Efni: Frásagnir kvenna af kynferðisofbeldi
Undanfarna daga hefur átt sér stað bylting á samfélagsmiðlum þar sem mikill fjöldi kvenna hefur stigið fram og sagt frá kynferðisofbeldi sem þær hafa orðið fyrir og skilað skömminni heim.
Í nær öllum tilvikum eru karlmenn gerendur. Það liggur fyrir að þolendur munu þurfa stuðning til að vinna úr áfallinu og að sama skapi er ljóst að kynbundið ofbeldi er gríðarlegt samfélagslegt mein sem full ástæða er að vinna bug á. Því viljum við, félagar í Knúz, leggja eftirfarandi spurningar fyrir ráðherra í ríkisstjórn Íslands nú, í júní 2015:
- Hyggst ríkisstjórnin grípa til sérstakra aðgerða vegna frásagna kvenna af kynferðisofbeldi?
- Munu stofnanir, grasrótarsamtök eða önnur sjálfboðaliðasamtök fá aukafjárveitingar til að aðstoða konur til að vinna úr afleiðingum kynferðisofbeldis?
- Munu ráðuneytin beita sér fyrir því að rannsakað verði hvað veldur því að í okkar samfélagi og menningu verði svo mikill fjöldi kvenna fyrir nauðgun eða annarri misnotkun eða áreiti af hálfu karla?
- Mun velferðarráðherra tryggja að heilsugæslustöðvar og aðrar heilbrigðisstofnanir taki tillit til kvenna sem glíma við afleiðingar kynferðisofbeldis og bjóði upp á úrræði fyrir þær?
- Mun menntamálaráðherra beita sér fyrir því að kynjafræði verði sjálfstæð skyldugrein á öllum skólastigum?
- Mun menntamálaráðherra beita sér fyrir sérstökum forvörnum gegn kynferðisofbeldi, með áherslu á áhrif klámvæðingar?
- Hefur verið gerð rannsókn á þjóðhagslegum áhrifum kynferðisofbeldis? Ef ekki, stefnir fjármálaráðherra á að láta gera slíka rannsókn?
- Eru einhverjar aðgerðir fyrirhugaðar af hálfu innanríkisráðherra um réttarbætur í þágu þolenda kynferðisofbeldis?
- Mun innanríkisráðherra beita sér fyrir eflingu kynferðisafbrotadeildar lögreglunnar?
- Mun innanríkisráðherra beita sér fyrir fjölgun kvenkyns dómara og fræðslu fyrir dómara um eðli og meðferð kynferðisbrotamála?
- Mun forsætisráðherra, sem höfuð ríkisstjórnarinnar, veita ráðherrum sínum hvatningu og stuðning til að hrinda ofantöldum verkefnum í framkvæmd?
Við vonum að ríkisstjórnin takist af myndugleik á við það verkefni sem hugrakkar konur hafa fengið henni á hendur. Ríkisstjórnin verður að axla ábyrgð á vanda sem er samfélagslegur og verður ekki leystur af einstaklingum eða frjálsum félagasamtökum einum. Það er ljóst að mikið verk er óunnið og réttast væri að hrinda af stað sérstöku átaki í nafni þjóðaröryggis, þar sem aðgerðir til að sporna gegn kynferðisofbeldi og aðstoða þá sem þegar hafa orðið fyrir því verða kynntar.
Oft var þörf en nú er nauðsyn.
Virðingarfyllst,
Knúz
Frá ritstjórn: Þetta bréf var einnig sent öllum ráðherrum og ráðuneytum sem málið varðar.
Bakvísun: Svar velferðarráðuneytis við opnu bréfi frá Knúzinu | Knúz - femínískt vefrit