„Því mega sár ekki gróa?“

Höfundur: Guðný Elísa Guðgeirsdóttir

Þolendur kynferðisofbeldis eru hvattir til að rjúfa þögnina og segja frá ofbeldinu sem þeir hafa orðið fyrir.

…nema ef einhverjum finnst það óviðeigandi eða óþægilegt. Þá hristir fólk höfuðið og spyr af hverju viðkomandi þurfi að vera tjá sig um eitthvað svona persónulegt á opinberum vettvangi. Ofbeldismál mega líka bara vera í umræðunni í ákveðið langan tíma. Ef þolandi segir frá eftir þann tíma er hann bara að vera með leiðindi. Ósmekklegt að taka sér langan tíma til að safna kjarki til að feisa dómstól götunnar. Tala nú ekki um ef það er langt síðan gerandinn sagði sína útgáfu á sögunni.

En örvæntið ekki þolendur. Þegar gerandinn er dauður eftir einhverja áratugi þá opnast stundum gluggi fyrir ykkar sögu. Stundum er meira að segja skipuð nefnd til að hneykslast á þögguninni.

Þangað til, þolendur, viljið þið í guðanna bænum tipla á tánum í kringum þarfir gerenda og fyrir alla muni ef einhver þarf að vita að þið hafið orðið fyrir kynferðisofbeldi passið þá að gefa í skyn að ofbeldið hafi gerst í tómarúmi eða að vindhviða hafi feykt eigandalausu typpi inn í líkamsop ykkar án þess að fá leyfi.

sárgróa

Tekið úr kommentakerfi DV, smellið á myndina til að opna fréttina.

Mannorð ofbeldismanna er dýrmætara en kynfrelsi þolenda. Ofbeldismenn þurfa frið til að jafna sig á að hafa beitt ofbeldi. Þolendur verða að muna að það er verkefni þeirra að taka út margra ára þjáningar vegna ofbeldisins sem þeir eru beittir. Ekki gerendanna. Þeir hafa mannréttindi.

Þið þolendur eruð líka hvort eð er með ónýtt mannorð því allir eru saklausir uns sekt er sönnuð og þangað til hafið þið stöðu lygara. Að auki eruð þið talin stjórnast af annarlegum hvötum og hefnigirni. Líklega af því gerandinn vildi ykkur ekki eða af því ykkur fannst svo óþolandi að hann væri ríkari en þið. Ykkur fannst það vera sniðugt að lækka í honum rostann með því að ásaka hann um kynferðisofbeldi. Það er miklu minni persónuleg fórn og fyrirhöfn í því heldur en t.d. ef þið mynduð lykla bílinn hans. Samfélagið elskar líka þolendur svo það hlýtur að vera skemmtilegt að vera þolandi. Þetta er skothelt plan til að öðlast vinsældir og virðingu annarra.

…Svo framarlega sem vindurinn eða draugur braut á ykkur. Munið svo að alvöru þolendur eru ekki með alvöru geranda. Þeir sem geta bent á geranda eru pottþétt að ljúga. Þetta er svolítið eins og nornaprófin í gamla daga. Ef konu er hent í djúpan vatnshyl og hún sekkur og drukknar þá er hún ekki norn. Ef hún flýtur þá er hún norn. Svo ef þolandi varð fyrir ofbeldi af ósýnilegu tómarúmi þá er hann að segja satt. Ef að þolandi varð fyrir ofbeldi af hálfu gerenda þá er hann að ljúga til að næla sér í öll þau fríðindi sem fylgja því að ásaka einhvern um kynferðisbrot.

Já, og svo er annað kæru þolendur; ef þið fáið áfallastreituröskun þá er það bara óheppileg tímasetning hjá ykkur að vera móðursjúk útaf einhverju örugglega alveg óskyldu ofbeldinu. Þó þið þurfið að leggja krók á leið ykkar til að triggerast ekki af áfallaminningum. Þó að þið fáið flassbökk, panikköst, martraðir, ofurárvekni og þolið ekki að vera í þröngu rými eða fólksfjölda. Árum saman. Þá er það örugglega feik. Fullt af fólki finnst gaman að feika þessi einkenni og geta stjórnað púlshraða, svitaframleiðslu, og framkallað skjálfta um allan líkamann eftir hentisemi. Líklegast er þetta bara athyglissýki (verst að þetta með ótta við fólksfjölda takmarkar fjölda áhorfenda, svolítið slæmt upp á að fá næga athygli).

