Hinir undarlegu þolendur

Höfundur: Björg Sveinbjörnsdóttir

Mig langar að segja ykkur frá áhugaverðum fyrirlestri sem ég var að horfa á. Hann var fluttur í desember 2012 á vegum NIJ (National Institute of Justice) í Bandaríkjunum en er aðgengilegur öllum áhugasömum hér.

DrCampbell-L

Dr. Rebecca Campbell

Fyrirlesarinn, Rebecca Campbell, er prófessor við Michigan háskóla. Hún sérhæfir sig í því að þýða rannsóknir yfir á mannamál til að búa til gagnleg verkfæri fyrir fólk og stofnanir sem vinna með þolendum kynferðisofbeldis. Í fyrirlestrinum gerir hún m.a grein fyrir því sem gerist í líkamanum við árás og útskýrir algeng viðbrögð þolenda. Hún beinir orðum sínum aðallega til þeirra sem vinna í heilbrigðiskerfinu, hjá lögreglunni og í réttarkerfinu. Ég ætla að gera mitt besta til að segja frá nokkrum atriðum úr fyrirlestrinum og skella því meira að segja frekar hrátt á borðið. Ég mæli eindregið með því að kíkja á fyrirlesturinn því hann er mjög fræðandi.

Viðbrögð okkar við undarlegum aðstæðum eru oftast undarleg og að verða fyrir kynferðislegri árás er mjög undarleg reynsla. Oft á tíðum er gerandinn einhver sem þú þekkir og þykir jafnvel vænt um. Kannski vaknaðir þú upp úr áfengissvefni við árásina, kannski hélstu að þú værir að fara að stunda kynlíf með einhverjum en svo breyttist það skyndilega í árás, kannski varstu bara að labba heim af djamminu þegar það var ráðist á þig. Sem sagt, þú færð sjaldnast viðvörun þess efnis að nú sé árás yfirvofandi og að undirbúnings sé þörf.

Þrátt fyrir að árásin komi eins og þruma úr heiðskíru lofti er eins og það sé ætlast til einhverra vitrænna, rökrænna viðbragða af hendi þolandans. Oftast eru viðbrögðin það undarleg að þolandinn skilur ekkert í þeim sjálfur. Undarleg viðbrögð manneskju undir árás er oft talin draga úr trúverðugleika og þolandinn sjálfur upplifir skömm og fyllist efasemdum. Við virðumst þó vera nokkuð tilbúin að viðurkenna tilvist undarlegra viðbragða við annars konar áföllum, sem er frekar áhugavert.

Rebecca Campbell segir í fyrirlestrinum sínum að það að haga sér undarlega í aðstæðum í kjölfar kynferðisofbeldis eigi sér taugalíffræðilegar skýringar og það sé mikilvægt fyrir þolendur og þá sem vinna með þolendum eftir árásina að þekkja einkennin.

Líkami verður fyrir árás

Þegar líkaminn verður fyrir árás hringja viðvörunarbjöllur hjá undirstúkunni (samskiptamiðstöð heilans) sem sendir svo skilaboðin áfram til heiladingulsins (einskonar yfirinnkirtill líkamans). Heiladingullinn sendir svo út tilkynningu til kirtlanna í líkamanum um hvaða hormón eigi að leysa út til að takast á við aðstæðurnar og lifa af. Þau taugaboðefni sem koma aðallega til greina eru katekólamín/adrenalín, kortisól, ópíóíð og oxýtósín. Adrenalínið kikkar inn til að fá okkur á hreyfingu, til að hlaupa í burtu eða lemja frá okkur. Kortisólið styður adrenalínið því það hefur áhrif á orkuna sem maður hefur til að berjast eða flýja. Áfallinu/árásinni fylgir oft líka líkamlegur og/eða tilfinningalegur sársauki svo taugaboðefnið ópíóíð (sem er náttúrlegt morfín líkamans) er einnig virkjað. Oxýtósíninu kann einnig að vera hleypt í gegn til að efla jákvæðar tilfinningar.

Þetta er svona nokkurn veginn hormónaflæðið sem gæti farið af stað undir árás:
Í heilanum er stöð sem kallast dreki sem sér m.a um að taka við öllum upplýsingum úr umhverfinu og flokka þær. Ég sé hann fyrir mér alveg á milljón að hashtagga, t.d niðri við tjörn væri drekinn alveg #vatn #fuglar #æskuminningumafaminnogömmu #kalt #umferðaniður #lyktafandaskít #hlutirsemégnenniekki og svo framvegis. Drekinn flokkar sem sagt öll skilaboð og áreiti úr umhverfinu og vistar á mismunandi stöðum í heilanum. Ef upplýsingarnar sem koma til okkar í gegnum líkamann eru hins vegar tilfinningalega hlaðnar og tengdar sársauka eða ótta vaknar mandlan, sem er hluti af randkerfinu, gamla hluta heilans, og er sérhæfð í tilfinningamálum. Drekinn og mandlan þurfa því að vinna saman í þessum aðstæðum því það er svo erfitt fyrir heilann að vinna úr upplýsingum sem eru hlaðnar tilfinningum og ótta.

