Hver Cannes að klæða sig?

Höfundur : Sigríður Guðmarsdóttir

 

kálfar

Ég skal bara játa strax. Ég er heilluð af karlmannskálfum. Sumar/sumir eru hrifnar/hrifnir af rössum, festulegum hökum og upphandleggsvöðvum, en þegar ég sé fallega kálfa, þá kikna ég í hnjáliðunum. Kálfar kalla fram hjá mér hlýjukennd og gleði yfir karlmannslíkamanum í öllum sínum ólíku myndum. Ég almennt elska kálfa, granna og þykka, vöðvamikla og rýra, háruga og strípaða og í öllum mögulegum húðlitum.

Um daginn upplifði ég minn fyrsta þjóðhátíðardag hér í Noregi og þar var margt að sjá. Ég komst að því að hálfur bærinn spilar í lúðra og trommusveitum og restin spókar sig um á þjóðbúningum í tilefni dagsins. Konurnar hér í Nordland eiga fallega blómskreytta græna og bláa búninga og svo getur maður leikið sér við að finna út hvaðan konurnar eru sem klæðast búningum frá öðrum landshlutum. Og karlmennirnir, maður minn, þeir eru allir á hnébuxum og blámynstruðum ullarsokkum, sem falla fullkomlega að kálfunum. Þetta var sæludagur og ég er varla búin að jafna mig ennþá.

Nema hvað. Fyrir nokkrum dögum fór mynd af Ragnheiði Elínu Árnadóttur innanríkisráðherra eins og eldur í sinu um veraldarvefinn. Á myndinni sem er tekin í Cannes hafði Ragnheiður, sem gegnir embætti ráðherra atvinnuvega- og nýsköpunar, stillt sér upp með kvikmyndagerðarfólkinu sem vann að kvikmyndinni Hrúti, en myndin fékk einmitt verðlaun í Cannes. Með ráðherranum á myndinni eru fimm karlmenn á bláum jakkafötum og ein kona í gulum kjól. Ragnheiður er á þunnum rauðum kjól í hitanum, berlæruð á rauðum hælaskóm. Kjóllinn er stuttur að framan og það hefur verið smásunnangola þarna í Frakklandinu, þannig að kjóll lyftist upp um ráðherrann og sýnir hennar hvítu, stæðilegu upplæri.

Myndin er fengin af opinni Facebooksíðu Harðar Torfasonar og má nálgast hér í upphaflegri útgáfu

Myndin er fengin af opinni Facebooksíðu Harðar Torfasonar og má nálgast hér í upphaflegri útgáfu

Ég var dáldið glöð þegar ég sá þessa mynd og þótti konan falleg. Ég er sjálf að reyna fyrir mér í nýju starfi og hef komið mér upp nokkuð góðum lager af huggulegum prjónakjólum og powerdröktum sem Margaret Thatcher og Angela Merkel hefðu verið stoltar af, auk tveggja virðulegra og siðprúðra skotapilsa. Ég gladdist yfir mynd af ráðakonu sem að sýnir á sér kroppinn og er ekkert feimin við það. Hún er með brjóst og læri og mjaðmir og næpuhvítar lappir eins og ég. Ég ákvað að fara úr teygjubrókinni og létta af mér eins og einum pólýesterjakka, við það eitt að sjá þessa mynd. Svo fannst mér líka gaman að sjá rauða kjólinn og gula kjólinn  á myndinni, sem var töluvert meira líf í heldur en í öllum bláu buxnadressunum í miðjunni. Ég var reyndar nokkuð sjokkeruð á manninum sem var í brúnum skóm við bláu jakkafötin (Hvar eru eiginlega kálfarnir á mönnunum?)

Og svo streymdu inn komment á myndina. Ég sá hana á mörgum stöðum í fréttaveitu á samfélagsmiðlum, sumir hlógu, einn hafði ort klámvísu um ráðherrann, aðrir voru hneykslaðir. Sumum þótti kjóllinn ljótur, öðrum að stellingin væri óviðeigandi, eða kjóllinn óviðeigandi eða hneyksli að ráðherrann væri yfir höfuð á myndinni. Mér þóttu þetta hinar áhugaverðustu samræður um það hvað væru viðeigandi og óviðeigandi föt og stellingar á ráðamönnum og velti því fyrir mér hvort slíkar hugmyndir væru að einhverju leyti kynbundnar. (Vísan um óviðeigandi klæðaburð ráðherra þótti mér óviðeigandi).

