fyrsta lagi því að þegar öðru kyni af tveimur var veitt almennt og algilt gildi, varð hitt kynið sérstakt, og óvenjulegt; í öðru lagi því að þegar kvenkynið þróaðist varð það til út frá karlkyni (eða hvorugkyni), sem margir femínistar hafa túlkað sem beina skírskotun í ósjálfstæði kvenna á indóevrópskum tímum. Það sem merkti kyn, þ.e. líffræðilegan veruleika, táknaði á endanum stöðu eða menningarlegan veruleika. Vegna þess forms og hlutverks sem málnotendur gáfu málfræðilega kyninu, var konan sett til hliðar og henni gert að hyljast með tungumálinu. Þannig hafi ómarkaða karlkynið verið beinlínis valdur að ósýnileika konunnar.[i]

María Márquez gengur þó ekki svo langt að vilja útrýma með öllu mörkun úr tungumálinu, því hún geti komið sér vel við vissar aðstæður og út frá sjónarhóli málvísindanna jafngildi ómarkaða kynið ekki félagslega ákvörðuðu kyni. Hún segir enn fremur að með sama hætti feli sá möguleiki karlkynsins að ná yfir alla formdeildina „kyn“ ekki í sér að það leysi kvenkynið af hólmi. Aðeins er gengið út frá því að notkun karlkynsins sé ómarkað hugtak, og að hægt sé að fullyrða að hærri tíðni þess sé merki um þetta einkenni og víðtæka notkun þess. Vegna þessa fyrirframgefnu staðreynda er þá fyrst hægt að draga menningar- eða mannfræðilegar ályktanir, sem þurfa þó ekki að vera bein afleiðing af þessum málvísindalegu reglum. Því að öðru leyti er hagnýtt gildi mörkunar vissulega mikið við aðstæður þar sem ekki þarf að tilgreina kynferði þess sem vísað er í, eins og orðin „mannkyn“ og „mannleg hegðun“ bera með sér.

Þar af leiðandi telur Márquez að ekki sé hægt að takmarka kynjafordóma við notkun mörkunar í sjálfu sér. Öðru gildi um aðstæður sem eigi sér stað í vestrænu nú/samtímasamfélagi og hún kallar misnotkun ómarkaða karlkynsins. Við þessar aðstæður sé ómarkaða karlkynið notað í tilgreindu samhengi þótt vísunin sé ákveðin, því aðeins er vísað í karlkyn, og þess vegna geti það ekki verið ómarkað. Þessi misnotkun hefur gefið færi á samlíkingu karla við mannkynið og afleiðingin er útilokun kvenna frá merkingarbæru sviði framsetningarinnar.[ii]

Aðeins er hægt að ákvarða almenna mörkun út frá samhengi og þar af leiðandi koma oft upp margræðar aðstæður. Á sama hátt gefur orðið „maður“ í skyn margræða framsetningu. Með aðlögun beggja merkinga í eitt orð, þ. e. samsvörun mannkyns við eitt málfræðilegt kyn, er margræðni tvöföldu merkingarinnar haldið við, en þó aðeins á sviði merkingarfræðinnar. Af þessu leiðir að oft er ekki um raunverulega mörkun að ræða heldur miklu heldur tálmörkun (sp. pseudo-genérico), þar sem í skynjun þeirra sem eiga í samræðum tengist hugtakið „maður“ ekki aðeins ómörkuðu merkingunni „mannkyn“ heldur tiltekinni merkingu orðsins „karlmaður“. Márquez segir að margræðni karlkynsins sé andstæðukennd staðreynd vegna hagnýtrar virkni þess á tvöföldu plani ótilgreinda kynsins og/eða tilgreinda kynsins. Í þeim samruna sem gefinn er í skyn með því sértæka með vísun í það almenna er að hennar mati hægt að finna svarið við ósýnileika konunnar í tungumálinu.[iii] Þannig er ennfremur hægt að skilja nauðsyn þess að tilgreina af nákvæmni hver vísunin er, til dæmis með skástrikum eða tvítekningu, kvenkynsendingum eða persónufornöfnum.

Til þess að greina á milli mismunandi notkunar mörkunar nefnir Márquez eftirfarandi atriði:

  • Nafnorð með persónulegri tilvísun/ópersónulegri tilvísun
  • Tilgreint svið/ótilgreint svið
  • Bein orðræða/orðræða með tilvísun
  • Innan orðræðu sem inniheldur tilvísun á ótilgreindu sviði er hægt að greina almenna tilvísun og dæmigerða tilvísun, sem ekki ber að rugla saman við tilvísun í tilgreindan veruleika, þótt sá sé óþekktur eða óákveðinn.

