„Og þessi voðalega kona…“ – hvernig samtíminn brást (við) þremur konum á síðustu öld

Fréttaritari: Ásdís Thoroddsen

voðalega kona

PEN-klúbburinn er alþjóðlegur félagsskapur rithöfunda sem lætur sig varða tjáningarfrelsi liðsmanna sinna. PEN á Íslandi / Icelandic PEN hefur haldið fundaröð á þessu vormisseri og síðasti fundurinn var haldinn hinn 16. maí í Borgarbókasafninu undir yfirskriftinni: „Og þessi voðalega kona…“ – Hvernig samtíminn brást (við) þremur konum á síðustu öld“. Fjallað var um viðtökur á verkum þriggja kvenna, þeirra Vigdísar Grímsdóttur, höfundar skáldsögunnar Ég heiti Ísbjörg, ég er ljón (1989), Olgu Guðrúnar Árnadóttur, þýðanda sænsku skáldsögunnar Uppreisnin á barnaheimilinu (1973) og Elínar Thorarensen, höfundar sjálfsævisögulegu bókarinnar Angantýr (1946), um samband hennar við ljóðskáldið Jóhann Jónsson. Fundarstjóri var Guðmundur Andri Thorsson.

Tíðindamaður femíníska vefritsins Knúz mætti á fundinn og gerir hér að neðan grein fyrir því helsta sem bar á góma.

Sigurbjörg Þrastardóttir var annar frummælenda og rakti sitthvort viðtalið sem hún átti við þær Vigdísi og Olgu Guðrúnu og lýsti atburðum frá sjónarhóli þeirra.

Bók Vigdísar, Ég heiti Ísbjörg, ég er ljón (1989) var vel tekið af „bókmenntastofnuninni“; bókin var tilnefnd til bókmenntaverðlauna og hlaut síðar menningarverðlaun DV. Viðbrögð margra lesanda urðu hins vegar önnur og hatrrammari og fljótlega varð ljóst að þar var ekki um einn eða tvo vanstillta aðila að ræða, heldur fjölmarga. Á þessum tíma var Vigdís einstæð tveggja barna móðir í miðborginni. Á tímabili hætti fjölskyldan sér ekki út fyrir hússins dyr. Vigdís tók nafn sitt af dyrabjöllunni vegna stöðugs áreitis og háreysti við húsið og henni bárust bréf sem, rétt eins og í gamaldags leynilöggusögum, innhéldu texta úr orðum klipptum úr dagblöðum sem límd höfðu verið saman. Önnur bréf voru með klámmyndum sem búið var að fróa sér yfir og Vigdísi bárust jafnvel líflátshótanir. Bíllinn hennar varð fyrir skemmdum og var nánast eyðilagður. Varla urðu fjölmiðlar til þess að espa upp þetta hatursbál því að lítt var fjallað um efni bókarinnar á opinberum vettvangi. Og hvert var efnið? Jú, bókin fjallar um misnotkun á barni, valdbeitingu föður gegn móður og vændi.

Guðrún Gísladóttir og Bryndís Petra Bragadóttir sem Ísbjörg í Þjóðleikhúsinu árið 1992. Myndin er sótt hingað.

Guðrún Gísladóttir og Bryndís Petra Bragadóttir sem Ísbjörg í Þjóðleikhúsinu árið 1992. Myndin er sótt hingað.

Það var ekki fyrr en leikgerð eftir bókinni var sett á svið tveimur árum síðar að farið var að ræða að einhverju ráði um efniviðinn, sem leikarar sýningarinnar sögðu að væri viðkvæmur, flókinn og mikilvægur. Þá tóku sendingarnar að magnast á nýjan leik. Vigdís hafði safnað hroðanum saman í þeirri von að lögreglan gæti fundið sökudólgana, en verkefnið var lögreglunni ofviða. Vinkonur Vigdísar hvöttu hana til að eyða sendingunum og Vigdís fór að þeirra ráðum, eyddi þeim, eyddi og eyddi.