Klæðaburður er persónubundinn. Fólk hefur ólíkan smekk á klæðaburði annarra og getur endalaust þrætt um það hvað því finnst flott og hvað ekki. Brúnir skór, blá jakkaföt, rauðir skór, stuttir kjólar, gulir kjólar, hælar, flatbotna skór. Ég frétti reyndar að myndin hefði líka fengið útbreiðslu í Frakklandi, en þar hefði enginn tekið eftir ráðherranum, en hins vegar tryllst yfir konunni á flatbotna skónum. Það er nefnilega bannað fyrir konur að vera á flatbotna skóm á rauða dreglinum í Cannes.

Klæðaburður er persónubundinn og það sem við tengjum við siðgæði, hvað það er sem við teljum vera viðeigandi og óviðeigandi. Og við hlæjum, reiðumst og/eða hneykslumst á því sem við teljum skjóta yfir markið. Og samt eru ákveðnir hlutir sem virðast vera gegnumgangandi í mörgum samfélögum í sambandi við klæðaburð. Klæðaburður gefur samfélagsleg skilaboð. Klæðaburður er hluti af sjálfsmynd. Klæðaburður er gagnrýndur og ekki síst klæðaburður kvenna. Eftir því sem konur komast hærra upp í virðingar- og ábyrgðarstöður, ekki síst opinber embætti eins og ráðherrar, þingkonur og borgarfulltrúar eykst áhuginn á klæðaburði þeirra. Margir hafa áhuga á því hvernig hárið á þeim er, hvaða skartgripi þær nota, hvað sé smart og hvað sé púkó og hvaða litum þær eigi að klæðast. Og eftir því sem konur hætta sér lengra út úr pólýesterdressinu, þeim mun harðar eru þær gagnýndar.

Hvað var það sem fólki fannst að myndinni af ráðherranum?  Var það sídd kjólsins, liturinn, stellingin, rauðu skórnir?  Var það að það sást í lærin á ráðherranum?  Getur það verið að það trufli marga að konur geti haft mikil völd og líka sýnt vöxt sinn og verið kynverur?

Og hér kemur tilgáta:  Eftir því sem konur verða valdameiri, þeim mun meira vex pressan á að þær hylji líkama sinn og klæðist stöðluðum, litlausum fötum. Karlmenn hins vegar nota óspart kynþokka sinn sér til framdráttar í stjórnmálum og kynþokki og kjörþokki virðist gjarnan fara saman, eins og dæmin sanna um þennan hér:

Myndin er héðan.

Myndin er héðan.

Þessu er öfugt farið með konur, eftir því sem kynveran kemur sterkar í ljós virðist kjörþokkinn dala. Það er eitthvað verulega erfitt í vestrænum táknheimi við að setja vald og kvenlíkama í sama pottinn.

Það er hins vegar alvarlegt mál ef Facebook verður óstarfhæf yfir klæðaburði þingkvenna og ráðherra. Og þess vegna hefur mér dottið þjóðráð í hug sem slær tvær flugur í einu höggi, friðar huga þeirra sem eru með böggum hildar eftir verðlaunaafhendinguna í Cannes og þjónar mínu sérstaka kálfablæti.

Geta ekki bara allir verið í þjóðbúningum í þinginu og í opinberum erindagjörðum? Þingið er nú svo frjálslynt og þar væri hægt að ná upp skemmtilegum kynusla eftir því hvort fólk veldi karl- eða kvenbúninga. Sjálfstæðismenn gætu til dæmis sannmælst um að klæðast bláum kyrtlum og skauti (þetta leysir sjálfkrafa vandamálið fyrir þá sem höndla ekki lærin á Ragnheiði), Framsóknarmenn veldu hugsanlega peysufötin og vinstri grænir væru í grænum 18. aldar búningum með krókfald, en samfylkingarfólk í rauðum faldbúningi. Píratar sæktu líkast til frekar í svartan 20. aldar upphlut með víravirki og Björt framtíð í upphlut 19. aldar. Og allir þingmenn skarta að sjálfsögðu sínu ættarsilfri.

Og svo vil ég auðmjúklegast koma því á framfæri við þá karlkynsalþingmenn sem ekki vilja klæðast skautbúningi að taka upp norskar hnébuxur og sokka við þingfundi og önnur opinber störf.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.