Athugasemd höfundar: Nokkrar ábendingar frá fagaðilum hafa borist Knúzinu um að rangt sé farið með tölfræði í frétt RÚV sem vísað er til í greininni. Knúzið þakkar kærlega fyrir ábendingarnar, enda mikilvægt að slíkt komi skýrt fram og að rangfærslur sem þessar rýri ekki nauðsynlega og mikilvæga umræðu. Ábendingarnar og tengla á efni með staðfestum upplýsingum er að finna neðanmáls í þessari grein.
Höfundur: Halla Sverrisdóttir
The definition of insanity is doing the same thing over and over and expecting different results.
Þennan frasa kannast margir við. Hann er stundum eignaður Albert Einstein. Eða Mark Twain. Eða Benjamin Franklin. Eða Ritu Mae Brown. Sumir segja að hann hafi fyrst sést á prenti í fræðsluefni frá samtökunum Narcotics Anonymous. Í stuttu máli: Það veit enginn hver sagði þetta og mjög hugsanlega sagði þetta enginn svona orðrétt.
En þetta hljómar eins og einhver skynsemismanneskja hafi sagt þetta og við skiljum auðvitað öll við hvað er átt.
Vitfirring: Að endurtaka sömu athöfnina aftur og aftur á sama hátt og búast við að það hafi einhver önnur áhrif en síðast.
Samkvæmt niðurstöðum skýrslu Finnborgar Salome Þóreyjar- og Steinþórsdóttur, sem hún vann fyrir Háskóla Íslands í samstarfi við Ríkislögreglustjóra og kom út í lok árs 2013, leituðu 248 á neyðarmóttöku nauðgana á tólf mánaða tímabili, 1086 leituðu aðstoðar hjá Stígamótum og 189 kynferðisbrot voru kærð til lögreglu. Þar af var 88 málum vísað til ríkissaksóknara, en einungis 31 ákæra gefin út, og 23 þeirra leiddu til sakfellingar.
(Frá ritstjórn: Sjá athugasemd neðanmáls í þessari grein vegna ábendingar frá Stígamótum)
Þetta kemur fram í frétt á vef RÚV í gær, þann 31. maí. Fréttin fjallar um þá flóðbylgju frásagna og vitnisburða um kynferðisofbeldi sem skall á Facebook-síðunni Beauty tips! á föstudaginn var og sér ekki fyrir endann á.
Í fréttinni er rætt við Gunnar Inga Jóhannsson, lögmann, um þá kröfu sumra kvennanna á Beauty tips-síðunni að fá að nafngreina gerendur sína og skila til þeirra skömminni sem þolendurnir hafa sumir hverjir borið árum saman, og bera enn.
„Eðlilegast er að svona mál fari þann farveg sem að gert er ráð fyrir í lögum, að ef um er að ræða kynferðisbrot, að þau eru þá kærð til lögreglu og rannsökuð hjá lögreglu,“ segir Gunnar Ingi.
Og kona spyr sig: Er hægt að láta það svona gjörsamlega fram hjá sér fara um hvað Beauty tips-byltingin snýst? Málið er nákvæmlega það að kerfið VIRKAR EKKI. Þessi holskefla af sögum kvenna lýsir nákvæmlega því. Ótal konur segja frá því að hafa kært og málið verið fellt niður, að hafa ekki lagt í að kæra því þær teldu víst – og það skiljanlega – að það myndi engu skila. Ekki nóg með það heldur eru einnig ótal dæmi um að lögreglan sjálf hafi ráðlagt þolendum að kæra ekki, vegna þess að það væri ólíklegt að það myndi bera árangur! Réttarkerfið eins og því er beitt og eins og lögin eru túlkuð skilar þessum konum engu.

Tölfræðin sem vísað er til og fengin er úr skýrslu Finnborgar Salome birtist neðst í fréttinni, en ætti í raun að vera upphaf hennar og miðpunktur. Því þessi tölfræði er skjálftinn sem hratt af stað flóðbylgjunni. Þessi tölfræði sýnir skýrt og greinilega að það er ekki „eðlilegasta“ viðbragð þolanda kynferðisofbeldis að kæra brotið, að ganga í gegnum langt, tímafrekt, erfitt og oft niðurlægjandi ferli sem er afskaplega ólíklegt til að skila árangri. Sporin hræða. Spor þeirra sem hafa gengið þann þyrnótta veg og að lokum rekist á vegg.
Með því að hefja fréttina á tölfræði Finnborgar Salóme hefði fréttastofa RÚV komist mun nær kjarna þessa flókna máls, sem varðar þó svo einfaldar og frumstæðar tilfinningar og þarfir. Þörf fyrir réttlæti. Vissu um að á manni hafi verið brotið. Löngun til að ljúka ferlinu, skila skömminni, losna úr heljargreipunum, verða frjáls.
Með því að byrja á að gera okkur skýra grein fyrir þeirri auðn sem blasir við konum sem ákveða að kæra kynferðisbrot hefði það sem virðist vera alger firring lögmannsins frá veruleika þessara kvenna blasað við svo ekki yrði um villst.
Það verður að gera því skóna að lögmaðurinn Gunnar Ingi Jóhannsson þekki til þessarar tölfræði. Hann veit væntanlega hversu fáránlega lítinn árangur kæra er líkleg til að bera. Og samt fullyrðir hann að það sé „eðlilegast“ að fara þá leið.
