Kvennabylting – Gegn #þöggun

Höfundur: Elísabet Ýr Atladóttir

alice walker

Þann 29. maí birti ég litla færslu í Facebook-hópnum Beauty tips. Sú færsla kom í kjölfarið á því að það leit út fyrir að þaggað yrði niður í umræðu um kynferðisafbrotamann, með þeirri lélegu afsökun að persónuleg mál einstaklinga ætti ekki að ræða á síðunni. Mikið var einnig talað um að vernda þyrfti aðstandendur hans. Þetta var kveikurinn að þessari litlu færslu, þar sem ég mótmælti þessarri aðgerð og biðlaði til kvenna að birta færslur undir tagginu #þöggun til að berjast gegn því að þetta fengi fram að ganga. Þolendur ættu að fá að tala hreint út, án þöggunar, í hóp fyrir konur. Því ef ekki þar, þá hvar?

Það var þá. Eftir að ég skrifaði þá færslu tóku aðrar hugrakkar konur stjórnina. Þær deildu sögum af ofbeldi sem þær voru beittar, undir tagginu #þöggun og #konurtala, því þær sættu sig ekki við að skömmin væri sett alfarið á þær, að þær ættu að þegja undir því yfirskini að aðstandendum gerenda liði ekki illa. Það vatt upp á sig og varð að þeirri byltingu sem við erum að sjá í dag. Ég á ekki heiðurinn. Heiðurinn eiga konurnar sem hófu umræðuna sem eitraðist af þöggunartilraunum og var eytt í kjölfarið, heiðurinn eiga konurnar sem sættu sig ekki við þöggun samfélagsins og deildu með okkur því sem þær voru þvingaðar til að upplifa, sögðu frá yfirþyrmandi þrýstingi frá samfélagi og jafnvel sínum nánustu til að þegja. Þær segja sögur sínar af gagnslausu réttarkerfi sem vinnur ekki fyrir þolendur, heldur gerendur. Margar hafa sagt frá því að þeirra mál hafi verið felld niður, því það var „orð gegn orði“ – eitthvað sem þýðir „karli trúað yfir konu“ í okkar nauðgunarmenningu. Fjöldahreyfing er engin ein manneskja.

mótmæli

Þetta er stórkostleg bylting, því sjaldan hefur sést slíkur stuðningur við orð og sögur kvenna. Okkur er kennt frá fæðingu að orð okkar og reynsla hafi lítið vægi í samfélagi sem fyrirlítur okkur fyrir það eitt að vera konur. Það er magnað að sjá konur standa með konum, skilyrðislaust. Að sjá þolendur ofbeldis tala opinskátt og í stað þess að vera þaggaðar, vera hvattar áfram af systrum sínum. Hrós og stuðningur kemur frá öllum hliðum.

En þöggunartilraunirnar halda áfram. Margar hafa heyrt frá fólki að þær eigi að eyða sögunum sínum, en með eigin krafti og hreyfinguna til stuðnings, hafa þær haft styrk til að standa á sínu. Samt sem áður mun þöggun nauðgunarmenningarinnar ekki hverfa á nokkrum dögum, og því er mikilvægt að konur haldi áfram. Segi stopp. Að við, sem samfélag, leyfum ekki okkur, né öðrum, að gefa gerendum það svigrúm sem þeir hafa í dag til að taka enga ábyrgð. Því það er þar sem þöggunin liggur, í því að við, sem samfélag, þorum ekki að taka gerendur til ábyrgðar. Við þorum því ekki því þeir eru feður, makar, bræður og frændur og vinir. Við þorum því ekki því það er óþægilegt að horfast í augu við það að nauðgarar og ofbeldismenn séu allsstaðar. Þeir eru venjulegir menn, jafnvel vinsælir, þeir jafnvel gefa til góðgerðamála, eiga börn, eru góðir í vinnunni og góðir við vini sína. Þeir eru frægir. Þeir eru lögreglumenn og læknar. En þeir eru líka ofbeldismenn. Nauðgarar. Og alltaf leyfum við þeim að njóta vafans á kostnað þolenda.