Þolendur! Ekki vera eigingjarnar dívur. Hugsið um gerendurna, þeirra lífsgæði eru mikilvæg. Sýnið þeim tillitssemi. Þeirra þörf fyrir athygli og frama verður að fá að blómstra. Gatið sem kemur í ykkar ferilskrá vegna afleiðinga ofbeldisins er smotterí. Tekjutapið af því að vera óvinnufær er smáatriði. Gerendur eru mikilvægir. Samfélagið þarf að njóta þeirra verka. Þeir eiga erindi við þjóðina.

Frá ritstjórn: Þessi grein birtist upphaflega á knuz.is í september 2013 og er endurbirt með leyfi höfundar.

24 athugasemdir við “„Því mega sár ekki gróa?“

  1. Fín grein. Ég hef hinsvegar eina spurningu?

    „Þið þolendur eruð líka hvort eð er með ónýtt mannorð því allir eru saklausir uns sekt er sönnuð og þangað til hafið þið stöðu lygara“.

    Ert þú fylgjandi því að þessu séu snúið við ergo: Allir eru sekir uns sakleysi þeirra er sannað?

      • Nei, ég er ekki að segja það. Ég spyr vegna þess að mikið af fólki í dag virðist vilja snúa þessu á hvolf: Sekur uns sakleysi er sannað, hinsvegar einungis í þeim málum þar sem okkur líkar ekki við hinn ákærða.

      • Hingað til hefur mér sýnst fáir geta gert greinarmun á almennri orðræðu og tungumáli laganna. Gerandi er að sjálfsögðu sekur um það.sem hann brýtur af sér, en fyrir dómsstólum ber að koma fram við hann líkt og hann væri saklaus til að tryggja réttláta málsmeðferð. Fólk grípur svo þennan frasa „saklaus uns sekt er sönnuð“ og notar í tilfellum líkum þessum; þar sem það veit ekki hið rétta og er samkvæmt sinni bestu getu að reyna að fella ekki sleggjudóma. Hinsvegar eru fæstir sem hugsa það langt að gera sér grein fyrir því hvað hann þýðir í raun og veru… og hvað þá merkinguna sem er ósögð og er óhjákvæmilegur fylgifiskur – Að í málum sem þessum sé um leið verið að benda á þolandann.

      • Í þessu máli? Á greinin þá ekki við um þessi mál almennt, eins og vísanir í fleiri og óskyld mál virðast benda til? Þær eru kannski bara skraut.

      • Þessi grein fjallar ekki eingöngu um eitt mál. Hún fjallar um þessi mál almennt en í orðræðunni í kring um mörg þau mál sem hafa verið áberandi í umræðunni undanfarið er fjöldi dæma um þau við viðhorf sem ég er að lýsa. Ég hafði þau í huga við skrif þessarar greinar.

        Ég er ekki fylgjandi því að dómstólar taki upp öfuga sönnunarbyrði í sakamálum. Ég er fylgjandi því að fólk hugsi sinn gang um hvaða skilaboð það sendir þolendum þegar það í almennri umræðu notar frasann “saklaus uns sekt er sönnuð” til að þagga niður í þolendum.

        Bestu kveðjur,

        Guðný Elísa

      • Vandamálið við „saklaus þar til sekt er sönnuð“ í nauðgunarmálum er það að ef við gerum alltaf ráð fyrir því að ásakaður sé saklaus þá erum við á sama tíma að samþykkja að ákærandinn sé sekur um mjög alvarlegt brot, þar til sakleysi sannast. Svo í rauninni á þessi frasi ekki við í slíkum málum…

    • Reglan er sú að menn eru ekki sekir fyrr en sekt er sönnuð. Flestir hafa samt snúið því upp í að fólk sé saklaust uns sekt sé sönnuð. Það er hins vegar himinn og haf á milli þess að vera ekki sekur um eitthvað og vera saklaus af einhverju. Held að höfundur yrði sáttur við regluna eins og hún er upphaflega hugsuð.

