Allt að gerast í Buenos Aires!

Höfundur: Katrín Harðardóttir

Hugmyndir um kvenfrelsi og almenn mannréttindi hafa fengið byr undir báða vængi þessa dagana og ekki bara hér á okkar vindasömu og votu eyju. Hinumegin á hnettinum, í Buenos Aires, voru í síðustu viku samankomin úti á götu að minnsta kosti 200.000 konur og karlar undir merkinu #EKKI EINNI FÆRRI (#NIUNAMENOS)[1]. Atburðurinn breiddi úr sér og þann 3. júní kom fólk saman í 80 borgum landsins og í höfuðborgum Chile og Uruguay að auki. Þau höfðu fengið nóg af ofbeldi gegn konum og nóg af öllum morðunum sem hafa birst á síðum dagblaðanna undanfarið.

Það var hópur kvenna úr argentíska listheiminum sem kvöddu vopnin, að eigin sögn vegna þess að þær fengu nóg af því að lesa endalausar fréttir um kvennamorð. „Þetta er eins og með eggið og hænuna, við getum ekki sagt með vissu hvort þau séu að aukast eða hvort við séum loks að tala um þau. Þó er víst að ekki eru til haldbærar tölur um þolendur og ekki er verið að gera neitt til þess að koma í veg fyrir kvennamorðin“ sagði útgefandinn og söngkonan Gaby Comte á dögunum.

005-Ni-Una-Menos_VALADO_DSC0512a-1024x683

Á útifundinum kom fram að árið 2008 var á hverjum 40 klukkustundum kona myrt í landinu, árið 2014 var kona myrt á 30 klukkustunda fresti. Fjölmiðlar birtu fréttir um 1808 kvennamorð á þessum sjö árum. Ekki er vitað um nákvæmar tölur það sem af er þessu ári þó vitað sé að um 1500 börn eru móðurlaus og að sum þeirra þurfa að búa með morðingjum mæðra sinna.

Í ræðunum sem haldnar voru var lögð áhersla á mikilvægi menningarinnar sem ofbeldi gegn konum sprettur úr og hlutgerving kvenna fordæmd.

Kvennamorð eru öfgafyllsta birtingarmynd þessa ofbeldis og þau fyrirfinnast í öllum stéttum, trúarbrögðum og hugmyndafræðum, en orðið ´kvennamorð´er auk þess pólitískt. Orðið felur í sér gagnrýni á það hvernig samfélag staðlar það sem er óvenjulegt, þ.e. karlrembuofbeldið. Og karlrembuofbeldi er eitt af umfjöllunarefnum Mannréttindanna. Kvennamorð eru því ekki einkamál, þau eru samfélags- og menningarleg afleiðing sem opinber orðræða réttlætir.

Krafist var þess að kvennamorðin væru ekki meðhöndluð sem eitthvert öryggisvandamál heldur að allsherjarbaráttu úr öllum áttum yrði komið á, frá öllum valdablokkum ríkisins og bæja með öllum þeim úrræðum sem til staðar eru, og einnig frá hinu borgaralega samfélagi.

Meðal þeirra aðgerða sem krafist var er að lögum um alhliða vernd kvenna (Ley 26.485 de Protección Integral a las Mujeres) verði framfylgt, en þau voru staðfest árið 2009. Lögin eru mikilvægt skref í þessari baráttu en enn á eftir að innleiða (reglamentar) nokkra mikilvæga liði þeirra, eins og til dæmis Aðgerðaáætlun ríkisins um forvarnir, aðstoð og upprætingu ofbeldis gegn konum (Plan Nacional de Acción para la Prevención, Asistencia y Erradicación de la Violencia contra las Mujeres).

„Hún er ekki þín, hún er ekki hóra, hú er kona.“

„Hún er ekki þín,
hún er ekki hóra,
hún er kona.“

Dómsvaldið á sem fyrr, og allsstaðar, mikla sök á lélegum árangri þegar svara skal fyrir þolendurna. Í mörgum umdæmum eru það þolendurnir sjálfir sem þurfa að kæra til lögreglu og þarf síðar að staðfesta kæruna. Þetta tvöfalda kerfi er til marks um það litla traust sem réttarkerfið ber til kvenna og stuðlar að refsileysi geranda, um leið og dómsvaldið bætir gráu ofan á svart með stofnanatengdu ofbeldi.

Því er ekki erfitt að skilja kröfur aðstandenda útifundarins sem lúta að áðurnefndum lögum. Þess er einnig krafist að Aðgerðaáætluninni verði úthlutað viðeigandi fjármang við gerð fjárlaga, að tölfræðinni sé haldið til haga og hún birt opinberlega, að Hæstiréttur opni skrifstofur í öllum héruðum með það fyrir augum að takast á við heimilisofbeldi og að á öllum námstigum og námsleiðum sé kennd kynjafræði. Eftirfylgni mála er einnig ábótavant og til þess að vernda þolendur og tryggja aðgang þeirra að réttarkerfinu var krafist þess að komið verði á lögfræðilegum stuðningi í réttarferlinu og að stofnuð væru kvennaathvörf, ásamt fjárhagslegri aðstoð fyrir þolendur.