 

Eitt dæmi um misnotkun ómarkaðs karlkyns sem gæti átt við öll þessi atriði er að finna í titli Mannréttindayfirlýsingu frönsku byltingarinnar, enda var tekið hvorki tekið tillit til réttinda kvenna né þræla í yfirlýsingunni. Í stað ómarkaða kynsins hefði því verið nær lagi að nota tilgreinda tilvísun, þ.e. kalla plaggið „Karlréttindayfirlýsingu frönsku byltingarinnar“.[iv]

Vegna þess að gengið er út frá því að kynferði hafi áhrif á nafnorð með persónulegri tilvísun sem innihalda málfræðilegt kyn, felur orðræða í sér kynjafordóma ef ekki er notuð viðeigandi tilvísun í manneskjur. Þeim er mismunað vegna kyns innan ákveðins samhengis þar sem kynferði er mikilvægt eins og í Mannréttindayfirlýsingunni. Sama máli gegnir um texta þar sem ómarkaða karlkynið er notað með tiltekinni tilvísun í tilteknu samhengi, eins og í ritum Samfélagssáttmála þeirra Hobbes, Locke og Rosseau, sem í raun vísar einungis í hvíta, ríka karlmenn.

Marquéz segir að þess háttar notkun geti með öllum rétti kallast tálmörkun, því samkvæmt óumbreytanlegum og gjaldgengum reglum málfræðikerfisins eigi sú framsetning eða algilda orðræða að koma að gagni til þess að vísa í heild eða bæði kynin sem tegundin samanstendur af, en í öllum þessum ritum voru konur útilokaðar frá merkingunni.

Réttindi borgara til ákvarðanatöku í stjórnmálum voru alltaf miðuð við karl, jafnvel þótt samin væru lög í karlkyni sem áttu í orði kveðnu að vera algild. Afleiðingarnar eru samkvæmt Marquéz orðræða sem eðlisgerir ósýnileika helmings tegundarinnar „maður“ og neitar henni um framsetningu. Á sama tíma varð þessi orðræða til þess að hið tiltekna karllæga var lagt að jöfnu við hið mannlega algilda, svo karlinn varð fyrirmynd og mið allra hluta.[v]

Til frekari útskýringar og sem dæmi um ótilgreinda vísun, má hér nefna dæmi frá Guðrúnu Þórhallsdóttur þar sem hún lýsir hefðbundinni notkun ómarkaða kynsins. Þegar vísað er til tilgreinds hóps af fólki þar sem kynferði er þekkt, er greint á milli karlkyns, kvenkyns og hvorugkyns í bæði eintölu og fleirtölu. Þannig er orðmyndin „þeir“ notuð fyrir Pétur og Pál, „þær“ fyrir Önnu og Maríu og „þau“ notuð fyrir Pétur og Maríu. Hins vegar segir hún annað gilda þegar talað er um ótilgreint fólk, eins og þegar útvarpsþulur talar til hlustenda sinna:

  • Þeir sem hlustuðu á þáttinn í gær heyrðu Kristin Sigmundsson syngja Hamraborgina [vi]

radioSamanber lið a) hér að ofan er hér um almenna ótilgreinda tilvísun að ræða, þar sem hlustendur eru mjög líklega af báðum kynjum og því eðlilegt, samkvæmt hefðbundnum málfræðireglum, að nota ómarkaða kynið. En þótt gera megi ráð fyrir að í viðkomandi samhengi sékynferði ekki alls kostar viðeigandi, er með hliðsjón af lið b) hér að ofan er engu að síður vert að hafa hagnýtt, hugrænt og pólitískt samhengi í huga og vísa þess vegna í bæði kyn:

  • Þau sem hlustuðu á þáttinn í gær heyrðu Kvennakórinn Hrynjandi syngja Tíminn líður trúðu mér [vii]

Hér gæti nefnilega útvarpsþulur tekið siðferðislega ákvörðun um að tala til beggja kynja, þar sem mjög líklegt er að hlustendur séu bæði karlar og konur. Og fyrir unnendur mörkunar gætu orð Eiríks Rögnvaldssonar, prófessors við Háskóla Íslands, verið ástæða til þess að fagna, en hann bendir á að líklega megi líta á hvorugkyn sem ómarkað því það kemur einnig fram í samblöndun kynjanna, hann og hún eru ekki þeir, heldur þau.[viii] Með því að segja „þau“ væri þulurinn að vísa í pólitískan veruleika nútímans þar sem samkvæmt kenningu ríkir jafnrétti allra einstaklinga.