  2. Sæll Sveinbjörn. Saklaus uns sekt er sönnuð á sannarlega við í réttarríki og ætti alls ekki að hverfa fá þeirri reglu. Það er hins vegar fáránlegt að nota slíkt sem slagorð, sérstaklega í málum eins og kynferðisofbeldi þar sem fæst mál sem kærð eru komast fyrir dómstóla. Venjulega eru málin felld niður vegna þess að líkur á sakfellingu eru taldar litlar vegna ónógra sönnunargagna, en það er ekki þar með sagt að glæpurinn hafi átt sér stað.
    Að sama skapi virka þessi réttarregla síður gagnvart brotaþola, um leið og þú segir að hinn ákærði sé saklaus uns sekt er sönnuð, hlýtur kærandi að vera sekur um rangar sakagiftir. Ef hann er líka saklaus um rangar sakagiftir þá er málið afar undarlegt.
    Svo má velta því fyrir sér hvort að það sé okkar að dæma. Höfum við einhverjar forsendur til þess, þar sem við vorum ekki á staðnum. Líklega ekki, en ég hef forsendur til að draga dóm af mínu máli og fjölda annarra kvenna sem hafa kært og málinu vísað frá vegna ónógra sannana. Við höfum upplifað að gerandinn veifaði niðurfellingunni sem sönnun um sakleysi sitt. Við höfum enga lögsögu í okkar máli og getum ekki kært ákvörðun ríkssaksóknar. Við umbreytumst úr því að vera brotaþola í að verða jafnvel sakborningur þegar þeir kæra til bara fyrir rangar sakagiftir og það gerist stundum. Og ef að nafn er komið á gerandann þá flykkjast sjálfskipaðir talsmenn meintra gerenda fram á vígvöllinn og minna okkur á að gerendur eiga mannréttindi. Það er satt, hver einasti maður á sinn rétt, hvort sem hann er gerandi eða ekki. En svo virðist vera að þolendur eigi engan rétt, þegar brotið er á kynfrelsi þeirra, rétti þeirra til að hljóta áheyrn dómstóla og réttindi þeirra að samfélagið verji þá fyrir gerendum, sem yfirleitt komast upp með verknað sinn og halda óáreittir áfram að beita ofbeldi.

  3. Já, brotin er vel þekkt og viðurkennd. Og það er líka búið að kæra og rannsaka í tvígang og niðurstaðan er Helga?

    Eru sumir þeirra, sem hafa verið kærðir og rannsakaðir, og þeir annað hvort sýknaðir eða máli þeirra vísað frá samt sekir og aðrir ekki.

    Stundum er málum vísað frá vegna skorts á sönnunargögnum en Í þessu máli var allt upp á borðum, allt viðurkennt. En samt er málinum vísað frá – en sumum finnst hann samt sekur.

    Skil hvorki upp né niður í þessu máli

  4. Þið tvær Telpur > Hildur Lillendahl og Vinkona. Nenniði plís bara að halda kjafti með þetta dót ykkar, maður þarf að vera hugrakkur drengur/karlmaður til að stíga fram með misnotkun/nauðgun en það er svo rosalega mikil skömm og þunglyndi og bara stanslausar hugsanir um atburðinn sem fylgir. Svona mál minnir fólk alltaf aftur og aftur á hlutinn sem það er að reyna að gleima. Hvernig væri að þið mynduð aðeins slappa af í svona málum svo fólk sem er að reyna að gleima sé ekki stanslaust að að rifja upp aftur og aftur og fái nú aðeins að gleima „Martröðinni“