Vigdís talaði ekki um þessi viðbrögð opinberlega, en sagði þó aðspurð að bókmenntir hefðu áhrif. Þegar Sigurbjörg spurði hana hvort henni hefði látið sér detta í hug að skrifa öðruvísi svaraði hún því til að hún hefði aldrei hugsað svo. Það væri þó  ekki vegna þess að hún væri kjörkuð, því hún hafi oft verið hrædd. Hún hafi gert ráð fyrir að málfrelsi ríkti í landinu. Í grunninn hafi hún verið skömmuð fyrir að fjalla um eitthvað sem átti að liggja í þagnargildi. Konu sé ekki treyst að skrifa um vændi, en ef karl skrifar slíkar bækur vekur það yfirleitt aðdáun. Þegar bókin Z – ástarsaga, sem fjallar um ástir kvenna, kom út fékk Vigdís aðvörun úti í bæ, en mörg falleg bréf líka, þakkarbréf. Vigdís var spurð að því hvort hún vænti þess að móttökur bókarinnar hefðu orðið aðrar nú en þá og sagðist hún vera hrædd um að hatrið kraumi enn. En hún voni samt að samfélagið sé orðið opnara.

Sigurbjörg sneri sér þá að þætti Olgu Guðrúnar Árnadóttur. Olga Guðrún hafði tvítug haft umsjón með barnatímum í útvarpinu og farið þar ótroðnar slóðir; talað til dæmis um stríð og landhelgismál við börnin. Henni var sagt upp sem þáttarstjóra eftir þáttinn um landhelgina. Mikil blaðaskrif urðu út af barnatímum Olgu Guðrúnar.

Sex mánuðum síðar var hún enn mætt til leiks, en þá sem þýðandi og lesari sögunnar Börnin taka til sinna ráða í Morgunstund barnanna. Bókin fjallar um uppreisn barna á barnaheimili, þau binda fóstrur sínar og lesa yfir þeim leiðinlegar bækur og skjóta karamellum á foreldra í umsátri. Það fór auðvitað ekki fram hjá neinum að boðskapurinn var pólitískur og að í bókinni var uppreisn gegn yfirvaldinu sýnd í jákvæðu ljósi. Höfundurinn skrifar undir leyninafninu Dr. Gormander, en heitir Gunnar Ohrlander. Olga Guðrún gaf bókina út undir titlinum Uppreisnin á barnaheimilinu.

Myndin er skjáskot af timarit.is (sjá hér).

Myndin er skjáskot af timarit.is (sjá hér).

Skemmst er frá að segja að símkerfi útvarpsins hrundi vegna kvartana yfir þessari sænsku róttækni og þess var krafist að Olga Guðrún yrði rekin. Hlustendur töldu hana vera höfundinn. Í útvarpsráði sátu hins vegar, eins og Olga Guðrún orðar það, menn með sómatilfinningu og húmor og fékk hún að klára lesturinn. Hún slapp við að heyra skammirnar, því að símadömur útvarpsins vörðu hana fyrir mesta hroðanum. Þegar hún mætti í viðtalsþátt til Vilmundar Gylfasonar varð allt vitlaust. Á heimili Olgu Guðrúnar tók fjölskyldan símann úr sambandi vegna þess hve ljót símtölin urðu. „Ég skal drepa þig kommúnistapíkan þín“, „Gáðu hvað er í kjallaranum þínum“ og fleiri hótanir og dylgjur. Henni bárust einnig nafnlaus bréf með áþekku innihaldi.

Velvakandi Morgunblaðsins hafði ekki undan að birta skammarbréfin og „biðu mörg bréf birtingar“ eftir yfirhellinguna dag hvern. Skrifarar voru ásáttir um að verið væri að kenna börnunum ljótt og fullyrt var að börnum þætti sagan leiðinleg, fengju þau að hlusta. Talað var niðrandi um persónu Olgu Guðrúnar; búið væri að reka hana einu sinni, hvers vegna væri henni hleypt aftur að hljóðnemanum?

