Versta hugtak í heimi

Höfundur: Sóley Tómasdóttir

Something Borrowed, Tina Lazzarine, 2013

Something Borrowed, Tina Lazzarine, 2013

Fórnarlambsvæðing er mögulega versta hugtak í heimi. Það hefur talsvert verið notað gegnum tíðina og notkun þess hefur jafnvel verið að aukast. Hugtakið lýsir fullkomnu skilningsleysi á aðstæðum og aðgerðum kvenna og jafnréttisbaráttunni í heild sinni.

Fórnarlambsvæðing er algengt viðkvæði þegar konur tala upphátt um misrétti sem þær eða kynsystur þeirra verða fyrir, sama á hvaða sviði það er. Konur eru vinsamlegast (eða jafnvel ekkert sérstaklega vinsamlega) beðnar um að vera ekki svona kvartandi og kveinandi. Það geri lítið úr konum.

Þessi viðbrögð hafa jafnvel aukist upp á síðkastið í kjölfar Beauty tips-byltingarinnar. Til viðbótar við hefðbundnar efasemdir og vantraust, sem konur mæta þegar þær segja frá reynslu sinni, virðist sem samfélagið geti ekki horfst í augu við umfang ofbeldisins. Því koma fram vangaveltur um hvort hér sé nú ekki verið að ýkja eitthvað, það geti nú ekki verið að allar þessar konur hafi orðið fyrir raunverulegu ofbeldi, konur verði nú að geta hrist af sér óþægilegar uppákomur án þess að kalla það ofbeldi í stað þess að vera í þessu ömurlega fórnarlambshlutverki. Í framhaldinu hefjast svo umræður um það hvort ekki sé verið að gera raunverulegum þolendum grikk með því að skilgreina hvað sem er sem ofbeldi og hvort það þurfi nú ekki að draga einhver mörk svo hægt sé að fást við alvarlegu málin.

Þetta er galið. Fyrir það fyrsta getur enginn sagt annarri manneskju hvort hún hafi orðið fyrir ofbeldi eða ekki, mörk og upplifun fólks eru og verða persónuleg og því fær enginn breytt. Aðalmálið er þó það að þolendur ofbeldis upplifa sig alls ekki sem fórnarlömb þegar þeir loksins segja frá. Þvert á móti. Markmið frásagnarinnar er einmitt valdefling, að losa sig við skömmina, ábyrgðina og fórnarlambshlutverkið.

Sömu sögu er að segja um konur sem tala upphátt og opinskátt um þöggun, um kynbundinn launamun, um áreitni eða annað misrétti sem þær verða fyrir eða verða varar við. Þessar konur eru ekki að biðja um vorkunn, þær eru ekki að biðja um aðstoð, þær eru ekki að biðja um hjálp. Þær eru að skilgreina og þær eru að breyta. Þær neita að láta kynbundinn launamun viðgangast í samfélaginu, þær vilja jafna aðgengi kynjanna að völdum og fjármunum, þær vilja frið, öryggi og jafnrétti.

Að kalla það fórnarlambsvæðingu þegar konur taka sér vald, rými í umræðunni og breyta samfélaginu eru örvæntingarfull varnarviðbrögð feðraveldisins gagnvart því sem raunverulega er að gerast. Konur eru að taka sér pláss, breyta og bæta – þær eru ekki fórnarlömb, þær eru gerendur!

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.