Þessi þöggun snýst ekki bara um það að konur þori ekki að segja sögur sínar, hún er bundin í þá staðreynd að aldrei megi nefna gerendur á nafn. Þolendur fá stuðning svo lengi sem enginn gerandi er nefndur, því um leið og gerandi verður að raunveruleika, ekki bara typpi alveg ótengt líkama karlmanns, heldur maður með nafn og ættingja, áhugamál og líf utan þess að vera nauðgari, þá á hann á fá að njóta vafans. Þá er þolandi að „eyðileggja líf“ einhvers, því einhvern veginn er hans líf mikilvægari en hennar. Hans lífsgæði og þægindi verða allt í einu að aðalumræðuefninu, og þolendur þurfa að þegja til að vernda það. Þær mega ekki eyðileggja líf. Ábyrgðin er færð frá manninum sem beitir ofbeldi, til hennar sem var beitt ofbeldi. Allt í einu skal hún passa að hans lífsgæði séu ekki skert með því að segja sannleikann. Hún á að fyrirgefa og gleyma, heilsa hennar á að koma hratt til baka, svo að við, samfélagið, þurfum ekki að horfast í augu við þá staðreynd að við hylmum ekki bara yfir með nauðgurum og ofbeldismönnum, heldur tökum við virkan þátt í því að gera þeim kleift að halda áfram að beita ofbeldi.

Ég heimta að gerendur séu gerðir ábyrgir. Að þeirra lífsgæði fái að skerðast og að fólk hætti að vera meðvirkt yfir því. Hann tók ákvörðun um að beita aðra manneskju ofbeldi, sama undir hvaða kringumstæðum, hann verður þá að taka ábyrgðina á því að aðstandendum hans líði illa. Hann skal taka ábyrgðina á því að missa vinnu, að mannorð hans sé svert. Hann er ábyrgur.

Það er kominn tími til að þolendur fái að njóta vafans og að samfélagið hætti að ætlast til að þolandi beri alla ábyrgð á ekki bara sér og sínum lífsgæðum, heldur hans líka. Réttarkerfið er ekki brotið af ástæðulausu, það finnast engar lausnir fyrir þolendur því samfélagið í heild vill ekki að gerendum sé refsað. Við hrópum að nauðganir séu hræðilegar og nauðgarar eigi verstu refsingar skilið, en kóum svo með þeim þegar þeir þykjast beittir óréttlæti því þolandi sagði sannleikann. Það er auðvelt að fordæma fólk sem þú sérð hvorki né þekkir. Það er auðvelt að heimta hefnd þegar máluð er mynd af skrímsli. En raunveruleikinn er allt annar þegar ofbeldið er ekki eins og þú ákvaðst að alvöru nauðgun ætti að vera, þegar þolandi hagar sér ekki eins og alvöru fórnarlamb eins og þú sást í sjónvarpinu, þegar aðstæðurnar voru ekki jafn skýrar og þú hefur ímyndað þér að sé alvöru.

Það er kominn tími til að rjúfa þögnina og að gerendur séu gerðir ábyrgir fyrir gjörðum sínum. Þessi bylting gegn þöggun er fyrsta skrefið, og við getum nýtt okkur þennan kraft til að rústa þessu handónýta kerfi og byggja nýtt. Nú er tækifærið til að gera raunverulegar breytingar.

3 athugasemdir við “Kvennabylting – Gegn #þöggun

  1. Bakvísun: Þegar kynferðisbrotamenn verða hetjur | KVENFRELSI

  2. Bakvísun: Knúzannállinn 2015 | Knúz - femínískt vefrit

  3. Bakvísun: Konur tala 2015 | Knúz - femínískt vefrit

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.