    • Sæll Gunnar.
      Ég geri ráð fyrir að þú skrifir hér sem þolandi eða þekki einhvern sem er þolandi. Þá langar mig að byrja á því að samhryggjast þér með þá reynslu og segja þér að það eru fjölmargir karlar og konur sem geta stutt þig í gegnum þeir afleiðingar sem fylgja kynferðisofbeldi.
      Afleiðingar þess eru ekki kynbundnar, þó að vissulega séu fleiri þolendur kvenkyns. Karlar eiga oft mjög erfitt með að koma fram einmitt vegna þeirrar ímyndar sem karlmennska hefur; að karlar séu alltaf til í kynlíf, hvar sem er og með hverjum sem er. Það er einmitt sú karlmennska sem femínistar hafa gagnrýnt og segja að skaði ekki síst karla og í tilfelli kynferðisofbeldis kemur þessi mýta um karlmennsku hvað sterkust fram og er einmitt skaðlegust.
      Þú getur leitað til Stígamóta eða Drekaslóðar í viðtöl, þar er fagfólk sem vinnur með brotaþolum og hefur áralanga reynslu af þessum málum. Sumir eru sjálfir þolendur og mörgum finnst betra að tala við fólk sem hefur reynslu af kynferðisofbeldi á eigin skinni.
      Brotaþolar reyna oft lengi að gleyma því sem átti sér stað, það gengur hins vegar ekki og getur haft gríðarlega afleiðingar í för með sér. Við deyfum tilfinningar og minningar okkar í þögn sem brýst oft út sem kvíði og þunglyndi. Við missum oft stjórn á okkur tilfinningalega, sveiflumst upp og niður í líðan og upplifum algjört stjórnleysi. Við reynum síðan að ná stjórn með einhverjum leiðum sem yfirleitt skaða okkur meira en hjálpa okkur.
      Ég vona Gunnar að þú gefir þér það tækifæri að leita til fagaðila og biðja um aðstoð. Skila skömminni sem við þjáumst oft af og leyfir þér að öðlast það frelsi að ganga um í reisn og fullvissu um það, að þú berir enga ábyrgð á því sem þú varst fyrir.
      Þess vegna er svo mikilvægt að brotaþolar kynferðisofbeldis og fólk sem berst gegn því láti í sér heyra, haldi umræðunni gangandi. Því að í þögninni þrífast gerendurnir og í þögninni verður samfélagið samdauna menningu sem umber kynferðisofbeldi og gerendur þess.
      Kærleikskveðjur til þín.

  5. Mér finnst þetta góð grein og kaldhæðni tónninn ætti að fá fólk til að hugsa um stöðu þolenda og þær afleiðingar sem margir þolendur þurfa að berjast við áratugum saman.
    Löngu kominn tími til að vekja máls á stöðu þolenda og þeirri þöggun sem ríkt hefur fram að þessu. Gangi þér vel Guðný og okkur öllum sem viljum betri og réttlátari heim.

  6. Ritstjóri DV skrifar í dag: „Sjálfur hefur Jón Baldvin viðurkennt að framkoma hans hafi verið ósiðleg og beðist fyrirgefningar. Stúlkan vill ekki fyrirgefa.“

  7. Hugrún og Anna, takk kærlega fyrir greinargóð svör. Ein af ástæðunum fyrir því að ég velti því fyrir mér hvort fólk vildi snúa „saklaus uns sekt er sönnuð“ á haus er að ég hef orðið var við það trend á síðustu árum að fólk tjái sig afar fjálglega um dómsmál sem eru í gangi, hvort sem viðkomandi er sannfærð/ur um sekt eða sakleysi hins ákærða.

    Það finnst mér ekki mjög góður siður þar sem fólk hefur venjulega engar forsendur til að geta dæmt um það sjálft. En ég geri mér að sjálfsögðu grein fyrir að greinin er fyrst og fremst hugvekja um rétt fórnarlambsins og það sé ekki dæmt ómerkingur. Og er ekki vanþörf á.

    • Sammála þér í þessu; það er mjög vandmeðfarið að ætla sér að reka svona lagað í fjölmiðlum og auðvelt að misstíga sig í því eins og öðrum málum sem er erfitt að ræða.

      Í þessu sambandi má annars hafa í huga að það er í raun ekki heldur hlutverk dómstóla að komast að einhverjum einum sannleika í málum heldur að meta hvort hafið sé yfir skynsamlegan vafa að ákveðnir hlutir falli undir ákveðnar lagagreinar. Umfram það er mjög grátt svæði þar sem margt getur samt sem áður verið siðferðilega ámælisvert og eftir stendur sársauki sem ekki fékkst bættur fyrir rétti (þó fébætur og viðurkenning á sekt séu auðvitað litlar bætur í raun og veru).

      Ég held að skynsamlegasti millivegurinn sé að allir málsaðilar fái að njóta efans ef manni finnst ekki liggja ljóst fyrir hver hinn eini rétti sannleikur er. Ef fólk er að væna kærendur um lygar og hefnigirni er alveg örugglega að minnsta kosti mjög svipað líklegt að þar sé verið að særa með því að væna einhvern um eitthvað sem viðkomandi ekki gerði og þegar hinir ákærðu eru vændir um sekt. Þarna þarf fólk bara að kyngja stoltinu og segja oftar ‘Ég bara veit það ekki, hef ekki forsendur til að dæma.’ – regla sem ætti að gilda í allri umræðu ef út í það er farið.