Vinstri menn og frjálslyndir komu Olgu Guðrúnu til verndar og var fjallað um málið í Þjóðviljanum, þar sem hún var varin, þannig að segja má að fólk hafi skipst í fylkingar eftir víglínum kalda stríðsins.

Olga Guðrún segir sjálf að þessar tvær aðfarir gegn henni á einu ári hafi komið illa niður á henni og hafi verið stór biti fyrir tvítuga manneskju að kyngja. En hún hafi litið á sig sem riddara. Hún hafi verið að ryðja braut og ekki viljað láta á sér sjá að hún tæki illskuna nærri sér. Hún hafi viljað lesa eitthvað annað fyrir börnin en sömu gömlu, saklausu sveitasögunnar. Hún sagði Sigurbjörgu frá því þegar hún fór árið 1982 í banka til að taka lán hafi bankastjórinn útibúsins tekið í höndina á henni og spurt hvort væri ekki erfitt að heita sama nafni og þessi voðalega kona? (Og er þar komin yfirskrift fundarins). Olga Guðrún svaraði því til að verra væri að vera þessi voðalega kona. Útibússtjóri varð vandræðalegur, en jafnaði sig og fór vel á með þeim á þessum lánafundi.

Í umræðum eftir á var bent á að Olga Guðrún hefði orðið geysivinsæl eftir upplesturinn; unglingar hafi litið á hana sem „stjörnu“ og bókin hafi verið vinsæl á bókasöfnum.

Hinn frummælandinn var Sigurrós Eiðsdóttir, langalangömmubarn Elínar Elísabetar Jónsdóttur Thorarensen. Sigurrós fjallaði um viðtökurnar við verkinu Angantýr, sem er sjálfsævisöguleg frásögn Elínar. Sú bók hefur hlotið víðtækasta þöggun íslenskrar bókmenntasögu, því að allt upplagið var keypt upp beinlínis til þess að enginn kæmist í að lesa bókina.

Innsíða frumútgáfunnar af Angantý.

Innsíða frumútgáfunnar af Angantý.

Elín var einstæð móðir sem rak matsölu í bænum og hafði hjá sér yngsta barnið. Árið 1915 bankaði upp á hjá henni skálidð Jóhann Jónsson, þá nítján ára, og gerðist kostgangari hjá henni. Skömmu síðar varð hann elskhugi Elínar. Aldursmunur elskendanna var 15 ár. Ári síðar skildu leiðir þeirra og Elín sigldi til Danmerkur, mjög sennilega vegna þess að hún var ólétt, og dvaldi þar í sex ár. Jóhann lauk stúdentsprófi hér heima og sigldi síðan til Þýskalands, þar sem hann lést árið 1932, enn ungur maður.

Í ritgerðasafni Halldórs Kiljans, Vettvangi dagsins, sem birtist 1942 skrifar hann um skáldið Jóhann Jónsson. Þar er Elínar hvergi getið. Sú ritgerð varð kveikjan að Angantý, sem Elín gaf út sjálf 1946, en þá hefði Jóhann orðið fimmtugur. Bókin hefur að geyma draumkenndar lýsingar á ástum þeirra og ævintýraheimi; þau gefa hvort öðru nöfn úr miðaldabókmenntum, hann heitir Angantýr og hún Brynhildur, frakki Jóhanns heitir Kuldaboli og klúturinn hans  Hunangshjarta, en svunta Elínar Tunglsvuntan, svo nokkur dæmi séu tekin. Utan þessa einkaheims voru erfiðleikarnir, verkin, vinnan. Elskendurnir höfðu bæði mikinn áhuga á sögum og ljóðum, en sérstaklega ævintýrum.

