Þegar fréttaveitan fylltist af kynferðisofbeldi

Höfundur: Eydís Hentze

Fyrir ekki svo löngu fylltist ég gríðarlegu stolti yfir kynsystrum mínum, sérstaklega þeim ungu. Þið vitið, af kynslóðinni sem er bara löðrandi í vonleysi og getur ekkert sem fyrri kynslóðir gátu gert. Þær frelsuðu á sér geirvörturnar og nokkrar „gömlur” fylgdu í kjölfarið. Ég var að læra undir próf þessa daga sem geirvörturnar voru frelsaðar og átti mjög erfitt með að einbeita mér því samfélagið riðaði af skoðunum og internetið fór næstum á hvolf. Það mun seint líða mér úr minni að fara út eftir próflesturinn og ganga áleiðis heim. Mér fannst ég ganga um í öðrum heimi. Öðrum heimi þar sem við bara áttum líkama okkar. Mig langaði að hæ-fæva alla sem ég mætti.

Svo í dag, ekki löngu eftir að kvengeirvartan fékk frelsi, fengu konur að tala. Eins og mér þóttu geirvörturnar fá mikið frelsi og allt var svo feel good í kringum það – og athugið, ég geri ekki lítið úr þeim atburði og finnst hann enn eitt það besta sem hent hefur íslensku þjóðina, þá bara toppaði dagurinn í dag allt.  Í facebook hópnum Beauty Tips fóru konur, hver á fætur annarri, að segja frá reynslu sinni af kynferðislegri misbeitingu. 12 tímum eftir fyrstu umræðuna held ég að frásagnirnar séu orðnar í það minnsta 150. Ungar stúlkur að stíga sín fyrstu skref í heim fullorðinna, þroskaðar konur og allt þar á milli. Það er ekki sjokk faktorinn í frásögninni sem skiptir máli, það eina sem skiptir máli er að fá loksins eitthvað helvítis pláss til að segja frá því að durgar beittu þær kynferðislegu valdi. Mörgum frásagnanna fylgja einnig lýsingar á svartnættinu sem tók yfir líf kvennanna í kjölfarið. Hvernig þær hafa valsað milli meðferðaraðila í von um einhverja lækningu. Að lækningin hafi jafnvel enn ekki fundist, mörgum árum eða áratugum síðar. Hvernig málin hafa verið þögguð niður. Hvernig þær, þolendur, hafa verið ofsóttar því þær sögðu frá. Hvernig konunum var ekki trúað. Hvernig umhverfið, sem átti að vera vakandi, svaf og vildi ekkert sjá. Og þessir durgar voru feður, mæður, stjúpar, stjúpur, afar, ömmur, vinir, frændur o.s.fv. Fáir voru konunum ókunnugir.

Margar stigu fram í fyrsta sinn og sögðu frá ofbeldinu. Sumar afsökuðu sig. Vissu ekkert hvort um kynferðisofbeldi væri að ræða eða héldu kannski í mörg ár að þetta væri ekki kynferðisofbeldi. Og ef það var ljóst frá upphafi, þá var það oft bara þeim sjálfum að kenna. Þetta kunna durgarnir. Að láta þann sem á vegi þeirra verður burðast með vondu tilfinninguna. Með niðurbrotið. Þetta er nefnilega vopn durganna. Ef ekki væri fyrir þennan efa, þetta svartnætti, þá væri ekkert fyrir þá að vinna.

En hvað gerðu íslenskar konur þá í dag? Þær komu fram, undir nafni, og sögðu eins undanbragðalaust frá því og þær treystu sér til, að durgar hafi reynt að svipta þær öllu. Við þurfum þetta pláss. Við konur með þessa reynslu í farteskinu erum alltaf að taka ósýnilegt pláss sem fyllir allt of mikið. Reynslan fyllir hversdagsleika okkar, sambönd okkar, fyllir heilbrigðiskerfið, fyllir samfélagið. Ég finn samt ekki löngun til að hæ-fæva alla sem ég mæti. Jú, mér finnst heimurinn aðeins breyttur, en ég er líka bara reið. Og glöð. Og sorgmædd. Og vonlaus. Og bjartsýn. Stolt. Niðurbrotin. Gráti nær. Ég sveiflast eins og pendúll. Það er bara ekki eðlilegt hvað kynferðisofbeldi er eðlilegt.

Ein athugasemd við “Þegar fréttaveitan fylltist af kynferðisofbeldi

  1. Bakvísun: Knúzannállinn 2015 | Knúz - femínískt vefrit

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.