Kannski mætti líkja ástandinu í Argentínu við það sem var á Íslandi áður en Kvennathvarfið var stofnað og heimilisofbeldi var tabú sem ekki mátti tala um, þó allur samanburður sé erfiður á milli okkar fámenna eyríkis og meira en 40 milljóna manna lands. Menningin sem ofbeldið sprettur úr er líka harla ólík, þó mörgum gæti þótt eini munurinn vera sá að með hækkandi blóðhita liðkist um tungu og liði. En það er þó ískyggilega margt líkt með upplifunum íslenskra stelpna og þeirra sem búa í stórborginni við Silfurána, eins og hennar Adri Romo sem póstaði eftirfarandi færslu á síðunni sinni á Facebook:

Ég fer út úr húsi, verkamaður sem vinnur að húsi nágrannans segir „halló elskan mín“. Ég kíki á Twitter, Angeles R. hvarf á leið á lestarstöðina, karlmaður nálgast og segir að með svona rass sé ég velkomin heim til hans að kúka, löggan horfir á, ég segi við manninn að hann kunni sig ekki og fæ til baka að ég sé „klikk“. Mig langar að gráta. Ég fer upp í lestina. Ég opna dagblaðið á netinu, Lola L. C. hvarf. Karlar nýta sér þrengsli lestarinnar með því að halla sér upp að einhverju og það er ekki beint veggurinn eða handriðið. Ég horfi á fyllibyttuna horfa á brjóst á konu í stað þess að horfa í dökk augu hennar, mig langar til þess að æla. Ég geng á lestarstöðinni, löggurnar skrá fleiri líkama heldur en glæpamenn. Ég opna facebook, líkið af Melinu R. fannst á götu niðrí bæ, mér er boðinm matur í skiptum fyrir kynlíf…. Ég kem heim, sofna. Örvænting vegna mögulegs mannráns vekur mig. Fjölskylda mín kemst í uppnám og óttast að missa mig áður en varir. En ég er hérna, á meðan kærastinn kveikti í Wöndu T…. Ég fer út um kvöldið, og það féll ekki í minn hlut að fara upp í hjá leigubílstjóranum sem nauðgar og flýr í burtu, ég fagna þessari vesælu lukku. Ég geng í hlýrabol og pilsi sem nær ekki niðrað hnjám, það mætti halda að ég væri með skilti þar sem ég bæði um heimskuleg klámyrði, til að vera smættuð, aðeins fyrir að bera leggina. Mig langar að öskra. Það er káfað meira á konu en á kreditkorti á bar, í strætó eða í lestinni á háannatíma… ég kíki á twitter aftur, Daiana G. hvarf þegar hún var að leita að vinnu… ég vakna aftur, geng, segi í hljóði að pabbi minn er ekki bakari, að ég missti ekki neitt og að mig langi hvorki til þess að finna andardrátt þinn né hönd og ekki heldur að hlusta á þig. Í lestinni skoða ég aftur fréttirnar, Chiara fannst grafin, ég refresha síðuna, arkitektakennari við háskólann hvarf, ég refresha aftur, morðingi slapp…

Ég fer líka út og nota líka leigubíl. Ég klæði mig líka djarft. Ég leitaði líka að vinnu klukkan fjögur síðdegis. Ég átti líka kærasta. Ég fór líka í frí án fjölskyldunnar. Ég er líka hrædd. Hvorki stutta pilsið mitt, né brosið mitt, né tími dags, né hversu óbærilegt það getur verið að vera, það gefur engum rétt, né vald, ekki eitt einasta boð, til þess að þurfa að þola þetta daglega í þessu samfélagi. Ég er ekki að leita eftir hrósi og hvað þá klámyrðum, ég leita ekki eftir snertingu og þess síður að þeir vilji nauðga mér, ég leita ekki, ég vil ekki, ég býð ekki, neinum neitt. Viljið þið þá gjöra svo vel, ekki gera það… og þá hugsa ég, við þurfum hjálp.

Arkítektakennarinn birtist lifandi og við fögnum, fögnum því að ekkert kom fyrir. Við fögnum lífinu af ótta en ekki lífinu til þess að lifa því.

Ég er 21 árs, ég bý í Buenos Aires. Tölum um það.

Á skiltinu stendur: Mér er alveg sama hverju Melina klæddist.

„Mér er alveg sama hverju Melina klæddist.“

Góðir hlutir gerast kannski hægt, en það þarf líka að ýta vel við þeim svo þeir fari í gang og svo virðist sem hlutirnir séu virkilega að gerast á syðsta oddi Ameríku.

[1] Nafnið er vísun í ljóð um kvennamorðin í Juárez eftir Susönu Chávez Castillo. Hún var myrt árið 2011 vegna baráttu sinnar fyrir kvenréttindum.

 

 

 

 

Heimildir á:

http://verne.elpais.com/verne/2015/05/28/articulo/1432824490_226268.html

http://es.wikipedia.org/wiki/Ni_una_menos

http://anccom.sociales.uba.ar/2015/06/04/todas-y-todos-juntos-y-juntas/#.VXi-3JSsVP9

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.