Sá rökstuðningur sem einkennir spænska kynjaumræðu er einnig lýsandi fyrir þá íslensku. Hér á landi eru rökin kölluð tengslarök, þ.e. þegar fólk tengir ákveðnar orðmyndir við annað hvort kynið.[ix] Samkvæmt þeim byggjast hugmyndir um hvað sé kynjað mál og hvað sé ókynjað mál í íslensku ekki á íslenskum rannsóknum og því séu tengslarökin ómarktæk. Hér má staldra við og spyrja af hverju íslenskir málnotendur séu svo frábrugðnir málnotendum erlendra stórþjóða, þar sem íslenskan og spænskan eru jú af sama meiði en þó sérstaklega vegna þess að kynhlutleysi er alls ekki séríslenskt fyrirbrigði?

Í íslensku kemur notkun orðanna „hetja“ og „skáld“ upp um karllægni tungumálsins, en eins og bæði Eiríkur og Jón Axel Harðason benda á vakna spurningar hvað þau varðar.[x] Sá síðarnefndi segir merkingarlega afmörkun ekki vera hér til staðar því „kyn nafnorða geti verið alltilviljunarkennt“,[xi] og þessi orð er vissulega hægt að nota jafnt um konur sem karla. En þegar þau eru notuð um konur er kynmörkun þeirra ekki nægilega skýr og því er gripið til orðanna „kvenhetja“ og „skáldkona“, þegar vísað er til kvenna.[xii] Eiríkur vekur einnig máls á þessari mótsögn:

Skáld-Rósa„Orð eins og skáld er hk., sem sést þegar það fær greini, skáldið; samt hefur þótt ástæða til að búa til orðið skáldkona, en enginn finnur neina þörf fyrir skáldmaður eða karlskáld. Enn athyglisverðara dæmi er hetja; það orð er kvenkyns, en samt sem áður hefur þótt ástæða til að búa til samsetninguna kvenhetja þegar orðið vísar til konu!“.[xiii]

Sú staðreynd að sjaldan er talað um karlskáld eða skáldkarl rennir stoðum undir það að í íslensku séu tengsl milli málfræðilegs og líffræðilegs kyns,[xiv] enda er hér um nafnorð að ræða sem táknar lífi gæddar verur. Engu að síður er fast haldið í þá skoðun að formlegir þættir ráði kyni nafnorða, og að dæmi um annað séu einfaldlega frávik, frávik sem eru þá væntanlega undirorpin tilviljunum. Þá væri nær að spyrja hvort þróun karllægs tungumáls sé háð tilviljunum. Fátt bendir til þess því málþróun fyrri alda er í beinu sambandi við siðferðislegar ákvarðanir ráðandi hópa enda endurspeglar tungumálið það tímabil og menningu sem það kemur úr. En getur þá verið að við séum komin að endalokum ákveðins tímabils þar sem málamiðlunar er þörf á milli ólíkra hugsunarhátta, svona eins og málum er miðlað á milli kynferðislega mismunandi einstaklinga? Þá er þróun tungumáls sem gerir kynjunum jafn hátt undir höfði ein af forsendum kynjajafnréttis því skýr framsetning mismunarins getur aukið meðvitund um stöðu fólks, hversu skilyrt við erum af tungumálinu, og jafnvel ýtt undir gagnrýnni hugsun.

Tálmörkun í íslensku leynist víða en með því að varpa ljósi á hana er möguleiki á að auðvelda skilning á milli þessara ólíku hugsunarhátta sem ég nefndi hér að ofan. Í besta falli verður hennar vart í klaufalega orðuðum frétta- og blaðagreinum, sem auðvelt er að koma auga á og gefa ástæðu til absúrd athugasemda og hláturs, en í versta falli ýtir hún undir ósýnileika annars kynsins, til dæmis með því að segja „þeir“ í stað „þau“ þegar vísað er í blandaðan hóp fólks. Það bendir til þess að sú þrákelkni virðist langlíf að bendla kvenkyn við frávik og skirrast við að vísa beint í konur, í stað þess að gefa gaum að stöðu og margbreytilegum röddum einstaklinga í dag.

[i] Calero 1999:91

[ii] María Márquez 2013:43

[iii] María Márquez 2013:44

[iv] María Márquez 2013:127

[v] María Márquez 2013:128

[vi] Guðrún Þórhallsdóttir 2008:105

[vii] Mitt dæmi

[viii] Eiríkur Rögnvaldsson 2005:54

[ix] Guðrún Þórhallsdóttir 2008:115

[x] Jón Axel Harðarson 2001:260, Eiríkur Rögnvaldsson 2005:54

[xi] Jón Axel Harðarson 2001:260

[xii] Jón Axel Harðarson 2001:260

[xiii] Eiríkur Rögnvaldsson 2005:54

[xiv] Anna Gunnarsdotter Grönberg 2002:174

Ein athugasemd við “Tálmörkun tilvísunarhlutverka

  1. Bakvísun: Leyndardómar fornafna og femínísk málstýring | Knúz - femínískt vefrit

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.