Feminísk aðgerð eða úlfur í sauðagæru? Bann við fóstureyðingum á grundvelli kyns fósturs

Höfundur: Steinunn Rögnvaldsdóttir

 

val á kyni

Í Bretlandi og Ástralíu hefur nú í nokkur ár átt sér stað umræða um fóstureyðingar á grundvelli kyns fósturs. Mannfjöldatölfræði bendir sterklega til að slíkar fóstureyðingar eigi sér stað í löndum á borð við Kína og Indland, þar sem umtalsvert fleiri drengir fæðast heldur en stúlkur. Þessi skekkja getur haft ýmis vandamál í för með sér (til dæmis viðvarandi kynjamisrétti), en hún er fyrst og fremst talin vera tilkomin vegna samfélagslegra þátta. Sömu samfélagslegu þættir halda konum niðri, stuðla að misrétti, gera konum erfitt fyrir að nýta gáfur sínar og gjafir í þágu sín og samfélagsins, viðhalda valdamisræmi, ofbeldi og kúgun.

Þingkona Íhaldsmanna á breska þinginu, Fiona Bruce, lagði fyrir nokkrum mánuðum fram tillögu fyrir þingið um að gera fóstureyðingar á grundvelli kyns fósturs refsiverðar. Skoða má þessa tillögu frá (að minnsta kosti) tveimur femínískum sjónarhornum. Annars vegar sé mikilvægt að koma í veg fyrir að kvenfóstrum sé eytt vegna kyns þeirra, það sé í raun glæpur gagnvart konum. Hins vegar eigi konur að hafa völd yfir eigin líkama og rétt til að fara í fóstureyðingu, hverjar sem þeirra forsendur eru.

Fiona Bruce, þingmaður breska íhaldsflokksins, í umræðum í þinginu. Myndin er sótt hingað.

Fiona Bruce, þingmaður breska íhaldsflokksins, í umræðum í þinginu. Myndin er sótt hingað.

Bæði þessi sjónarmið hafa komið fram í breskri umræðu sem hefur verið hörð. Þau sem vilja gera fóstureyðingar á grundvelli kyns fósturs refsiverðar saka femínista um að vera í mótsögn við eigin hugmyndafræði með því að styðja ekki tillöguna. Umræddir femínistar hafa svarað með því að segja að hér sé verið að slá ryki í augu fólks til að takmarka aðgengi kvenna að fóstureyðingum undir því yfirskyni að það sé í nafni kvenréttinda. Flutningsmaður tillögunnar sé ekki bara á móti fóstureyðingum á grundvelli kyns heldur öllum fóstureyðingum (já og öðrum réttindum undirskiptaðra hópa s.s. hjónabandi samkynhneigðra), hún sé með öðrum orðum úlfur í sauðagæru. Þá sé orðalag tillögunnar talið vafasamt þar sem rætt sé um „ófætt barn“ en ekki fóstur, og þannig farið með hálfan fótinn inn um gættina að staðnum þar sem að frjóvgað egg er á pari við lífvænlegt ófætt barn, og það sé hluti af tilraun til að grafa undan rétti kvenna til fóstureyðinga.

Þetta próf er ólöglegt en þó fáanlegt í Indlandi. Myndin er sótt hingað.

Þetta próf er ólöglegt en þó fáanlegt í Indlandi. Myndin er sótt hingað.

Bent hefur verið á að fátt sé vitað um það „vandamál“ sem fóstureyðingar á grundvelli kyns eru í Bretlandi, eða hvort það sé vandamál yfir höfuð – tölfræði og upplýsingar frá aðilum sem framkvæma fóstureyðingar benda raunar ekki til þess. Þá hefur verið vísað til þess að bann við fóstureyðingum á grundvelli kyns fósturs hafi til dæmis ekki haft nein áhrif á kynjahlutfall nýfæddra barna í Indlandi, en þar var banni komið á árið 1994. Það sem talið er að hafi brugðist þar er að samfélagsleg umgjörð (t.d. erfðalög) og viðhorf breyttust ekki þó að bannið tæki gildi. Vandamálið er auðvitað ekki „bara“ að fólk vilji frekar syni en dætur, konur eru beinlínis beittar ofbeldi fyrir að ala dætur en ekki syni og hefðir um heimamund dætra t.d. á Indlandi gera það að verkum að það er beinlínis efnahagsleg ógn fyrir foreldra sem hafa lítið milli handanna að eignast dætur.

Komið hefur fram að umræddar lagabreytingar geti skapað vandamál þegar að um er að ræða fóstureyðingar vegna alvarlega erfðasjúkdóma sem erfast eftir kyni. Þá hefur verið bent á að lagasetning geti haft þær afleiðingar að læknar væru tregari til að framkvæma fóstureyðingar af ótta við að vera ákærðir fyrir lögbrot, og að konur sem tilheyra etnískum minnihlutahópum muni upplifa tortryggni í sinn garð þegar þær óska eftir fóstureyðingu. Framkvæmd tillögunnar myndi raunar líklega hafa í för með sér „kynþáttaflokkun“ (ethnic profiling). Þá hefur verið bent á að samkvæmt leiðbeiningum breska heilbrigðisráðuneytisins um túlkun laga um fóstureyðingar, sé nú þegar ólögmætt að framkvæma fóstureyðingu einvörðungu á grundvelli kyns.