Hormónin sem mæta á staðinn gera heilanum oft mjög erfitt fyrir að skilgreina, flokka og vinna úr þeim upplýsingum sem koma inn þegar árás stendur yfir. Sá hluti framheilans sem sér um rökræna hugsun virkar nefnilega ekki ef adrenalínmagnið er of mikið. Um leið er morfínmagn líkamans mjög mikið, en það á einmitt að hindra sársauka. Áhrifin sem það hefur á manneskju undir þessum kringumstæðum geta verið að hún virki mónótónísk og flöt, því endorfínið sljóvgar. Þrátt fyrir að þetta séu „eðlileg“ viðbrögð heilans til að bregðast við áföllum og sársauka finnst fólki oft erfitt að skilja þau. Það er búist við öfgafullum viðbrögðum sem sýna fram á alvarleika aðstæðnanna. Þú þarft að vera skýr.
fight-flight-freeze-paint

Auk þess getur magn barkstera (corticosteroid) í líkamanum aukist, sem dregur úr líkamlegum krafti, það kallar fram viðbragð sem við köllum oftast að frjósa. Við þekkjum sem sagt adrenalínið og kortisólið, sem gerir okkur kleift að berja, hlaupa í burtu eða verja okkur, en margir geta hvorki barist né flúið heldur lamast líkaminn og frýs. Þess vegna, segir Rebecca Campbell, er réttara að tala um flight, fight or freeze, sem gæti verið þýtt sem að berja frá sér, flýja eða frjósa.

Enska heitið yfir það að frjósa er „tonic immobility“. Þetta er ósjálfrátt viðbragð og ekki eitthvað sem fólk ákveður að gera. Þetta er viðbragð sem hefur verið forritað í okkur og á að viðhalda og vernda lífveruna, rétt eins og flótta- eða árásarviðbragðið. Stundum hentar að flýja, stundum hentar að berjast, stundum eykur það áhættuna í aðstæðunum svo þá gæti verið sniðugast að frjósa eða play dead. Einkennin gætu verið að loka augunum og lognast út af, detta út eða hreinlega lamast. Einstaklingur í þessu ástandi liggur bara þarna og gerir ekki neitt.

Órökréttar, sundurleitar frásagnir

Það sem telst einnig undarlegt í fari þolenda er sundurleit, órökrétt frásögn. Þegar streituhormónin eru losuð í svona miklu magni veikir það starfsemi drekans, sem á þá erfitt með að flokka og setja í samhengi upplýsingarnar sem hrannast upp. Í aðstæðum þar sem manneskja verður t.d fyrir nauðgun heima hjá sér af hendi einhvers sem hún treystir gæti drekinn verið alveg #rúmið mitt #vont #svitalykt #ótti #kynlíf #þaðsemmérfinnstveraóréttláttísamfélaginu #vinurvinarmíns og fleira.

Þær upplýsingar sem koma inn eru sem sagt geymdar á víð og dreif um minnið í órökréttri röð og þess vegna getur reynst erfitt að segja frá þeim í rökréttri röð.

7410186_origRebecca Campbell tók frekar gott dæmi til að útskýra það sem væri að gerast í heilanum. Hún bað alla um að ímynda sér ef þeir mættu bara taka niður glósur á fyrirlestrinum á pínulitla „post-it“ miða. Stundum gætu þau náð nokkrum orðum, einni mynd eða eitthvað slíkt. Svo ættu þau að ímynda sér mjög óreiðukennt skrifborð og setja miðana á víð og dreif um það, í möppur sem tengjast efninu ekkert, ofan í alls konar mismunandi skúffur og þar fram eftir götunum. Svo ættu þau að koma aftur eftir einn sólarhring og ná í alla miðana og raða þeim saman í réttr röð og segja svo frá því sem þau lærðu í fyrirlestrinum.

Eitthvað svipað gerist sem sagt í heilanum við kynferðisofbeldi og þess vegna getur verið erfitt fyrir þolandann að sækja minningarnar aftur í rökréttri röð. Það gerist alla vega hægt, vegna þess að flokkun atburðarins var óreiðukennd og sundurleit. Það tekur tíma að endurheimta minningarnar og flokka þær. Rebecca segir að það sé mikilvægt að muna að það sem er skrifað á þessa litlu miða er rétt og satt þó að flokkunin virðist órökrétt og sundurleit.

Ofbeldi í tómarúmi

Það þarf að hafa í huga að þolendur vilja oft ekki segja frá ofbeldinu út af viðbrögðunum sem þeir sýndu á meðan því stóð og í kjölfar þess. Þeir sækja síður hjálp og hugsanir um eigin viðbrögð ásækja þá því þeir upplifa og fá þau skilaboð frá samfélaginu að þetta séu undarleg og ótrúverðug viðbrögð. Það virðist á einhvern hátt draga úr trúverðugleika þolenda ef þeir hafa ekki hreyft sig á meðan árásinni stóð, ekki sýnt nein viðbrögð þess eðlis að þeir upplifðu ótta, ekki sýnt rétt viðbrögð. Það virðist líka vera undarlegt að þolandi geti ekki sagt frá ofbeldinu á rökréttan hátt til að byrja með og að frásögnin virðist sundurleit.

Rebecca Campbell vill að lögreglan og réttarkerfið skoði þessar rannsóknir og þrói sín vinnubrögð í samræmi við þær. Hún vill koma þeim skilaboðum áleiðis til þolenda að þessi undarlegu viðbrögð séu hreint ekki undarleg og algengari en fólk telur sér trú um.

Þetta er frekar áhugavert, finnst ykkur ekki? Það er líka mjög áhugaverð staðreynd að hegðun gerendans er í þessu samhengi sjaldan dregin upp sem undarleg eða úr takti. Gerandinn hverfur úr myndinni og það er eins og þolandinn hafi orðið fyrir ofbeldi í einhverskonar tómarúmi. Það er örugglega það eina sem er raunverulega undarlegt við það að vera þolandi.

 

Hér er hægt að horfa á styttra viðtal við Rebecca Campbell:

 

Ein athugasemd við “Hinir undarlegu þolendur

  1. Bakvísun: Af ranghugmyndum karla um langanir kvenna | Knúz - femínískt vefrit

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.