Svar velferðarráðuneytis við opnu bréfi frá Knúzinu

Í kjölfar Beauty tips-byltingarinnar og þeirrar gríðarlegu vakningar sem fylgdi í kjölfarið hvað varðar umfang og alvarleika kynferðisofbeldis í íslenskri menningu sendi Knúzið opið bréf til ríkisstjórnar Íslands þar sem lagðar voru fram nokkrar spurningar um aðgerðir, vilja og hugsanleg viðbrögð hvers ráðuneytis fyrir sig við því sem Beauty tips-átakið hafði dregið fram í dagsljósið. Ljóst var að um viðamikinn og margbrotinn vanda var að eiga, sem kallaði á viðbrögð.

Velferðarráðuneytið bauð í kjölfarið fulltrúum Knúzzins á fund með ráðherra og hefur í framhaldi af þeim fundi sent Knúzinu eftirfarandi bréf. Önnur ráðuneyti hafa ekki svarað opna bréfinu eða látið í ljós vilja til samræðu um efnið. Knúzið þakkar velferðarráðherra og starfsmönnum ráðuneytisins kærlega fyrir bæði fundarboðið og það svar sem lesa má hér að neðan.

velferðarráðuneytiTilvísun í mál: VEL15060111

Vísað er til netpósts frá ritstjórn Knuz.is sem barst velferðarráðuneytinu 10. júní sl. og fundar Knuz með félags- og húsnæðismálaráðherra 24. júní sl.

Markvisst hefur verið unnið að því á síðustu árum að bæta þjónustu við þolendur ofbeldis og mikið hefur áunnist en áfram verður unnið ötullega að því að  tryggja þolendum nauðsynlega aðstoð og vernd.

Félags- og húsnæðismálaráðherra, innanríkisráðherra og mennta- og menningarmálaráðherra hafa tekið höndum saman í baráttunni gegn ofbeldi í íslensku samfélagi og niðurbrjótandi áhrifum þess. Velferðarráðuneytið leiðir samstarfið og þann 10. júní sl. skipaði Eygló Harðardóttir stýrihóp sem tryggja á víðtækt samstarf á málefnasviðum þriggja ráðuneyta um aðgerðir gegn ofbeldi. Eins og fram kemur í skipunarbréfi stýrihópsins er honum með öðrum verkefnum falið að undirbúa aðgerðaáætlun til fjögurra ára gegn ofbeldi í íslensku samfélagi.http://www.velferdarraduneyti.is/frettir-vel/nr/35174

Í samstarfinu er rík áhersla lögð á að koma á virku samráði milli einstakra aðila er koma að málum tengdum ofbeldi í því skyni að tryggja samræmd viðbrögð og að mál fari í réttan farveg hverju sinni. Þannig geta ólíkar fagstéttir einnig miðlað þekkingu og upplýsingum og í samvinnu þróað árangursríkar aðferðir í baráttunni gegni ofbeldi. Í því skyni verður efnt til samráðs á landsvísu milli félagsþjónustu, barnaverndaryfirvalda, mennta- og heilbrigðiskerfis, lögreglu og ákæruvalds og frjálsra félagasamtaka til þess að efla aðgerðir gegn ofbeldi. Einnig verður komið á fót svæðisbundnu samráði sem meðal annars er ætlað að bæta verklag við fyrirbyggjandi aðgerðir og rannsóknir ofbeldismála.

Auka á forvarnir og fræðslu, annars vegar gagnvart almenningi og hins vegar gagnvart þeim sem í störfum sínum geta á einhvern hátt komið að málum sem tengjast ofbeldi. Þannig má jafnframt stuðla að opinni umræðu um ofbeldi og viðhorfsbreytingum í þjóðfélaginu. Þá er nauðsynleg forsenda þess að unnt sé að vinna að forvörnum og stefnumótun á þessu sviði að fyrir liggi rannsóknir á ofbeldi sem leiða til aukinnar þekkingar á eðli, umfangi og afleiðingum þess.

Eitt meginmarkmiða samstarfsins er að efla getu og hæfni velferðarþjónustunnar til þess að veita þolendum ofbeldis uppbyggilegan stuðning og vernd. Því hefur félags- og húsnæðismálaráðherra veitt 10.000.000 kr. til geðsviðs Landspítalans til að fjármagna nýja stöðu sálfræðings sem veita á þolendum ofbeldis aðstoð og meðferð, svo sem vegna áfallastreituröskunar og þunglyndis. Þá fékk Sjúkrahúsið á Akureyri sömu fjárhæð í sama tilgangi, en þjónustan á sjúkrahúsunum báðum stendur til boða fólki af öllu landinu. Þá hefur sálfræðiþjónustan Karlar til ábyrgðar fengið viðbótarfjárframlag á þessu ári.