Baráttusamtök fyrir réttindum íranskra og kúrdískra kvenna í Bretlandi ályktuðu á móti tillögu Fionu Bruce, sem kosið var um í febrúar á þessu ári (hún var felld með 292 atkvæðum á móti 201 ). Samtökin bentu á það sem vitað væri um fóstureyðingar á grundvelli kyns fósturs í Bretlandi, væri að þær ættu sér stað í flestum tilfellum meðal etnískra minnihlutahópa (Black and Minority Ethnic communities), oftast undir þrýstingi maka, fjölskyldumeðlima eða annarra innan nærsamfélags viðkomandi og ástæðan sé þrýstingur á að ala drengi. Verði umrædd tillaga að veruleika geti það leitt til þess að konur undir þrýstingi þori ekki að óska eftir fóstureyðingum sem eru löglegar og framkvæmdar undir öruggum aðstæðum. Þetta kæmi því í veg fyrir að konur sem beittar eru ofbeldi fái þann stuðning og það öryggi sem þær þarfnast og heilbrigðiskerfið og félagslega kerfið getur og á að veita þeim. Það getur leitt til þess að konur séu neyddar til að leita til aðila sem framkvæma ólöglegar fóstureyðingar. Upplýsingar um að kona hafi farið í ólöglega fóstureyðingu (undir þrýstingi og ógn um ofbeldi) sé einnig hægt að nota sem kúgunartæki gegn henni.

Að tryggja að konur séu ekki neyddar til að fara í fóstureyðingu, er lykilatriði. En í raun hefur alvöru vandamálið hér verið dulbúið og kona spyr sig hvers vegna ekki er lagt til atlögu við rót vandans? Vandamálið, ógnin við mannréttindi kvenna og kvenfrelsi, eru ekki fóstureyðingar á grundvelli kyns fósturs. Það er ömurleg afleiðing alvöru vandamálsins, sem er kynbundið ofbeldi.

„Góðar ástæður“ eða „slæmar ástæður“?

Þar sem takmarkanir eru á rétti kvenna til fóstureyðinga, eru fleiri ólöglegar fóstureyðingar sem ógna lífi og heilsu kvenna framkvæmdar. Með refsivæðingu er verið að loka öruggum leiðum fyrir konum og vísa þeim á hættuslóð ólöglegra og óöruggra fóstureyðinga. Gerist það þá er öruggt að margar þeirra munu gjalda fyrir með lífi sínu eða heilsu, en samkvæmt WHO deyja 47.000 konur í heiminum vegna fylgikvilla óöruggra (og oftast ólöglegra) fóstureyðinga á hverju ári (m.v. árið 2008).

Auðvitað viljum við ekki búa í heimi þar sem að konur eru svo lítils virði að kvenkyns fóstrum er eytt kerfisbundið. En við gerum það því miður. Það breytir því ekki að það að takmarka rétt kvenna til öruggra fóstureyðinga á þeirra eigin forsendum, er engin leið til að vinna að kvenréttindum heldur sendir það skilaboðin að konum sé ekki treystandi fyrir ákvarðanatöku yfir eigin líkama, að konur eigi bara að fara í fóstureyðingu af „góðum ástæðum“ og að samfélagið (eða þau sem eru í forréttindastöðu innan þess) ætli að skilgreina þessar góðu ástæður fyrir þær.

Í þessu siðferðislega og feminískt flókna máli tekur undirrituð afstöðu með þeim femínistum sem hafna því að réttur kvenna til fóstureyðinga verði á nokkurn hátt skertur. Baráttunni fyrir þeim rétti er ekki lokið, það þarf stöðugt að verja hann þar sem þeim réttindum hefur verið náð og í mörgum löndum nálægt okkur njóta konur ekki þessara sjálfsögðu réttinda. Nægir að nefna Írland, Færeyjar og Pólland sem lönd þar sem fóstureyðingar eru einungis leyfilegar í undantekningartilvikum. Baráttan á ekki að vera gegn konum í viðkvæmri stöðu, sem búa við ógn um ofbeldi og kúgun, heldur verður baráttan að vera gegn samfélagi sem metur stúlkur minna virði en drengi. Sú barátta mun aldrei vinnast með því að taka frá konum rétt þeirra yfir eigin líkama.

Um þetta og margt annað fleira tengt fóstureyðingum má lesa um í væntanlegri bók höfundar og Silju Báru Ómarsdóttur.

Útgáfu bókarinnar og dreifingu er hægt að styrkja á Karolina Fund, með því að smella hér.

Ein athugasemd við “Feminísk aðgerð eða úlfur í sauðagæru? Bann við fóstureyðingum á grundvelli kyns fósturs

  1. Bakvísun: Frjálsar fóstureyðingar í augsýn? | Knúz - femínískt vefrit

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.