Þegar bókin hafði verið í bókabúðum í nokkra daga keypti sonur Elínar, Jón Thorarensen, allt upplagið. Sagt er að móðurinni hafi sárnað gerðir sonar síns, en sagt fátt. Þó hafi hún tekið fram að allt sem í bókinni stæði væri satt og rétt. Vera má að þeirri fullyrðingu hafi verið beint gegn því sem fljótlega varð altalað í bænum; að þarna væri ímyndunarveik kona að gera upp meint ástarsamband við frægan og virtan mann í samfélaginu. Reyndar var litið á þann orðróm sem sannleika allt  þar til bréf fannst frá Jóhanni til sr. Friðriks A. Friðrikssonar, þar sem hann segir frá ástum þeirra Elínar og segir hana stóru ástina í lífi sínu.

En fleirum en syninum var uppsigað við bók Elínar. Kristinn E. Andrésson kallaði bókina illa og í eftirmála Soffíu Auðar Birgisdóttur við endurútgáfu Angantýs, en bókin kom út hjá Lesstofu 2011, er sagt að Kristinn hafi stolið henni úr bókaskáp á heimili þar sem hann var gestkomandi. Guðrún Helgadóttir segir frá í Tímariti máls og menningar (2/2011) að bókin hafi verið hrifsuð úr höndum hennar tólf ára, sem væri hún hættuleg lesning. Öllum sem var annt um heiður Jóhanns höfðu ímugust á Angantý eins og þeir vildu helst gera Jóhann Jónsson að flekklausu skáldi og jafnframt kynlausu. Meðal þeirra er einnig Halldór Laxness, sem gerir lítið úr þætti kvenna í lífi Jóhanns í ritgerð sinni, rétt eins og væru þær til ama. Skýtur það skökku við þegar höfð er í huga saga hans sjálfs, Heimsljós, þar sem brestir skáldhetjunnar á sviði kynlífs mæta miklu umburðarlyndi.

Í umræðum eftir framsöguerindi var spurt hvort höfundar eða þýðendur ættu á hættu að lenda í svipuðum ofsóknum á okkar dögum, eða hvort það hefði aðeins gerst vegna þess að þær væru konur? Fundarstjóri benti á að aðeins einn karlhöfundur hefði, svo vitað væri, fengið svipaða póstsendingu og Vigdís, en það var Guðbergur Bergsson eftir að Tómas Jónsson – metsölubók kom út; mannasaur í umslagi.

Sigurbjörg taldi að mál þessara þriggja bóka og kvenna væru ólík og óhægt væri að segja að móttökurnar hefðu orðið svona vegna þess að þær væru konur. Í einni bókinni þótti efniviðurinn svívirðilegur, önnur bókin þótti þjóðfélagslega hættuleg, í tilfelli hinnar þriðju var verið að vernda ímynd einstaklings, jafnvel tveggja einstaklinga. Það væri því ljóst að ástæðurnar fyrir heiftinni hefðu verið fleiri og flóknari en það eitt að kona hefði haldið á pennanum.

Elín Thorarensen

Elín Thorarensen

Þá var bent á að í tilfelli Angantýs hefði hin ógnandi kynhvöt konunnar verið þögguð eða það sem meira væri, kynhvöt mæðra. Móðirin hefði tekið sér þetta frelsi að ganga í þetta ástasamband og það sem meira væri, hefði leyft sér að tjá sig um það opinberlega.

Annar fundarmaður og frænka Elínar sagði að líta mættu á það sem svo að staða sonarins Jóns hafi ráðið gjörðum hans; hann hafi verið að berjast til embættis, en hann varð síðar prestur í Hrunamannahreppi. Opinská lýsing fráskilinnar móður hans á ástríðufullu ástarsambandi við sér yngri mann sem naut virðingar í samfélaginu hefði getað komið óorði á soninn. (Sonurinn Jón gaf einnig út bækur rétt eins og móðirin, en Elín gaf líka út vandaða útgáfu af kvæðum Ólínu og Herdísar Andrésardætra).

