… bæði kona og maður, en þó frekar maður

Höfundur: Karólína Eiríksdóttir og ritstjórn

MagnusMaria 1

Maria Johansdotter er hugrökk stúlka, ákveðin í að lifa lífi sínu sem sjálfstæð persóna og tónlistarmaður. Hún fylgir hjarta sínu og tekur afleiðingum gjörða sinna stolt. Þegar hún er ákærð fyrir að villa á sér heimildir, spyr dómarinn hana hvort hún sé meiri kona eða maður. Hún svarar því til að hún sé bæði kona og maður, en þó frekar maður.

(Sjá nánar á vefsvæði Listahátíðar í Reykjavík).

Í dag, meira en þrjú hundruð árum eftir þessa atburði, er tímabært að segja hina ótrúlegu en þó sönnu sögu hinnar 19 ára gömlu Mariu Johansdotter/Magnus Johansson. Lífshlaup hennar hófst á seinni hluta 17. aldar í Föglö á Álandseyjum og endaði nokkrum áratugum síðar í Stokkhólmi.

Magnus Maria er ný ópera eftir Karólínu Eiríksdóttur við líbrettó Katarinu Gäddnäs. Óperan fjallar um mannréttindi, réttindi kvenna til að velja sér starf og fá sömu laun og karlmenn, rétt samkynhneigðra og trans einstaklinga og hefur sterka skírskotun í dag.

Knúzið varð forvitið um verkið og listræna nálgun tónskáldsins og fékk því að spyrja Karólínu Eiríksdóttur nokkurra spurninga.

Óperan byggir á sögu Maria Johansdotter sem var uppi fyrir þremur öldum. Hvernig vaknaði áhugi þinn á sögunni og hvað var það sem höfðaði til þín við hana?

Þessi saga hefur lifað á Álandseyjum í 300 ár og það voru tvær álenskar konur sem fengu þá hugmynd að sagan væri tilvalin til að byggja á óperu. Þetta eru Barbro Sundback, þingkona og Katarina Gäddnäs, rithöfundur og ljóðskáld. Barbro leitaði til mín, hvort ég hefði áhuga á að skrifa tónlistina og ég var strax tilbúin til þess. Það sem höfðar til mín er hversu sígild sagan er og að hún á erindi til nútímafólks. Mannlegt eðli hefur ekki breyst um aldir eða árþúsundir. Sagan fjallar um efni sem er ofarlega á baugi í dag víða um heim. Hún fjallar um rétt fólks til að lifa samkvæmt sínu innsta eðli, rétt kvenna til að stunda list opinberlega og rétt samkynhneigðra og transfólks til að lifa samkvæmt sínu eðli. Það er t.d. ekki langt síðan var í fréttum að konum í Íran væri bannað að syngja. Svo er auðvitað hægt að yfirfæra þessa sögu á mannréttindi í breiðum og algildum skilningi.

MagnusMaria 2Það bregður oft fyrir „kynusla“ í óperum – persónur dulbúa sig sem karl/kona, þykjast vera aðrar en þær eru, villa á sér heimildir. En er þetta hugsanlega fyrsta óperan þar sem fjallað er beinlínis um togstreitu persónu gagnvart kynhlutverki sínu og kynverund?

Ég þekki ekki önnur dæmi, en það getur vel verið að einhvers staðar hafi áður verið skrifuð ópera sem gerir þessu efni skil. Það má samt benda á að karlmenn sungu kvenhlutverk á 17. öld.

Eru spurningarnar sem saga Mariu og hennar eigin nálgun á hugmyndina um kyn vekja upp enn „sjokkerandi“ eða byggir áhrifamáttur sögunnar á því hversu róttæk nálgun Mariu hefur verið á sínum eigin samtíma?

Ég held að það fari eftir því hver á í hlut og hvar í heiminum við erum stödd. Við vitum að sums staðar í heiminum þætti þetta efni afar sjokkerandi en annars staðar ekki.  Á Íslandi held ég að það sé almennur skilningur á því að samkynhneigðir eigi að njóta sömu mannréttinda og aðrir, en samt heyrast enn hatursraddir. Þeim fækkar vonandi hratt. Það er athyglisvert að glæpur Magnúsar Maríu virðist á sínum tíma aðallega hafa falist í því að villa á sér heimildir, ekki endilega í því að táldraga stúlkurnar í sókninni, þannig að ef til vill hefur ríkt einhver skilningur á samkynhneigð fyrir 300 árum í sveitunum í kringum Stokkhólm, þar sem sagan gerist.

Þegar þú valdir sögu Mariu Johansdotter sem efnivið í óperu, var það þá til að geta samið pólitíska óperu eða varð verkið pólitískt vegna þess að sagan sem hreif þig sem tónskáld hefur þessa augljósu kynjapólitísku skírskotun?

Eins og áður hefur komið fram þá má segja að sagan hafi valið mig, og sagan sem slík fjallar einfaldlega um þetta efni og það er ástæðan fyrir því að ákveðið var að byggja óperu á henni. Forsenda þess að verkið varð til er einmitt þessi kynjapólitíska skírskotun.

Ópera er ekki listform sem fólk lítur á sem vettvang pólitískrar umræðu og ádeilu en hefur þó gegnum tíðina oft gegnt því hlutverki. Hvaða áhrif getur óperan í samtímanum haft sem þátttakandi í pólitískri orðræðu og sem áhrifavaldur í samfélaginu?

Óperan er ekkert öðruvísi en önnur listform og á auðvitað að þróast og þjóna sínum samtíma og getur sem slík haft mikil áhrif, ekki síður en leikhús, bókmenntir, myndlist eða hvaða nöfn maður svo sem kýs að nota yfir hin ólíku listform.

Hvaða listrænu aðferðir notar tónskáld til að birta tvískipta kynverund eða kynhlutverk MagnusMaria sem persónu?

Þegar dómarinn spyr MagnúsMaríu hvort hann/hún sé karl eða kona svarar hann/hún: „Ég er bæði kona og karl, en þó kannski frekar karl.“ Tónlistin tekur því ekki afstöðu til hvort hann/hún sé kona eða karl.

Allir listrænir hönnuðir og stjórnendur sýningarinnar eru konur, og að sjálfsögðu tónskáldið. Er það með ráðum gert og jafnvel hluti af listrænni segð sýningarinnar eða – gerðist það bara?

MagnusMaria 3Þetta er allt með ráðum gert.  Frumkvöðullinn að sýningunni, Barbro Sundback og leikstjórinn Suzanne Osten eru báðar þekktir femínistar. Þannig að þessi ákvörðun var tekin snemma, þar á meðal að öll hlutverkin skyldu sungin af konum, sem liggur auðvitað ekki í augum uppi, en endurspeglar í sjálfu sér söguna. Það eru nú samt karlmenn í sýningunni, t.d. er hljóðfæraleikarahópurinn skipaður konum og körlum nokkurn veginn til jafns. Það má geta þess að Suzanne Osten er höfundur sænska textans við Áfram stelpur, þannig að hún er þrautreynd í jafnréttisbaráttunni

Knúzið þakkar kærlega fyrir spjallið og bendir áhugasömum á að óperan verður flutt í Þjóðleikhúsinu þann 3. júní n.k. Sjá nánar á www.listahatid.is.

Myndir við færsluna eru sóttar hingað, með góðfúslegu leyfi.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.