Vert er að minnast á þau úrræði og þá aðstoð sem nú þegar standa þolendum ofbeldis til boða.  Ávallt er hægt að leita til lögreglunnar óháð því hve langt er liðið frá því ofbeldið átti sér stað. Leiðin áfram er heiti tveggja fræðslumynda um réttarvörslukerfið fyrir þolendur kynferðisofbeldis og aðstandendur þeirra. Myndirnar voru framleiddar af Vitundarvakningu sem er samstarfsverkefni mennta- og menningarmálaráðuneytis, innanríkisráðuneytis og velferðarráðuneytis. Í myndunum er ferli kynferðisbrotamála innan réttarvörslukerfisins lýst. Markmiðið er að veita aðgengilegar upplýsingar sem auðvelda þolendum og aðstandendum þeirra að sækja sér aðstoð. Leiðin áfram er táknmálstúlkuð og textuð á fjögur tungumál og er aðgengileg á vef velferðarráðuneytis http://www.velferdarraduneyti.is/vitundarvakning/fraedsluefni/nr/35014.

Félagsþjónusta sveitarfélaga veitir þolendum ofbeldis ráðgjöf, upplýsingagjöf og stuðning. Auk þess beitir félagsþjónustan fjölbreyttum öðrum stuðningsúrræðum. Þá veita heilbrigðisstofnanir og heilsugæslustöðvar aðstoð vegna ofbeldis. Bæklingurinn Áfallaviðbrögð við kynferðisofbeldi veitir þolendum kynferðisofbeldis og aðstandendum þeirra upplýsingar um algeng viðbrögð við ofbeldi og leiðir til að takast á við þau. Bæklingurinn er gefinn út af Embætti landlæknis og Neyðarmóttöku vegna kynferðislegs ofbeldis og er að finna á heilsugæslustöðvum um land allt og er auk þess aðgengilegur á vef Embættis landlæknis:http://www.landlaeknir.is/servlet/file/store93/item18917/Afallavidbrogd_vid_kyndferdisofbeldi_Baeklingurt.pdf

Neyðarmóttaka vegna kynferðisofbeldis er starfrækt á bráðamóttöku Landspítalans í Fossvogi. Markmið neyðarmóttökunnar er að tryggja velferð og stöðu þeirra sem þangað leita. Þjónustan er fyrst og fremst bráðaþjónusta fyrir þá sem nýlega hafa verið beittir kynferðisofbeldi og leita sér aðstoðar, hvort heldur er til ráðgjafar og stuðnings eða til þess að fá læknisskoðun og meðferð. Þjónustan er gjaldfrjáls og er veitt allan sólarhringinn. Þar er sálfræðiþjónusta í boði sem felst í andlegum stuðningi, aðstoð við úrvinnslu vegna áfallsins og meðferðarvinnu. Á vegum neyðarmóttöku starfar einnig teymi lögfræðinga sem veitir þolendum kynferðisofbeldis lögfræðiaðstoð og aðstoðar þá í samskiptum við lögreglu og dómara.

Á áfallamiðstöð Landspítala er þolendum ofbeldis sem leita læknisaðstoðar, meðferðar og stuðnings á bráðamóttöku spítalans veittur sálrænn stuðningur og ráðgjöf. Vísað er til áfallamiðstöðvar Landspítala og þeim sem það vilja er veittur frekari andlegur stuðningur og fyrsta úrvinnsla eftir áfallið. Þolanda er síðan vísað í frekari úrræði og meðferð innan eða utan sjúkrahússins, allt eftir eðli og alvarleika málsins.

Velferðarráðuneytið hefur einnig veitt fjárhagsstyrki til ýmissa frjálsra félagasamtaka sem veita þolendum ofbeldis aðstoð og stuðning.  Þar á meðal er Kvennaathvarfið, sem stendur öllum konum og börnum þeirra opið og hefur velferðarráðuneytið nýlega gert sérstakan samning við athvarfið um að veita þolendum og meintum þolendum mansals þjónustu sína. Ráðgjafar- og upplýsingarmiðstöðin Stígamót sem veitir þolendum kynferðisofbeldis margþætta aðstoð, en samtökin bjóða einnig upp á þjónustu á landsbyggðinni. Þá hafa samtökin lagt ríka áherslu á að veita fötluðum konum sérhæfða ráðgjöf og þá geta karlmenn leitað til karlkyns ráðgjafa. Systursamtök Stígamóta á Akureyri Aflið, veita þolendum kynferðis- og heimilisofbeldis og aðstandendum þeirra ráðgjöf. Boðið er upp á einstaklingsviðtöl og starfræktir eru sjálfshjálparhópar fyrir þolendur. Þá eru starfrækt systursamtök Stígamóta á Ísafirði, Sólstafir, sem hafa það  markmið að bæta aðgengi þolenda að stuðningi í sinni heimabyggð. Loks má benda á samtökin Drekaslóð í Reykjavík, fræðslu- og þjónustumiðstöð fyrir þolendur hvers kyns ofbeldis. Boðið er upp á einstaklingsviðtöl, hópastarf og fræðslu.  Öll framangreind samtök fá fjárframlög til rekstrar frá velferðarráðuneyti auk þess Karlar til ábyrgðar.

Hér er að finna svör félags- og húsnæðismálaráðherra við fyrirspurn um þjónustu við þolendur ofbeldis, sem lýsir nánar ýmsu af  því sem hér hefur verið fjallað um að framan:  http://www.althingi.is/altext/143/s/1312.html

Með kveðju,
Ingibjörg Broddadóttir

Ein athugasemd við “Svar velferðarráðuneytis við opnu bréfi frá Knúzinu

  1. Bakvísun: Viljinn til verka | Knúz - femínískt vefrit

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.