Einn fundarmanna andmælti þessu og fannst óþægilegt að ýta út af sviðinu óttanum við konur og óttanum við byltingu. Kvenfyrirlitning hafi verið grunnurinn að því að bókmenntapáfarnir brugðust svona við Angantý. Hatur á konum væri undirliggjandi samfélagslegt fyrirbæri.

Vigdís Grímsdóttir 1989, úr ritdómi í Morgunblaðinu (sjá hér).

Vigdís Grímsdóttir 1989, úr ritdómi í Morgunblaðinu (sjá hér).

Hin ofsafengnu viðbrögð sumra lesenda við Ég heiti Ísbjörg, ég er ljón voru borin saman við móttökur á Kötu, bók Steinars Braga sem kom út um síðustu jól, og rifjuð upp þau orð margra að sú bók hefði sennilega fengið aðrar viðtökur hefði höfundurinn verið kona. Opinber umræða fór fram um efni bókarinnar Kötu, en höfundurinn fékk ekki á sig skítkast.

Bent var á að söguhetjan Ísbjörg væri kona sem færi aðrar leiðir en flestir. Hún bæði ekki afsökunar á sjálfri sér. Og í réttu hlutfalli við það eru viðbrögðin við sögupersónunni ofsafengin.

Stungið var upp á að ofsækjendur höfundarins hefðu verið þeir sem sáu sig í föðurnum eða gerandanum. Þeir sem sjálfir voru gerendur hefðu orðið reiðir þegar leyndarmál þeirra var afhjúpað, þögnin rofin, jafnvel þótt í skáldskaparbúningi væri, og þeir hefðu gripið til aðgerða. Þarna hefði skáldskapur og raunveruleiki skarast harkalega.

Olga Guðrún á forsíðu Vikunnar 1976, þremur árum eftir að Uppreisnin kom út (sjá hér).

Olga Guðrún á forsíðu Vikunnar 1976, þremur árum eftir að Uppreisnin kom út (sjá hér).

Þá var einnig bent á að í tilfelli Vigdísar og Olgu Guðrúnar var það ekki aðeins kyn höfundar og þýðanda og efniviðurinn sem hefðu verið á skjön við viðteknar venjur, heldur einnig æskan. Þær voru báðar bráðungar þegar bækurnar komu út og árásirnar hófust.

Einum fundarmanna fannst áhugavert að bera saman þessar þrjár bækur; auðvelt væri að skilja uppnámið í kringum Angantý þegar litið væri til hinnar rómantísku ímyndar af Jóhanni sem flekklausu skáldi, eða í kringum Uppreisnina á barnaheimilinu, sem var skýrt andóf gegn ríkjandi yfirvaldi. Þegar Ísbjörg væri annars vegar, skáldsaga sem hefði magnað upp þennan trylling, mætti segja að þar rynni saman ótti við konur og ótti við skáldskap.

Já, bætti einn gestanna við, þetta væri ótti við aflið í ímyndunaraflinu. Ótti við aflið.

Ítarefni:

Angantýr: Elín Elísabet Jónsdóttir Thorarensen, gefin út af höfundi 1946.

Endurútgáfa Lesstofa 2011

Uppreisnin á barnaheimilinu: Dr. Gormander, í þýðingu Olgu Guðrúnar Árnadóttur. Gefin út á kostnað þýðanda 1973.

Ég heiti Ísbjörg, ég er ljón: Vigdís Grímsdóttir, Iðunn 1989

Stúlkan í innheimum – um sagnaskáldskap Vigdísar Grímsdóttur:

Kristín Viðarsdóttir. Bókmenntastofnun Háskóla Íslands. Háskólaútgáfan. 1997

Tímarit Máls og Menningar 2.2011

Guðrún Helgadóttir um Elínu Thorarensen

Gunnar Már Hauksson um Jóhann Jónsson

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.