Tölfræðin sýnir að kerfið virkar ekki. Ef við vissum ekki betur mætti ætla að næstum allar konur sem leita til Neyðarmóttöku eða Stígamóta, eða segja frá reynslu sinni á Beauty tips! þessa dagana, væru að skálda frásagnir sínar. En við vitum betur. Tölurnar segja okkur að gríðarstór hópur sekra gerenda hlýtur aldrei neinn dóm. Það er gallað kerfi. Það er til of mikils mælst að Gunnar Ingi Jóhannsson, eða hvaða einn einstaklingur sem er, hafi svar á reiðum höndum við þeirri risastóru spurningu „Hvernig á að breyta kerfinu þannig að það virki?“ en það hlýtur að mega gera þá kröfu til löglærðra einstaklinga að þeir standi ekki frammi fyrir þessum staðreyndum og tali um að það sé „eðlilegast“ að reyna að notfæra sér kerfi sem er augljóslega handónýtt.
Að gera aftur og aftur eitthvað sem er líklegra en ekki að beri engan árangur? Væri það ekki … hreinasta vitfirring?
___
Uppfært 1. júní kl. 09:40: Að gefnu tilefni: Tölfræðin sem vitnað er til í greininni er höfð eftir fréttinni á vef RÚV sem vísað er til. Stígamót hafa gert eftirfarandi athugasemd við þá tölfræði sem ber að koma á framfæri:
Leiðrétting: Miklar umræður fara nú fram um frásagnir kvenna á Beauty tips og full ástæða til. Þörf kvenna til þess að segja frá og létta af sér skömminni er gífurleg. Það er líka hárrétt niðurstaða að réttarkerfið á Íslandi virkar óbærilega illa í okkar málaflokki, konur sætta sig ekki við það og leita leiða til þess að ná rétti sínum. Fyrir það eiga þær mikinn heiður skilinn.
Í umræðunni hefur verið vitnað í tölfræði Stígamóta á rangan hátt. Þetta var gert á vef RÚV og www.knuz.is í skrifum eftir Halla Sverrisdóttir og á fleiri stöðum. Vitnað hefur verið í ágæta rannsókn Finnborg Salome ÞóreyjarSteinþórsdóttir en einhvers staðar skoluðust tölur hressilega til. Það hefur sem betur fer aldrei gerst á 12 mánuðum að 1086 konur hafi leitað til Stígamóta, slíkt væri heimsfrétt og brjálæði. Hið rétta er að á tveimur árum, árin 2008 og 2009 streymdu 1086 einstaklingar í gengum húsið hjá okkur, það voru árin sem Finnborg var að skoða. Af þeim voru um 10% karlar og um helmingurinn af þessum hópi var að koma í fyrsta skipti, aðrir fylgdu okkur á milli ára. Árið 2008 voru ný mál 273 og árið 2009 voru þau 231. Einnig er vitnað í árið 2013, en þá fengum við í hús 358 einstaklinga með ný mál.
Á Stígamótum vöndum við okkur við gagnasöfnun og gögnin okkar hafa reynst haldgóð og beitt verkfæri í baráttunni fyrir réttlátara samfélagi. Vonandi komast þessi skilaboð sem víðast og vonandi verða skrifin leiðrétt.
Á Facebook-síðu Stígamóta hefur Finnborg Salóme Steinþórsdóttir sett inn eftirfarandi upplýsingar:
Í meistararitgerð minni vísa ég í tölfræði Stígamóta úr ársskýrslu 2012, en þar vísa ég til þess að „árið 2012 leituðu 664 einstaklingar til Stígamóta. Þar af voru 264 einstaklingar sem leituðu aðstoðar vegna eigin mála í fyrsta skipti, 91,3% konur og 8,7% karlar“. Ég veit ekki hvernig RÚV – Fréttir hafa fengið það út að 1086 manns hafi leitað til Stígamóta árið 2013, en ég hef sent blaðamanni athugasemd.
Finnborg Salóme hefur enn fremur komið eftirfarandi athugasemd á framfæri við Knúzið:
Hvað varðar tölur um heimsóknir á Neyðarmóttöku, þá segir í fréttinni að 248 hafi leitað þangað, ekki er ljóst hvernig sú tala er fengin. Hún er ekki rétt, en í ritgerðinni kemur fram að: „Árið 2012 leituðu 139 brotaþolar nauðgunar til Neyðarmóttöku fyrir þolendur kynferðisofbeldis, þar af 129 konur (92,8%) og 10 karlar (7,2%).“
Hvað varðar tilkynningar til lögreglu þá eru það tölur frá 2008 og 2009 úr rannsókn Hildar Fjólu Antonsdóttur og Þorbjargar Sigríðar Gunnlaugsdóttur.
Knúzið þakkar Stígamótum og Finnborgu Salóme Steinþórsdóttur ábendingarnar.
Eftir sem áður er ljóst að ávinningur af því að kæra kynferðisbrot hefur verið grátlega lítill fyrir þolendur og að fáar lausnir á því vandamáli virðast í sjónmáli.
Til frekari upplýsingar má benda á tvær nýlegar skýrslur um meðferð nauðgunarmála:
Hildur Fjóla Antonsdóttir og Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir, 2013: Tilkynntar nauðganir til lögreglu á árunum 2008 og 2009: Um afbrotið nauðgun, sakborning, brotaþola og málsmeðferð
Hildur Fjóla Antonsdóttir, 2014: Viðhorf fagaðila til meðferðar nauðgunarmála innan réttarvörslukerfisins og tillögur að úrbótum