  8. „Þið þolendur eruð líka hvort eð er með ónýtt mannorð því allir eru saklausir uns sekt er sönnuð og þangað til hafið þið stöðu lygara. Að auki eruð þið talin stjórnast af annarlegum hvötum og hefnigirni. Líklega af því gerandinn vildi ykkur ekki eða af því ykkur fannst svo óþolandi að hann væri ríkari en þið.“

    Undanfarin ár hefur þetta akkurat verið preachað af feministum, bara á hinn veginn.

    Mér finnst báðar leiðir viðbjóður.

    Dómstólar verða að sjá um þessi mál, ekki þolendur kynferðisofbeldis og aðrir feministar, með einelti og aðkasti.

    Mér finnst þetta akkurat mjög góð lýsing hjá Önnu.

    „Brotaþolar reyna oft lengi að gleyma því sem átti sér stað, það gengur hins vegar ekki og getur haft gríðarlega afleiðingar í för með sér. Við deyfum tilfinningar og minningar okkar í þögn sem brýst oft út sem kvíði og þunglyndi. Við missum oft stjórn á okkur tilfinningalega, sveiflumst upp og niður í líðan og upplifum algjört stjórnleysi. Við reynum síðan að ná stjórn með einhverjum leiðum sem yfirleitt skaða okkur meira en hjálpa okkur.“

    Dettur engum ykkar í hug að í framhaldi þá eruð þið kannski ekki beint að taka á kærum út í bæ með réttu hugarfari ?!

    Mér finnst gillz og jón baldvin viðbjóður, en ég forðast að tala um það opinberlega þó ég telji mig verða að gera það hér til að fá einhverja áheyrn……og ég mótmæli meðferðinni sem þeir hafa fengið í fjölmiðlum og bloggheimum, sem hefur verið viðbjóður einnig.

  9. Palli Valli, Þú gerir ráð fyrir að dómstólar séu óskeikulir og virki verndandi fyrir brotaþola kynferðisofbeldis, þeir eru það sjaldnast þannig. Fæst mál ná áheyrn dómstóla, flest falla niður.
    Varðandi einelti gagnvart Gillz og JB þá ertu líklega að tala um þau mótmæli sem fólk hefur haft í frammi að þessir menn gegni störfum eins og leiðbeinendur og kennarar. Hér á landi ríkir skoðanafrelsi og ég get ekki séð að þessir menn sé fórnarlömb, þvert á móti virðast afar margir taka upp hanskann fyrir þá og svo eru þeir vel burðugir sjálfir til þess.

    Þegar þú vitnar í orð mín um afleiðingar kynferðisofbeldis þá dregur þú þau úr samhengi. Leiðin sem brotaþolar fara oft er að ýta minningum niður, deyfa sig með öðrum leiðum og afleiðingarnar eru oft þær að þeir eru þunglyndir, kvíðinir, félagsfælnir og í mikilli vanlíðan. Þeir eru hin raunverulegu fórnarlömb, sem geta ekki einu sinni tjáð hvað gerðist fyrir þá.
    Að dæma þolendur kynferðisofbeldis og femínista úr leik sem baráttufólk gegn ofbeldi af því þeir voga sér að mótmæla því er undarlegt hugarfar og varla það rétta. Varnir sem samfélagið tekur upp eru oft undarlegar PalliValli og stundum skiljum við þær ekki. Það segir oft meira um okkur en það sem við erum að gagnrýna.
    Góðar stundir.

  10. Fín grein og margt gott í henni. Hnýt þó um eitt og það er það að í henni er gert ráð fyrir að konur séu þolendur og karlar gerendur. Það er lang algengast að karlar séu gerendur þó hitt sé til líka og því miður eru margir karlar/drengir þolendur líka. Ég er á móti því að kynjaflokka kynferðisofbeldi, það er alltaf jaft ömurlegt sama á hverjum er brotið. Það að flokka eftir kyni gefur í skyn að það sé að einhverju leiti“minna“ brot ef karl verður fyrir því. Kynferðisbrot eru að mínu viti þau verstu sem hægt er að fremja. Það er brotið á svo mörgu í einu.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.